Sævar Jónsson fæddist í Reykjavík 28. mars 1950. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 7. apríl 2023.
Foreldrar hans voru hjónin Þorgerður Jónsdóttir f. 14. ágúst 1920, d. 14. september 2010, og Jón Friðriksson, f. 2. janúar 1918, d. 7. nóvember 2007. Systkini Sævars eru Friðrik, f. 1947, og Sólrún, f. 1957.
Eftirlifandi eiginkona Sævars er María Gunnarsdóttir, f. 14. desember 1949. Börn þeirra eru: 1) Jón Gunnar, f. 2. apríl 1973, unnusta Þóra Einarsdóttir, stjúpsonur Einar Andri Bergmannsson, f. 10. mars 2004. 2) Ásmundur, f. 17. ágúst 1974, maki Björg Stefanía Sigurgeirsdóttir. Sonur Ásmundar úr fyrra hjónabandi er Daníel Patrick, f. 19. júlí 2000. Synir Ásmundar og Bjargar eru Sigurgeir Atli, f. 23. febrúar 2010, og Sævar Orri, f. 20. ágúst 2012. 3) Atli, f. 20. febrúar 1981, maki Bryndís Sveinsdóttir, börn þeirra eru Ingibjörg María, f. 28. apríl 2007, Andri Freyr og Kári Freyr, f. 17. des. 2010. 4) Jóhanna, f. 25. október 1985, maki Jónas Hagan Guðmundsson, dætur þeirra eru María Ísey, f. 24. desember 2007, og Eva Sóley, f. 14. desember 2014. Dætur Jónasar úr fyrra hjónabandi eru Bryndís Thelma, f. 22. september 1994, Særún Björk og Kristín Anna, f. 14. september 2001.
Sævar útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1975. Hann var í fullu starfi hjá Loftorku í Reykjavík í 44 ár og starfaði lengst af sem framkvæmdastjóri Loftorku.
Útför hans verður frá Vídalínskirkju í dag, 24. apríl 2023, og hefst athöfnin kl. 13.
Ég á ótal margar góðar minningar um þig pabbi minn. Þið mamma voruð dugleg að fara með okkur börnin í ferðalög innanlands og utan. Ég á góðar minningar frá Seyðisfirði, þegar við fórum að hitta Atla frænda heitinn eitt sumarið og við lékum okkur í sjónum í frábæru veðri. Einnig voru margar ferðirnar upp í Kofa hjá afa og ömmu. Mér er mjög minnisstætt þegar við fórum til Spánar sumarið '82 þegar HM var haldið þar. Þá fékk ég að fara á fyrsta alvöru fótboltaleikinn minn þegar við fórum á leik Skotlands og Sovétríkjanna sálugu í Malaga. Einnig fékk ég að fara með þér og Sidda á enska pöbbinn og horfa á leikina sem voru sýndir en þetta var í raun í fyrsta skipti sem flestir leikir voru sýndir beint í sjónvarpi. Ég fékk fótboltaáhugann þarna beint í æð sem hefur fylgt mér alla tíð síðan. Að halda með Liverpool fékk ég frá þér í vöggugjöf og eftir að við fluttum í Garðabæinn urðum við öll fjölskyldan mikið Stjörnufólk. Evrópuárið '14 hjá Stjörnunni er djúpt í minningunni. Ég ætlaði ekki til Mílanó að sjá Stjörnuna spila við Inter en þú tókst það ekki í mál og bauðst mér með og með krókaleiðum og hjálp Adda bróður fundum við flug. Þetta var frábær ferð þar sem við bræðurnir vorum allir saman með þér og 300 öðrum Garðbæingum. Einnig eru eftirminnilegar allar fótboltaferðirnar til Englands.
Þú varst höfuð fjölskyldunnar, algjör klettur og elskaðir hana út af lífinu, vinmargur, með ríka réttlætiskennd, ákveðinn og mikil félagsvera. Í dag eru nokkrir vinir þínir líka vinir mínir og einnig vingaðist þú við marga vini mína. Mér þykir vænt um það og þannig mun minning þín lifa meira með mér.
Þú fylgdir okkur bræðrum í fótboltanum og varst alltaf til staðar. Ég á líka ljúfsárar minningar um að naglhreinsa í Stjörnuheimilinu og bera út Sjónvarpsvísinn. Hæðarbyggðin var oft eins og félagsmiðstöð enda lékum við okkur þar í kjallaranum í handbolta, borðtennis og snóker. Síðan settir þú upp körfuboltaspjald á planinu sem var mikið notað. Þú varst mikill framkvæmdamaður og þurftir alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Þú varst líka íhaldssamur, byggðir Hæðarbyggðina ungur maður og bjóst þar alla tíð fram að slysinu en þar ætlaðir þú að búa alla ævi en við ráðum víst ekki örlögum okkar. Þú vannst alla þína tíð hjá Loftorku þar sem þér leið vel og elskaðir starfið þitt. Á þessum langa starfsferli eignaðist þú líka góða vini hjá Loftorku. Þegar ég var lítill gutti fór ég stundum með þér á skrifstofuna í Skipholtinu og þar var oft Sigurður heitinn forstjóri Loftorku. Samband ykkar var einstakt og farsælt alla tíð. Ég vann svo síðar á sumrin og með skóla hjá Loftorku og kynntist þar fyrirtækinu vel og fór þá að heyra ennþá meira Sævar í Loftorku en það varstu kallaður og í seinni tíð þegar ég hef hitt fólk sem hefur spurt mig hverra manna ég væri þá hefur oft verið nóg að segja að ég sé sonur Sævars í Loftorku.
