Árni Friðrik Markússon fæddist í Reykjavík 3. desember 1944. Hann lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Grund 6. mars 2023.

Foreldrar Árna voru Markús Hörður Guðjónsson, f. 29. ágúst 1923, d. 18. mars 1980, og Sigurlína Friðrikka Friðriksdóttir, f. 22. desember 1922, d. 22. ágúst 2010. Systkini Árna eru: 1) Ásta Hulda, f. 19. febrúar 1949, 2) Guðrún Kristín, f. 30. júlí 1950, 3) Bryndís, f. 14. maí 1956, og 4) Birgir, f. 14. maí 1956, d. 10. nóvember 1964.

Árni eignaðist fimm börn. Með Vilborgu Vestergaard eignaðist hann 1) Birgit Helenu Skaalum Mikkelsen, f. 24. desember 1964, maki Sonne Mikkelsen, f. 29. maí 1964. Börn þeirra eru Flóvin, Elisabet og Páll og barnabörnin tvö, Irina og Sofía. Þann 2. nóvember 1968 kvæntist Árni Ólöfu Maack Jónsdóttur. Þau skildu. Þau eignuðust 2) Katrínu Rut, f. 18. apríl 1971, maki Jón Gunnar Jóhannsson, f. 5. október 1970. Synir þeirra eru Sindri Hrafn, Ísak Már og Adam Árni. 3) Jóna Valborg, f. 2. október 1973, maki Vilhjálmur Bergs, f. 17. maí 1972. Börn þeirra eru: Garpur Orri, Viktor Nói og Vera Vigdís. Þann 2. ágúst 1980 kvæntist Árni Ólafíu Sigríði Hansdóttur. Þau skildu. Þau eignuðust: 4) Markús Hörð, f. 19. nóvember 1980, maki Karen Guðmundsdóttir, f. 28. febrúar 1980. Börn þeirra eru: Hrafnhildur, Þorkell Már og Gylfi Þór. 5) Kirstín Dóra, f. 2. október 1985, maki Helgi Þór Guðmundsson, f. 17. ágúst 1983. Börn þeirra eru: Guðmundur Árni, Ólafur Benedikt, Stefán Helgi og Kirstín Dóra.

Árni var fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann lærði plötu- og ketilsmíði og fékk meistarapróf í iðninni árið 1970. Hann starfaði sem járnsmiður hjá Landssmiðjunni og Hitaveitu Reykjavíkur áður en hann hóf störf sem leigubílstjóri hjá Bæjarleiðum sem síðar varð að Hreyfli-Bæjarleiðum. Hann lét af störfum 2014.

Árni ræktaði fjölskyldu og vini vel, hann var mannþekkjari og mannvinur. Sem drengur dvaldi hann hjá frændfólki á Möðruvöllum í Kjós og á fullorðinsárum byggði hann sumarbústað í Kjósinni. Hann æfði fótbolta og badminton með félögum sínum hjá Bæjarleiðum og fór árlega í veiðiferðir inn í Veiðivötn. Hann naut þess að fara í sund og á seinni árum fór hann reglulega í frí til Kanaríeyja. Í byrjun árs 2020 flutti Árni á hjúkrunar- og dvalarheimilið Grund þar sem hann bjó til æviloka.

Útför Árna fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 21. mars 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku yndislegi, ljúfi og góði pabbi minn.


