Hermann Kristinn Jóhannesson fæddist á Kleifum í Gilsfirði, Dalasýslu, 10. október 1942. Hann lést 23. janúar 2023.
Hermann var sonur hjónanna Unnar Guðjónsdóttur, frá Kýrunnarstöðum á Fellsströnd, f. 22. september 1907 og Jóhannesar Líndal Stefánssonar, frá Kleifum í Gilsfirði, f. 9. júní 1910.
Bræður Hermanns: Guðjón Sævar, f. 17. maí 1936, d. 1. ágúst 2005, og Stefán Jóhannesson, f. 29. desember 1937.
Hermann eignaðist dóttur sína, Dagnýju, 27. desember 1966. Móðir hennar er Ingibjörg Baldursdóttir, f. 2. febrúar 1944. Eiginmaður Dagnýjar er Ólafur Loftsson, f. 29. september 1966. Dætur þeirra eru Birta, Guðrún Sæborg og Ásta. Barnabörn þeirra eru þrjú.
Hermann kvæntist 29. mars 1969 Kolbrúnu Ingólfsdóttur, f. 23. júní 1948. Börn þeirra eru: Hróðmar Dofri Hermannsson, f. 25. september 1969. Börn hans eru Móberg, Kolfinna og Rún. Kormákur Hlini Hermannsson, f. 20. október 1971, eiginkona hans er Hallfríður Guðmundsdóttir, f. 16. maí 1972. Synir þeirra eru Auðun Loki og Úlfur Kjalar. Eydís Hörn Hermannsdóttir, f. 21. júní 1973. Stjúpdóttir hennar er Lára Snædal og sonur hennar er Jökull Snædal. Ingólfur Harri Hermannsson, f. 4. apríl 1979.
Þá var heimili Hermanns og Kolbrúnar jafnan opið öðrum börnum úr stórfjölskyldunni sem dvöldu þar um lengri eða skemmri tíma.
Hermann útskrifaðist stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1964. Næstu ár stundaði hann nám við Myndlistaskólann í Reykjavík og tók áfanga í læknisfræði samhliða vinnu.
Hermann vann fjölbreytt störf. Hann var bóndi á Kleifum, lagði stund á kennslu og blaðamennsku og var útsendingastjóri dagskrár Sjónvarpsins um árabil. Lengst af starfaði hann sem deildarstjóri hjá menntamálaráðuneytinu og meðfram því var hann þingfréttaritari Alþingis til fjölda ára.
Útför Hermanns fer fram í Grafarvogskirkju í dag, 8. febrúar 2023, kl. 13.
Hermanns nafn ég hlýðinn ber,
hæfir það flestum betur en mér,
því friðsamur ég oftast er
og algjörlega á móti her.
Ég í fornöld fæddur var
fremst í botni Gilsfjarðar.
Þá var sífellt sólskin þar
og sjaldan annað veðurfar.
Stórar ættir stóðu að mér,
sem stöðugt voru að fjölga sér.
Þess vegna ég eflaust er
eitthvað skyldur flestum hér.
Óx úr grasi hress og hýr,
hélt ég væri klár og skýr,
yfirgaf því ær og kýr
og endaði sem möppudýr.
Þótt pabbi ynni skrifstofustörf mestan part starfsævinnar var hann þó flest annað en möppudýr. Hann var bóndi, kennari, blaðamaður, fjölhæfur smiður, liðtækur bifvélavirki, myndlistarmaður og skáld, svo nokkur starfsheiti séu nefnd.
Pabbi fæddist haustið 1942 á Kleifum í Gilsfirði og bjó fyrstu sjö árin í gamla torfbænum, sem hann sagði alltaf að væru verulega vanmetin húsakynni. Þá var kominn bílvegur vestur en fjölskyldan eignaðist svo sitt fyrsta ökutæki, Land Rover, þegar pabbi var 14 ára og Ferguson-dráttarvél þegar hann var 15 ára. Það var spennandi fyrir sveitapilt að alast upp í svo miklum framförum í landbúnaði og taugar hans til sveitarinnar voru alltaf sterkar.
