Jóhannes Carl Klein fæddist á Jófríðarstöðum við Kaplaskjólsveg í Reykjavík 1. ágúst 1946. Hann lést eftir skammvinn veikindi á líknardeild Landakots 29. mars 2023.

Foreldrar Jóhannesar voru Carl Georg Klein kjötiðnaðarmaður, f. Í Reykjavík 30. apríl 1919, d. 22. desember 1999, og Þóra Lilja (fædd Færseth) Klein, f. á Siglufirði 7. júlí 1921, d. 13. febrúar 2011.

Systur Jóhannesar eru Elín Klein, f. 10. mars 1941, maki Guðni Thorsteinsson, f. 5. ágúst 1941, og Pála Klein, f. 3. júní 1948, maki Skúli Þorvaldsson, f. 7. mars 1941.

Hinn 18. febrúar 1967 kvæntist Jóhannes Guðlaugu Friðriksdóttur, f. 28. október 1947. Börn þeirra eru: 1) Lilja Klein, f. 5. júní 1965, sambýlismaður Sveinn Elías Hansson, f. 6. júlí 1961. Barn hennar er Egill Freydal, f. 6. júlí 1994.

2) Karl Georg Klein, f. 5. ágúst 1969, maki Íris Ólafsdóttir, f. 16. nóvember 1977. Barn hans er Elfa Rut Klein, f. 6. nóvember 1997. Börn þeirra: Jóhannes Karl Klein, f. 15. desember 2006, Ólafía Þóra Klein, f. 7. júní 2008, Emilía Guðlaug Klein, f. 7. júní 2008, og Ragnheiður Íris Klein, f. 17. nóvember 2009.

Hinn 24. júní 1976 kvæntist Jóhannes Heiðu Hreiðarsdóttur, f. 9. desember 1954, d 16. apríl 2021. Börn þeirra eru:

1) Katrín Klein Andreasson, f. 1. júní 1974, maki Jörgen Andreasson, f. 4. nóvember 1976. Börn hennar: Ted Olof Klein Bergman, f. 8. október 1994, og Tim Klein Bergman, f. 2. desember 1996.

2) Kristófer Klein, f. 20. mars 1979, maki Magnús Nilsson, f. 22. júlí 1965.

Sambýliskona Jóhannesar var Guðrún Halldóra Richardsdóttir, f. 8. apríl 1948, d. 29. september 2003. Börn hennar: Áslaug Guðrúnardóttir, f. 14. apríl 1973, og Trausti Skúlason, f. 10. október 1976.

Jóhannes ólst upp á Þorfinnsgötunni til 13 ára aldurs en þá fluttist hann á Melabraut á Seltjarnarnesi. Gekk hann í Austurbæjarskóla en varði sumrum sínum á Lindarbrekku við Bakkafjörð. Fór síðan í Gagnfræðaskóla verknáms að læra húsgagnasmíði. Jóhannes vann lengi á B.Ó. Trésmíðaverkstæði eða frá 1970 til 1986. Vann hann sjálfstætt við smíðar þar til hann stofnaði SJ trésmiðju 1995 og vann þar til 2002.

Var hann einyrki eða þar til hann fór að þjónusta Innnes og Dalsnes til 1. ágúst 2013. Varði hann löngum stundum í sumarhúsi sínu við Selsund.

Jóhannes verður jarðsunginn frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 18. apríl 2023, klukkan 15.

Jóhannes Carl Klein var alveg sérstök stærð í mínu lífi. Framan af var hann gestur, ögn fjarlægur, birtist á jólunum í þrískiptum brúnum jakkafötum, vestið þrengra með hverju árinu, yfirvaraskeggið sem hristi af sér tískubylgjur, fékk sér alltaf aftur á diskinn, hláturmildur, fyndinn. Í mínum augum var hann bæði aðalsmaðurinn Jóhannes Carl Klein (þá kallaður jorhæness) og hinn hversdagslegi Jói frændi. Síðastliðinn áratug urðum við góðvinir og í daglegum samskiptum sem nágrannar í Selsundi á Rangárvöllum þar sem við vorum langdvölum í húsum sem hann sjálfur teiknaði og smíðaði. Sér í lagi héldum við félagsskapnum í heimsfaraldrinum en eftir að hann hætti að vinna þá svo til bjó hann í Selsundi. Þar sat ég við skriftir en Jói var við smíðar. Við undum báðir frelsinu og sjálfræðinu í víðáttunni, verandi okkar eigin herrar og aðeins himinninn yfir okkur. Í Selsundi er enginn tími nema birtan og veðrið, þar leið honum vel og þar undraðist hann hvað lífið getur verið gott.

