Ásdís Sigríður Þorsteinsdóttir fæddist á Eyrarlandi á Akureyri 3. desember 1929. Hún lést á heimili sínu í Austurbyggð 17 á Akureyri 25. febrúar 2023.

Foreldrar hennar voru Þuríður Guðmundsdóttir og Þorsteinn Guðmundsson. Ásdís eignaðist tvö systkini sem bæði dóu í fæðingu.
Þann 4. nóvember 1950 giftist Ásdís eiginmanni sínum, Páli Benedikt Marteinssyni, f. 11.9. 1926 í Glerárholti í Glerárhverfi, d. 7.5. 2011. Foreldrar hans voru Kristín Sigurðardóttir og Marteinn Pétursson. Börn Ásdísar og Páls eru: 1) Sæmundur Örn, f. 10.12. 1949, giftur Guðbjörgu Þóru Ellertsdóttur, f. 19.7. 1950. 2) Þorsteinn Pétur, f. 5.9. 1951, giftur Bergþóru Björk Búadóttur, f. 11.5. 1953. 3) Kristinn Sigurður, f. 30.3. 1955, hans kona er Sólveig Alfreðsdóttir, f. 11.1. 1954. 4) Marta Þuríður Pálsdóttir, f. 3.12. 1961. Barnabörnin eru 11, langömmubörnin voru 26 en eitt er látið og langalangömmubörnin eru 12.
Ásdís var verkakona og starfaði á Gefjun og hjá K. Jónssyni ásamt því að sinna barnauppeldi og halda stórt heimili.
Útför Ásdísar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 9. mars 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Nú er elsku amma mín látin, þegar ég hugsa til hennar þá koma þessi orð upp í huga minn; ást, hlýja, væntumþykja, hlátur og grátur. Amma var einstaklega brosmild, mikill húmoristi og einstaklega úrræðagóð svo var hún líka svo mjúk og með traust faðmlag.
Ég á svo margar minningar um ömmu Dísu og það var alltaf svo gott að koma í Byggðarveginn. Ég fékk að hlusta á uppáhaldsævintýrið mitt Eldfærin sem hún átti á vínylplötu, oft sat ég límd fyrir framan sjónvarpið með bræðrum mínum og við horfðum á Nonna og Manna í hundraðasta skiptið. Þá nýtti hún tækifærið og lagðist hjá okkur, rétti mér handlegginn og bað mig um að kitla sig á handleggnum eða fikta í hárinu á henni, henni fannst það svo gott að hún átti það til að dorma. Amma átti svo mikið af glingri og það var auðveldlega hægt að gleyma sér við að skoða fjársjóðinn, smellueyrnalokkarnir voru hvað mest prófaðir og maður skreytti sig með öllum hálsfestunum sem hún átti.
Hún spilaði Olsen Olsen eða Hæ gosa við mig og skrifaði samviskusamlega niður stigagjöfina með svarta pennanum, hún þóttist ekkert vera tapsár en ég sá nú alveg á svipnum á henni að hún var ekki ánægð að tapa. Ég man þegar ég var lítil þá sat ég oft í fanginu hennar og hún ruggaði manni fram og til baka og söng fyrir mann Guttavísur, þegar ég var orðin stærri og fleiri frændsystkinin bættust í hópinn hélt hún þessum gæðastundum áfram með ömmubörnum og langömmubörnum, það var svo gott að sitja í mjúka fanginu hennar.
Stundum kom ég til ömmu þegar verið var að sýna Leiðarljós, þá sat hún sem fastast og las textann upphátt, það mátti ekki trufla því þetta var heilög stund fyrir henni og ekki mátti hún missa úr einn þátt. Hún reyndar las alltaf textana á sjónvarpinu upphátt og bað mann um að gera það til að verða betri í lestri. Amma átti alltaf súkkulaði handa okkur sem hún geymdi inni í búri og oft fengum við heilan pakka af suðusúkkulaði með okkur heim. Við systkinin fengum líka senda pakka með suðusúkkulaði þegar við bjuggum í Noregi.
Það voru allir velkomnir til ömmu, ég dró oft vinkonur með mér til hennar eftir að við höfðum verið í sundi því hjá ömmu var alltaf hægt að fá kringlu og Nesquick eða ristað brauð með skeinku eins og hún sagði alltaf. Það var alltaf til nóg að borða hjá ömmu, ég elskaði þegar hún gerði fisk í raspi eða kjúkling og franskar. Amma gerði besta rækjusalat í heimi og enn hefur engum tekist að gera salatið eins og amma gerði. Svo má ekki gleyma grænu kökunni en ég held að einungis blóðtengdir ættingjar hennar borði grænu kökuna. Maður fór aldrei svangur frá ömmu. Á jólunum var mikil spenna að komast í jólaboð á annan í jólum hjá ömmu og afa því þar safnaðist öll fjölskyldan saman og borðuðum við fullt af kökum og á seinni árum fórum við að spila bingó sem henni fannst mjög gaman. Ég kallaði hana oft bingódrottninguna því hún mátti ekki missa úr bingó á Hlíð.
Amma var forvitin og vildi fá að heyra hvernig gengi með alla í fjölskyldunni, vildi öllum vel og var alltaf ljúf og góð. Ég man aldrei til þess að ég hafi einhvern tímann séð hana með skeifu eða reiða því amma var alltaf brosandi eða hlæjandi. Við áttum það til að gera smá at í henni og henni fannst það ekki leiðinlegt og tók hún oft og tíðum þátt í gríninu.
Amma var alltaf til staðar, ég man einn daginn kom ég til hennar og skældi hjá henni þar sem við Trausti vorum ekki búin að finna okkur íbúð til að leigja áður en frumburðurinn mætti á svæðið, ég sá fram á það að þurfa að búa inn á öðrum. Amma huggaði mig og sagði að það yrði allt í lagi. Seinna sagði pabbi mér að hún hefði hringt í hann og hálfpartinn skammað hann fyrir að vera ekki búinn að hjálpa okkur að finna húsnæði. Stuttu seinna keyptum við okkar fyrstu íbúð og afi kom og hjálpaði mér að mála íbúðina.
Amma bæði heyrði og sá illa á seinni árum og stundum komu ýmis fyndin gullkorn upp úr henni þegar hún heyrði vitlaust, þegar hún áttaði sig á því að hún hafði misheyrt þá veltumst við um af hlátri. Amma var samt alltaf minnug, mundi alla afmælisdaga allra fjölskyldumeðlima og afleggjara þeirra, meira að segja fólks sem hún hafði ekki hitt í tugi ára.
Elsku amma það er svo margt hægt að skrifa um þig því þú hafðir mikil áhrif á mig sem manneskju, ég hef oft sagt að þú værir miðpunktur allra, öllum þótti svo óendanlega vænt um þig sem mömmu, ömmu, langömmu og langalangömmu. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera með þér síðustu stundir þínar, ég er svo þakklát fyrir að börnin mín fengu að kynnast þér, ég er svo þakklát fyrir hversu vel þú hugsaðir um okkur systkinin, ég er svo þakklát fyrir að hafa átt þig sem ömmu. Það er mikil söknuður en loksins fékkstu hvíldina ég er viss um að afi tók opnum örmum á móti þér. Við sem eftir stöndum höldum áfram að halda minningu þinni á lofti með sögum af þér. Takk fyrir allt amma best.

Þín Fanney Kristinsdóttir

Fanney Kristinsdóttir.