Óli Ágúst fæddist á Akranesi 11. ágúst 1940. Hann lést á Gran Canaria 18. febrúar 2023.

Foreldrar hans voru Ólafur Sigurðsson, f. 21. október 1907, d. 9 nóvember 1981 og Ástrós Guðmundsdóttir, f. 2. mars 1915, d. 24. maí 1988.

Systkini Óla eru Sigurður Guðmann, f. 17. janúar 1936, d. 12. febrúar 2023, Guðmundur, f. 2. október 1942, d. 7. febrúar 1998, Ágústína, f. 1. desember 1947, Hugrún, f. 9. nóvember 1949 og Ásmundur Þórir, f. 15. september 1958.

Óli giftist 23. desember 1963 Jóhönnu Björgu Bjarnadóttur, f. 27. mars 1939, d. 8. júní 2000. Foreldar hennar voru hjónin Emilía Sigtryggsdóttir, f. 23. ágúst 1898, d. 4. maí 1985 og Bjarni Þorsteinsson, f. 16. desember 1895, d. 18. mars 1977.

Börn Óla og Jóhönnu eru: 1) Rósa Emilía, f. 2. ágúst 1962, maki Gunnar Ársælsson, f. 13. febrúar 1963, börn þeirra eru: a) Halldór, f. 20. maí 1981, d. 23. október 2012, hann á 4 börn, b) Sindri, f. 9. desember 1988, sambýliskona Kristín Ólafsdóttir, f. 15. júlí 1988, þau eiga 1 barn, c) Guðrún Björg, f. 17. júní 1998.

2) Ólafur Bjarni, f. 13. júní 1964, maki Eydís Ásgeirsdóttir, f. 29. apríl 1962, börn hans eru: a) Birgir Þór, f. 8. júlí 1999 og b) Jóhanna Björg, f. 28. júní 2001, sambýlismaður Daníel Edward, f. 26. júlí 1998, þau eiga 2 börn.

3) Sigrún, f. 4. júlí 1965, maki Árni Þorbergsson, f. 19. febrúar 1964, börn þeirra eru: a) Guðfinna, f. 26. júlí 1985, maki Arnar Elíasson, f. 1. apríl 1980,  þau eiga 3 börn, b) Björgvin Óli, f. 12. nóvember 1987, maki Fanney Lára Sandholt, f. 18. janúar 1989, þau eiga 4 börn, c) Brynjar, f. 28. maí 1992, sambýliskona Ásta Lóa Madslund, f. 30. desember 1992, þau eiga 1 barn.

4) Jóhannes, f. 27. ágúst 1966, maki Þórdís Viðarsdóttir, f. 17. janúar 1966, börn þeirra eru: a) Karl Eyjólfur, f. 30. júní 1995, sambýliskona Hanna Maggí Einarsdóttir, f. 7. júlí 1997, þau eiga 2 börn, b) Hanna Lilja, f. 7. nóvember 1996. Barnabarnabörn Óla eru 16 talsins.

Óli fluttist í Þykkvabæinn 1949 með foreldrum sínum  og bjuggu þau í  Baldurshaga fyrstu árin. Árið 1963 kaupir Óli ásamt Jóhönnu jörðina Vatnskot 1 með foreldrum Óla og stundar þar búskap og kartöflurækt. Óli stundaði jafnframt sjómennsku frá Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn og vann við virkjanaframkvæmdir samhliða búskapnum.

Óli giftist seinni konu sinni, Sigurveigu M. Andersen, 8. október 2005 og flyst þá á Selfoss. Sigurveig er fædd 9. október 1951, foreldrar hennar voru Anna Bjarnadóttir, f. 15. janúar 1923, d. 28. maí 2002 og Ingvald Andersen, f. 7. maí 1923, d. 30. júní 2012. Börn Sigurveigar eru Kolbrún Anna, Svanhildur Inga og Þóra Margrét, barnabörn Sigurveigar eru 13 talsins.

Óli og Sigurveig bjuggu á Selfossi, vann hann þar bæði í byggingarvinnu og við vörubílaakstur en árið 2010 flytja þau til Vestmannaeyja.

Útför Óla fer fram frá Þykkvabæjarkirkju í dag, 17. mars 2023, og hefst athöfnin klukkan 14.

En komin eru leiðarlok
og lífsins kerti brunnið
og þín er liðin æviönn
á enda skeiðið runnið.
Í hugann kemur minning mörg,
og myndir horfinna daga,
frá liðnum stundum læðist fram
mörg ljúf og falleg saga.
(Höf. ók.)

