Aðalfríður Dýrfinna Pálsdóttir fæddist 11. janúar 1933 á Sauðárkróki. Hún lést 15. mars 2023 á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík.


Aðalfríður ólst upp á Sauðárkróki, miðjubarn hjónanna Páls Stefánssonar, f. á Bjarnastöðum í Blönduhlíð 13.8. 1890, d. 28.7. 1955, og Guðrúnar Soffíu Gunnarsdóttur, f. 8.10. 1896 í Keflavík í Hegranesi, d. 11.2. 1985 á Sauðárkróki. Systkini Aðalfríðar Dýrfinnu voru Sigurlaug Gunnfríður, f. 1929, d. 1995 á Akureyri, og Stefán Aðalberg, f. 1934, d. 2015 á Sauðárkróki.


Aðalfríður lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Sauðárkróks 1950, prófi frá Húsmæðraskólanum á Laugalandi 1953 og Húsmæðrakennaraskóla Íslands 1956. Hluti kennaranámsins fólst í námskeiðum við Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Þar kynntist hún eiginmanni sínum, Eyjólfi Pálssyni frá Hjálmsstöðum í Laugardal, f. 5.1. 1930, d. 27.5. 1967. Synir þeirra eru: 1) Páll, klassískur gítarleikari, f. 23.3. 1958, giftur Signýju Kjartansdóttur, f. 1960, og eiga þau tvær dætur: a) Aldísi, f. 1980, í sambúð með Sindra Birgissyni, f. 1980, þau eiga tvö börn, Magneu, f. 2006, og Jökul, f. 2010, og b) Veru, f. 1993, í sambúð með Styrmi Vilhjálmssyni, f. 1993, og eiga þau tvö börn, Sylvu Sól, f. 2017, og Storm Snæ, f. 2021. 2) Gaukur, bifvélavirkja- og matreiðslumeistari, f. 1.1. 1961, giftur Birnu Jónsdóttur, f. 1960, og eiga þau þrjár dætur: a) Katrínu Tinnu, f. 1982, gift Guðmundi Hreiðarssyni, f. 1983, en þau eiga þrjú börn, Eyju, f. 2010, Hlyn, f. 2014, og Birnu, f. 2018, b) Steinunni Eyju, f. 1991, í sambúð með Þorgeiri Sveinssyni, f. 1991, þau eiga eina dóttur, f. 2023, og c) Þórdísi Öllu, f. 2000, unnusti hennar er Arnar Freyr Yngvason, f. 1997. 3) Stefán, bifreiðasmiður og viðskiptafræðingur, f. 16.11. 1962, giftur Bergþóru Tómasdóttur, f. 1964, og eiga þau eina dóttur, Bryndísi, f. 1993, í sambúð með Aroni Jóhannssyni, f. 1990, og eiga þau tvö börn, Ölbu, f. 2017, og Atlas, f. 2021.


Aðalfríður stjórnaði gistihúsinu í Fornahvammi og kenndi við Húsmæðraskólann á Laugalandi áður en hún giftist Eyjólfi. Hann vann skrifstofustörf á Keflavíkurflugvelli, hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur og Loftleiðum. Eftir að Aðalfríður varð ekkja kenndi hún á matreiðslunámskeiðum hjá Húsmæðraskóla Reykjavíkur og heimilisfræði á gagnfræðastigi við Breiðholtsskóla og Ölduselsskóla. Á sumrin vann hún á Hótel Eddu á Laugarvatni. Hún tók sér námsleyfi eitt skólaár og nam næringarfræði við Háskóla Íslands. Hún tók þátt í félagsstarfi eldri borgara, var í Skagfirsku söngsveitinni og Kór eldri borgara.


Aðalfríður hóf sambúð með Steini Mikael Sveinssyni frá Tjörn á Skaga, f. 3.10. 1930, d. 15.3. 2023, snemma á níunda áratugnum. Steinn átti einn uppkominn son, Hörð, skósmið, f. 15.8. 1951. Steinn vann síðustu ár starfsævinnar á lager Hitaveitu Reykjavíkur en rak áður verktakafyrirtækið Hlaðprýði.


