Tinna Ósk Grímarsdóttir fæddist á Akranesi 19. maí 1987. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 11. febrúar 2023. Foreldrar hennar eru Grímar Teitsson frá Grímarsstöðum í Andakílshreppi, f. 17.2. 1952, og Petrún Berglind Sveinsdóttir frá Akranesi, f. 8.6. 1958. Tinna Ósk var yngst fjögurra systkina, hin eru Sveinn Rúnar, f. 1977, Hjördís Dögg, f. 1980, og hálfbróðir hennar er Steindór Hrannar, f. 1972.

Tinna giftist Axel Frey Gíslasyni hinn 7.7. 2018. Foreldrar Axels eru Gísli Árnason frá Akranesi, f. 12.11. 1957, og Jórunn Sigtryggsdóttir frá Siglufirði, f. 12.11. 1960. Tinna og Axel eignuðust tvö börn, Díönu Rós, f. 10.3. 2008, og Grímar Dag, f. 13.6. 2012.

Hún útskrifaðist úr Iðnskólanum í Reykjavík árið 2006 sem grafískur miðlari. Tinna var framkvæmdastjóri og eigandi Smáprents, hún átti einnig leikfangaverslunina Dótarí á Akranesi. Tinna var alla tíð búsett á Akranesi og sinnti margs konar félagsstörfum í þágu atvinnuuppbyggingar þar. Hún var formaður félags kvenna í atvinnurekstri á Akranesi, hún var einnig í stjórn FKA á Vesturlandi.

Útför hennar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 24. febrúar 2023, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni á vef Akraneskirkju, www.akraneskirkja.is.

Elsku Tinna mín. Nú er komið að kveðjustund og er það einstaklega sár tilhugsun sem erfitt er að sætta sig við. Stórt skarð hefur verið höggvið í fjölskylduna og lífið sannarlega litlausara án þín. Sorg okkar allra er mikil, þú varst okkur öllum mjög kær og munt alltaf eiga stað í hjarta okkar.

Það voru spenntir unglingar á sautjánda ári sem biðu í eftirvæntingu eftir að þú kæmir í heiminn. Á sjúkrahúsinu komumst við sko sannarlega að því að þú varst biðarinnar virði. Þegar við fengum loks að berja þig augum vissum við þó ekki hversu margar skemmtilegar og góðar samverustundir þessi gullfallega stelpa ætti eftir að veita okkur.

Þú hefur alltaf lýst upp heiminn Tinna mín, með brosi þínu, skjannahvíta hári og hlýju. Aðalsmerki þitt var húmor og gleði, þú sást alltaf spaugilegu hliðarnar á lífinu og komst öllum til að hlæja við öll möguleg tækifæri. Við hugsum með mikilli hlýju til stundanna sem við vörðum með þér. Þegar þú varst lítil hafðir þú mjög gaman af því að skottast í kringum okkur Jens á Brekkubrautinni, það var mikið spjallað, leikið og þú fórst oft á rúntinn með okkur. Þér fylgdi mikil gleði og þú hélst heilu sýningarnar á Reynigrundinni, þar sem þú söngst og dansaðir fyrir þá sem vildu hlusta og horfa og auðvitað vildu allir taka þátt með þér. Af þér geislaði svo mikil gleði og skemmtileg orka, þú varst mikill skemmtikraftur og mjög hæfileikarík. Það sem þú tókst þér fyrir hendur gerðir þú af mikilli natni og snilld. Þú varst óhrædd við að taka þátt í leiksýningum og söngvakeppnum í skólanum og í Idolinu enda bjóstu yfir svo fallegri söngrödd sem við vorum svo heppin að fá að njóta. Mikið var líka dýrmætt að heyra og sjá fallegu vídeóin sem þið Axel gerðuð saman fyrir skömmu, þar sem þú söngst og Axel spilaði undir.

Þú og Axel, ástin í lífi þínu, byrjuðuð ung saman og áttuð einstaklega fallegt og heilsteypt samband. Þið voruð svo flott og sterkt teymi, miklir félagar, áræðin og létuð drauma ykkar rætast, sem var aðdáunarvert. Ykkar yndislegu börnum voru þið einstakir foreldrar og munu þau njóta þess sterka grunns sem þið lögðuð í sameiningu. Þú varst þeim góð og ástrík móðir sem þau munu minnast af ást og kærleik.

Þú varst okkur, börnunum okkar og barnabörnum svo góð og mikil fyrirmynd. Þú vildir allt fyrir alla gera. Fyrir vináttu þína og samveru erum við ævinlega þakklát.

Þegar þú fékkst þetta stóra verkefni í hendurnar sem veikindin hafa falið í sér, þá tókstu því af miklu æðruleysi og þrautseigju. Ég man að þú sagðir við mig eitt sinn að til að takast á við veikindin væru tvær leiðir í boði. Þú hafðir valið að takast á við þau af jákvæðni og þú fylgdir því sannarlega eftir. Þú sýndir mörgum styrk og stuðning og vildir gefa svo mikið af þér í þessu verkefni þínu sem þú gerðir. Þú varst einstakur leiðtogi og sýndir hvers þú varst megnug og eignaðist marga góða vini. Þú varst mikil fyrirmynd og mörgum til eftirbreytni. Fólk mun minnast þín af hlýju og stolti.

Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífsuns nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Elsku ljúfa og dásamlega Tinna Ósk okkar. Við munum minnast þín af þakklæti og hlýju. Við eigum eftir að sakna brandaranna þinna, hlátursins og gleðistundanna. Takk fyrir allt það sem þú hefur kennt okkur og fyrir allar góðu minningarnar. Hvíl í friði elsku dýrmæta Tinna Ósk okkar.

