Gunnar Árnason, fæddist 22. mars 1955, í Reykjavík. Hann lést þar að morgni 15. desember 2022.

Foreldrar hans voru hjónin Kristín Gissurardóttir hjúkrunarkona, fædd á Vestdalseyri við Seyðisfjörð 15. mars 1921, d. á Seyðisfirði 25. mars 2012 og Árni Halldórsson hæstaréttarlögmaður, fæddur á Borg í Bakkagerði, Borgarfirði eystra 17. október 1922, d. í Neskaupstað 31. mars 2000. Gunnar var fjórði í röð sex systkina. Þau eru Gissur Þór f. 1948, Halldór f. 1950, Þórhallur f. 1952, Anna Guðný, f. 1956 og Rannveig, f. 1958.

Þann 12. júlí 1986 kvæntist Gunnar í bænahúsinu á Núpsstað Jóhönnu Steinvöru Pálmadóttur sjúkraþjálfara f. 29. ágúst 1955. Þau skildu 2002. Dætur þeirra eru Margrét f. 26. febrúar 1987, í sambúð með Unnari Geir Ægissyni, f. 13. janúar 1989 og Brynja Sigríður f. 30. mars 1994 í sambúð með,  Jóel Daða Ólafssyni, f. 20. apríl 1991. Dóttir Margrétar er Embla Steinvör Stefánsdóttir, f. 18. júní 2009.

Gunnar lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1984 og var síðan í eitt ár í akademísku námi við skólann árið 1985. Hann fór til framhaldsnáms til Hollands árið 1986 og lauk prófi frá Akademie voor Beeldende Kunst í borginni Enschede 1989. Hann starfaði í Sviðsdeild Þjóðleikhússins í rúm fimm ár, við smíði leikmynda og leikmuna, frá byrjun árs 2008 og fram undir mitt ár 2013. Hann smíðaði til að mynda frá grunni öll sverðin sem notuð voru í sviðsuppfærslu Þjóðleikhússins á Gerplu  árið 2010. Hann var aðal járnsmiður þjóðleikhússins þann tíma sem hann starfaði þar og smíðaði bæði leikmyndir og leikmuni leikhússins sem og fyrir húsið sjálft. Einnig vann hann ýmis önnur störf, svo sem við járnabindingar og í verksmiðju því tengdu, þar sem færni hans í járnsmíði nýttist vel til að smíða framleiðslubúnað.

Gunnar var dverghagur, jafnvígur á tré og málma, svo sem ál, brons og járn og var málmsuðumaður góður. Myndhöggvarar, kollegar hans, leituðu títt til Gunnars til að fá aðstoð við að móta hugmyndir sínar í málm. Í kringum aldamótin miðlaði hann af þekkingu sinni og færni um nokkurra ára skeið til upprennandi kynslóða listamanna með kennslu í Myndlistaskólanum í Reykjavík og Myndlista- og handíðaskóla Íslands.

Meðal einkasýninga hans voru: Nýlistasafnið 1994, Gallerí Snærós, Stöðvarfirði 1994, Gerðasafn 1996 og Nýlistasafnið 1997, Sýning  í  START ART  30. okt. – 26. nóv. 2008 og sýningin KRANINNKRAMINN.

Meðal samsýninga sem hann tók þátt í voru: Sýning Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík á Kjarvalsstöðum 1991. Botngróður í Skóginum – Hallormsstaðaskógur 1995. Uppskera í Kjarnaskógi 1997.



Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 16. janúar 2023, og hefst kl. 13.

Ég hélt að ég myndi heimsækja þig á elliheimilið, eftir tuttugu ár eða svo. Tilhugsunin um að þú komir aldrei aftur í kaffi og segir mér sögur úr nútíð og fortíð eða biðjir mig um tækniaðstoð fyrir símann þinn, finnst mér erfið. Landslag sérhverrar fjölskyldu breytist þegar meðlimur hennar kveður. Mér finnst sem vanti heilt fjall í fjallgarðinn nú þegar þú ert farinn og þar er stór gígur þess í stað. Við getum reynt að lýsa því með orðum hvernig þú varst, en sú lýsing getur aldrei gert persónu þinni að fullu skil. Við verðum að gjöra svo vel og venjast þessu nýja landslagi, en söknuðurinn er mikill.

Ég á þær ófáar minningarnar sem tengjast þér. Þú varst stór þáttur í tilveru minni, frá því ég man eftir mér. Sem barn upplifði ég þig sem skemmtilegan frænda sem þreyttist seint á að skemmta okkur krökkunum. Ein af mínum fyrstu minningum um þig ert þú að róla mér á öðrum fætinum og ég að suða aftur svona eins og börn gera. Það myndaðist biðröð, því bræður mínir vildu líka fá að róla. Án þess að ég muni það finnst mér líklegt að foreldrar mínir hafi þurft að skerast í leikinn svo þú fengir frið fyrir okkur suðandi systkinunum. Það eru til ýmsar sögur af þér frá þessum tíma þar sem þú ollir einhverjum vandræðum. Þetta skynjuðum við krakkarnir ekki. Þú varst bara skemmtilegur og barngóður frændi og með tímanum urðu uppátæki þín að skemmtisögum.

