Guðrún Rannveig Guðmundsdóttir fæddist á Vesturgötunni í Reykjavík 14. nóvember 1931. Hún lést í Hafnarfirði 29. mars 2023.

Hún var dóttir hjónanna Rannveigar Guðrúnar Ólafsdóttur, f. 23.11. 1890, og Karls Zophoníasar Karlssonar, f. 28.1. 1892. Guðrún Rannveig var þeirra tíunda barn, það níunda sem komst á legg, og ellefta barn móður sinnar. Þegar Guðrún var á þriðja ári fæddi móðir hennar tólfta barnið andvana og lést hún af barnsförum 10.3. 1934. Eftir það tvístraðist barnahópurinn, í misgóðar vistir. Einar Karlsson er einn á lífi af systkinunum: bróðir Guðrúnar sammæðra Gunnar Pétursson og alsystkinin Guðrún eldri, Ólafur, Fríða, Jón, Jarþrúður, Benedikta og Sigríður Karlsbörn.

Guðrún Rannveig var ættleidd af móðursystur sinni, Jónínu Dórótheu Ólafsdóttur húsmóður, f. 25.10. 1885, og eiginmanni hennar, Guðmundi Sigurjónssyni sjómanni, f. 3.10. 1889. Guðrún fluttist til þeirra á Austurgötuna í Hafnarfirði á sumardaginn fyrsta 1934 og leit ætíð á það sem sína mestu gæfu. Hún ólst upp með bræðrum sínum Gunnari Guðmundssyni, f. 5.8. 1917, sem ætíð var kallaður Gunni Dó, götusópara og bæjarstarfsmanni, og Sigurjóni Magnúsi Guðmundssyni vélstjóra, f. 20.3. 1919. Sigurjón lést af sárum sínum.

Guðrún Rannveig giftist Agli Hinrikssyni Hansen bifvélavirkja á þrettándanum 1951. Synir þeirra eru fjórir: 1) Guðlaugur Hafsteinn framreiðslumaður, f. 6.12. 1950, giftur Maríu Hilmarsdóttur, f. 28.10. 1958. Þau eiga þrjá syni og fjögur barnabörn. 2) Sigurjón Magnús blaðamaður, f. 17.1. 1954, giftur Kristborgu Hákonardóttur, f. 3.7. 1953. Þau eiga fimm börn og ellefu barnabörn. 3) Egill stýrimaður, f. 18.8. 1956. Kona hans var Kristborg Kristinsdóttir, f. 8.10. 1962, d. 14.6. 2004. Þau eiga tvo syni og sex barnabörn. 4) Gunnar Smári blaðamaður, f. 11.1. 1961, giftur Öldu Lóu Leifsdóttur, f. 12.2. 1962. Þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn.

Guðrún og Egill skildu. Guðrún giftist síðar Kristjáni Guðbirni Jónssyni, Bjössa, verkamanni, f. 4.7. 1935 og eignuðust þau soninn Kristján Rúnar 19.3. 1970. Kristján er giftur Guðrúnu Björk Sigurjónsdóttur, f. 30.10. 1972, og eiga þau sex börn og eitt barnabarn. Kristján Guðbjörn dó 20. október 2018 og bjó Guðrún eftir það ein.

Guðrún Rannveig afgreiddi meðal annars í söluturninum Sóley við Strandgötuna í Hafnarfirði, í Bakaríi Jóns Símonarsonar við Bræðraborgarstíg og víðar. Hún var matráður í leikskólanum í Völvufelli og síðustu áratugi starfsævinnar matráðskona hjá Ríkissjónvarpinu. Þau Bjössi ferðuðust víða um heim á efri árum, komu til allra heimsálfa og óteljandi landa. Guðrún flutti úr Hafnarfirði þrítug en var alltaf á leiðinni heim aftur. Þótt hún hafi fæðst í Reykjavík og búið þar stærstan hluta ævinnar var hún alla tíð Hafnfirðingur, og æ meiri því lengur sem leið á ævina. Síðustu misserin bjó hún á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Útför Guðrúnar Rannveigar verður í Hafnarfjarðarkirkju í dag, 12. apríl 2023, klukkan 16.

Einu sinni fékk pabbi að gista á Tjarnarstígnum eftir að mamma skildi við hann. Hann svaf í rúminu mínu og svæfði mig með því að strjúka þumlinum eftir handarbakinu á mér. Ég man svo sem ekki mikið eftir mér fyrir þennan tíma. Og engum stundum þar sem pabbi sýndi mér svona friðsæla hlýju. Ég var líklega nýorðinn sex ára. Þetta er eina minningin sem ég á um pabba þar sem ég fann til öryggis, þar sem mér fannst sem hann myndi vernda mig.

