Ólafur Már Sigmundsson fæddist í Vestmannaeyjum 11. mars 1942. Hann lést 11. apríl 2023.

Foreldrar hans voru Klara Kristjánsdóttir, f. 8. júlí 1917, d. 23. janúar 1993, og Sigmundur Karlsson, f. 23. september 1912, d. 13. apríl 1994.

Ólafur Már kvæntist Þórhildi Jónasdóttur, f. 9. febrúar 1945, hinn 17. maí 1963 og bjuggu þau öll sín hjúskaparár í Vestmannaeyjum. Foreldrar hennar voru Ragnhildur Guðjónsdóttir, f. 1. júní 1912, d. 23. nóvember 1996, og Jónas Hjörleifsson, f. 2. janúar 1909, d. 30. september 1991.

Börn Óla Más og Þórhildar eru: 1) Stefán, f. 31. janúar 1964, maki Helena Árnadóttir, f. 23. desember 1960. Börn þeirra: Sigurður Árni, f. 30. janúar 1984, og Þórhildur Ósk, f. 9. desember 1993. 2) Hörður Ársæll, börn: Ólafur Már, f. 3. maí 1990, Henrý Kristófer, f. 4. mars 1994, og Jóhannes Breki, f. 19. apríl 2004. 3) Ragnhildur, f. 7. ágúst 1973, maki Jóhannes Jóhannesson, f. 20. apríl 1966. Börn þeirra: Ólöf Marý, f. 20. janúar 1994, Brynjar Páll, f. 14. mars 1994, Sveinn Sigurður, f. 22. janúar 1995, Páll Halldór, f. 31. júlí 1996, Dagur Waage, f. 22. október 2000, og Stefán Jökull, f. 30. maí 2008.

Börn Óla Más úr fyrra sambandi eru: 1) Aðalbjörg, f. 1. febrúar 1961, maki Ríkharð Lúðvíksson, f. 20. apríl 1964. Börn þeirra: Pála Minný, f. 27. september 1983, Jóhann Heiðar, f. 16. október 1979, Hildur Gyða, f. 1. febrúar 1986, Lúðvík Már, f. 19. janúar 1989. 2) Magnús Guðmundur, f. 11. apríl 1962, maki Agnes Númadóttir, f. 4. mars 1962. Börn þeirra: Númi, f. 8. apríl 1982, d. 2. janúar 2015, Magnús Jón, f. 20. janúar 1995, Hildur, f. 16. nóvember 1986, Alexander, f. 25. september 1991.

Barnabarnabörn Óla Más eru 28.

Alla tíð lá áhugi Óla Más í sjómennsku en hann reri fyrst til sjós í maí 1957, þá aðeins fimmtán ára gamall með föður sínum á Hrafni Sveinbjarnasyni. Í byrjun árs 1958 munstrar Óli Már sig á Hilmi VE-282 og varð hann fljótlega annar vélstjóri eftir að hann lauk vélstjórnarnámi. Árið 1963 reri Óli Már á Stefáni Þór með Guðjóni Pálssyni en árið 1970 kaupa þeir Gullberg NS-11 ásamt Guðleifi Ólafssyni. Þeir félagar, Óli Már, Guðjón og Guðleifur, gerðu saman út Gullberg VE-292 til ársins 1987 þar sem Óli Már var alla tíð yfirvélstjóri. Árið 1988 sneri Óli Már sér að smábátaútgerð og eignaðist alls sex smábáta sem allir báru nafnið Aðalbjörg Þorkelsdóttir VE-282. Afabarn Óla Más og nafni sameinaðist afa sínum og voru þeir saman til sjós allt þar til undir það síðasta á Öddu VE-282. Óli Már yngri er núna yfirvélstjóri á Gullbergi VE-292. Skipaskráningarnúmerin VE-282 og VE-292 fylgdu Óla Má því nær allan hans 66 ára sjómannsferil.

Óli Már var rómaður fyrir snyrtimennsku um borð í vélarrúminu. Þekking hans á hafsvæðinu í Eyjum var gífurleg og aflabrögð eftir því.

Útför Óla Más fer fram í Landakirkju í dag, 28. apríl 2023, klukkan 13.

Þá er komið að því sem ég hef óttast í langan tíma, þegar afi minn myndi yfirgefa þessa jörð.

Kvöldið sem afi lést, fékk ég allt í einu hugboð að ég yrði að heyra í gamla sem ég og gerði. Hann var á bryggjurúntinum og ætlaði að koma við til að knúsa litlu langafa börnin sín. Þetta reyndist vera okkar síðasta spjall.