Já, lífskerti Óla er slokknað. Núna hefur hann skilað sínu dagsverki og æviskeiði lokið, ætíð ljúfur glaðlegur glettin og spaugsamur. Þegar maður hugsar um Óla kemur alltaf fyrst í hugann hversu ljúfur og gamansamur hann var og skemmtilegur í tilsvörum. Já ljúfmenni var hann. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Óla snemma á lífsleiðinni, í fyrstu sem unglingur í sveitinni okkar og síðar sem partur af fjölskyldu hans sem tengdasonur þegar ég eignaðist elstu dóttur hans hana Rósu sem eiginkonu. Það var alltaf gott að vera í návistum við Óla. Faðmlagið þéttingsfast og rembingskoss ef við höfðum ekki hist lengi. Það var alltaf svo gott að koma til Óla og Jóhönnu meðan hún lifði og einnig til þeirra Veigu eftir að hann flutti úr Þykkvabænum og hóf búskap með henni.

Óli vildi aldrei láta hafa neitt fyrir sér, kvartaði aldrei yfir neinu og gerði ávallt lítið úr hlutunum ef hann kenndi einhvers krankleika. Hvernig er heilsan? spurði maður og það stóð ekki á svarinu, bara góð. Það var aldrei neitt að hjá honum, þannig var hann. Það hafa verið einstök forréttindi að fá að vera partur í hans lífi og fyrir það verð ég ávallt þakklátur. Óli var góður sögumaður og einstaklega fróður um fólk og staði. Hann hafði dálæti á sveitinni og og fjallahringnum sem heilsaði honum á morgnana. Það voru oft fjörlegar samræðurnar með honum og alltaf gaman þegar hann komst á flug og fór að segja manni sögur og jafnvel atvik sem ekki mátti hafa eftir. Ef við svo bættum aðeins meiri lögg í koníaksglasið átti hann það til að halla aftur hurðinni og bæta við að stelpurnar frammi þyrftu nú ekkert að heyra þetta. Já, hann var glettinn og gamansamur.

Börnin okkar Rósu eiga margar góðar minningar um afa sinn og sóttu þau oft stíft að fá að vera eftir í sveitinni hjá honum og Jóhönnu. Það var samt stundum betra að amma væri heima því þá var hafragrauturinn ekki eins og tyggjó og sósurnar voru heldur ekki komnar þrjá mánuði fram yfir síðasta neysludag, sem hann smakkaði og sagði að það væri bara ekkert að þessu. En hann var samt góður í eldhúsinu og pönnukökubaksturinn flæktist aldrei fyrir honum, hann var oft búinn að henda í pönnsur ef hann vissi að við værum væntanleg. Eins höfðu vinir hans Dóra orð á því hversu unglegur og skemmtilegur afi hans væri, þegar þeir komu stundum að honum á hnjánum alveg uppi við sjónvarpsskjáinn að spila tölvuleiki þegar þeir sáu ekki til. Væri hann fertugur í dag ætti hann örugglega Playstation 5-tölvu og spilaði við alla því það voru allir jafnir fyrir honum, hvort sem það var fullorðna fólkið eða bara unglingarnir. Hann kom eins fram við alla, líka fólkið sem við sáum ekki, en hann var stundum í samskiptum við fólk sem þurfti stöku sinnum að hörfa undan mannfólkinu og leitaði aðstoðar hjá honum. Stríðinn gat hann verið við barnabörnin og hafði stundum rangt við í spilum en alltaf með útskýringarnar á hreinu. Eða sendi þeim jólagjafir sem ætíð vöktu kátínu, jafnvel geisladisk með Árna Johnsen svo þau gætu æft sig fyrir næstu töðugjöld og sungið með. Já, Óli var einstakur maður og mannbætandi maður sem gott var að vera samferða í gegnum lífið.

Það verður gott að hugsa til þín þegar við fjölskyldan stöndum á Hólsárbakkanum í framtíðinni og horfum á fjallahringinn sem mætti þér á morgnana í Vatnskoti. Nú ertu kominn í sveitina aftur með fjallahringinn og Hólsána sem flytur Rangárnar síðasta spölinn til sjávar.

Mér finnst við hæfi að enda þetta á nokkrum línum úr ljóðinu, Minni Rangárþings.

Þú opnast sjónum fagri fjallahringur,
í faðmi þínum vagga okkar stóð.
Þar halda vörðinn Hekla' og Þríhyrningur,
en hljóðlát Rangá kveður draumkennd ljóð.
(Sigurjón Guðjónsson)

Hafðu hjartans þökk,

mér horfin stund er er kær.
Í minni mínu klökk

er minning hrein og skær.

Takk fyrir allt sem þú varst okkur öllum.

Kveðja,

Gunnar Ársælsson og fjölskylda.