Gunnar Ingi Ragnarsson fæddist 28. júní 1944 í Hafnarfirði og ólst þar upp. Hann andaðist á Hrafnistu við Sléttuveg 24. janúar 2023.
Foreldrar hans voru Ragnar Björnsson matsveinn, f. 1918 í Veturhúsum, Jökuldalsheiði, d. 2010, og Aðalbjörg Ingólfsdóttir húsmóðir, f. 1921 í Hafnarfirði, d. 1980. Gunnar var elstur sex systkina, þau eru Ragnheiður fóstra, f. 1947; Anna Birna, hjúkrunarfræðingur, f. 1949; Ásgrímur, læknir, f. 1950; Einar byggingatæknifræðingur, f. 1959, og Ingibjörg, hjúkrunarfræðingur, f. 1962.
Gunnar kvæntist 11.11. 1966 Valdísi Bjarnadóttur, f. 8.3. 1946 á Drangsnesi, arkitekt frá Technische Hochschule Darmstadt. Hún er dóttir Bjarna Bæringssonar, sjómanns á Drangsnesi, f.1906 í Kollsvík, Rauðasandshreppi, d. 1949, og konu hans, Önnu Ólafsdóttur húsfreyju, f. 1909 á Vindheimum, Tálknafirði, d. 1999. Börn Gunnars og Valdísar eru: 1) Orri, f. 24.11. 1977, skipulagsfræðingur MUP frá University of Michigan í Bandaríkjunum, starfar við skipulagsstörf, ferðaþjónustu og hjálparstörf erlendis á vegum alþjóðastofnana. 2) Tinna, f. 20.6. 1979, markaðs- og viðskiptafræðingur frá Universiteit Maastricht, Hollandi, starfar nú sem sjálfstæður leiðsögumaður, maki hennar er dr. Michel van Tol, f.1975, fjárfestir og frumkvöðull í fjártækni. 3) Nanna, f. 20.11. 1984, leikkona frá Rose Bruford College í London, starfar nú sem leikkona og framleiðandi ásamt því að hafa stofnað fjöllistahátíðina Reykjavík Fringe. Maki hennar er Owen Hindley, f. 1985, sjálfstæður stafrænn listamaður. Saman stýra Nanna og Owen leikhópnum Huldufugl.
Gunnar lauk stúdentsprófi frá stærðfræðideild MR 1965. Hann starfaði síðan eitt ár hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins en flutti 1966 til Þýskalands. Þar lauk hann prófi í byggingaverkfræði frá Technische Hochschule Darmstadt 1973, með sérhæfingu á sviði vegagerðar, umferðarverkfræði og borgarskipulags. Gunnar var verkfræðingur hjá Ing. Waldhof í Darmstadt 1973-74, hjá Billinger und Partner í Stuttgart 1974 og hjá umferðardeild Reykjavíkurborgar 1975-80. Hann, ásamt konu sinni Valdísi, rak sjálfstæða arkitekta- og verkfræðistofu frá 1980. Árið 1981 keyptu þau hjón húsið Þverá við Laufásveg þar sem þau bjuggu og ráku samnefnda vinnustofu til ársins 2007 þegar þau fluttu stofuna á Skólavörðustíg 12 þar sem þau ráku hana einnig undir heitinu VAV, Vinnustofa arkitekta og verkfræðinga (arkverk). Gunnar vann í nálægt hálfa öld á sérsviði sínu að verkefnum á stofu þeirra hjóna fyrir fjölda sveitarfélaga á Íslandi og í Noregi. Hann hannaði m.a. flestöll umferðarljós á höfuðborgarsvæðinu. Hann kom einnig að arkitektúr- og skipulagsverkefnum með eiginkonu sinni. Gunnar var í stjórn byggingarverkfræðideildar Verkfræðingafélags Íslands sem varaformaður 1994 og sem formaður 1995-1996. Hann var alla tíð mikill íþróttaáhugamaður, var í stjórn íþróttafélags MR, í stjórn handknattleiksdeildar FH og var meðstjórnandi og formaður skíðadeildar Fram í fjölda ára.
Útför Gunnars Inga fer fram á vegum Siðmenntar í Iðnó í dag, 3.2. 2023, klukkan 14.



