Jóhann Steinar Ingibjörnsson fæddist 24. júlí 1947. Hann lést 6. apríl 2023.
Útför Jóhanns Steinars fór fram 25. apríl 2023.
Þegar við vorum lítil og ekki byrjuð að vera ein heima kom afi stundum
og sótti okkur í skólann. Oft fórum við í bílskúrinn að brasa eða stundum
settum við DVD í tækið og horfðum á klaufabárðana, Harry Potter eða Johnny
English en það var í uppáhaldi hjá afa. Svo sátum við þarna og flettum
spennt í gegnum myndaalbúm sem hann hafði sjálfur sett saman úr myndum sem
hann hafði flestar tekið en sumar, þær elstu, hafði hann fundið úti um
allt. Hann var alltaf að finna eitthvað skemmtilegt og margt gaf hann
okkur.
Stundum röltum við saman í Nettó og keyptum okkur bakkelsi og kókómjólk.
Þegar við eltumst fengum við að fara sjálf með klink. Hann var líka
duglegur að fara með okkur í ísbúðina á Smáratorgi en þá helst þegar hann
átti erindi. Afi fékk sér alltaf það sama; lítinn ís í boxi með
súkkulaðisósu.
En skemmtilegast var þegar hann var að vinna við að keyra rútur og sótti
okkur á rútu. Hann var þá á leiðinni að skila henni en vissi hvað okkur
fannst þetta gaman og fór með okkur í stutta bíltúra á rútunni. Við létum
okkur dreyma um að taka alla stórfjölskylduna hringinn um landið á
henni.
Þegar við vorum síðan sótt heim til hans fengum við tyggjó í nesti sem hann
geymdi í skál í eldhúsinu. Hann leyfði okkur alltaf að taka tvö, sem okkur
fannst geggjað.
Oft vorum við frændsystkinin saman hjá honum að smíða í bílskúrnum eða
horfa á myndir. Í eitt skiptið sneri hann hægindastólnum sínum að okkur og
hvíslaði það býr draugur hérna með mér. Við höfðum verið að spyrja hann
um draugasögur áður. Okkur fannst þetta ótrúlegt og fengum hann til að
segja okkur meira. Hann sagði að draugurinn héti Doddi og byggi á
baðherberginu hans en fylgdi honum í Veiðileysu líka.
Við vorum oft í Veiðileysu og þar átti hann sitt eigið herbergi. Svo þegar
pabbi fór að byggja í Djúpavík þá hjálpaði afi til við að byggja og oft var
hann niðri í verksmiðju að hugsa um bátinn sinn. Í hvert skipti sem við
fórum til Djúpavíkur án hans bað hann okkur að kíkja á bátinn fyrir
sig.
Þegar við vorum saman í Djúpavík sat hann oft við stóra gluggann í
borðstofunni með spjaldtölvuna fyrir framan sig að horfa á gamla hasarmynd
og með kíki og fylgdist með öllu sem gekk á í bænum. Það var ekki sjaldan
sem við sátum með honum og ræddum um hlutina sem sáust úti, inn á milli
þess sem hann sagði okkur sögur frá því þegar hann bjó þarna.
Þegar veðrið var gott sat hann úti með kaffibolla og fékk okkur til þess að
hjálpa sér með alls konar hugmyndir sem hann hafði komið í framkvæmd til
þess að bæta veiðiferðarnar.
Við afi fórum oft að veiða í Djúpavík og afi kenndi okkur að veiða í fyrsta
skiptið en hann var líka sá sem kenndi okkur að flaka fisk og sagði fullt
af sögum af því þegar hann vann á skipi að veiða. Afi var líka að vinna við
að búa til botnsjávarkíki úr röri sem hann fann og einhverju handfangi sem
hann átti. Afi talaði mikið um steininn við fossinn í Djúpavík þar sem hann
jarðaði litinn fugl þegar hann bjó þar. Núna er þar þúfa með beinum, en við
fórum einu sinni með afa til að gá inn í þúfuna.
Elsku afi minn, það verður erfitt að gera alla þessa hluti án þín. Þú varst
okkar mesti aðdáandi; alltaf að hrósa okkur í öllu sem við gerðum, frá
smákökum upp í uppfinningar, listaverk eða jafnvel þegar okkur tókst að
laga minnstu hluti. Við hugsum til þín á meðan við förum á sjóinn, þegar
við veiðum góða fiska, þegar við fiktum í sleðanum, þegar við bökum kökur,
þegar við fáum okkur ís og þegar við förum í bíltúr því þú varst alltaf
tilbúinn að skutla okkur hvert sem var. Afi, við söknum þín en gleðjumst
yfir því að þér líði vel og vakir yfir okkur.
Afi Jói, þinn dagur er að kveldi kominn.
Þú heldur af stað yfir haf og himin.
Brosandi, hlæjandi, talandi, veifandi.
Góða ferð afi minn.
Elín Embla og Þorvaldur Geir.