Laufey Jörgensdóttir fæddist 27. mars 1942 í Krossavík í Vopnafirði. Hún lést á Landakoti 3. janúar 2023.

Hún var dóttir hjónanna Jörgens Kerúlf Sigmarssonar, f. 29. mars 1913, d. 18. mars 1999, og Hrafnhildar Helgadóttur, f. 25. júní 1917, d. 23. júní 1991.

Systkini Laufeyjar eru: Sverrir, f. 1943, d. 2022, Sigmar, f. 1945, d. 2019, Helgi, f. 1947, Hjalti, f. 1951, Flosi, f. 1951, d. 2012, Jónína Sigríður, f. 1956. Hálfsystir Laufeyjar var Margrét Katrín Jónsdóttir, f. 1937, d. 1999.

Laufey giftist Magnúsi Ólafssyni 1964, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Ingibjörg, f. 1964, maki Þorsteinn Andrésson f. 1962, d. 2019, barnsfaðir Hafliði Halldórsson, f. 1960. Börn Ingibjargar: a) Magnús Hrafn Hafliðason, maki Aníta Björk Bóasdóttir, sonur þeirra er Stefán Rökkvi. b) Hafþór Hafliðason, maki Auður Jónsdóttir, sonur þeirra er Hafsteinn Rafn, fyrir átti Auður Daníel Darra Andrason. c) Hafrún Hafliðadóttir, maki Þrándur Gíslason Roth, börn þeirra eru Þorbergur, Hafþór og Daggrós Birta. 2) Jörgen Hrafn, f. 1970, maki Hjördís Ólöf Jóhannsdóttir, f. 1967, börn þeirra: a) Jóhann Ólafur, maki Rósa Halldórsdóttir. b) Laufey.

Laufey ólst upp á Hellisfjörubökkum í Vopnafirði. Hún stundaði nám á Torfastöðum og lauk gagnfræðaprófi frá Eiðum. Laufey vann fjölbreytt störf um ævina. Á meðan hún bjó í Vopnafirði vann hún í kaupfélaginu, við síldarsöltun og í vertíðarvinnu í Vestmannaeyjum. Hún flutti ung til Reykjavíkur þar sem hún vann fyrst á saumastofu Últíma og nokkur sumur í Hvalstöðinni í Hvalfirði þar sem hún kynntist Magnúsi. Eftir það starfaði hún lengi sem húsmóðir á gestkvæmu heimili ásamt því að vinna við ýmislegt. Má þar nefna vinnu á leikskóla, við saumastörf, skrifstofustörf og verslunarstörf og síðustu starfsár sín í mötuneytum.

Laufey hafði mikla ástríðu fyrir hestamennsku og stundaði hana í fjölda ára. Hún var afburðagóð í allri handavinnu og eftir hana liggja mörg listaverk á því sviði.

Útför Laufeyjar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 16. janúar 2023, klukkan 15.

Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.
Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér.
Hún ávallt er vörn þín, þinn skjöldur og hlíf.
Hún er íslenska konan sem ól þig og helgar sitt líf.
(Ómar Ragnarsson)

Þegar við vorum að velja lög fyrir útför mömmu fann ég svo hvað mér fannst þetta erindi passa við hana en það er erfitt að kveðja móður sína hinstu kveðju.

Mamma fæddist í Krossavík elst systkina sinna en fyrir átti amma Margréti Jónsdóttur en hún ólst ekki upp með þeim. Þau fluttu þegar mamma var lítil á Hellisfjörubakka í torfbæ en síðan byggðu þau sinn bæ þar og þar ólust systkinin upp sjö talsins. Mamma þurfti snemma að hjálpa til að passa yngri bræður sína og hjálpa ömmu með ýmislegt tilfallandi og ekki mikill tími til að slappa af, það var helst næði á klósettinu og greip mamma oft bók með sér og við hlógum oft af því að hún hélt þeim sið áfram á fullorðinsárum. Það voru 3þrír bræður næstir í röðinni á eftir henni og þegar amma einu sinni enn varð ólétt óskaði mamma að nú kæmi stelpa en henni leist ekkert á þegar fréttir bárust að amma hafi átt tvíbura drengi, en að lokum kom svo ein stelpa í viðbót en þá var mamma farin að vinna frá heimilinu.

