Þuríður Þórðardóttir fæddist í Reykjavík 3. febrúar 1954. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 5. mars 2023.
Foreldrar hennar eru Sigþóra Karlsdóttir, f. 25. september 1934, og Þórður Jónsson sem nú er látinn. Systkini: Karl Eðvarð, f. 31. maí 1955, Ragnheiður, f. 28. nóvember 1957, Jón Sigurður, f. 28. nóvember 1963, Pálína Eyja, f. 24. maí 1966.
Maki 12. ágúst 1978: Sævar Guðjónsson, f. 9. nóvember 1956. Þau skildu árið 1997. Börn þeirra: 1) Þórður, f. 21. febrúar 1978. Maki hans er Valgerður Jónsdóttir, f. 25. september 1976. Barn þeirra er Sylvía, f. 30. nóvember 2006. 2) Benedikt, f. 6. júlí 1979. Maki hans er Sunna Lind Ægisdóttir, f. 5. júní 1990. Börn þeirra eru Ísafold Lilja, f. 10. nóvember 2006, Elísabet Fróðný, f. 6. júní 2008, og Friðmey Dögg, f. 13. október 2013. 3) Lilja, f. 21. október 1981. Börn hennar eru Katrín Lea, f. 15. júní 2003, Elísa, f. 21. febrúar 2006, og Lovísa, f. 24. júlí 2009.
Eftir hefðbundið barnaskólanám gekk Þuríður í Gagnfræðaskóla Akraness þar sem hún lauk landsprófi og síðan lá leiðin í Verslunarskóla Íslands, en þar lauk hún verslunarprófi. Eftir verslunarpróf hóf Þuríður störf hjá Blaðaprent og síðar á skrifstofu KFUM & K í Reykjavík. Stærstan hluta starfsævinnar starfaði hún sem heilbrigðisgagnafræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi (HVE) auk þess sem hún starfaði sem heilbrigðisgagnafræðingur og skrifstofustjóri hjá geðdeild Landspítalans um árabil. Síðustu starfsárin starfaði Þuríður sem deildarstjóri heilbrigðisgagnadeildar HVE.
Útför Þuríðar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 21. mars 2023, klukkan 13.
Til þín elsku hjartans systir mín.
Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
Þetta ræddum við oft og vissum að við hefðum ekkert um það að segja hvenær
við yfirgæfum þessa jarðvist. En svo kom afmarkaða stundin þín. Það er ekki
hægt að vera tilbúinn þótt við vissum hvert stefndi. Þú ert horfin sjónum
okkar og heldur áfram á þeirri leið sem þér er ætluð. Þú fórst um borð í
skipið sem sigldi úr höfn og hvarf út við sjóndeildarhring. Eftir stend ég
og horfi á það hverfa. Ég veit líka og trúi að hinum megin sjái aðrir
skipið birtast og þar hafirðu fengið góðar móttökur.
Elsku hjartans Þura mín! Hvernig á ég að kveðja þig hinstu kveðju? Það er
einhvern veginn ekki hægt. Ég veit þú ert þarna. Ég veit að það er ekki
langt á milli okkar. Ég trúi að þú sért aðeins komin á aðra tíðni - eins og
ég sé með stillt á RÚV og þú á Bylgjuna. Framþróunin í okkar efnislega
heimi er ekki komin það langt að hægt sé að stilla tíðnina okkar saman. Við
ræddum þetta, að svona yrði það - þangað til næst. Í huga mínum og hjarta
verður þú alltaf nálæg.
Minningarnar eru ótal margar. Það eru þrjú ár á milli okkar. Við ólumst upp
saman og áttum mörg löng samtöl um þann tíma, alltaf að pæla og átta okkur
á sjálfum okkur og viðbrögðum okkar í tilverunni og einnig út frá faglegum
sjónarmiðum. Það er svo margt sem er bara okkar á milli, en ég mun geyma
það í hjarta mínu.
Við töluðum um allt: Gleði, sorgir; tilfinningar okkar hverju sinni. Hvað
lífið bauð okkur að takast á við. Við hlustuðum á bækur, lásum bækur og
bárum okkur svo saman. Bentum hinni á að hún yrði nú að lesa þessa bók. Ég
var að ljúka við bók um daginn og stóð mig að því að ætla að hringja í þig
og taka umræðuna. En það er víst ekki símasamband til þín. Svo ég talaði
bara út í alheiminn og gerði ráð fyrir að þú næmir skilaboðin.
Við rákumst á áhugaverðar greinar á netinu um allt milli himins og jarðar
og sendum hvor annarri. Iðulega var nóg að hugsa til hinnar, þá kom
hringing. Oft kom ekki einu sinni hringing á símanum því við vorum mættar á
línuna eða hin ætlaði að fara að hringja.
Við fórum á bókamarkaði og hlógum okkur máttlausar að
fimmaurabrandarabókunum. Við höfðum sama húmor, sem getur alveg verið
svartur og gátum hlegið endalaust að vitleysunni í sjálfum okkur.
