Esther Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík 4. október árið 1951. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar 19. febrúar 2023. Foreldrar hennar voru Hólmfríður Svandís Runólfsdóttir, fædd 11. desember 1932, d. 5. ágúst 1987, og Gunnar Aðalsteinsson, fæddur 5. júní 1921, d. 1. júlí 1986.

Esther ólst upp í Akrahreppi í Skagafirði. Fyrstu árin dvaldi hún hjá ömmu sinni, Maríu Jóhannesdóttur bónda á Dýrfinnustöðum. Því næst hjá Pálma Runólfssyni móðurbróður sínum og Önnu Eiríksdóttur á nýbýlinu Hjarðarhaga. Ólst hún þar upp við hefðbundin bústörf.

Uppeldissystkini Estherar eru: Fróðný G. Pálmadóttir, Sigurjón Björn Pálmason, María G. Pálmadóttir, Heiður Pálmadóttir og Sigríður Guðrún Pálmadóttir.

Hálfsystkini Estherar sammæðra eru Jófríður Valgarðsdóttir, Kristín Valgarðsdóttir, Sverrir Valgarðsson og Þröstur Valgarðsson. Hálfsystkini Estherar samfeðra eru Ingibjörg Sesselja Gunnarsdóttir, Guðmundur Aðalsteinn Gunnarsson, Jóhanna Guðbjörg og Katrín Gunnvör Gunnarsdætur.

Esther gekk í skóla á Ökrum utan veturinn sem hún var hjá móður sinni Hólmfríði og Valgarði Björnssyni héraðslækni og systkinum sínum í grunnskólanum á Hofsósi. Eftir það fór hún í Húsmæðraskólann á Löngumýri í Skagafirði. Upp úr því flyst hún til Reykjavíkur og vann þar hin ýmsu störf.

Árið 1973 kynntist hún eftirlifandi manni sínum, Indriða Guðmundarsyni, og hófu þau sambúð í Reykjavík. Esther vann ýmis störf, bæði í fiskvinnslu og á leikskóla en þó lengst af var hún húsmóðir. Þau eignuðust fimm börn:

1) Sigríður Kolbrún Indriðadóttir, f. 4. júní 1974. Hún er gift Kjartani Orra Geirssyni og eiga þau soninn Kormák Jarl Kjartansson, f. 1. júní 2013. Sigríður Kolbrún á Grím Nóa Einarsson, f. 2. nóvember 2002, með fyrri sambýlismanni sínum, Einari Þorsteinssyni. Kjartan á Önnu Kristínu Kjartansdóttur, f. 1. maí 2008, með fyrrverandi sambýliskonu sinni, Unni Björk Hjartardóttur.

2) Linda Björk Indriðadóttir, f. 23. apríl 1981. Linda á Ester Ósk Andradóttur, f. 2. mars 2002, með Andra Ólafssyni, fyrrverandi sambýlismanni.

3) María Ósk Indriðadóttir, f. 23. apríl 1981. María á Luca Þór Bodily, f. 3. júlí 2017, og Hugo Örn Bodily, f. 6. nóvember 2020 með fyrrverandi sambýlismanni sínum, Tom Bodily. Linda Björk og María Ósk eru búsettar í Kaupmannahöfn.

4) Guðmundur Indriðason, f. 7. apríl 1982. Hann á soninn Mikkel Indriða, f. 28. febrúar 2017, með fyrrverandi sambýliskonu sinni, Athalie Lango. Þeir eru búsettir í Norður-Noregi.

Esther og Indriði eignuðust einnig dóttur vorið 1978 sem fæddist andvana.

Esther bjó í yfir aldarfjórðung á Sjálfsbjargarheimilinu í Hátúni eftir alvarleg veikindi og hálft annað ár á dvalarheimilinu Hrafnistu í Boðaþingi þar sem hún lést.

Esther verður jarðsungin frá Fossvogskapellu í dag, 9. mars 2023, klukkan 13.

Jarðaförinni verður streymt:

https://www.netkynning.is/esther-gunnarsdottir

Nú hefur þú fengið hvíldina frá erfiðum og langvinnum veikindum þínum og sameinast ástvinum þínum sem horfnir eru á braut. Við höfum verið undirbúin fyrir þessa stund í nokkurn tíma en aldrei er maður alveg tilbúinn þegar sá dagur kemur. Það var erfitt að kveðja þig en líka gott að hugsa til þess að nú ertu laus úr viðjum þessara veikinda.