En þó þetta hafi verið mikil vinna þá voru æskuminningarnar góðar. Mamma fór í skóla á Torfastöðum og síðan tók hún gagnfræðapróf frá Eiðum. Á sumrin vann hún í kaupfélaginu á Vopnafirði og eftir vinnu þar var farið út á síldarplanið og saltað og svo voru böllin stunduð af kappi og dansað rokk fram á kvöld. Síðar flutti hún í bæinn ásamt vinkonum sínum sem síðan héldu sambandi áfram fram á gamals aldur. Mamma vann hin ýmsu störf gegnum tíðina en var heima meðan við systkinin vorum lítil. Ég var elst og þurfti hún alveg að hafa fyrir því að koma mér í heiminn. Pabbi var í námi og við bjuggum í lítilli íbúð á Öldugötunni.

Á sumrin meðan pabbi var í námi unnu foreldrar mínir í hvalstöðinni í Hvalfirði sem var í minningunni eins og ævintýri því þar bjuggum við í bragga. Á hverju sumri var líka farið til Vopnafjarðar til foreldra mömmu og systkina sem þar bjuggu á leiðinni austur var oftast stoppað i Skagafirði hjá Möggu hálf systur mömmu á Löngumýri og gist eina nótt þar enda löng leið til Vopnafjarðar. Þegar ég fermdist fékk ég hest í fermingargjöf og þá hófst nýtt tímabil því það leið ekki á löngu þar til mamma og pabbi voru bæði komin með hesta og var það skemmtilegt tímabil þegar við vorum á sumrin með hestana á Skeggjastöðum og riðum upp að Tröllafossi og þar í kring og líka í Víðidalnum á veturna. Mamma hafði mjög gaman af hestum hafði átt Stjörnu sína í sveitinni þegar hún var ung og svo nokkra hesta í seinni tíð, en hún hætti alveg þegar hún missti uppáhalds hestinn sinn hann Skúm. Seinna eftir að ég var sjálf komin með fjölskyldu héldum við áfram að fara öll sumur til Vopnafjarðar og stundum fór mamma á undan með krakkana og þar gekk oft á ýmsu, alltaf var bakað rúgbrauð um leið og við lentum, farið í fjörurnar og ættingjarnir heimsóttir og þetta var ómissandi partur af sumrinu. Mamma var gríðarlega fær handavinnukona, alveg sama hvað hún tók sér fyrir hendur. Hún saumaði föt á alla fjölskylduna jafnvel jakkaföt á karlpeninginn, prjónaði allskonar dúka og heklaði heilu listaverkin.

Mamma fór ekki í framhaldsnám en var samt gríðarlega vel lesin hún var besti félaginn í öllum spurningaleikjum og þegar ég þurfti að byrja að læra ljóð og fékk þykka bláa bók Skólaljóðin þá kom í ljós að mamma kunni hvert einasta ljóð í bókinni utanað og líka Gunnarshólma sem mér fannst bara að væri ekki hægt að læra enda margar blaðsíður. Mamma hafði líka mikinn áhuga á eldamennsku og var gríðarlega góður kokkur og hafði mjög gaman af að prófa nýja hluti og gera tilraunir með nýja rétti. Einnig hafði hún mjög gaman af klassískri tónlist og söng hástöfum óperuaríur við heimilisstörfin, mér og bróður mínum til mikillar mæðu enda kunnum við ekki að meta þessa tónlist og ég skammast mín aðeins fyrir að hafa glaðst smávegis yfir því þegar þurfti að taka hálskirtlana úr mömmu því þá missti hún um leið sönghæfileikana. Þegar ég lít til baka fannst mér ég hafa átt frábæra æsku og gott uppeldi og aldrei skorti okkur neitt. Mamma var alltaf kletturinn, frábær mamma og amma.

Ég kveð þig með mikl­um söknuði elsku mamma en ég veit að þú ert kom­in á góðan og fal­leg­an stað.

Ingibjörg Magnúsdóttir.