Ef til vill þekkti ég dálítið öðruvísi Jóa en aðrir gerðu, að minnsta kosti annan Jóa en ég heyrði stundum talað um. Allir virtust hafa skoðun á manninum því hann fór sínar eigin leiðir og enginn gat ráðskast með hann. Sjálfur hafði hann jú miklar skoðanir á mönnum og málefnum og ekki alltaf kórréttar skoðanir. Ég fékk þessar hressilegu skoðanir í hús frá fjórhjóluðum sendiboða sem birtist fyrir hornið þar sem birkitrén vaxa við hliðið, klæddan í þykkan ljósbrúnan leðurjakka, loðhúfan á höfðinu, gráir háleistar á fótum utan yfir gallabuxur skreyttar kjörvara, gúmmítúttur. Hreppstjórinn var að koma og fá hjá mér morgunkaffið, að trufla vinnandi menn, eins og hann sagði, og við ræddum daginn og veginn, veðrið og hversu voðlega væri komið fyrir í þessu þjóðfélagi, eins og hann einatt orðaði það, hlutir voru eins vitlausir og hægt var að hugsa sér en mikið er gott að fá kaffi. Þaulsetinn var hann ekki, hann var farinn jafnskjótt og hann kom.

(Stuttur leikþáttur, endurtekinn alla morgna). Jói: Jæja góðan daginn, nú ætla ég að fá kaffi. Nokkuð að frétta, nei. Já, nei, ég tók því bara rólega í morgun og fór í sturtu og rakaði mig og gerði mig sætan, sneri nærbuxunum við og eldaði mér egg og beikon og fékk mér bara bjór með, já, af hverju ekki, hér er enginn til þess að skipa mér fyrir. (Jói stingur úr kaffibollanum) Jæja, ég má ekki vera að þessu, það er best að fara að halda áfram að gera ekki neitt. (Fjórhjólið brunar út í sólarupprásina).

Sá Jói sem ég sá var ákaflega næmur maður sem skýldi sér undir þykkum skráp. Þessi skrápur var eflaust samansettur úr gömlum sársauka eins og skrápar eru yfirleitt, enda til þess gerðir. En oft sýndi hann mér sinn innri mann og var einlægur og deildi með mér minningum, sem þó voru oft nær því að vera skemmtisögur og góðar persónulýsingar. Hann saknaði Guðrúnar sinnar sem lést fyrir 20 árum og varla leið sá dagur að hann minntist hennar ekki og oftar en ekki vöknaði honum um augun. Hún var alltaf nálægt honum, það fann maður og það var alveg sjálfsögð nærvera, ljúfsár.

Fyrir mér var Jói stórmannlegur í lund en hafði einnig í sér þessa fínlegu þræði. Mér fannst hann vera aðalsmaður af þeirri gerð sem er sveitamaður í eðli sínu, frjáls í anda. Listasmiður, ákaflega vel skipulagður og skilaði vönduðu verki og fallegu. Húsin í Selsundi bera vott um það. Allir gluggarnir og hurðarnar eru táknmyndir um hans hugarfar sem hann erfði frá afa Klein. Nautnamaður var hann, held ég mér sé óhætt að segja, unnandi góðs matar og drykkjar í góðum félagsskap. Það var gaman að gefa honum að borða og hann hafði gaman af að elda fyrir okkur. Við áttum saman margar góðar kvöldstundir, nú síðast um áramótin, og ég hugsa oft um kímnina, gleðina, hláturinn sem endurómar og ber í sér alveg sérstakt viðhorf til lífsins. Þegar kom að hlátrinum þá kippti honum í kynið, það var fjölskylduhláturinn og þá gat jörð skolfið.

Það var einkennandi við Jóa að hann stóð alltaf við orð sín og vandaði til verka. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur, kannski stundum óþarflega bókstaflega, og þess á milli var hann alltaf flottur í tauinu og snyrtilegur, jafnvel þótt við værum bara tveir í Selsundi vikum saman í myrkri og vondum veðrum. Þá var lesið, hringst á, vitað hvor af öðrum. Þá var eins og við værum í útlegð frá veruleikanum, þá var annar tími, önnur lögmál. Friður.

