Edda Bergmann Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 13. janúar 1936. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund 14. mars 2023.

Foreldrar hennar voru Gróa Skúladóttir og Guðmundur Skúli Bergmann Björnsson. Systkini Eddu voru Ragna, Hulda, Eysteinn, Sigurður, öll látin, og Ólafía, sem lifir systkini sín og býr í Bandaríkjunum. Hálfsystkin eru Rósmarý, Björn og Hilmar.

Edda giftist í febrúar 1963 Kristjáni Ólafssyni, f. 1928, d. 2021. Þau eignuðust dótturina Gróu, f. 1963, sem er gift Þorvaldi, f. 1956, og þeirra börn eru Kristján, f. 1983, og Edda Sif, f. 1986. Langömmubörnin eru Gróa Mjöll, Róbert Ingi, Gísli Þór, Óliver Ingi og Theodór Ingi.

Edda fékk ung lömunarveiki sem litaði líf hennar alla tíð. Hún var ötull talsmaður fatlaðra, stofnaði m.a. Trimmklúbbinn Eddu og fékk fálkaorðu árið 2004. Hún var afrekskona í sundi fatlaðra og fékk ótal viðurkenningar. Edda saumaði líka alla ævi og margir minnast hennar fyrir það.

Útför fór fram í kyrrþey.

Til mömmu.

Vorið að herja á veturinn, fuglarnir farnir að syngja og sólin hækkar á lofti þegar mamma leggur upp í sína hinstu för héðan úr þessu jarðlífi. Það má eiginlega segja að það sem einkenndi mömmu hafi verið þrautseigja, hún barðist alla tíð fyrir sínu. Eftir að hafa lesið greinar og ýmislegt annað um hana skín það í gegn. Ég á margar góðar minningar um mömmu og þegar ég var yngri þá var hún mér sem vinkona, hlustaði á rausið í mér og sagði mér líka til syndanna ef það þurfti. En yfirleitt var hún ljúf við mig og yndisleg í alla staði. Ég var svolítið hennar hægri hönd á uppvaxtarárunum, sinnti erindum og fór í búðir fyrir hana og oft ein í strætó eftir rennilásum eða einhverju slíku. Ég man enn þegar við fórum saman í strætó til að fara í gardínubúðir en ekkert fannst mér leiðinlegra enn að fara í þær en hafði mjög gaman af að fara í strætó með mömmu. Ég var þó alltaf smá smeyk um að hún kæmist ekki út úr honum áður en bílstjórinn lokaði á okkur. Það eru ýmsar minningarnar sem hafa rifjast upp síðustu vikur og daga. Sundið og allir verðlaunagripirnir, afrekin á því sviði, keppnirnar hérlendis og erlendis. Ég man að þegar ég fékk bílpróf og beið á laugardagskveldi uppi í Gamla Mýró hjá Ingimundi löggu eftir ökuréttindunum mínum því ég ætlaði að keyra í Keflavík daginn eftir ásamt pabba og sækja mömmu sem var að koma úr keppnisferð. Öll afrekin hennar í kringum íþróttir fatlaðra sem og Trimmklúbburinn sem hún stofnaði. Ég hafði nú ekki alltaf nennu eða áhuga á að taka þátt í því enda komin á annan stað í lífinu en fylgdist þó alltaf með í fjarlægð og aðstoðaði þegar á þurfti að halda. Þetta leiddi til þess að mamma fékk orðu hjá Ólafi Ragnari forseta og héldum við veislu henni til heiðurs og var hún þar sannarlega hrókur alls fagnaðar. Hún var eins og drottning í hægindastólnum hjá okkur og fólk færði henni blóm og kveðjur, yndislegur 17. júní, minnir meira að segja að það hafi verið gott veður.

Ég get ekki sleppt að minnast á það sem mér finnst eiginlega besta sagan af mömmu. Eins og flestir vita þá fékk hún lömunarveiki ung og var nokkur ár á spítala og þar af lengi í einangrun. Þegar hún svo losnaði loksins af spítalanum kom hún heim í Skerjafjörðinn í stóran systkinahóp og til einstæðrar móður, ömmu Gróu. Lífið var erfitt og mamma var ráðin í vist verandi á tveimur hækjum til að passa systkini, tvo stráka og stelpu. Mamma hafði verið að æfa sig með því að fara í sjósund því það var engin endurhæfing í boði á þessum tíma. Hún kenndi sjálfri sér að synda og einu sinni sem oftar fór hún með börnin sem hún passaði með sér. Það fer tvennum sögum af því hvort hún hafi bundið beisli barnanna við bryggjupollann eða fengið þau til að fylgjast með sér á meðan hún synti í sjónum í Skerjafirði við Shell-bryggjuna. Hún synti oft yfir til Bessastaða og til baka og einu sinni kom vinkona hennar með henni. Vinkonan gafst hins vegar upp á miðri leið en mamma tók hana bara og synti með hana til baka. Þess má geta að mamma var eins og korktappi, gat bara ekki sokkið, og er ég svo heppin að hafa erft þennan eiginleika. Ég á líka mjög auðvelt með kalda sjóinn og elska eins og hún að svamla í honum.

Edda saumakona er mörgum kær, hún saumaði alls kyns flíkur á Nesbúa og fleiri. Hvort sem var fermingarföt, dansföt eða bara eitthvað annað, mamma gat galdrað fram ballkjóla jafnt sem venjulegar buxur. Ekkert stóð henni fyrir þrifum í þeim efnum.

Mamma hefur alla tíð meðan henni entist þrek verið okkur hjálpleg, gætti barnanna minna og hafði þau um lengri eða skemmri tíma. Henni þótti mjög vænt um Kristján og Eddu og þau voru hennar augasteinar. Ferðirnar utan lands og innan ylja í minningarbankanum og gleðja okkur þegar við minnumst mömmu.

Síðustu ár voru mömmu erfið, sjúkdómur hugans herjaði á hana og rændi hana getu og þreki. Persónuleikinn hennar hvarf líka smátt og smátt og hefur það reynst mér erfitt. Það er erfitt að horfa á ástvin sinn smám saman hverfa frá manni. Ég átti þó góðar stundir með mömmu síðustu dagana hennar, við sungum saman en minna var þó um samræður. Bara að fá að halda í höndina hennar og strjúka um höfuðið. Elsku mamma, eins erfitt og það er að kveðja þig þá veit ég að þú ert á betri stað, laus við viðjar alls sem hefur hrjáð þig í lífinu. Ég vil þakka þér samfylgdina og við sjáumst hinum megin einhvern tímann og tökum upp þráðinn.

Takk fyrir allt og allt.

Þín dóttir,

Gróa.