Útför Aðalfríðar Dýrfinnu Pálsdóttur og Steins Mikaels Sveinssonar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 5. apríl 2023, klukkan 13.

Elskuleg tengdamóðir mín til næstum fimm áratuga lést þann 15. mars sl. Alla var alla sína 90 ára lífstíð árrisul og vinnusöm. Síðustu misserin dvaldi hún þó í fyrritíðar hugarheimi, benti okkur af rúmstokknum á að nóg væri til frammi, hún hafi verið að enda við að hella upp á könnuna. Endilega fáið ykkur meira. Hún var vön að standa fyrir stafni í veislusölum stórra heimila og hótela enda menntaður hússtjórnarkennari. Þarna var hún í huganum, að bústýrast. Hún ólst upp á Króknum, miðjubarn foreldra sinna þeirra Páls Stefánssonar og Guðrúnar Soffíu Gunnarsdóttur. Aðalfríður Dýrfinna Pálsdóttir (kölluð amma Alla á mínu heimili) lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Sauðárkróks 1950. Þaðan fór hún á húsmæðraskóla og lauk prófi frá Húsmæðraskólanum á Laugalandi vorið 1953 og Húsmæðrakennaraskóla Íslands vorið 1956. Hún réð sig í vist til móðurbróður síns Péturs Gunnarssonar í Reykjavík á meðan hún lauk húsmæðrakennaranáminu. Hluti af náminu fólst í námskeiðum á Laugarvatni, en í janúar 1955 var hún stödd þar ásamt hópi námsmeyja þegar hún fékk fréttirnar af veikindum föður síns sem það ár leiddu hann til dauða. Vikurnar á Laugarvatni urðu örlagaríkar, því þar kynnist hún ungum bóndasyni frá Hjálmsstöðum, Eyjólfi Pálssyni, Samvinnuskólagengnum harmonikkuleikara (f. 5.1. 1930, d. 27.5. 1967). Þau trúlofast sjöunda febrúar 1955. Giftast ellefta janúar 1958. Stóran hluta þess rúma áratugar sem þau áttu samleið dvöldu þau fjarri hvort öðru og hafa varðveist mörg ástarbréf. Veturinn 1955-56 er hún í Reykjavík. Sumarið 1956 stjórnar Aðalfríður gistihúsinu í Fornahvammi. Veturinn 1956-1957 er hún að kenna matreiðslu við Húsmæðraskólann á Laugalandi, fyrir norðan, en Eyjólfur að vinna ýmis skrifstofustörf sunnan heiða. Mikill tími fer í húsbygginu hjónaleysanna og bréfin lýsa eltingaleik við iðnaðar- og bankamenn. Búið að slá upp fyrir þriðju hæðinni segir hann glaður í einu bréfanna og þakkar henni fata- og peningasendingu. Hann lýsir tíðum heimsóknum til föður síns sem liggur banaleguna á Hjálmsstöðum og skilar kveðjum frá honum til stúlkunnar úr Hegranesinu sem honum hafi litist svo ljómandi vel á. Þeir eru þarna í byggingafélagi þrír Hjálmsstaðabræður Hilmar, Ásgeir og Eyjólfur. Eyfi og Alla gifta sig 1958 og elsti sonurinn fæðist sama ár, allt klárt nema hurðar og gólfefni enn bráðabirgða í blokkinni á Laugarnesveginum. Þeim fæðast þrír synir á fjórum árum, Páll, Gaukur og Stefán. Eyjólfur vinnur á skrifstofunni hjá Bæjarútgerðinni og svo hjá Loftleiðum og Alla hugsar um litlu strákana. Hann spilar undir dansi á kvöldin, m.a. í Alþýðuhúsinu. Eyjólfur veikist og Aðalfríður verður ung ekkja, 1967. Fyrsta sem Alla gerir þá er að taka bílpróf. Þau Eyjólfur áttu nýlegan bíl en Alla hafði