Það var mikill aldursmunur á okkur bræðrum, hann fæddur 1944 ég 1959. Ég þekkti því ekki drenginn Gunnar Inga.

Né heldur þekkti ég handboltastrákinn Gunnar Inga sem spilaði víst bæði með Haukum og FH á sínum ferli.

Ekki þekkti ég heldur fjósastrákinn á Guðlaugsstöðum í Blöndudal. Heyrði bara sögur af honum frá Ásgrími bróður sem deildi þeirri reynslu með honum.

Það var líka miklu síðar sem ég heyrði sögur af ungum myndarlegum manni sem vann eina vertíð í fiskimjölsverksmiðju á Vopnafirði til að safna peningum fyrir námi.

Fyrstu minningar mínar um Gunnar tengjast ungum ástföngnum menntaskólanema í MR.

Ég man eftir ungum manni sem lá endilangur á gólfinu í holinu heima talandi löngum stundum við elskuna sína hana Valdísi í síma. Tvær pirraðar táningsstelpur, Ragnheiður og Anna Birna, að kvarta yfir því að mögulega gætu nú vinkonur þeirra verið að reyna að ná í þær í síma

Ég man líka eftir símtölum frá honum síðdegis, sem ég svaraði gjarnan, þar sem hann bað mig að komast að því hvað yrði í kvöldmatinn. Ef svarið var fiskur eða eitthvað álíka óspennandi bað hann mig oft að skila til mömmu að hann yrði seinn heim og hún þyrfti ekki að reikna með honum í kvöldmat.

Á þessum árum fylgdist ég með honum á morgnana þeytast í loftköstum niður eftir holtinu frá æskuheimili okkar að Hringbraut 33 í Hafnarfirði á síðustu stundu í von um að ná í tíma í veg fyrir Landleiðavagninn við Bolluna við Strandgötu. Á hverjum morgni deildi ég áhyggjum með móður okkar af því hvort hann myndi nú ná í tíma vitandi það að klukkan sagði til um að Landleiðavagninn væri þá þegar lagður af stað til Reykjavíkur frá endastöð sinni við sjoppuna á Hvaleyrarholti þegar hann skellti útidyrahurðinni. Man þó aldrei eftir að hann hefði ekki náð vagninum sem segir til um hversu sprettharður hann var. Ef svo var þá sagði hann mömmu líklega aldrei frá því.

Fyrsta minning mín sem tengist Valdísi er sú að ég átti leið inn á baðherbergi á Hringbrautinni og sé þá barmafullt baðkar. Með einhverja hugmynd um lögmál Arkimedesar sá ég fyrir að þetta gengi alls ekki. Í því sný ég mér við og sé lágvaxna, ljóshærða gullfallega unga konu í baðslopp og áttaði mig á að þetta myndi þetta líklega sleppa til.

Í raun kynntist ég þeim Gunnari og Valdísi fyrst þegar ég, 15 ára gamall, heimsótti þau til Þýskalands. Ég hafði um sumarið unnið sem sundlaugarvörður á Hótel Loftleiðum og unnið mér inn rétt til að fljúga á starfsmannakjörum til Evrópu. Þau bjuggu þá í litlu þorpi rétt við Stuttgart. Á þessum tíma voru þau að innrétta VW-rúgbrauð sem ferðalagabíl. Bíl sem þau áttu eftir að ferðast í vítt og breitt um sunnan- og austanverða Evrópu og allt niður til sanda Sahara. Ég fékk tækifæri til að hjálpa til með þetta verkefni og man eftir skelfingu Gunnars þegar við bræðurnir fylgdumst með einhverjum að því sem mér fannst fúskurum saga gat á toppinn til að koma fyrir því sem þau kölluðu Hubdach að mig minnir. Hann sá líklega fyrir sér að aleiga hans þessa stundina væri ónýt. Allt fór þó vel.

