Helgi Sæmundur Ólafsson fæddist 23. ágúst 1937 á Siglufirði. Hann lést á Heilbrigiðsstofnun Vesturlands á Hvammstanga 7. janúar 2023.
Foreldrar hans voru hjónin Ólafur Tryggvason f. 2. desember 1901 d. 9. júlí 1988 og Ingibjörg Guðrún Sigurðardóttir f. 2. júní 1901 d. 16. september 1979.
Systkini Helga voru Elísabet Ólafsdóttir f. 10. júlí 1930 d. 13. október 2002 og Tryggvi Ólafsson f. 5. maí 1941 d. 27. apríl 2021.
Helgi kvæntist 1. ágúst 1959 Sólborgu Dóru Eðvaldsdóttur f. 24. janúar 1939. Foreldrar hennar voru Eðvald Halldórsson f. 15. janúar 1903 d. 24. september 1994 og Sesilía Guðmundsdóttir f. 31. desember 1905. d. 21. janúar 1994.
Börn og barnabörn Helga og Dóru eru: 1) Gunnar Smári, f. 20. júlí 1957, börn hans eru: Sigrún Birna, Helgi Hrafn, Arndís Anna, Lísa Margrét, Dagrún Birta og Sara María. 2) Áróra Hlín, f. 25. september 1961, börn hennar eru: Arnþór Hinrik, Lena Sólborg, Kristjana Hlín og Ingólfur Már. 3) Ingibjörg Rebekka, f. 1. maí 1966, dætur hennar eru: Dóra Birna og María Guðrún. 4) Sigurvald Ívar, f. 3. nóvember 1972. Synir hans eru: Eðvald Atli, Eyþór Alexander og Ísak Hólmar.
Barnabarnabörnin eru 14 og barnabarnabarnabörnin eru þrjú.
Útförin fór fram frá Hvammstangakirkju í dag, 20. janúar 2023, klukkan 14.
Fyrsta minning mín af pabba er þegar ég var lítill strákur og ætlaði að teygja mig í útvarpstæki sem hann var með í frumeindum í stofunni og var að gera við eða jafnvel smíða frá grunni, þá hrópaði hann: "nei nei nei nei nei!" og ég man að ég var hissa hvað hann gat sagt þetta hratt, en tækið var auðvitað lampatæki, í sambandi við rafmagn og auðvelt að fá straum í sig.
Hann gerði oft við útvarpstæki fyrir fólk, en með tímanum höfðu safnast upp gömul útvörp sem einhverra hluta vegna var ekki gert við, kannski fengust ekki íhlutir í þau eða eigandinn kaus að kaupa sér nýtt tæki, því vissulega var tækniþróun þá eins og nú. Ég fékk að gramsa í þeim tækjum sem áttu enga von, og var það mikill og góður skóli fyrir mig, lítinn strák á Hvammstanga.
Pabbi smíðaði líka nokkra lampamagnara, bæði fyrir stofugræjur og sem hljómsveitarmagnara, auk sendibúnaðar af ýmsu tagi.
Á táningsárum mínum vann ég hjá honum sem aðstoðarmaður rafvirkja en mest þó á rafmagnsverkstæðinu sem hann rak við Hvammstangabrautina. Þar var gert við nánast allt sem tengdist rafmagni, hvort sem það voru heimilistæki, iðnaðartæki, báta- eða bíltæki. Eitt mesta ævintýrið var þó þegar hann ákvað að við myndum í sameiningu smíða hljóðkerfi frá a-ö. Við smíðuðum hátalarastæður, nokkra kraftmagnara, mixer og stóran spennugjafa fyrir þetta allt saman. Tilefnið var 1.100 ára afmæli íslandsbyggðar árið 1974, en um sumarið það ár varð ég 17 ára. Þetta hljóðkerfi var notað á mörgum samkomum í héraðinu, innanhúss sem utan.
Fjarskipti voru pabba mjög hugleikin og man ég vel eftir brasinu við að koma sjónvarpi til Hvammstanga, sem var ekki á dreifikerfis-áætlun Landsímans fyrr en einhverjum árum seinna. Það voru sett upp loftnet í ásnum fyrir ofan þorpið, smíðaðir loftnets magnarar og reist hátt vírnet sem hjálpaði til við tæknilega hlutann. Þarna var tekið á móti útsendingum frá Búðardal og kastað niður í þorpið. Þessi leið var ekkert sérlega góð, m.a. vegna þess að búnaðurinn gekk fyrir rafgeymum sem reglulega þurfti að skipta um, en kveikti enn meiri áhuga á sjónvarpi svo pabbi fór í það að kynna sér betur áætlun Landsímans. Hann átti skólabróður og góðan kunningja á radíóverkstæði Landsímans. Sá kunningsskapur kom sér vel m.a. þegar þurfti að komast yfir sérhæfða íhluti í senditæki, sem á þeim árum voru ófáanlegir eftir öðrum leiðum.