Jói hafði yndi af náttúrunni og náttúrulegan skilning á henni. Ég undraðist oft þekkingu og skilning hans á ýmsum veðurfyrirbrigðum því hann var vakandi fyrir umhverfinu, sér í lagi þegar maður hélt hann væri sofandi yfir umhverfinu. Og dýravinur var hann, það kunni ég að meta, hann Kolur minn, sem hann kallaði alltaf vininn, naut góðs af því. Fær vinurinn ekki eitthvað, sagði hann, hló svo dátt yfir því hversu vel hundurinn kunni að meta gjafir hans. Klykkti síðan út með: Svakalega hefur hann það gott.

Enda þótt Jói hlustaði ekki manna best var stundum í samtölum okkar einhver spásagnarandi eða völvublær yfir því sem hann sagði. Hann sat með kaffið í bleikum hægindastól og fyrir utan gluggann rann Selsundslækurinn í hægðum sínum og bugðum fyrir utan gluggann, með sína djúpu hyli og undarlegu strauma, rennandi tær í hringiðum undan hrauninu niður í Rangána eins og hann hefur gert í þúsundir ára og leggur aldrei. Jói talaði um yfirvofandi heimsfaraldur löngu áður en Covid keisari krýndi sig einvald yfir heiminum og hann talaði um heimsmálin með sorgarblik eða vonbrigðablæ og undanfarinn áratug minntist hann oft á að stríð væri yfirvofandi í Evrópu. Hann yrði þó farinn og ekki vitni að því sem betur fer. Mér fannst þetta fjarstæðukennt heimsósómaröfl í karlinum þessa morgna. Heimsfaraldur, stríð í Evrópu, nei, nú hafði neikvæðnin heltekið Jóa frænda. Meira kaffi? Nei, það er bara voðalegt hvernig maðurinn hefur farið með jörðina, sagði hann, græðgin er svo mikil.

Sem mótvægi við veraldarbrölt mannsins bjó paradís innra með honum en það voru sælar endurminningar frá Bakkafirði sem hann heimti. Þangað var hann var sendur á vorin einn með skipi, fyrst sex ára gamall, á meðan amma saltaði síld á Siglufirði, og svo heim aftur á haustin, allt fram á unglingsár. Á Bakkafirði leið honum vel og þangað leitaði hugurinn á efri árum. Fólkið var svo gott, sagði Jói í undrun og djúpri aðdáun. Þetta var eitthvað til að taka sér til fyrirmyndar, þetta var eitthvað sem heimurinn var að missa.

Dauðinn kom skjótt. Á spítalanum sagði hann að sér liði eins og hann hefði verið skotinn. Og Jói var breyttur maður eða loksins orðinn algerlega að sjálfum sér. Aðalsmaðurinn kom fram í honum, í augunum ekkert nema örlögin. Engar blekkingar, engar vífillengjur, það var Jói sem áttaði sig best á hvert stefndi á meðan ég að minnsta kosti ríghélt í afneitunina. Gangur lífsins, sagði hann, nú fer ég yfrum en þú mátt ekki koma strax, lofaðu mér því, ég vil ekki sjá þig, alla vega ekki strax. Jafnvel á svona stundu komst hann ekki hjá því að vera fyndinn. Kímnigáfan var það síðasta sem yfirgaf hann. Og í raun var það ekki dauðinn sem kallaði á Jóa heldur var það ástin. Það var hún Gunna sem kallaði á hann, það sagði hann sjálfur, hann stríddi henni næstsíðustu nóttina á jörðinni með því að biðja hana að kalla aðeins hærra. Það gerði hún líka daginn eftir og Jói hlýddi kalli hennar. Gunna hafði sagt á sínum dánarbeði að hún kæmi að sækja hann eftir 20 ár. Það var árið 2003.

Ég dáðist að æðruleysinu og sáttinni sem einkenndi manninn þessar síðustu þrjár vikur eftir að í ljós kom hvert stefndi. Um leið hófst hann handa að gera hreint fyrir sínum dyrum, ganga frá öllum málum, hitta alla, gefa skipanir, stjórna eins og foringi af dánarbeðinum, því öðruvísi gat hann ekki skilið við. Hann vildi hafa allt sitt á hreinu. Og svo var hann farinn.

Í eyrum mínum hljóma hans síðustu orð: Njótið lífsins, krakkar, gerið það fyrir mig. Og það er einmitt það sem ég ætla að gera. Ég ætla njóta þess að horfa á lækinn renna djúpan og tæran með sína undarlegu strauma undan hrauninu á leið sinni til sjávar. Takk fyrir samveruna kæri frændi, hjálpsemina, hláturinn, ég bið að heilsa og við segjum það í bili.

Ófeigur Sigurðsson.