Heimilið á Kleifum var stórt, að auki dvaldi þar fjöldi barna og unglinga úr stórfjölskyldunni að sumarlagi og alltaf var mikill gestagangur. Föðurbróðir pabba, Sigvaldi, hélt í kringum 1930 skrá yfir gestakomur í sex mánuði frá hausti til vors. Samkvæmt þeirri skrá komu yfir 200 manns á yfir 700 hestum við á Kleifum, og þáðu hressingu, mat eða gistingu. Aldrei var farið fram á greiðslu fyrir slíkt þótt margir kynnu list endurgjaldsins og launuðu til baka með hjálpsemi og djúpri vináttu. Án efa hefur þetta umhverfi haft þau áhrif á pabba að hann upplifði sig alltaf frekar sem hluta af samfélagi en sem einstakling.
Pabbi var greiðvikinn maður og alltaf boðinn og búinn að hjálpa fjölskyldu og vinum. Hann naut þess einnig hve mamma okkar og stjúpa var dugleg að rækta tengsl við fjölskyldu pabba, ekki síður en sína eigin. Þegar þau stofnuðu sitt heimili varð það fljótt nokkurs konar miðstöð stórfjölskyldunnar. Heimili þeirra var alltaf opið og hjá þeim dvöldu börn úr fjölskyldum þeirra beggja um lengri og skemmri tíma þegar þörf var á. Þau pabbi bjuggu saman bæði í sveit og borg. Í fimm ár ráku þau búskap á Kleifum en fluttu svo upp úr 1980 suður og voru á meðal frumbyggja í Grafarvogi 1984. Þau áttu ríkan þátt í að byggja upp það samfélag en á þeim tíma þurfti að berjast fyrir jafn sjálfsagðri þjónustu og skóla, strætó og leikskólum. Ógleymanleg er frásögn pabba af því þegar hann ásamt nágrannakonu í íbúasamtökunum þurfti að ganga hús úr húsi og tala við fólk svo hægt væri að áætla þörf næstu missera fyrir leikskóla og þrýsta á um að sú þjónusta yrði í boði í hverfinu.
Pabbi hafði ríka réttlætiskennd, sterkar skoðanir á samfélagsmálum og mikinn vilja til að bæta heiminn. Í þeim efnum hafði hann hóflegar væntingar til stjórnmálamanna og þess stjórnarfars sem við búum við. Taldi lýðræðið helst eiga sér von ef hætt yrði að kjósa fólk til setu á Alþingi en að það yrði þess í stað valið af handahófi úr þjóðskrá. Þegar við systkinin fórum að takast á um pólitík færðist yfir pabba ákveðinn mæðusvipur. Þegar við tókum næst eftir honum var hann yfirleitt farinn eitthvað út að smíða, blístrandi O Danny boy í sínum eigin heimi.
Pabbi lagði mikið upp úr menntun og færni en lítið upp úr gráðum. Gott dæmi er þegar eitt okkar hafði lagt gríðarlega vinnu í verkefni í teikningu. Að stækka upp í A4 jólakortamynd af hestum að slást í tunglskini að vetrarlagi. Nemandinn ungi hafði bara fengið 7 í einkunn fyrir verkefnið af því að kennarinn trúði því ekki að teikningin hefði verið teiknuð fríhendis. Nú vildi barnið að pabbi gengi í málið, kvartaði við kennarann og heimtaði að einkunnin yrði hækkuð. Viðbrögð pabba voru að horfa á teikninguna, svo á barnið og segja: Teikningin sem þú gerðir er svo góð að kennarinn þinn trúir ekki að þú hafir gert hana. Ég held að það sé nú ekki hægt að fá mikið betri einkunn en það!