Ég trúi því bara alls ekki að komið sé að þessari erfiðu kveðjustund og ég skrifi hér minningargrein um þig. Ég veit varla hvar ég á að byrja.
Óvænt andlát þitt var mér mikið áfall og tárin stanslaust streyma. Sorgin er svo mikil og söknuðurinn sár.
Ég hugsa til tímans okkar saman og allra góðu minninganna.
Þú hafðir svo góða nærveru að það var alltaf gott að vera með þér og hjá.
Þú bjóst yfir svo mörgum góðum eiginleikum en þú varst m.a. jákvæður, hjartahlýr, umhyggjusamur og greiðvikinn. Sást alltaf eitthvað fallegt í öllu og áttir fallegasta brosið sem yljaði manni og alltaf tókstu vel á móti öllum. Þú gast alltaf hrósað og gefið öðrum eitthvað fallegt í hjartað.
Þér þótti afar vænt um fólkið þitt sem þér fannst gaman að vera með. Varst svo stoltur af börnunum þínum, barnabörnum og langafastelpunum þínum tveimur. Þetta var þinn fjársjóður sem þú varst svo hreykinn af og nefndir það oft hvað þú værir ríkur maður með allan þennan stóra flotta hóp þinn sem þú fylgdist vel með. Þú varst áhugasamur um allt og spurðir um barnabörnin sem þér þótti alltaf gaman að vera með og sjá vaxa og dafna. Þú vissir svo af langafastelpunum þínum í Færeyjum sem þú náðir því miður ekki að hitta en þú fylgdist með úr fjarlægð og dásamaðir myndir.

Þú vildir öllum vel og varst vinamargur. Þér fannst gaman að ferðast jafnt innanlands sem utan, fara í veiðiferðir, þú spilaðir badminton og elskaðir sundið alla daga. Þú hafðir áhuga á bílum, fuglum og blómum og eru þeir ófáir blómvendirnir sem ég fékk frá þér. Þú elskaðir að gefa blóm og að gleðja og gerðir það svo vel. Þú gafst endalaust af þér, elsku pabbi minn, og það var líka auðvelt að gleðja þig. Þú varst alltaf svo þakklátur fyrir allt og sást það fallega í litlu hlutunum. Þú varst líka alltaf með myndavélina og tókst svo flottar myndir af því sem hreif þig.
Þú varst mikill snyrtipinni og var alltaf allt í röð og reglu hjá þér. Þú vildir hafa snyrtilegt í kringum þig og var bíllinn þá engin undantekning.
Þú áttir marga bíla og þeir glönsuðu allir.

Úr æskunni man ég eftir ísbíltúrunum, fórst með okkur á skíði, á skauta á Rauðavatni og á hestbak í Kjósinni, sveitinni þinni. Þar byggðir þú þinn sumarbústað sem stóð við fallegan læk með leiksvæði fyrir utan. Á áramótunum man ég alltaf eftir rauðum blysum og stjörnuljósum sem þú færðir okkur. Ég man eftir ferð okkar með ömmu til Vestmannaeyja, okkar ferðalaga til Akureyrar - til Færeyja og Bandaríkjanna og þá síðast til New York þegar þú varðst 65 ára. Við sáum heiminn saman og þér þótti gaman að ferðast jafnt innanlands sem utan og að komast í sólina til Kanaríeyja og sólin elskaði þig líka. Sólin og sólargeislarnir heima eltu þig líka. Innanlands fórstu í veiðiferðir og komst með silung á grillið. Þér þótti gott að fara í bakaríið og þaðan komstu oft með þitt uppáhald og okkar. Þú vaknaðir snemma og eina ferð okkar saman til Akureyrar varstu kominn á fætur langt á undan öllum og búinn að sækja bakkelsið í bakaríið þar sem við sátum svo úti í sólinni og nutum. Þú byrjaðir daginn snemma og við áttum það sameiginlegt að vera nátthrafnar. Kvöldin voru svo notaleg líka og íslensk sumur best. Þú sagðir fallega frá og varst sólarmegin í lífinu og í þínum augum var allt lúxus. Þannig horfðir þú á lífið og litlu hlutina líka.
Þú kvartaðir ekki heldur var alltaf eitthvað jákvætt í öllu.
Minningarnar eru ótal margar, elsku pabbi minn, og allar góðar sem gott er að ylja sér við. Það var alltaf gott að koma heim til þín í Frostafoldina og síðar á heimilið þitt á Grund þar sem þú bjóst í rúm 3 ár. Við töluðum þar um svítuna eins og þú áttir líka skilið að fá. Þú gladdist alltaf og tókst vel á móti öllum með bros á vör og hugsaðir vel um alla, þar á meðal aldraða móður þína þegar hún lifði.