Þegar ég er spurður hvaðan ég sé þá segi ég alltaf að ég sé Vopnfirðingur þó að ég sé fæddur og uppalinn á mölinni í Reykjavík. Þetta kemur frá mömmu sem var stoltur Vopnfirðingur svo ekki sé meira sagt.

Þegar ég var að alast upp og við vorum að keyra austur þá brást það ekki að þegar komið var yfir Holtavörðuheiðina og byrjað að keyra í austurátt urðu fjöllin fallegri,kindurnar stærri og ullin hvítari. Gott ef himininn varð ekki blárri líka og sólin skærari.

Og svo var það fólkið hennar. Krossvíkingar og Bakkabúar voru henni einstaklega kærir og allt sem undan þeim kom. Í minningargrein um Beggu frænku skrifaði mamma að hún hafi elskað Krossvíkinga skilyrðislaust og sá ekki galla þar á nokkrum manni svo einhverjum hefði þótt nóg um. En svona var mamma líka.

Mamma flutti suður rétt eftir tvítugt og sögðu gárungarnir að það hefði verið af því að hún hefði verið svo hávaxin að það hefðu ekki verið neinir drengir stærri en hún á Vopnafirði. Begga frænka fann fyrir hana vinnu á saumastofu og svo síðar í Hvalnum þar sem þau pabbi kynntust. Þau byrjuðu svo að búa saman á Öldugötunni þar sem Inga býr fyrstu árin sín og síðan í Stigahlíð þar sem ég kem til sögunnar.

En flestar mínar æskuminningar eru úr Básendanum og þar var oftast líflegt, við vorum sex í heimili þegar mest var og svo var tekið á móti ættingjum að austan þegar svo bar undir.

Mamma var höfðingi heim að sækja og mikil matarkona, hafði gaman af eldamennsku og bakaði lengi vel einu sinni í viku þannig að það var alltaf til heimabakað. Það var umtalað hve gott var að koma í Básendann og þaðan fór enginn svangur. Stundum þótti mér nóg um gestrisnina því að t.d. bauð hún alltaf ruslaköllunum í kaffi einu sinni á ári og Vottum og Hvítasunnufólki var umsvifalaust boðið inn með því skilyrði að rætt yrði um daginn og veginn en ekki trúmál og þáðu menn það nánast alltaf og fóru saddir áfram sinn veg. Vinir og kunningjar voru iðulega í mat og svo var alltaf súpa á sunnudögum þar sem fólk datt inn og borðaði og spjallaði.

Einu sinni hélt ég partý heima og mamma kom heim um það leyti sem því var að ljúka. Einn ónefndur veislugestur hafði farið heldur geyst í drykkjuna og var búinn að vera alllengi á klósettinu ælandi og spúandi og var heldur rislágur þegar mamma kom að honum. Var honum umsvifalaust vippað inn í eldhús og settur niður við borðið þar sem hituð var fyrir hann kjötsúpa og varð hann allur annar og hressari.

Þegar ég er að alast upp fannst mér mamma alltaf vera að sauma eða prjóna og þegar við systkinin vorum að skoða gamlar myndir núna um daginn rifjuðust upp öll fötin sem hún saumaði á okkur öll. Þau voru nokkur jólin þar sem við vörum öll í heimasaumuðum jakkafötum og kjólum og í minningunni gerði hún þetta á nánast engum tíma. Einu sinni í miðju eitís langaði mig alveg óskaplega í stakan bláan jakka og það varð að vera hægt að bretta upp á ermarnar og þá varð fóðrið að vera eftir kúnstarinnar reglum. Ég náði að plata mömmu með mér í Sautján þar sem ég var að vonast til að við myndum kaupa jakkann en þegar þangað var komið fussaði hún og sveiaði yfir frágangi og saumaskap og lét afgreiðslustúlkuna vita að þetta væri ómögulegt og svo var farið í Vogue og keypt efni. Ég fór svo í jakkanum alsæll daginn eftir á skólaball.