Hann var þeirrar skoðunar að menntun væri alltaf mikils virði og að hún þyrfti ekkert endilega að fara fram í skóla. Þannig hvatti hann okkur öll áfram í því sem við höfðum áhuga á, hvort sem það voru bátasmíðar, myndlist, leiklist, stjórnmál, bílaviðgerðir eða garðyrkja.
Í raun má segja að pabbi hafi í grunninn verið ræktandi, hvort sem hann var að rækta ullarfé, trjáplöntur, garðinn þeirra mömmu eða fólkið sitt. Þegar hann var innan við tíu ára hafði hann með þrautseigju náð að rækta eplatré upp af steini en þegar hann setti það út að vori svo það fengi notið sólar kom bannsettur kálfurinn og át það. Þetta varð svo sem ekki síðasta plantan hans sem klaufdýr hömluðu vaxtar en saman hafa þau mamma samt komið upp dágóðum skógi á Kleifum og garði í Logafoldinni sem skartar ávaxtatrjám og fallegum gróðri.
Í kynningu á bók sem Ragnar Ingi Aðalsteinsson tók nýlega saman með kveðskap pabba, Ekkert hálfkák og sút, sagðist Ragnar Ingi aldrei áður hafa tekið saman efni eftir höfund þar sem allar vísurnar voru góðar. Hann var ákaflega vandvirkur og hagur á allt sem hann tók sér fyrir hendur.
Stefán, eftirlifandi bróðir pabba, segir að þegar pabbi var tíu ára hafi hann langað að gera sléttubandavísu og spurt út í reglurnar. Fyrir þá sem ekki vita eru sléttubandavísur þannig að það má eins fara með þær aftur á bak og áfram. Honum voru sagðar reglurnar og skömmu síðar kom hann til afa og ömmu og spurði hvort þetta væri rétt ort:
Gnoðin löngum siglir sjó
svölum fyrir vindi.
Loðin héla þeki þó
þrútin segla bindi.
Að setja saman svona vísu var örugglega ekki á færi margra tíu ára barna, jafnvel ekki þá. Pabbi naut þess að vera alinn upp við kveðskap frá blautu barnsbeini, kunni ógrynni af vísum og kvæðum utan að en lék sér við bræður sína og annað heimilisfólk að kveðast á og skanderast en það er að fara til skiptis með vísur þar sem hver ný vísa þarf að byrja á þeim staf sem síðasta vísa endaði á.
Pabbi var með óbrigðult brageyra og þegar við börnin hans vorum að læra að gera vísur gat það stundum dregið úr okkur að sjá hann sýna líkamleg sársaukamerki ef vísan var vitlaust gerð. Hann var samt alltaf þolinmóður og benti á hvernig mætti lagfæra vísuna svo hún yrði rétt.
Það var einkenni á pabba að tala ekki um það sem hann var að vinna að fyrr en hann taldi það tímabært. Það kom samt fjölskyldunni mjög á óvart að stuttu eftir að hann fór á eftirlaun var hann allt í einu búinn að skrifa skáldsögu. Við höfðum tekið eftir því að hann var mikið í tölvunni en þegar við kíktum yfir öxlina á honum virtist hann alltaf vera að leggja kapal. Svo var þó ekki og okkur að óvörum var allt í einu tilbúin sagan um Olnbogavík. Það var rammíslenskur reyfari með fjölbreyttu persónugalleríi og sögusviðið þorp úti á landi sem flestum lesendum finnst að þeirra eigið þorp hljóti að vera fyrirmyndin að. Hægt er að hlusta á bókina á Storytel, þar sem hún hefur hlotið betri dóma hlustenda en margar bækur okkar frægustu höfunda.
Sami hagleikur einkenndi allar hans smíðar, s.s. innanstokksmuni, veggi, skreytingar, stigahandrið, sófaborð og annað sem þurfti til heimilisins. Með sömu vandvirkni lagði hann parket, flísar og pípulagnir, bæði í Logafold, á heimilum margra barna sinna og á Kleifum þar sem þau hjónin hafa á síðustu 20 árum endurbyggt og stækkað hús afa og ömmu. Það er ekki lítill fjársjóður fyrir börn og barnabörn að eiga þar athvarf í frístundum.