Þú fylgdist alltaf mjög vel með því sem ég var að gera og sýndir því áhuga. Studdir mig ávallt, veittir mér góð ráð og hjálpaðir mér endalaust, sérstaklega í gegnum mín veikindi. Við vorum mjög nánir alla tíð og ég leit mikið upp til þín. Við fórum báðir í viðskiptafræði, höfðum sömu áhugamál og gátum endalaust rætt viðskipti, stjórnmál, efnahagsmál og lífið sjálft.
Þú áttir 65 mjög góð ár en eftir hið hörmulega slys fyrir rúmum sjö árum breyttist allt. Vonin um að þú kæmir til baka var sterk hjá mér til að byrja með en skaðinn var það mikill að sú von dvínaði með tímanum og hvarf síðan nær alveg. Ég veit að þetta var erfitt fyrir þig, að geta ekki séð um þig sjálfur, enda hafðir þú sjálfur sagt að á hjúkrunarheimili færir þú aldrei. Ég er viss um að þú sért kominn á betri stað og við munum hittast síðar.
Elsku pabbi minn.
Takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig.
Takk fyrir að gefast aldrei upp á mér.
Takk fyrir að vera besti vinur minn.
Þinn sonur,
Jón Gunnar.
Þau voru þung skrefin sem við fjölskyldan tókum af gjörgæslu Landspítalans í lok janúar 2016. Alla þína baráttu þar hafði ég trú að þú kæmir aftur til okkar. Hann Sævar Jónsson kjaftar sig út úr þessu, sagði ein góð vinkona mín og það átti svo vel við.
Vikurnar þar á eftir voru algjör tilfinningarússíbani og mikill tími til að hugsa. Hugsa um rétt rúmlega 30 ár.
En pabbi, þetta voru bara 30 ár sem okkur voru gefin saman.
Margar andvökunætur fóru í rannsóknarleiðangur á hinum ýmsu leitarsíðum í leit að svörum. Svörum við spurningum sem ómögulegt var að svara. Spurningum sem heimsins bestu læknar gátu ekki einu sinni svarað.
Leitin fór svo út í það að vera leit að kraftaverki.
Kraftaverk sem ekki rættist.
Við tók kaldur raunveruleiki sem enginn okkar vildi taka í sátt. Stundum er erfitt að skilja þetta líf og tilgang þess. Hvað þá að útskýra það fyrir saklausum afabörnum sem héldu að plástur á ennið myndi laga höfuðhögg elsku afa.
Þú hefur alla tíð verið minn klettur og það er erfitt að kyngja því að pabbi minn, þessi stóri sterki maður sem sigrað hefur krabbamein, sé tekinn frá okkur af slysförum. Eitt höfuðhögg.
Þakklæti er mér í huga fyrir tímann okkar saman en einnig sorg og vanmáttur fyrir tímann sem við ekki fáum. Ég kemst ekki hjá því að líða eins og barni sem verður fyrir því óréttlæti að missa foreldri alltof snemma - ég er jú uppkomið barn þitt og móðir sjálf en 30 ár eru ekki langur tími - ekki nógu langur.
Síðastliðnir dagar hafa verið skrítnir. Léttir og sorg til skiptis.
Inn á milli finn ég fyrir þér að fylgja mér, á góðan og oft fyndinn hátt, sem er alveg eftir þínu höfði. Eins og t.d. fótboltinn sem stefndi beint í átt að mér og mömmu á Stjörnuleiknum um daginn, eftir að ég hafi verið að grínast út í loftið með að þú hlytir að vera sofandi á vaktinni miðað við markatölu þessa leiks. Mögulega tilviljun, en húmorinn á bak við þetta skildu allir í kring og fannst það mjög við hæfi að þú værir að vekja athygli á þér með þessum hætti.
Minningarnar hrannast upp sl. daga. Ég loka augunum og á einu augnabliki er ég komin aftur inn í stofu í Hæðarbyggðinni og bíð eftir að fréttirnar í útvarpinu klárist svo ég geti sagt þér eitthvað stórmerkilegt.
Ég minnist þess sterkt þegar ég var sirka sjö ára og naut þess að fara með þér í göngu eftir kvöldmat.
