Steingrímur Guðjónsson fæddist 27. júlí 1948 í Reykjavík. Hann lést á Landspítalanum 6. mars 2023. Foreldrar hans voru hjónin Guðjón Steingrímsson, hæstaréttarlögmaður, f. 5. febrúar 1924, d. 26. júní 1988 og Margrét Katrín Valdimarsdóttir, húsmóðir, f. 6. júní 1926, d. 10. júlí 2016.
Systur hans eru Valdís Birna Guðjónsdóttir, f. 12. júní 1950, eiginmaður hennar er Einar K. Jónsson, f. 19. október 1950, Þórdís Guðjónsdóttir, f. 20. október 1951, eiginmaður hennar er Sigurður Björgvinsson, f. 27. nóvember 1950, og Ólafía Sigríður Guðjónsdóttir, 6. nóvember 1959, eiginmaður hennar er Jón Auðunn Jónsson, f. 15. júní 1957.
Steingrímur eignaðist son sinn Guðjón, f. 19. ágúst 1967, móðir hans er Áslaug Bjarnadóttir. Börn Guðjóns og fyrrverandi eiginkonu hans Guðrúnar Elínar Guðmundsdóttur, f. 26. september 1970, d. 3. desember 2022, eru tvíburarnir Arnór og Elísa, f. 10. janúar 1997. Sambýlismaður Elísu er Margeir Ingi Margeirsson, sonur þeirra er Atlas Freyr, f. 30. janúar 2021. Fyrir á Margeir Ingi dótturina Írisi Lind.
Eiginkona Steingríms er Sigríður Inga Svavarsdóttir, hárgreiðslumeistari, f. 14. nóvember 1952. Foreldrar hennar voru hjónin Svavar Halldórsson, vöruhússtjóri, f. 16. nóvember 1932, d. 16. júní 1989 og Kristín Ingvarsdóttir, húsmóðir, f. 14. febrúar 1933, d. 17. október 2011.
Steingrímur og Sigríður Inga gengu í hjónaband þann 9. október 1974. Dætur þeirra eru: 1) Kristín Lind, f. 26. ágúst 1975, eiginmaður hennar er Kristján Ragnar Þorsteinsson, f. 17. mars 1974. Synir þeirra eu Steingrímur Daði, f. 13. apríl 2001, og Ragnar Kári, f. 19. febrúar 2007. 2) Hrund, f. 22. október 1981.
Steingrímur útskrifaðist með gagnfræðipróf frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Hann hóf síðan nám við Iðnskólann í Reykjavík og útskrifaðist með sveinspróf í offsetprentun. Eftir útskrift starfaði hann lengst af hjá Svansprent. Steingrímur stofnaði prentsmiðjuna Steinmark ásamt Markúsi Jóhannssyni árið 1982 og saman ráku þeir prentsmiðjuna í nokkur ár en þá tók Steingrímur við rekstrinum sem hann sinnti fram á síðasta dag.
Steingrímur var virkur í ýmsum félagsstörfum í Hafnarfirði, á sínum yngri árum var hann í J.C. og handknattleiksdeild FH. Svo lágu leiðir hans í frímúrararegluna Hamar í Hafnarfirði og var þar virkur félagi fram á síðasta dag. Steingrímur stundaði mörg áhugamál var m.a. í Golfklúbbnum Keili, hestamannafélaginu Sörla og Rotaryklúbbi Hafnarfjarðar og gengdi þar einnig formennsku um tíma.
Steingrímur og Sigríður Inga áttu stóran hóp fjölskyldu og vina sem þau nutu mikilla samvista með og ferðuðust með bæði innanlands og utan.
Útför Steingríms fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 23. mars 2023, klukkan 15.
Steina kynntist ég þegar við Þórdís, systir hans, vorum að draga okkur saman.
Steini var með skemmtilegustu mönnum. Hann hafði oft gamanmál á hraðbergi, sagði sögur og átti auðvelt með að sjá broslegar hliðar á málunum. Hann var einstaklega orðheppinn og hnyttinn í tilsvörum.