Á þínum efri árum, þegar þú þurftir orðið meiri aðstoð, var gott að geta verið til staðar fyrir þig og þegar þú fluttir svo á dvalarheimilið Grund í byrjun janúar 2020 þá var gott að geta hjálpað þér áfram að njóta lífsins eins og þú gerðir áður og vildir líka, fá að vera þátttakandi í lífinu og njóta góðra stunda eins og þú gerðir allt til æviloka. Samvera okkar var alltaf góð og pabbaástin mín sterk. Við þitt breytta hlutskipti kvartaðir þú aldrei heldur sást það fallega og þannig vildi ég sömuleiðis að lífið yrði þér áfram, eins og áður en nú í höndum okkar sem gátum fært þér gleðina, þess félagsskaps og nærveru sem þú þurftir. Þú varst alltaf svo sterkur andlega og félagslega þó líkamleg geta þín dvínaði. Þú vildir líka svo mikið og gast miklu meira í huganum en þú í raun og veru gast. Þú varst svo mikil félagsvera og elskaðir selskap og alltaf gott spjall.

Við fórum t.d. á tónleika saman með Bubba, Ragga Bjarna, Vihjálmi Vilhjálmssyni og Guðrúnu Árnýju og ég man hvað þér þótti það gaman. Tónlistin gaf þér svo mikið og þú kunnir textana og það var gaman að sjá þig syngja með. Þér fannst líka gott að borða og fórum við stundum út að borða, sóttum í bakaríið eða fórum á kaffihús. Þess á milli sátum við líka stundum í garðinum á Grund í góðu veðri og gæddum okkur á einhverjum kræsingum sem þú smakkaðir orðið sjaldnar á og þú naust í botn. Þú bara ljómaðir og sagðist alltaf hlakka til, hlakka til að njóta. Horfðum á sólina, bláan himininn og fuglana sem birtust iðulega. Fuglasöngurinn gaf þér líka mikið og það bara að komast út og í annað umhverfi. Ég fann það vel og sá hvað það allt gerði þér gott. Þú varst áður alltaf boðinn og búinn að að bjóðast til að skutla og sækja og í huganum varstu þar alltaf enn. En nú var komið að mér að vera þinn bílstjóri og fórum við í marga bíltúrana saman og í stuttar sveitaferðir en Kjósin var þín sveit og gaman að geta farið með þig þangað sem og annað og lofað þér að upplifa - þú mundir allt svo vel og langt aftur í tímann og rifjaðir upp með mér því sem ég hafði gleymt. Samtölin okkar í bílnum voru dýrmæt eins og önnur og að komast út var þitt besta meðal og vera innan um fólkið þitt sem þú elskaðir líka.

Ég fann til með þér, elsku pabbi, þegar Covid skall á og það að fara þá á mis við allar þær gæðastundir sem og annað sem þú þurftir á að halda. En loksins þegar aftur mátti hittast þá var að vinna allt það upp sem ekki hafði verið hægt að gera saman, þú skildir það allt svo vel og sagðir eins og þér einum var lagið með þinni jákvæðni: alltaf gott að eiga eitthvað eftir og já við áttum svo margt eftir og við gerðum svo margt.