aldrei lært að keyra. Strákunum er eftirminnileg fyrsta bílferðin með móður sinni en hún var auðvitað í kirkjugarðinn að leiði föður þeirra. Alla reyndist alla tíð farsæll bílstjóri. Þegar undirrituð kynnist Páli þá er Aðalfríður búin að vera ekkja í 10 ár. Fyrstu árin hafði hún bjargað sér með því að skúra barnaheimili og kenna á matreiðslunámskeiðum hjá Húsmæðraskólanum, á kvöldin. Á sumrin vann hún á Hótel Eddu á Laugarvatni við framreiðslu og þvotta, útbúa nesti fyrir óbyggðahópferðir og áfram eftir að hún varð fastráðin hússtjórnarkennari á gagnfræðastigi við nýstofnaða skóla í Breiðholtinu stagaði hún sængurver hótelsins. Strákunum kom hún í vinnu á Laugarvatn, í sveit hjá fólkinu þeirra, í byggingavinnu eða hótelstörf á sumrin. Einn varð klassískur gítarleikari, annar kokkur og sá yngsti flugfélagarekandi. Hún var stolt af þeim öllum. Við glöddumst fyrir hennar hönd þegar hún kynntist Steini Mikael Sveinssyni (f. 3.10. 1930, d. 15.3. 2023) í kringum 1981. Þegar við Páll komum heim frá námsdvöl gítarleikarans á Spáni var Steinn fluttur inn til hennar í blokkaríbúðina við Laugarnesveg. Þaðan fluttu þau á Rauðalækinn og síðasta áratuginn á Dalbrautina. Börnin okkar þekkja engan annan afa en Steina afa. Eyjólfur og Aðalfríður höfðu fest kaup á gömlu húsi við Bústaðablett í félagi við Hilmar og Ásgeir, bræður Eyjólfs. Húsið þurfti að víkja vegna gatnaframkvæmda við nýjan Borgarspítala. Húsið var tjakkað upp á tvo vörubílspalla og ekið austur í Laugardal en þar höfðu fjórir Hjálmsstaðasynir keypt landspildu af bændum. Eyjólfur var látinn áður en húsið komst á sinn stað, dregið á rafmagnsstaurum yfir mýrina að Lurkabrekku. Grímur, Hilmar, Ásgeir og ekkja Eyjólfs gerðust stórtæk við skógrækt á skikanum. Grímur byggði sér strax hús og fljótlega eftir að Steinn kom inn í myndina var Ásgeir búinn að byggja sér nýtt hús. Steinn og Alla deildu því gamla húsinu bara með Hilmari. Steini kom því í kring að Bústaðablettshúsinu var lyft upp af moldinni, sérinngangur og pallar smíðaðir í kring og meira að segja komið fyrir inniklósetti. Þetta varð Öllu og Steina sumarparadís meðan fæturnir báru þau. Hjá Öllu var alltaf allt vel straujað, fínt og fágað. Fjölbreytt bakkelsi og aufúsugestir. Það var rúmt um okkur í jólaboðum og í bolludagskaffi á Rauðalæknum. Þar hittum við Hörð, Möllu, Bubbu, Dodda og Gunnu. Alla veiktist af alzheimer sem ágerðist síðustu árin. Þá hætti hún í kór eldri borgara, en hélt vel fallegu altröddinni. Hún fluttist á Skjól fyrir einu og hálfu ári og Steinn kom til hennar mánuði síðar. Þau létust þar bæði, sama dag, með nokkurra stunda millibili. Þegar við heimsóttum hana undir lokin bað hún okkur að hjálpa sér við að finna litlu strákana sína. Karlarnir þrír sem brostu til hennar hvern dag voru henni samt kunnuglegir. Barnabörnin urðu sex og barnabarnabörnin orðin tíu. Hennar er og verður sárt saknað.

Signý Kjartansdóttir.