Í seinni tíð varstu mér vinur, hjálparhella og snillingur, en alltaf hress og skemmtilegur frændi. Þau voru ófá svona símtölin sem ég fékk: Góðan og blessaðan daginn, Gunnar heiti ég og er Árnason. Áttu kaffibolla, ég er hérna fyrir utan hjá þér. Þú varst einstaklega duglegur við að kíkja í heimsóknir og halda sambandi við fólk. Það þurfti ekkert tilefni til.

Þú varst bæði snillingur og svolítill flækjufótur stundum. Þú, foreldrar mínir og fleiri hjálpuðuð mér í stóru verkefni fyrir tveimur árum. Við unnum þar nánast myrkranna á milli í nokkra mánuði og tókst vel upp. Pabbi hefur oft haft á orði að þetta hefði verið nánast ógerlegt án þín og þinnar verklegu útsjónarsemi. Þá daga sem einbeitingin var góð komstu miklu í verk og alltaf var það vandað og vel gert. En stundum var einbeitingin fjarri og þá gastu flækt hlutina, stundum á svolítið kómískan hátt. Ég var og er þér þakklát fyrir allt sem þú gerðir og fyrir samveruna þennan tíma. Ýmsir frasar sem þú notaðir gjarnan hafa komið upp í huga mér frá því þú kvaddir. Þessi heyrðist gjarnan þegar verki var lokið: Það má ekkert vera betra, þá verður það bara verra. Og í framhaldinu: Já, það er svo mikið þannig. Og þar með var það afgreitt og allir sáttir.

Fallegasti staður landsins, Borgarfjörður eystra, er fjölskyldunni kær. Þaðan erum við ættuð og eigum naustið og verbúðina Í Runu, eða sumarbústað eins og hún er í dag. Mér þykir vænt um minningarnar þegar við fórum í bíltúra um fjörðinn og dalinn og þú hafðir svo margar sögur að segja og sagðir svo skemmtilega frá. Þú varst líka svo ófeiminn að tala við fólk, hvort sem þú þekktir það eða ekki og engu skipti hvort viðkomandi var bóndi eða kóngur. Þetta fannst mér einn af þínum skemmtilegu eiginleikum og ég kynntist Borgarfirði á annan hátt í gegnum þennan þvæling okkar.

Við vorum meðlimir í gönguhópi sem fer í árlega gönguferð. Þessi hópur hefur á síðustu árum orðið dálítið latur og það er talsvert breytt snið á ferðum hans. Þetta eru orðnir göngutúrar meira en hitt. Í hitteðfyrra röltum við um Vestmannaeyjar, fórum meðal annars á kaffihús, túristaferð í rútu og í Eldheima. Síðasta haust hélt hópurinn upp á tuttugu ára tilvist sína með fyrstu utanlandsferðinni. Þú varst eitthvað tvístígandi yfir því hvort þú ættir að fara, en mikið er ég ánægð með að þú skyldir hafa drifið þig með. Því maður minn, það var gaman og þú naust ferðarinnar í botn. Á daginn rölti hópurinn um útimarkaði í Suður-Frakklandi, fór á söfn og jú við fórum í eina fjallgöngu til að halda uppi heiðri okkar sem gönguhópur. Á kvöldin var drukkið rauðvín og sungið undir gítarspili Sigga frænda. Innistæður í minningabankanum gildnuðu verulega í þessari ferð.

Það fór ekki fram hjá nokkrum manni þegar þú varst nærri. Persónuleiki þinn var litríkur og alltumlykjandi. Litir tilverunnar hafa dofnað með brotthvarfi þínu. Þegar þú minntist einhvers sem var látinn áttirðu til að enda frásögnina með orðunum: Svo tók hann bara upp á því að deyja, blessaður kallinn. Svo kom að því að þú sjálfur tókst bara upp á því að deyja, öllum að óvörum. Ég vildi að ég hefði sagt þér hversu vænt mér þótti um þig. Við skynjum að vísu væntumþykju að ég held og ég get bara vonað að þú hafir vitað það. Því maður minn, mér þótti hrikalega vænt um þig og ég og börnin mín söknum þín alveg voðalega mikið. Hvíl í friði, elsku Gunnar. Elsku Margrét, Brynja, Embla og Jóhanna, ykkur og öllum þeim sem þótti vænt um Gunnar votta ég samúð mína.







Margrét (Magga).