Þú gekkst rösklega og ég hljóp stórum skrefum til að halda í við þig. Göngutúr sem þú notaðir til að losa streitu eftir langan vinnudag en fyrir mig þá var það samveran með þér, bara við tvö. Oftar en ekki þá stoppuðum við í Spesíunni og keyptum okkur smá lakkrís sem við pössuðum að klára á leiðinni heim svo mamma myndi ekki fatta neitt.
Ég minnist ógleymanlegrar ferðar til Spánar þar sem ég og Katrín, þá orðnar fullorðnar, fengum að verða börn aftur og hlaupa um hin ýmsu tívolítæki og rússíbana meðan þú og mamma pössuðuð upp á tveggja ára Mísey. Við skemmtum okkur konunglega og þú hafðir svo gaman af því að sjá okkur verða unglinga aftur. Eftir frábæran dag lá leiðin heim og myrkur skall á. Ein vitlaus beygja og við villtumst í dágóðan tíma. Leiðin sem átti að taka 2 klst. endaði í 4,5 klst. Jólin þetta sama ár ákvað ég að vera sniðug og gefa þér GPS-tæki til að hafa í bílnum á Spáni. Ég vissi þó vel að það var það síðasta sem þig langaði í enda gamla góða vegakortið sem stendur alltaf fyrir sínu ávallt til taks í hanskahólfinu. GPS var óþarfi, bara óheppilegt þarna að hafa verið að keyra í svo miklu myrkri að erfitt var að lesa á kortið, eins og þú orðaðir það.
Eitt af því sem þú hafðir svo gaman af var að lesa yfir ritgerðarskrif hjá okkur systkinunum og alla tíð fékk ég þig til að lesa yfir allt það sem ég sendi frá mér sem einhverju máli skipti. Aldrei breyttir þú neinu sem ég skrifaði nema stöku sinnum stafsetningarvillum sem við vorum þó ekki alltaf sammála um.
Á síðastliðnum árum hef ég oft horft á símann minn alveg viðbúin að hringja í þig og spyrja hvort ég megi senda á þig grein til yfirlestrar eða lesa hana upp fyrir þig og fá þitt álit. Það venst kannski aldrei.
Oft pirraði ég mig á því hversu langan tíma þú gast talað um eitthvað sem nokkrar setningar hefðu getað afgreitt og spurðir mig spjörunum úr í hvert skipti sem við hittumst. Þessi samtöl eru núna eitt það dýrmætasta sem ég veit um og ég þrái það svo heitt að þú truflir mig með símtali og spurningum sem engu máli skipta og talir við mig alltof lengi.
Við áttum okkar síðustu samræður í síma þennan örlagaríka dag í janúar 2016. Ég kvaddi þig með þeim orðum að ég elskaði þig, orð sem ég notaði ekki nógu oft en einhverra hluta vegna fann ég þörf fyrir að kveðja þig með þeim orðum í þessu síðasta símtali okkar. Þú sagðir mér að fara varlega en skemmta mér vel í skíðaferðinni sem við Jónas vorum á leið í tveim dögum síðar ... góða ferð og góða skemmtun, en farðu nú varlega elskan mín, það er ekki allt keppni.
Ég er þakklát fyrir tímann okkar elsku pabbi. Sérstaklega tímann okkar saman eftir að María Ísey fæddist. Það var svo dásamleg tilfinning að upplifa þig sem afa. Afi Sævar. Þú varst auðvitað búinn að vera afi í mörg ár áður en María fæddist en þegar ég varð móðir þá upplifði ég þessa sterku tengingu sem felst í því að vera afi. Þú hafðir svo gaman af því að vera í kringum barnabörnin þín og þau sáu ekki sólina fyrir þér. Ég held m.a.s að þú hafir haft meira gaman af þeim heldur en þínum eigin börnum.
Það er erfitt að hugsa til þess að Eva hafi ekki fengið meiri tíma með þér en minningunum og sögunum deilum við reglulega með henni. Eins og myndin sem Jónas tók af þér þegar þú fékkst Evu fyrst í fangið, eins mánaðar í Sviss. Þessi mynd og þetta augnablik er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Þú tókst hana í fangið og hún brosti út að eyrum. Við foreldrarnir höfðum þá ekki séð hana brosa og hún tók ekki augun af þér. Sama augnablik áttum við þegar við lentum í Keflavík þegar við fluttum heim hálfu ári síðar og þú tókst hana í fangið.
Hún varð strax mikil afastelpa.
Enginn veit sína ævi fyrr en öll er.
Það sem ég hef lært á þessum erfiðu sjö árum er að lífið er dýrmætt og það sem var er eitthvað sem ég fæ ekki breytt og það sem verður er meiri tími og fleiri tækifæri til að lifa.
Ég er þakklát fyrir okkar tíma og allt sem var og er og verður.
Þangað til við hittumst næst.
Ég elska þig pabbi.
Jóhanna Sævarsdóttir.