Viðtal
Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Íranski rithöfundurinn Dina Nayeri var meðal gesta á Bókmenntahátíð í Reykjavík sem haldin var í síðasta mánuði. Hún er þekktust fyrir bókina Vanþakkláti flóttamaðurinn, sem kom út árið 2019 og á íslensku á síðasta ári í þýðingu Bjarna Jónssonar. Í bókinni rekur hún sögu sína sem flóttamanns, en móðir hennar neyddist til að flýja með hana og bróður hennar frá Íran eftir að hafa tekið kristna trú, og blandar saman við frásögnina sögum af flóttamönnum á seinni tímum, kynnum sín af þeim og starfi hjálparsamtaka.
„Flóttamannahöfundur“
Dina Nayeri hafði skrifað skáldverk áður en hún skrifaði bókina Vanþakkláti flóttamaðurinn og fyrir stuttu kom svo út önnur bók áþekk, Hverjum er trúað (Who Gets Believed), en í henni fjallar hún um trúverðugleika fólks, hvað valdi því að einum sé trúað og öðrum ekki, eins og hún ræðir reyndar einnig í Vanþakkláta flóttamanninum. Ég spyr hana hvort það sé ekki óþægilegt á sinn hátt að vera smættuð niður í „flóttamannahöfundinn“, að vera sífellt að ræða um hlutskipti flóttamanna.
„Ég skil hvað þú átt við og þetta stendur stundum í mér. Ég var einmitt að ræða við vin minn um daginn, rithöfund sem skrifar skáldskap, og við vorum sammála um það að við værum rithöfundar sem skrifuðum bækur um mannlegan veruleika, hefðum áhuga á myndum og orðum og öllu því sem borið getur við í heiminum í kringum okkur. Ég nefndi við hann að ég hitti reglulega fólk sem segði við mig „veistu, þú skrifar bara býsna vel af aðgerðasinna að vera“ sem mér finnst mjög óþægilegt. Ég er oft flokkuð sem blaðamaður eða sem aðgerðasinni, sem flóttamannahöfundur, sem höfundur sem lenti í einhverju. Fólk er alltaf að reyna að skipa mér á bás, og mér finnst það óþægilegt.
Karlkyns bandarískur rithöfundur getur skrifað bók um hvað sem er og haldið áfram að vera rithöfundur, en ég er skilgreind af upplifun minni vegna þess að ég skrifaði bók um hana. Ég veit ekki hvað ég á eftir að skrifa margar bækur, kannski fimmtán bækur eða svo miðað við mín afköst. Tvær þeirra hafa byggst á harkalegri upplifun og vonandi verða það ekki einu bækurnar sem fólk man eftir þegar ég er á níræðis- eða tíræðisaldri, vonandi er ég ekki bara flóttamannahöfundurinn, heldur höfundur sem fólk man eftir vegna þess að ég skrifaði líka bækur um ástina og það að vera móðir og þar fram eftir götunum. Vonandi verð ég höfundur sem ómögulegt er að flokka eða setja í kassa, vonandi á ég eftir að skrifa sprenghlægilegar bækur, og ótrúlega sorglegar og allt þar á milli. Vonandi á fólk eftir að segja bara rithöfundurinn Dina Nayeri af því það er ekki hægt að skilgreina mig.“
– Að þessu sögðu þá hafði læknir orð á því í salnum áðan að það að lesa Vanþakkláta flóttamanninn hefði gert honum kleift að skilja þá hælisleitendur sem hann hefði þurft að sinna, að hann hefði áttað sig á því hve ósanngjarnt það væri að ætlast til þess að flóttamenn væru sífellt að sýna þakklæti. Það hlýtur að vera einhvers virði.
„Já, ég varð djúpt snortin. Ég kemst ekki oft í tæri við lesendur mína og það er mér því mjög mikilvægt að heyra einhvern segja að bókin mín hafi orðið til þess að einhver skipti um skoðun. Eitt það erfiðasta við þetta allt saman er að ná til fólksins sem þarf á því að halda að lesa bókina, að ná til fólks sem þarf að losna við ranghugmyndir. Bók eins og Vanþakkláti flóttamaðurinn er vissulega lituð af vissri pólitík og það er erfitt eða ógerningur að ná til fólks sem situr fast í sínum bergmálshelli. Það er aftur á móti fólk sem er þar á milli sem þarf að ná til.
Ég er ekki málskrúðshöfundur, ég er að segja sögur og leiðin til að ná til fólks er að það finni að það sé enginn að reyna að snúa því til eins eða neins, heldur bið ég bara um að það lesi mig af opnum huga. Ég býst aldrei við því að bók eftir mig nái að fá nokkurn til að skipta um skoðun og því er það svo verðmætt þegar það gerist.“
Flóttamaðurinn þarf að kunna að koma fram
– Þú nefndir í spjalli á Bókmenntahátíðinni að flóttamaðurinn eða hælisleitandinn þurfi að tileinka sér sérstaka framkomu, þurfi að vita hvað á að segja og hvernig á að segja það til þess að honum sé trúað. Ef hann kemur úr menningu þar sem ekki er til siðs að bera tilfinningar sínar á torg þá verður honum ekki trúað. Í nýju bókinni þinni eru einmitt einstaklingar sem eru í þeim sporum, til að mynda ungur flóttamaður frá Srí Lanka sem hefur verið pyntaður svo það stórsér á honum og fær þau svör frá breskum yfirvöldum að hann skuli ekki gera svo mikið úr þessu, hann geti samt átt gott lífi í heimalandi sínu.