Hestamennskan var hennar líf og yndi og í kringum hestana var hún alsæl. Lengi vel var fjölskyldan með hesthús í Víðidal og þangað fór hún nánast daglega að ríða út og stússa í kringum hrosin. Í gegnum tíðina átti hún allnokkra hesta sem hún hélt mismikið upp á en ég held þó að Stjarna sem hún átti fyrir austan hafi verið hennar uppáhald en undan henni var Blakkur hans afa og Jarpur hans Sverris sem voru úrvalshestar og lýsingar mömmu á því þegar hún þeyttist um á henni Stjörnu sinni berbakt fyrir austan voru þannig að það fór ekkert á milli mála að á milli þeirra var einstakt samband.


Þó að hún myndi ekki alltaf hvað ég héti, þrátt fyrir að vera skírður í höfuðið á báðum foreldrum hennar, og ruglaðist á mér og t.d. Neró sem var hundurinn okkar var hún einstaklega minnug á bæjarnöfn og þekkti nánast hvern einasta bæ á hringveginum. Eins var hún ótrúlega minnug á ljóð og gat farið með hvert einasta ljóð úr Skólaljóðunum eins og ekkert væri og var ítrekað reynt að reka hana á gay en þegar hún fór utanbókar með Skúlaskeið, öll 14 erindin játaði ég mig sigraðan.

Í seinni tíð voru ljóð í léttari kantinum lesin og hélt hún mikið uppá Hákon Aðalsteinsson og Davíð Þór Jónsson.

Það var ekki oft sem mamma skellihló en ég man þegar ég sat einhverju sinni hjá henni við eldhúsborðið ekki fyrir svo löngu og hún var að glugga í Vísur fyrir vonda krakka og sá þetta ljóð sem lýsir henni og hennar húmor líka nokkuð vel. Læt fylgja nokkur erindi

Laufey og Sigurður labba á fjöll
um land þar sem hvergi er skjól.
Þau hafa farið um öræfin öll
og elska þar sérhvern hól.

x

Þau lifa mjög heilbrigðu lífi þau hjón.
Þau láta ekki stöðva sig
þó óveður geisi og fönn hylji Frón
og frostið sé þrjátíu stig.
x
Þau hjón eiga einungis hlý og góð föt
og hreykja sér af því stolt
að bragða ekki sykur og borða ekki kjöt,
bara það sem er hollt.
x
Þau þrá sína hollustu, hreyfingu og skokk
en hryllir við blóðugri steik.
Þau horfa ekki á sjónvarp og hlusta ekki á rokk
né hanga í tölvuleik.
x
En þau fara í bíó annað hvert ár,
ekkert fær því breytt,
á evrópska kvikmynd um ástir og þrár
þar sem ekki gerist neitt.

x
Í veislum þau mala um menningu og list
og er meinilla við allt grín
og biðja um ísvatn ef þau eru þyrst
en þiggja alls ekki vín.
x
Við munað er líf þeirra klárt og kvitt
sem kúskús og sojamjólk,
enda minnist þess engin að hafa hitt
jafn hundleiðinlegt fólk.
(Davíð Þór Jónsson)





Eftir að við systkinin fórum að búa og eignast fjölskyldu og börn var mamma einstaklega hjálpleg við að passa og passaði upp á að við hefðum nóg að bíta og brenna, barnabörnin voru eitthvað sem hún var einstaklega stolt af og henni óskaplega kær. Setningar eins og hann Maggi minn eða hún nafna mín voru mikið notaðar og svo var geðslag og svipbrigði greint með ættarnefinu því að allir höfðu að sjálfsögðu Bakkasvip eða í það minnsta Krossavíkursvip. Núna síðustu ár komu svo barnabarnabörnin og það gilti auðvitað það sama um þau.



Það er ekki auðvelt að lýsa mömmu svo vel eigi að vera. Þessi stóra kona með sitt stóra hjarta sem hugsaði alltaf um aðra fyrst en hefði mátt vera sjálfselskari og hugsa betur um sig sjálfa. Hún var hrein og bein, sagði sína meiningu hreint út. Hún gat jafnvel gengið heldur langt að sumra mati en aldrei þannig að hún meinti illt. Hún var kærleiksrík og hlý en fór ekki mörgum orðum um það og svo var hún vinur vina sinna.

Ég kveð ekki bara mömmu mína heldur líka minn besta vin.

Hvíl í friði.


Jörgen Hrafn.