Það kom í hlut mömmu að passa upp á mig. Hún gerði það ekki með faðmlögum eða kjassi. Maður getur verið vondur við fólk með því að vera of góður við það, hafði hún eftir mömmu sinni. Hún lét mig frekar heyra það við kvöldverðarborðið að hún hefði verið alveg hissa á að ég kynni allan textann við She Loves You Yeah Yeah Yeah. Ég hafði skriðið ofan í öskutunnu í leit að góðum hljómburði, lyfti svo lokinu reglulega til að hleypa út tónunum. Þeir bárust til mömmu upp á þriðju hæð í Steindórshúsinu við Seljaveg. Enginn annar hefur hrósað mér fyrir söng.

Mamma skammaði mig ekki. Ekki svo ég muni. Hún skammaði mig ekki einu sinni fyrir að troða mér ofan í öskutunnur. Hún leyndi hins vegar ekki vonbrigðum sínum. Hvers vegna þarftu að skríða niður á Framnesvöll, geturðu ekki gengið þangað eins og önnur börn? Ég útskýrði að ég hefði verið með bíl og hefði þurft að keyra hann alla leiðina. Bílar geta ekki flogið. Ég á bara ekki fleiri bætur á buxurnar þínar, sagði mamma. En svo fann hún leðurbætur. Sem voru fullkomnar í bílaleik.

Það þýddi lítið að kvarta við mömmu. Þeir eiga bágt sem eiga bágara en þú, var viðkvæðið. Þetta hafði hún líka eftir Dórótheu ömmu.

Mamma hefur örugglega grátið þegar hún varð ólétt að mér. Lífið var orðið nógu erfitt. Mamma sagði mér seinna að ég hefði verið hettubarn. Líklega hef ég seinkað skilnaði foreldra minna um nokkur ár. Og árin sem bættust við voru ekki þau bestu.

Og svo fékk hún skrítið og sérlundað barn, sem erfitt var að koma fyrir. Hún tók mig því með sér í vinnuna. Ég fór með henni í Bakarí Jóns Símonarsonar á Bræðraborgarstígnum og gekk frá pöntunum, fékk svo að fara með Magna bílstjóra að keyra þær út. Magni var minn fyrsti mentor, fyrirmynd utan fjölskyldunnar. Þegar við fluttum inn í Ljósheima fór ég eftir skóla til mömmu þar sem hún vann í efnalauginni við Heimakjör og pressaði með henni jakka og straujaði buxur. Þegar ég var níu ára höfðum við mamma verið starfsfélagar í fimm ár.

Ég var mömmustrákur, hafði misst föður minn ungur í brennivínið. Mamma gat ekki leynt því hversu fátæk við vorum, en hún sýndi okkur að það var kannski ekki það versta sem gat komið fyrir. Auðvitað var fátæktin andstyggileg og grimm, en við áttum hvert annað, mamma og strákarnir. Þegar kom kvöldmatur og við settumst til borðs var maturinn kannski fábrotinn en selskapurinn var frábær, samræðurnar gefandi og allar raunir gleymdust.

Þegar ég eltist sá ég mömmu á þessum tíma með öðrum augum, ekki bara litla drengsins. Mér er nú ljóst að hún var í langvarandi áfalli. Lífið hafði ekki farið eins og hana hafði dreymt um. Ástin hafði svikið hana. Hún talaði alltaf um æsku sína sem gullöld, yljaði sér við sögur svo fólkið sem hún ólst upp með varð að samferðafólki okkar strákanna. Og ég var eitt af þessum áföllum. Ég gæti auðvitað tínt eitthvað til sem mamma gat ekki veitt mér sem barni, en það eru smámunir í samanburði við það sem hún gaf mér. Og stenst engan samanburð við það sem ég lagði á þessa konu.

Síðast þegar ég sá mömmu vakandi var hún hrædd og vissi ekki hvar hún var né hvað fólkið vildi sem var að sinna henni. Ég spilaði gamalt dægurlag, Senn fer vorið á vængjum yfir flóann, á símann minn og strauk henni með þumlinum eftir handarbakinu, eins og pabbi hafði gert við mig þegar hann gisti á Tjarnarstígnum. Og ég ímynda mér að hann hafi strokið mömmu þegar þau voru ung og lífið sem eilíft vor. Mamma róaðist og horfði á mig, óttinn hvarf úr augunum. Og svo sofnaði hún.

Smári.