En fyrst og fremst var hann frábær félagi og vinur. Það sýndi hann þegar ég kynntist honum betur. Steini var mikill félagsmálamaður. Hann var frímúrari, einnig var hann frá árinu 1999 félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar. Þar gegndi hann öllum þeim verkum og embættum sem honum voru falin af alúð. Hann var forseti klúbbsins starfsárið 2012-2013. Ég á Steina það að þakka að ég gekk til liðs við klúbbinn árið 2001. Einnig hafði hann á yngri árum verið félagi í Junior Chambers.
Steini stundaði íþróttir frá unga aldri. Hans félag var FH. Hann spilaði handbolta með meistaraflokki félagsins og varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari. Steini sat um skeið í stjórn handknattleiksdeildar FH og var alla tíð mjög umhugað um hag félagsins. Í mörg ár stundaði hann golf og var félagi í Golfklúbbnum Keili. Steini var einnig félagi í svokölluðu Brynjugengi, hópi 20 félaga sem spiluðu saman golf. Þar naut hann sín vel í góðum vinahópi við útivist og hreyfingu.
Steini lærði offsetprentun. Hann stofnaði prentsmiðjuna Steinmark. Jafnframt prentsmiðjurekstrinum var hann útgefandi Fjarðarpóstsins, blaðs sem hann gaf út um margra ára skeið og dreift var í öll hús í Hafnarfirði.
Þau hjónin, Steini og Inga, ráku prentsmiðjuna með myndarbrag. Síðustu árin voru þau farin að draga saman seglin, seldu húsnæði prentsmiðjunnar og minnkuðu við sig. Þau leigðu húsnæði úti á Völlum og héldu áfram starfsemi þar. Steini vann svo lengi sem kraftar leyfðu með Ingu sér við hlið.
Steini var mjög hæfileikaríkur í sínu fagi. Það fékk ég að reyna þegar ég var í blaðaútgáfu í tengslum við stjórnmálavafstur mitt í Garðabæ. Ég var ritstjóri og sá um skriftir ásamt félaga mínum, en Steini sá um að prenta. Þá sá maður hversu klár hann var og næmur á útlit, letur og liti.
Steini var mikill útivistarmaður. Í gegnum tíðina átti hanni góða bíla sem hentuðu til ferðalaga, ekki síst um hálendið. Þá átti hann líka snjósleða sem farið var á í vetrarferðir um hálendi og jökla. Sumrin voru líka vel nýtt til ferðalaga. Stórfjölskyldan naut þekkingar hans á landinu. Oft var farið um svæði þar sem sagan talarar út úr landslaginu við hvert fótmál.
Mér er minnisstæð ferð með systkinunum og mökum um slóðir Sturlunga og Ásbirninga í Skagafjörð fyrir fáeinum árum. Einkenni þessara ferða var einlægur áhugi og virðing fyrir landi og sögu.
Stórfjölskyldan; systkini, makar, börn og tengdabörn, hefur í fjöldamörg ár farið í stórar útilegur hvert sumar þar sem notið er samvista og landið skoðað. Í þessar ferðir eru gítar og söngbækur með í farteskinu og lagið tekið og sögur sagðar. Steini hafði fallega söngrödd og hafði gaman af því að taka lagið. Hann átti sér sín uppáhaldslög. Að öðrum lögum ólöstuðum var Ég er kominn heim (Ferðalok) það lag sem stóð upp úr og hann söng af innlifun við ýmis tækifæri, svo sem þegar stórfjölskyldan eða vinir komu saman.
Þegar við hjónin fluttum aftur í Hafnarfjörðinn lagði Steini sig í framkróka við að treysta böndin og ekki síður tengja okkur inn í sinn vina- og félagahóp. Þetta kunnum við vel að meta og erum þakklát fyrir. En nú er komið að leiðarlokum. Eftir situr sorgin og söknuðurinn, en um leið góðar minningar um góðan dreng sem aldrei gleymast.
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Við Þórdís þökkum Steina fyrir samfylgdina og allar góðu stundirnar um leið og við vottum Ingu, börnum, barnabörnum og tengdabörnum okkar dýpstu samúð.
Sigurður Björgvinsson.