„Það eru í bókinni sögur af fólki sem er limlest eftir pyntingar, sem er með söguna skrifaða í örum á líkamanum, en er svo sakað um að hafa skaðað sig sjálft, að hafa örkumlað sig til þess að fá hæli í viðkomandi landi.
Það eru margar sögur af flóttamönnum frá Srí Lanka, því þeir komu svo margir til Bretlands og voru með áþekka áverka eftir pyntingar. Það varð svo aftur til þess að embættismenn komust á þá skoðun að þar sem áverkarnir væru svo áþekkir hlytu þetta að vera samantekin ráð hjá flóttamönnunum, sem hefðu fengið lækna í lið með sér. Þetta gerðist þótt það væri skjalfest af mannréttindasamtökum að einmitt á þennan hátt var grúi manna og kvenna pyntaður af yfirvöldum í Srí Lanka eftir borgarastríðið þar. Það er líka dæmi um þetta í Vanþakkláta flóttamanninum þar sem kona sem er limlest vegna bílslyss sem hún lenti í þegar Talibanar unnu skemmdarverk á bílnum sem fjölskyldan notaði á flóttanum – þegar örin blasa við hlýtur maður að spyrja sig hvernig sagan sjálf geti skipt nokkru máli þegar maður stendur frammi fyrir annarri eins þjáningu. Er ekki nóg að hrottaskapurinn blasi við?“
Rétt framsetning á sársauka og sorg
– Í bókinni Hverjum er trúað segir þú meðal annars frá því þegar myndatökumenn á vegum sovéska hersins fengu fólk til að leika sorg og örvæntingu yfir fjöldagröfum
sem sovétmenn fundu þegar þeir höfðu rekið þýska herinn af höndum sér. Í þeirri lýsingu kemur vel fram að ekki er sama hvernig leikið er, það mátti ekki vera of lítil sorg, en heldur ekki of mikil.
„Ég var mjög undrandi þegar ég komst að því hve mikið hefði verið leikið í heimildarmyndum frá seinni heimsstyrjöldinni, en skýringin á því er einfaldlega sú að kvikmyndatækni þess tíma var ekki nógu langt komin til að hægt væri að nota ferðavélar til að taka myndir í lélegri lýsingu eða við erfið veðurskilyrði. Fyrir vikið fengu sovésku tökumennirnir konur úr nærliggjandi þorpum til að koma og sýna harm sinn yfir fjöldagröfunum. Annað dæmi er að þegar kvikmyndatökumenn komu í fangabúðir þar sem búið var að frelsa fangana og flytja obbann á sjúkrahús kölluðu þeir til ungar konur úr nágrenninu til að sýna aðbúnaðinn. Lykilatriði í þessu öllu er að menn voru að reyna að endurskapa það sem þeir höfðu séð, að leika raunveruleika. Það fellur einmitt að því sem ég er að segja í bókinni – við verðum að sjá sársaukann til að trúa honum.“
– Og líka þá að sjá sársaukann og sorgina framsetta á „réttan“ hátt.
„Já, einmitt. Það eru alls kyns menningarlegir þættir sem koma við sögu. Írönum finnst til að mynda að fólk eigi að barma sér og hafa uppi kveinstafi, en þegar flóttamaður gerir það frammi fyrir vestrænum landamæraverði trúir hann því ekki að þetta séu raunverulegar tilfinningar.“
– Þú lýsir því í Vanþakkláta flóttamanninum hve erfitt það hafi verið að þiggja góðgerðir í flóttamannabúðum þar sem þú vissir að fólk átti tæplega til hnífs og skeiðar. Það er bara svo að besta leiðin til að skapa óvild er að hjálpa fólki mjög mikið og þiggja ekkert að launum.
„Þetta er mjög mikilvægt atriði, ekki síst ef þú hafnar því sem fólk býður þér, því þá ertu að segja að þau séu neðar en þú í mannvirðingarstiganum, að þú, bjargvætturinn, eigir allt en þau ekkert. Þegar ég lenti í þessu sem gestur í flóttamannabúðum fann ég upp á mörgum afsökunum til að komast hjá því að éta fólk út á gaddinn. Ég áttaði mig þó á því, sem betur fer, að allar þessar afsakanir voru í raun móðganir. Það eina sem ég gat gert var að þekkjast boðið, enda var sjálfsvirðing þeirra meira virði en maturinn.
Það versta er ekki bjargvættirnir heldur sjálfboðaliðar sem koma og hjálpa til að dreifa mat og vatni og taka svo sjálfsmyndir af sér við þá iðju til að deila á samfélagsmiðlum, nokkurs konar hamfaratúrismi. Það er birtingarmynd þess að flóttamennirnir eru ekki mennskir í þeirra augum, heldur bara myndatækifæri.“