Megi allir góðir vættir styrkja og vaka yfir Axel þínum, Díönu Rós, Grímari Degi, foreldrum þínum, systkinum, fjölskyldu og vinum.

Hjartans þakkir fyrir allt.

Þín móðursystir,

Sonja, Jens Heiðar, börn og barnabörn.

Elsku Tinna mín. Fyrir ekki svo löngu áttum við samtal sem alltaf mun fylgja mér. Við ræddum þor og ótta og tókum ákvörðun um að þetta ár yrði okkar. Raunin er þó sú að þessi ársbyrjun hefur einkennst af óskiljanlegri þoku og sá veruleiki sem ég stend frammi fyrir nú er þyngri en komið verður í orð. Á slíkum stundum er gott að líta um farinn veg og leyfa ljúfsárum minningum fram að streyma.

Þú varst yngst þinna systkina og ég elst minna en ég held að hvorug okkar hafi upplifað sig sem slíka. Flest þau myndbrot sem hugurinn geymir um æskuna einkennast af stundum sem við áttum saman. Því við áttum svo margt saman eða sameiginlegt; okkar yndislegu fjölskyldu sem engri er lík, eins dúkkur í jólagjöf og kjóla í stíl, ótalmargar pottaferðir í sól og sumaryl, ferðalög og veiðiferðir, ormaleitir og gistipartí. Þú tímdir jafnvel að deila með mér hlaupabólunni þinni! Sem barn fannst mér ég raunar eiga allt með þér; foreldra þína, dótið þitt, herbergið þitt (við misgóðar undirtektir á unglingsárunum) og meira að segja gæludýrið þitt. Þú hafðir (oftast) ótrúlega þolinmæði fyrir þvermóðskunni í mér og á fullorðinsárum hef ég oft undrast það.

Þú varst svo einlæg, hlý og skilningsrík, ótrúlega fyndin og skemmtikraftur af guðs náð. Þú varst alltaf syngjandi, haldandi hæfileikakeppnir heima í stofu og þegar þú kepptir í Idol hélt ég að ég myndi springa úr stolti (í laumi samt, ég var rosalega þrettán ára). Að eiga þig sem fyrirmynd er ómetanlegt og þú hefur kennt mér svo ótal margt. Að vera skapandi og dugmikil, sjálfstæð og sannur vinur í raun. Ég gleymi því aldrei þegar þú málaðir herbergið þitt fjólublátt með silfurlitum svampstrokum - mér fannst það svo svalt. Þegar ég sá þig syngja í Frelsi og Hátúnsbarkanum í grunnskóla og leggja þig alla fram í undirbúningi fyrir samræmdu prófin. Þegar þú menntaðir þig á þínu sviði og þegar þú reyndir að hafa vit fyrir mér á mínum unglingsárum. Líf mitt hefur svo sannarlega reynst ríkulegra með þig mér við hlið, þótt ég hafi ekki alltaf verið nógu klár til að segja þér það og sýna.

Áhrif þín á líf mitt eru þó ekkert einsdæmi því þú hefur snert við svo mörgum líkt og hefur sannað sig að undanförnu. Sá styrkur sem þú sýndir er ótrúlegur og slíkt hið sama má segja um þína dýrmætu og fallegu fjölskyldu. Allt frá fyrstu stundu hafið þið Axel átt eitthvað alveg sérstakt - ást, samstaða og virðing hafa einkennt allt ykkar samband. Þið hafið hvergi hikað eða hopað í ykkar samtíð, látið drauma ykkar rætast og aldrei látið neitt ykkur í vegi standa. Í okkar ástkæra heimabæ og víðar vita allir hversu mikið þið hafið afrekað í hinu opinbera lífi, náð árangri og gefið af ykkur við hvert tækifæri. Þið hafið ekki síður staðið ykkur vel í hinu persónulega, sem ykkar dásamlegu og flottu börn bera vitni um. Ég veit hversu stolt þú varst af þeim báðum og hversu heitt þú elskaðir þau. Ást þín og arfleifð mun fylgja þeim um ókomna tíð og enginn er betri en elsku Axel þinn til að leiða þau áfram í þeirri vissu.

Þegar veikindi þín urðu ljós fylgdi því mikið áfall en þú mættir þeim aðstæðum af æðruleysi og með hjartað fullt af þakklæti gagnvart öllu því góða sem lífið hefur upp á að bjóða. Í einu af okkar síðustu samtölum minntir þú mig á mikilvægi þess að láta ekkert stoppa sig, að þekkja virði sitt og láta vaða. Þú bjóst nefnilega yfir visku, orku og velvild sem til eftirbreytni er í þessum skrítna heimi.

Krabbamein er eyðieyja
tvær leiðir í boði
annars vegar örvænting
hins vegar líf í hæglæti
umlukið hafsjó
öldugjálfur
fuglakvak
sem þú annars hefðir aldrei numið á landi
hins hefðbundna lífs
(Hildur Eir Bolladóttir)

Tinna, þú skilur eftir stórt skarð í okkar lífi en fyrir tímann með þér verðum við alltaf þakklát. Ég, Pétur, Ísarr Myrkvi og Eldey Rán sendum Axel, Díönu Rós, Grímari Degi, foreldrum þínum, systkinum, fjölskyldu og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur, styrk og hlýju.

Um alla tíð munum við halda á loft minningu þinni, ljósi og gildum.


Þín frænka.

Sunna Dís Jensdóttir.