Út frá fyrri atvinnu okkar beggja höfðum við báðar áhuga á alls konar
tölvukerfum og öppum eins og Heilsuveru og Island.is o.fl. og spáðum í hvað
væri gagnlegt að hafa fyrir notendur. Sendum gjarnan tillögur.
Þér var margt til lista lagt. Þú varst m.a. góður penni og settir gjarnan
saman vísukorn ef því var að skipta. Það var þá skrifað á smá miða, vel
geymdan, sem enginn annar sá, en ég fékk að heyra. Alltaf hógvær.
Þér fannst gaman að prjóna og reyndir að fá mig til þeirrar iðju, sem var
auðvitað vita vonlaust, en það mátti reyna. Ég á smá renning á prjónum sem
ég byrjaði á þegar við fórum síðast á Akureyri. Það var fest á filmu! Það
gafst betur að þú prjónaðir og ég gengi um gólf og þannig töluðum við líka
mikið saman.
Við fórum saman í bústaði, gengum saman úti í náttúrunni og sendum hvor
annarri myndir þegar við vorum fjarri og þegar við gengum hvor sínum megin
við flóann. Ég úr Elliðaárdalnum, þú úr Ölveri eða við sjávarsíðuna á
Skaganum.
Á göngum okkar skoðuðum við gróðurinn, tókum myndir og flettum svo upp
bókum út frá því þegar heim var komið. Við urðum að vita hvaða heiti blómin
báru. Síðasta uppfletting var um purpuraþistil.
Við áttum ógleymanlega stund fyrir nokkrum árum lengst inni í Berjadal í
Akrafjalli þar sem við sátum með fullan dall af krækiberjum og kaffi á
gamla brúsanum. Þá duttum við inn í algjöra djúpa kyrrð sem gagntók okkur
báðar á sama augnabliki og við litum hvor á aðra.
Gönguferðir voru þitt líf og yndi, bara fara út í buskann. Yfir fjöll og
firnindi og þú ljómaðir eins og sólin þegar Hornstrandir bar á góma. Enda
áttirðu pantaða ferð í sumar. En almættið ákvað að þú færir í stærri ferð
þar sem fegurðin er mikilfenglegri og litrófið stærra en við þekkjum. Það
er eitthvað fyrir þig.
Í Ölverssumarbúðunum áttirðu þitt annað heimili. Þangað sóttirðu gleði og
styrk. Bara að skreppa aðeins upp eftir og sitja í brekkunni eða með
kaffibolla á góðri stundu á tröppunum ýmist ein eða í návist vina. Það
endurnærði þig. Umhyggja þín fyrir starfinu þar og staðnum er aðdáunarverð
og ég veit að það gaf þér mikið að vera þar. Þegar veðurhorfur voru slæmar,
þá hafðirðu áhyggjur af því að gætu verið opnir gluggar upp frá og að
vatnið gæti frosið. Þá var hringt eða jafnvel skroppið upp eftir.
Í mínum augum varstu engill, systir mín kær. Þú varst svo ljúf og góð,
vildir öllum vel. Hógvær og hjartahlý. Brosið þitt blíða skein af
góðmennsku. Þú varst kærleiksrík, hjálpsöm, skilningsrík. Þú varst með
mikla réttlætiskennd og lést alveg í þér heyra ef svo bar undir. Þú hafðir
ríka skipulagshæfileika.
Þú hafðir svo margt til að bera. Yndisleg móðir og amma allra stelpnanna
þinna sjö sem þú varst svo endalaust stolt af og naust þess að sjá þær vaxa
og dafna. Það var gaman að hlusta á þig segja fréttir af þeim. Missir
þeirra er mikill.
Gegnum veikindi þín sl. tvö ár sýndirðu slíkt æðruleysi að það er ekki hægt
að útskýra það, varst yfirveguð og róleg allt til enda. Þú áttir trú og það
varð mér augljóst hversu mikilvægt það er manninum að trúa á eitthvað sér
æðra. Við töluðum um lífið og dauðann og allt þar á milli. Hvað þú varst að
upplifa hverju sinni. Kannski næ ég að sjá vorsólina, sagðir þú við mig
og í raun náðir þú því. Það kom eins og fallegur vordagur rétt fyrir
ferðalagið stóra og þú sást sólina skína. Inn um gluggann barst fagur
fuglasöngur andartakið sem þú kvaddir.
Elsku hjartans systir mín. Við tengdumst sterkum böndum síðari hluta
ævinnar og áttum trúnað hvor annarrar. Ég bý að visku þinni, gæsku og
skilningi. Nú ertu laus við þjáningu lífsins hér og færð að dvelja í
ljósinu bjarta. Ég kveð þig að sinni og segi lovjú eins og við kvöddumst
alltaf. Ég veit þú svarar lovjútú.
Þín systir,
Ragnheiður (Ranka).