Þegar erfiðara var orðið að fara í bíltúrana saman og lengri ferðir þá nutum við þess að fara í göngutúr saman frá Grund og niður í miðbæ, fá okkur að borða og sitja úti í sólinni og þér fannst þú vera eins og í útlöndum eins og þú sagðir svo oft. Ég fékk enn að vera bílstjórinn þinn þegar ég keyrði hjólastólinn þinn og saman stýrðum við í miðbæinn og upplifðum alls konar skemmtilega afþreyingu sem gerði þér svo gott, eins og sólin, fuglasöngurinn, blómin og það bara að sjá allt mannlífið og bílana. Við kölluðum þetta að fara út á lífið og það fannst þér skemmtilegt þegar ég nefndi og bauð þér út á lífið. Það að þú gætir haldið áfram að njóta og þinna lífsgæða var svo dýrmætt, eins fyrir huga og sál. Þú þurftir upplyftingu en aldrei baðstu um neitt sjálfur. Það var alltaf svo gaman að gleðja þig, elsku pabbi minn, því það sem gladdi þig gladdi mig og ég vildi að þér liði vel þrátt fyrir allt og nýtt heimili á Grund.

Það var sárt þegar þú greindist með Alzheimer á byrjunarstigi árið 2011 en þú varst einn af þessum heppnu eins og sagt var þar sem sjúkdómurinn ágerðist hægt þar til hann fór svo að minna frekar á sig. Ég syrgði margt af því sem þú gast ekki lengur sjálfur gert eða átt frumkvæði að en alltaf varstu þú sjálfur, þó líkamleg geta væri ekki hin sama og verkstol minnti á sig. Þú þekktir mig og okkur alltaf og varst alltaf flottur og skýr í spjalli og hugsun. Þú mundir líka gamla tímann og rifjaður upp þínar æskuminningar og okkar. Svo gastu alltaf brosað og sagt eitthvað fallegt. Þú kunnir þetta allt svo vel, elsku pabbi minn, enda varstu alltaf svo jákvæður, fallegur og geðgóður eins og mamma sagði. Þú varst allra og laðaðir fólk að þér. Þú hafðir þína góðu nærveru og svo góða skynjun á allt og gast lesið hugsanir og mínar líka í hljóði. Þú komst mér oft skemmtilega á óvart með þessum góðu eiginleikum og ég nefndi það líka oft við þig.

Ég hugsa um allt dýrmæta spjallið okkar alls staðar í síma, í bílnum, í göngutúrunum eða bara heima. Þú varst alltaf til staðar.
Þú gafst svo mikið af þér með ávallt þinni hjartahlýju í allri sinni mynd. Ég mun sakna þess nú að geta ekki lengur komið til þín í heimsókn og fært þér ís eða jarðarberjasjeik sem þú valdir alltaf og fannst svo góður, alltaf eins og fyrsti ísinn og þú sagðist aldrei hafa smakkað svona góðan ís. Þetta lýsir þér svo vel, segir margt um þig. Ég mun halda í allt það góða og ylja mér við allar dýrmætu og góðu minningarnar eins og fram hefur komið og halda sömuleiðis í alla þína góðu eiginleika, elsku pabbi, því þar er kærleikurinn sem þú áttir og gafst öðrum.

Ég mun sakna þín sárt og okkar tíma en ylja mér við þessi orð þín sem þú sagðir þegar hamingjan barst í tal, þá sagðir þú Hamingjan er ég og þú.
Þú verður áfram og alltaf í mínu hjarta alla daga, elsku pabbi minn, nú þegar ég þakka þér fyrir allt og okkar.
Við fengum okkur síðasta hjartamolann síðustu helgina okkar saman og fórum þá jafnframt í okkar allra síðasta göngutúr þar sem við kíktum rétt aðeins út í bráðum vorið og þér fannst það gott og sagðir það.

Það hafa nú margir tekið vel á móti þér í Sumarlandinu og ég hugga mig við að þú færð nú að hvíla við hlið foreldra þinna (ömmu, afa og Birgis bróður þíns sem þú misstir svo ungan).
Elsku pabbi minn, ég heimsæki þig þangað næst. Þar til við sjáumst aftur síðar í Sumarlandinu, sem ég veit og trúi.
Þín dóttir og pabbastelpa.

Katrín Rut.