Anna Karólína Þorsteinsdóttir fæddist 1. desember 1952. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 19. febrúar 2023.

Foreldrar hennar voru Elsa Jóhannesdóttir, f. 7. júlí 1929, d. 2015, og Hreinn Þorsteinn Garðarsson, f. 5. maí 1929. Systkini Önnu Karólínu eru Garðar, f. 4. september 1950, og Rannveig María, f. 29. október 1959.

Anna Karólína giftist 28. október 1972 Guðbergi Rúnarssyni, f. 11. júlí 1951. Foreldrar hans voru Jóhann Rúnar Guðbergsson, f. 26. mars 1930, d. 2016, og Kristjana Sveinsdóttir, f. 2. júlí 1932, d. 1988. Systkini Guðbergs eru Rósamunda, Sveinn, Örn, Kristín og María.

Börn Önnu Karólínu og Guðbergs eru Jóhann Rúnar, f. 20. mars 1974, Garðar Thor, f. 3. september 1977, og Elsa Kristín, f. 2. júní 1980.

Jóhann Rúnar er giftur Guðrúnu Huld Birgisdóttur, f. 6. maí 1978. Börn þeirra eru Birgir Rúnar, f. 22. apríl 2007, og Ísak Máni, f. 21. febrúar 2013. Fyrir átti Jóhann Rúnar soninn Aron Berg, f. 29. október 1999, og Guðrún Huld átti dótturina Selmu Rún Ragnarsdóttur, f. 16. september 1999. Garðar Thor er giftur Laufeyju Ýri Hákonardóttur, f. 12. nóvember 1976. Börn þeirra eru Anna Valdís, f. 4. maí 2005, Ágúst Logi, f. 6. maí 2008, og Katrín Lilja, f. 31. janúar 2017. Elsa Kristín er í sambúð með Sturlu Þorvaldssyni, f. 22. nóvember 1976. Börn þeirra eru Andrea Eva, f. 28. nóvember 2011, og Ingólfur Arnar, f. 26. janúar 2015.

Útför fór fram í kyrrþey.


Ó þú elsku Anna mín. Nú ertu horfin á braut og á leiðinni í Sólland. Þegar við hittumst á ármótaballi í Stapanum í Njarðvík árið 1969 varð ekki aftur snúið. Þetta var ást við fyrstu sýn. Frá þeirri stund hófust ævintýri okkar. Trúlofun um vorið, gifting í október 1972 og stuttu seinna stofnuðum við okkar fyrsta heimili í Miðtúninu.

Við útskrifuðumst vorið 1973, þú úr Kennaraskólanum og ég frá Vélskólanum. Síðsumars fluttumst við austur á Eskifjörð þar sem þú tókst við kennarastöðu á staðnum en ég fylgdi með og fékk vinnu á Hraðfrystihúsi Eskifjarðar. Eftir árið á Eskifirði lá leiðin aftur til Reykjavíkur með fyrsta barnið okkar, frumburðinn okkar, hann Jóhann Rúnar. Fyrsta íbúðin sem við keyptum var á Hjallaveginum í Reykjavík. Þú fórst að kenna í Hólabrekkuskóla og á Hjallaveginum kom Garðar Thor okkar í heiminn.

Árið 1978 fluttum við austur að Lagarfljótsvirkjun þar sem ég fékk stöðu stöðvarstjóra. Þú undir þér vel við að vera húsmóðir á staðnum, helltir þér í bakstur og saumaskap og vannst hylli sveitarinnar. Það var ævintýri að vera fyrir austan og við eignuðumst marga nýja vini og félaga. Árið 1980 fæddist okkur dóttir og tók hún sín fyrstu skref í litla íbúðarhúsinu okkar við Lagarfljótsvirkjun. Þetta ævintýri entist í tæp fimm ár. Þá fluttum við í annað sinn til Reykjavíkur og þá í fjögurra herbergja íbúð í Vesturberginu sem við höfðum fjárfest í. Þú fórst að kenna í Hólabrekkuskóla á meðan ég fór í Tækniskólann í Reykjavík.