Pabbi fékk það í gegn að sjónvarpsáhugamannafélag sem hann stofnaði með vinum sínum á Hvammstanga, fékk að kaupa búnað frá Ítalíu með loforði Símans um að kaupa aðaltækið af þeim aftur þegar það kæmi á áætlun. Þessi búnaður ásamt viðbótar sendi sem pabbi smíðaði auðvitað, var settur upp í Helguhvammi og nú gátu íbúar á Hvammstanga séð sjónvarp. Nokkrum árum seinna keypti svo Síminn umsamið tæki af þeim aftur og setti upp á Hvítabjarnarhól, þar sem endurvarpið var í mörg ár. Pabbi sá um að líta eftir þeim búnaði og einnig svipuðum búnaði Símans á Bjargi í Miðfirði og fór ég stundum með honum í þær ferðir, sem gátu verið ævintýri, sérstaklega upp á Hvítabjarnarhól í vetrarfæri, þá kom sér vel að geta sett Landroverinn í lága drifið í efstu brekkunum.
Ég fékk mjög snemma brennandi áhuga á útvarpstækni, ekki síst sendunum, og þegar ég fór í Menntaskólann að Laugarvatni var ég nestaður með litlum miðbylgjusendi sem pabbi smíðaði, og rak ég þar kolólöglega útvarpsstöð þau ár sem ég var í skólanum. Þessi sendir vildi bila, svo sumarið eftir var ráðist í að smíða miklu öflugri sendi sem ég tók með mér suður og reyndist draga alla leið til Selfoss, - sem ég reyndar vissi ekki fyrr en síðar.
Einhverjum árum eftir að ég var fluttur suður fékk ég símtal frá pabba. Hann hafði þá verið organisti í kirkjunni í mörg ár og hafði barist fyrir því að fá pípuorgel í kirkjuna því rafmagnsorgelið hljómaði ekki sérlega vel fyrir kirkju. Sr. Pálmi Matthíasson var þá prestur á Hvammstanga og voru þeir miklir mátar pabbi og hann. Pabbi segir mér að sr. Pálmi hafi haft samband og verið að fletta í kirkjubókum og fundið út að pabbi væri ekki skráður í Þjóðkirkjuna! Sem organisti til margra ára og baráttumaður fyrir framförum í kirkjunni ætti hann að vera skráður í kirkjubókum. Þetta kom pabba á óvart, því hann stóð í þeirri meiningu að hann hefði verið skráður þegar Sr. Róbert Jack gifti þau pabba og mömmu áratugum fyrr, en það reyndist ekki vera. "Og hvað viltu gera í því?" spurði pabbi sr. Pálma. "Ég verð bara að skíra þig" segir þá sr. Pálmi. Pabbi spyr mig hvort ég sé til í að spila á orgelið í kirkjunni við skírnina hans, og ég sagði umsvifalaust "já", þótt ég væri ekki vanur að spila við kirkjuathafnir. Svo var dagurinn ákveðinn, ég fékk lánað hljómborð hjá vini mínum fyrir sunnan og fékk svo að mig minnir 2-3 vikur til að æfa mig og pabbi var skírður með pompi og prakt. Forspil, eftirspil og einn skírnarsálmur.
Pabbi var í mínum huga mikill og góður lærifaðir í öllu sem tengist rafmagns- og rafeindatækni. Á tímabili lagði hann líka nótt við dag við að forrita litla tölvu sem hann fékk sér og áttum við oft langar og góðar samræður um þau mál. Tölvan sú var ekki stór, mig minnir að með stækkun hafi vinnsluminnið verið 16 KB (takið eftir kílóbæt ekki megabæt). Ég er nokkuð viss um að þokkaleg mús nú til dags hafi meira vinnsluminni.
Hann var mjög úrræðagóður og hafði endalausan brennandi áhuga á nýjungum og tækni. Í tónlistinni var Johann Sebastian Bach í miklu uppáhaldi hjá honum, og hann vildi að orgelmúsík væri leikin af innlifun, kraftmikil, litrík eða mjúk eftir því sem við á, en umfram allt ekki vélrænt leikin.
Með uppeldinu fékk ég bæði tónlist og tækni, sem gerir mig m.a. að því sem ég er í dag, hljóðmaður, forritari og með ólæknandi útvarpsbakteríu.
Blessuð sé minning pabba.
Gunnar Smári Helgason.