Ingibjörg Zophoníasdóttir fæddist 22. ágúst 1923. Hún lést  27. febrúar 2023. Útför Ingibjargar fór fram 11. mars 2023.
Sjá grein á: https://mbl.is/andlat

Ingibjörg Zophoníasardóttir á Hala í Suðursveit er látin á hundraðasta æviári. Langri lífsgöngu er lokið, æviskeiði sem spannar heila öld. Það er kraftaverk, líf þeirra kvenna er lifðu við stórfelldar umbreytingar 20. aldarinnar og þurftu að takast á við lífsbaráttuna með trú á eigin getu framar öllu öðru.

Ingibjörg á Hala er ein slík kraftaverkakona sem af einstökum dugnaði, áræðni, útsjónarsemi og ósérhlífni tókst á við hvern dag af æðruleysi, - eiginleikar sem fylgdu henni allt fram í andlátið þrátt fyrir þverrandi krafta.

Ingibjörg á Hala var fædd á Hóli í Svarfaðardal 22. ágúst 1923 og ólst þar upp með foreldrum sínum. Hún var yngsta blómabarnið, falleg, broshýr, ung stúlka, stundaði sjálfsþurftarbúskapinn með foreldrum sínum og stundaði nám í Kvennaskólanum á Blönduósi. Þá var það sem nýútskrifaður kennari úr Suðursveit mætti í Svarfaðardalinn til kennslustarfa, og var m.a. til heimilis á Hóli. Teningunum var kastað, hann hreif með sér ungu stúlkuna suður yfir heiðar og jökla og hún mætti sem ung húsmóðir á Hala með þriggja mánaða dóttur þeirra. Þar bjuggu þau alla tíð. Torfi tók við skólastjórastöðu í Hrollaugsstöðum, síðar höfðu þau þar vetrardvöl en studdu við búskapinn á Hala á sumrin. Börnin fæddust hvert af öðru og á tuttugu árum voru þau orðin tíu talsins. Einn dreng misstu þau árið 1950. Það voru þung örlög margra ungra mæðra á þeim árum í afskekktum sveitum. Ég fann alltaf fyrir sárum harmi hjá tengdamóður minni, en man að hún sagði eitt sinn. Ég fékk bara tvö börn í staðinn en tveimur árum síðar eignuðust þau hjónin tvíbura. Börnin fæddust uppi á lofti á Hala, ljósmóðurin var sótt upp yfir sand og enga konu heyrði ég tengdamóður mina dýrka eins og Helgu ljósmóður á Brunnavöllum. Á hana lagði hún allt sitt traust, þar var hjálpin.

Allt til ársins 1964 voru Steinavötnin óbrúuð og að haustinu var heyvagninn settur fyrir dráttarvélina. Torfi og Ingibjörg, búslóðin og börnin fluttu sig um set í Hrollaugsstaði og heim að Hala aftur að vori til ársins 1966. Þá tók Ingibjörg við búi á Hala með tengdaföður sínum, Steinþóri Þórðarsyni á Hala, og stundaði það af miklum dugnaði þangað til tveir synir hennar tóku við árið 1972.

Það var sama hvar Ingibjörg kom að. Alls staðar var sami dugnaðurinn, metnaðurinn og óbilandi kjarkurinn sem dreif hana áfram. Hún saumaði allan fatnað og fyrir jólin hvein í saumavélinni fram eftir nóttu. Prjónavélin var óspart notuð til að prjóna nærföt og peysur. Bökunarilmur var í eldhúsinu alla daga, heimilisverkin skipulögð eftir dögum. Rafmagn kom árið 1971 og þá fyrst mættu nútímaþægindi í eldhúsið á Hala. Ég man vel þá stund þegar þvottavélin og frystikistan komu á Hala. Þá hættu lifrarskammtarnir og sviðin að koma úr frystihólfinu á Höfn í stórum strigapokum, og ekki þurfti að hafa það sama í matinn alla daga vikunnar þar á eftir. Uppþvottavélin var mikið þarfaþing því það voru 12-16 manns í heimilinu á Hala yfir sumartímann og máltíðir og kaffitímar reglulega yfir daginn. Borðsett var bæði í eldhúsinu og eystri stofunni fyrsta sumarið mitt á Hala. Torfi veiddi silung í Lóninu, og Ingibjörg átti það gjarnan til að sækjast eftir nýjungum í eldamennsku. Hún tók m.a. upp á því að flaka silunginn og steikja í rúgmjöli og smjöri á pönnu. Gestagangur var mikill og allur viðurgjörningur var slíkur að eftir var munað. Það jafnaðist ekkert á við silunginn hennar Ingibjargar á Hala. Sveitungi hennar og mikil vinkona okkar á Hala sagði einu sinni. Það var bara eins og ekkert væri ómögulegt í lífinu hennar Ingibjargar. Hún lagði sig fram um að finna lausnir og una við það sem til staðar var hverju sinni með bjartsýni og opnum huga.

Ingibjörg og Torfi voru glaðlynd og félagslynd. Ingibjörg var í forsvari fyrir kvenfélagið í Suðursveit í 25 ár og Ungmennafélagið Vísir naut krafta þeirra hjóna lengst af. Eftir þeim var tekið á dansleikjum hvað þau dönsuðu listilega ræla og valsa og þau voru alla tíð forsvarsmenn eða virkir þátttakendur í félagslífi sveitarinnar. Alltaf var tími til glaðra stunda með gestum og gangandi jafnt við eldhúsborðið á Hala sem á samkomum sveitarinnar.

Ingibjörg var opin fyrir allri framþróun og studdi með ráðum og dáð uppbyggingu Þórbergsseturs. Hún stóð fyrir gerð minnisvarðans á Hala og er frumkvöðull að skógrækt í hlíðunum ofan við Halabæinn.

Ég þakka Ingibjörgu tengdamóður minni samfylgdina með fjölskyldu okkar á Hala í 50 ár. Ljúfar minningar um Ingibjörgu ömmu og Torfa afa birtast við hvert fótspor á Hala. Það var mjög í anda þessarar kraftaverkakonu að lifa í nær hundrað ár, fara í gönguferðir allt fram á síðustu mánuðina og munda heklunálina fram á síðasta dag, - þó að hún væri nánast alblind. Síðasta heimsóknin til hennar er eftirminnileg. Hún spurði almennra frétta af ættingjunum og maður fann að hún var sátt og glöð eftir langa ævi og var tilbúin að hafa vistaskipti yfir í æðri veröld.

Blessuð sé minning Ingibjargar á Hala.

Þorbjörg Arnórsdóttir.