Gunnar og Valdís voru samhent í þessu verkefni eins og öllu öðru, en það leyndist mér þó ekki hver var aðalhönnuður og verkefnastjóri. Ef Gunnar var ekki sammála konu sinni leyfði hann sér sundum að segja: Já en ástin MÍN með sérstöku hljómfalli og dró orðið mín mjög á langinn. Það virkaði stundum ... en þó sjaldnast.

Þó ég hafi ekki þekkt Gunnar ungan þá kynntist ég umferðarverkfræðingnum Gunnari Inga nokkuð vel.

Gunnar og Valdís tilheyrðu hópi menntafólks og listamanna sem lærðu og störfuðu í Evrópu á miklum umbrotatímum á síðari hluta sjöunda áratugarins og fyrri hluta þess áttunda. Upp til hópa vel menntað og víðsýnt fólk með nýjar og ferskar hugmyndir. Fólk sem ögraði viðteknum hefðum, hugmyndum og gildum. Fólk sem vildi hafa áhrif til breytinga.

Eftir að Valdís og Gunnar fluttu heim eftir nám og stuttan en farsælan starfsframa í Þýskalandi áttu þau bæði eftir að setja mark sitt á skipulagsmál á Íslandi og vera í þessum hópi fólks sem vildi sjá nýjar lausnir og nálganir. Það er óhætt að segja að Gunnar bróðir hafi verið brautryðjandi í flestu því sem sneri að umferðarskipulagi. Kom inn með nýjar og ferskar áherslur, vinnubrögð og viðmið og setti þannig varanlegt mark sitt á þennan málaflokk, þannig að eftir var tekið.

Fyrir nokkru talaði ung samstarfskona mín um hvað það væri gaman að taka þátt í þverfaglegri teymisvinnu um skipulagsmál, þá sérstaklega að vinna með þeim langelsta í hópnum. Hún tengdi svo vel við hann. Hann fylgdist svo vel með og væri svo vel inni í öllu því sem væri nýjast verið væri að leggja áherslu á í dag. Þessi ummæli gætu svo auðveldlega átt við um Gunnar bróður fyrir nokkrum árum áður en hann veikist. Hún áttaði sig hins vegar ekki á því að viðkomandi aðili var ekkert frekar en Gunnar að leggja sig sérstaklega eftir því að elta nýja strauma. Þeir voru einungis trúir þeim stefnum, hugmyndum og gildum sem þeir höfðu tileinkað sér ungir.

Hugtök og gildi eins og sjálfbærni, vistvænt, fjölbreytileiki, umburðarlyndi, valfrelsi, jafnrétti, friður, kærleikur og ást eru allt gildi sem eru ekki framandi fyrir fólk sem oft er kennd við 68-kynslóðina. Þetta eru einmitt gildin sem þau töluðu sem mest fyrir á sínum tíma, þó þau hafi kannski notað önnur orð um fyrstu tvö gildin. Gildi sem áður var oft gert grín að enda komu tímar þar sem þjóðfélag okkar missti sjónar á þessum mikilvægu gildum.

Í dag tölum við um að vinna skipulagsmál, hönnun og stefnumörkun í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Hvað er það annað en þetta? Margir eru fyrst núna að átta sig á að allar okkar gerðir og athafnir hafi áhrif á umhverfi okkar og samfélag. Það á ekki við um Gunnar og Valdísi, þau hafa alla sína starfsævi verið mjög meðvituð um það.

Kannski ætti það frábæra unga fólk sem núna er að tala fyrir þessum sömu gildum í viðleitni til að skapa okkur betra samfélag í góðri sátt við umhverfið ekki eins langt í land með að ná sínum markmiðum ef 68-kynslóðin hefði haft meiri áhrif á samfélag okkar en raun ber vitni.

Ég fullyrði það að Gunnar Ingi Ragnarsson vann alltaf sína ráðgjöf og hönnun á svið umferðarmála meðvitað eða ómeðvitað í anda þessara gilda.

Við Hafdís og fjölskylda óskum þess innilega að þú, elskulega mágkona, Orri, Tinna og Nanna megið finna styrk í góðum minningum um fallegan dreng í öllum merkingum þess orðs.

Megi minning þín lifa, elsku bróðir.

Þinn litli bróðir,

Einar.