Ég var alltaf mikill afa og ömmu strákur og sótti ég alltaf í að vera hjá þeim. Sumarið 1998 flytjum við Henrý bróðir til Danmerkur með mömmu þar sem hún fór í nám og komum við til Íslands um jólin.

Ég fór ekki aftur til Danmerkur eftir jólin,því ég vildi hvergi annarsstaðar vera en hjá afa og ömmu þá pjakkur á níunda ári. Afi minn var mér eins og faðir og áttum við óteljandi stundir saman niðri í bát. Alltaf tók hann mig með um borð þegar hann fór þangað. Ég beið alltaf spenntur eftir að skóladeginum lyki til að komast niður á bryggju til að finna afa, hann var alltaf þar. Hann lét mig strax hjálpa til og kenndi mér að vinna mjög ungur. Þegar báturinn var tekinn upp þá lét hann mig botnhreinsa, mála og þótti mér það mikill heiður!

Eitt sinn var afi úti á sjó og hringir heim: Óli minn þú verður að koma niður á bryggju strax því ég fékk fyrir hjartað. Ég hjóla eins hratt og ég gat niður á bryggju og þá var hann að koma að. Ég spyr á ég ekki að hringja á sjúkrabíl? Nei segir hann, ég þarf að fara heim fyrst til að fara í betri föt svo ég fer bara á bílnum. Ég fékk skipun um að ganga frá bátnum. Hann sem sagt treysti engum öðrum til að gera það en Óla litla sem var þá tólf ára gamall, þetta lýsir bara hvað við vorum nánir og lýsir líka snyrtimennsku hans að fara í hreinum fötum upp á spítala.

Afi var harðstjóri og þoldi ekki ræfildóm. Þegar hann var í landi þá var hann alltaf farinn út á morgnana niður í beituskúr og taka veðrið. Kom svo heim um það leyti þegar ég átti að vakna fyrir skólan. Þegar ég heyrði í pikkanum renna í hlað stökk ég á lappir því annars fékk ég ræðuna hvaða ræfildómur þetta væri að vera ennþá í bælinu. Ég var yfirleitt röskur af stað því þá græddi ég bryggjurúnt áður en skólinn byrjaði.

Árin líða og ég fer í vélskólann, sem gladdi gamla. Ég mun aldrei gleyma þegar ég fékk einkunnirnar út úr síðustu prófunum öllu náð Það fyrsta sem ég gerði var að láta afa vita. Ánægja hans leyndi sér ekki og ekki laust við að hann hafi orðið pínu klökkur, sem maður sá nú aldrei.

Veturinn 2016 kaupum við saman trillu sem var nú frekar í slæmu ástandi. Við gerðum hann upp í sameiningu og það þýddi ekkert gösl en eins og margir vita þá var afi mikill snyrtipinni. Ég fékk að mála hvern krók og kima þannig að báturinn leit mun betur út. Ég mun aldrei gleyma fyrsta túrnum okkar saman á þessum bát. Afi var að siða drenginn til en auðvitað þóttist ég vita þetta allt saman sem var náttúrulega ekki rétt. Við rifumst og segi ég við gamla manninn ég nenni nú ekki aftur á sjó með þér, punktur. Ég hringdi síðan í afa um kvöldið og spyr hvenær sé brottför næsta morgun, þá segir sá gamli þú ferð bara einn því þú vildir ekkert fara með mér meira sjó, þannig það stendur ég varð nú hálf hissa. En auðvitað gaukaði hann að mér þeim miðum sem ég ætti að fara á, sem ég og gerði og fékk ég hér um bil skammtinn. Eftir þetta rífumst við aldrei framar og ég ungi maðurinn hlustaði alltaf á gamla reynsluboltan eftir það.

Sumarið 2022 barst mér símtal um hvort ég hefði áhuga á að taka við yfirvéltjórastöðu á Gullbergi VE 292. Ég þáði það. Fyrsta sem ég náttúrulega gerði var að láta gamla manninn vita sem varð nú aldeilis ánægður með þessar fréttir, því eins og margir vita var hann sjálfur yfirvélstjóri á Gullberginu og einn af eigendum á sínum tíma. Það var smá óróleiki í mér eftir að ég byrjaði, enda mikið stökk á milli skipa. Afi kom um borð að skoða og eftir skoðunar túrinn faðmar hann mig og segir: þetta á eftir að verða allt í lagi hjá þér Óli minn. Ég róaðist mikið við þessi orð.

Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig elsku afi minn.



Góða ferð elsku afi



Ólafur Már Harðarsson