Það var oft mikið líf og fjör á heimilinu þegar við vorum unglingar og ekki allt gáfulegt sem við tókum okkur fyrir hendur. Pabbi hafði gott lag á að tala við fólk á þessu þroskastigi án þess að setja á okkur boð eða bönn. Hann vissi sem var að það myndi bara fara þversum í okkur en sagði frekar með áhyggjusvip: Þið ráðið auðvitað alveg hvort þið gerið þetta en mér finnst þetta alveg afspyrnu vond hugmynd. Okkur eru líka í fersku minni kenningar hans um það hvernig greindarvísitala hvers unglings hrapar þegar þeir koma fleiri saman. Virðist skyldleiki með þessum viðhorfum pabba og sveitunga hans Leifs Eiríkssonar margt fyrir löngu.
Oft fannst okkur pabbi hafa óþarflega miklar áhyggjur af okkur og það var ekki fyrr en við sjálf urðum fullorðin og þurftum að eiga við unglinga að við uppgötvuðum hvað pabbi hafði verið ótrúlega þolinmóður.
Síðustu árin glímdi pabbi við heilsuleysi, sem var honum mikil vonbrigði, því að hann langaði að gera svo margt. Rækta skóg, endurbyggja allt á Kleifum og fleira og fleira. Nýlega sagði hann þegar við vorum fyrir vestan: Ég var búinn að reikna út að ég myndi ná að klára það sem þyrfti að gera hérna áður en ég hrykki upp af. Nú sýnist mér samt að ég þurfi að vera tíu árum lengur. Við munum því ekki kippa okkur upp við það ef við heyrum óútskýrð smíðahljóð fyrir vestan næstu árin.
Þrátt fyrir heilsuleysið var samt alltaf stutt í húmorinn og bjartsýnina. Þetta var alltaf allt að koma, hann var yfirleitt mikið betri en áður og heilsan stöðugt á uppleið. Hann var þakklátur fyrir lífið, fyrir konuna sína, börn og barnabörn og var stoltur af hópnum sínum.
Pabbi var ekki trúaður í hefðbundnum skilningi. Hann vildi ekki útiloka að það væri til einhver æðri tilvera en fannst stofnanavædd trú ekki vera neitt annað en stjórntæki og oftast til óþurftar. Hann var myrkfælinn sem krakki og var sagt að fara með faðirvorið til að vinna bug á óttanum en fannst það ekkert virka. Af því hann var í eðli sínu forvitinn og vísindalega þenkjandi ákvað hann eitthvert sinn að prófa að fara með margföldunartöfluna í staðinn fyrir faðirvorið. Hann sagði að það hefði ekki virkað neitt verr.
Fyrir nokkrum árum var við eldhúsborðið á Kleifum verið að ræða tilverunnar hinstu rök og hvort við óttuðumst dauðann. Svar pabba við því var dæmigert fyrir hann: Af hverju ætti ég að óttast hann? Áður en ég fæddist var ég ekki til. Þegar ég dey er ég svo sem ekki að fara að gera neitt annað en að halda því áfram. Þegar við sögðum Sveini Valgeirssyni presti frá þessu viðhorfi pabba sagði Sveinn: Ja, sá hlýtur aldeilis að vera hissa núna!
Hvort sem það er rétt eða ekki heldur pabbi áfram að vera til í okkur öllum sem þekktum hann. Hann lifir í gildunum okkar, í því sem hann kenndi okkur, í minningunum okkar og svo mörgu öðru sem hann skapaði og skildi eftir sig fyrir okkur að njóta og skila áfram.
Með djúpu þakklæti fyrir allt,
Dagný, Dofri, Kormákur, Eydís og Ingólfur Hermannsbörn.