Það sem hefur fylgt mér og okkur síðustu daga er sú kærleiksorka sem streymdi ávallt frá þér. Ást þín á fólkinu þínu er svo áþreifanleg og djúp. Pabbi, börnin þín og barnabörnin voru þér allt. Þú varst alltaf svo glöð og þakklát þegar við vorum hjá þér og alltaf var stutt í brosið og léttleikann. Nærvera okkar gladdi þig svo óendanlega mikið og sérstaklega barnabörnin þín sem þú lifðir til að sjá vaxa úr grasi. Þú lifðir lengi á því að hitta krakkana þína sem búa erlendis þegar þau komu upp. Undir lokin í þínum veikindum var erfitt að spjalla en það þurfti ekki alltaf mörg orð heldur var það hlý hönd, faðmlag og blítt bros sem varð okkar tungumál. Þú kenndir okkur tungumál hjartans í gegnum veikindi þín.



Þegar þú ert farin elsku mamma þá streyma til mín yndislegar minningar um þig áður en þú veiktist. Það er eins og ég sjái þig skýrar núna þegar þú ert farin. Ég sé yndislegu lautarferðirnar í Öskjuhlíðinni. Bara ég og þú að labba á hitasökkunum að kíkja á kanínur og drekka nesti. Öll ferðalögin okkar heim í Skagafjörðinn og austur í sveit. Og Þegar þú varst búin að gera allt svo fínt í herberginu mínu þegar ég kom heim úr sveitinni. Stundum komstu mér á óvart með því að kaupa litla gjöf inn í herbergið. Allar okkar stundir í eldhúsinu þegar við sungum með Abba og Rolling Stones og þú leyfðir mér að fá plöturnar þínar lánaðar inn í herbergi mitt.
Þú hafðir svo gaman af því þegar við stelpurnar sátum inni í herberginu mínu, spiluðum plötur og vorum að dressa okkur fyrir djammið. Þú naust þess að vera með í stemningunni og spjallaðir mikið við vinkonur mínar og hafðir raunverulegan áhuga á því sem við vorum að ganga í gegnum. Þær tala ennþá um það hvað var gott að koma og fá kaffi og spjall hjá þér.
Ég verð þér ævinlega þakklát fyrir að þú varst heima með okkur systkinin. Að eiga mömmu sem tók á móti okkur eftir skóla. Stundum varstu búin að baka fyrir okkur en stundum beið mín líka hrúga af taubleyjum sem ég þurfti að hjálpa þér með eða innkaupalisti sem ég þurfti að hlaupa út í búð með. En það var mín gæfa að fá að læra af þér og verða sjálfstæð. Það hefur ekki verið auðvelt að vera heima með 4 börn, en þú naust þess að geta verið hjá okkur, veitt okkur öryggi og ást.
Það var mikið áfall fyrir okkur öll þegar þú veiktist aðeins 42 ára að aldri. Nýr kafli var að byrja í lífi þínu en hann tók óvænta stefnu. Þrautseigja þín var óumdeilanleg. Þú ætlaðir að ná þér. Náðir ákveðinni hæfni með Dýrfinnustaðaþrjóskunni en því miður gastu aldrei flutt aftur heim. Þú eignaðist annað heimili í Hátúni þar sem við heimsóttum þig og pabbi var hjá þér öllum stundum. Lífið ykkar saman hélt áfram þrátt fyrir veikindin. Þið ferðuðust norður í land og austur í sveit. Fóruð á tónleika, í búðir og fenguð ykkur marengs í kringlunni. Ég dáist að pabba fyrir umhyggjuna sem hann sýndi þér alla tíð og hvernig hann hlúði að þér og þú að honum á þinn hátt. Ást ykkar hvors til annars varð dýpri með hverju ári og það finn ég svo sterkt að það er arfleifð ykkar til okkar systkinanna og barnabarna.

Að verða vitni að styrk þínum í gegnum veikindi þín mun alltaf verða mitt leiðarljós í lífinu. Fáir hafa þann styrk sem þú hafðir, elsku mamma mín.

Ég er þér svo ótrúlega þakklát fyrir lífið sem þú gafst mér og þær lífsins raunir sem við höfum öll farið í gegnum saman. Allt hefur þetta mótað okkur og kennt okkur að meta lífið, augnablikið og ástina á dýpri hátt.

Elsku mamma, ást þín umvefur okkur áfram og veitir okkur styrk. Ég sakna þín, að mæta fallega brosinu þínu og hlýrri hönd þegar ég kom til þín, en ég veit að nú dansar þú um í skærasta ljósinu eftir dvöl þína hér. Ljós þitt mun ávallt vera minn viti.

Mínar dýpstu þakkir fyrir allt, elsku mamma.



Þín dóttir, Kolla.

Sigríður Kolbrún Indriðadóttir.