Ævintýrin okkar héldu áfram og við fluttum eina ferðina enn og nú lá leið okkar til Danmerkur. Ég hóf nám í verkfræði við Háskólann í Álaborg, strákarnir okkar fóru þar í skóla og Elsa litla til dagmömmu og síðar á barnaheimili. Þú kenndir íslenskum börnum í Danmörku íslensku til að byrja með og hófst svo nám í sérkennslufræðum við Kennaraháskólann í Álaborg sem lauk með diplómagráðu 1987. Í Álaborg kynntumst við einnig þeim Sigurði og Margréti ásamt fleiri góðum vinum.

Eftir að heim til Íslands var komið kenndir þú við Dalbrautarskóla við barna- og unglingadeildina og síðar, í ársbyrjun 1990, við sérdeildina í Digranesskóla. Þú sóttir margar ráðstefnur erlendis um kennslu og greiningu barna með einhverfu, meðal annars til Bandaríkjanna.

Þú varst afar vandvirk og þér þótti afar vænt um starfið þitt og nemendurna þína sem löðuðust að þér. Í raun voru þau líka börnin þín ef svo má að orði komast. Listfengi þitt við gerð námsgagna miðaðist við þarfir hvers og eins. Þú myndskreyttir verkefnin, stundatöflur og ýmislegt fleira.

Þú varst yndisleg manneskja, góðhjörtuð og sýndir samferðafólki þínu einstaka samkennd, skilning og hlýju. Þú varst klettur í lífi mínu og okkar allra. Alltaf reiðubúin að rétta fram hjálparhönd og aðstoð. Þú hafðir ríka réttlætiskennd og fylgdir fast á eftir að leiðrétta það sem misfórst og færa til betri vegar. Þú varst vakandi yfir velferð barna okkar, tengdabarna og barnabarna.

Saman fórum við í mörg ferðalög, stutt og löng, hérlendis og erlendis. Þær voru ófáar fjalla- og gönguskíðaferðirnar okkar og svo skröltum við saman á jeppanum nánast hvert sem fært var. Þegar ég hætti að vinna í sumarbyrjun 2020 keyptum við húsbíl sem við ferðuðumst á út um allt land.

Það var áfall þegar þú greindist með krabbamein í lifur í október 2020. Við tóku meðferðir sem reyndu verulega á þig, mig og okkur öll. En ævintýrin voru ekki úti enn því með góðri hjálp fjölskyldu og vinahjóna okkar, þeim Sigurði og Margréti, fórst þú í draumaferðina þína til Færeyja, þrátt fyrir slappleika og vesen með stómað, sem þá var orðið þinn veruleiki.

Elsku Anna, þegar ég var sem mest frá í sjómennsku saknaði ég svo innilega að vera ekki hjá þér. Lengst var ég frá þér í 92 daga sem var mjög erfitt fyrir mig og þig. Ljóðið sem Ómar Ragnarsson orti lýsir vel tilfinningum mínum á því tímabili sem ég var frá þér hvað lengst vegna vinnu.

Ó, þú, enginn elskar eins og þú.
Enginn brosir líkt og þú.
Enginn grætur eins og þú.

Ó, þú, ert sú eina sem ég elska nú.
Fjarri þér hvar sem ég er,
ég þrái að vera nærri þér.

Dagurinn líður mig dreymir
um daginn er kynntumst við fyrst.
Dagstyggur aldrei því gleymir
að hafa þig elskað og kysst.

Ó, þú, enginn elskar eins og þú.
Enginn brosir líkt og þú.
Enginn grætur eins og þú.



Elsku Anna mín, ástkær eiginkona mín, lést 19. febrúar síðastliðinn á líknardeild Landspítalans í faðmi fjölskyldu sinnar og systur. Ég og fjölskyldan viljum þakka umönnunarþjónustu Kópavogs, heimaþjónustu Heru, starfsfólki líknardeildar og Landspítalans fyrir góða og faglega umönnun í garð Önnu Karólínu.


Guðbergur Rúnarsson.