Jóhanna María Gunnarsdóttir (Jóa) fæddist í Ólafsfirði 9. mars 1977. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu í Reykjavík 3. maí 2023.

Foreldrar hennar eru Gunnar L. Jóhannsson, f. 1941, og Svanfríður Halldórsdóttir, f. 1947. Systur hennar eru Guðrún Hulda, f. 1966, maki Haraldur Dean Nelson, f. 1965. María, f. 1967, lést af slysförum 1971. Heiða, f. 1968, maki Hafþór Óskarsson, f. 1961.

Jóa giftist Bjarna Líndal Snorrasyni, f. 1969, á gamlársdag 2009. Dætur þeirra eru Heiða María, f. 2005, og Svanfríður Elín, f. 2007. Bjarni átti fyrir synina 1) Arnar, f. 1991, maki Yrsa, f. 1991, dóttir Una, f. 2019, og sonur Viktor, f. 2023, og 2) Jón Frey, f. 1993, maki Andrea, Ýr f. 1995, sonur Aron Hinrik, f. 2019.

Jóa flytur 16 ára frá Ólafsfirði til Reykjavíkur og hóf nám í Kvennaskólanum í Reykjavík en fór þaðan í Iðnskólann í Reykjavík og lauk meistaranámi í hársnyrtiiðn. Jóa hefur starfað í greininni í rúm 20 ár og er eigandi hárgreiðslustofunnar Unique í Síðumúla. Útför Jóu fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 11. maí 2023, klukkan 13.

Streymt verður frá útför:

mbl.is/go/urmax

Jóhanna María mín var mikill skörungur, frábær persónuleiki þar sem húmor og gleði var ávallt í fyrirrúmi og hafði einstaklega góða nærveru. Fólk sótti í hennar félagsskap enda glaðvær, söng- og tónelsk og afburðaskemmtileg en einnig ráðagóð og fann sig oft í því að vilja hjálpa fólki og halda utan um það og sérstaklega ef eitthvað bjátaði á í lífi þess. Það var stóísk ró í kringum Jóhönnu og mikil skynsemi og átti hún mjög auðvelt með að kynnast fólki. Hún var mikil búkona og fannst henni ekkert skemmtilegra en að gera fallegt í kringum sig og búa fólkinu sínu til fallegt heimili. Hárgreiðslustofan hennar bar einnig þess merki hve mikill fagurkeri hún var. Hún var einnig svo elskuleg að hún hjálpaði mér oftar en einu sinni að búa mér til fallegt heimili. Jóhanna var mikill leiðtogi og sá til þess t.d. að æskuvinkonuhópurinn héldi vel saman og einnig að gamli bekkurinn frá Ólafsfirði hittist reglulega.

Við Jóhanna kynnumst milli 2ja og 3ja ára aldurs á leikskóla í Ólafsfirði og fann Jóhanna strax að ég væri vinkona hennar og að hún þyrfti að passa upp á mig. Hún sem sagt valdi mig og ég valdi hana.

Ég man ekki líf mitt öðruvísi en með bestu vinkonu minni mér við hlið, en við höfum átt órjúfanlegan vinskap í ca. 44 ár. Í litla heimabænum okkar Ólafsfirði héldu margir að við værum systur svo mikil var samveran, kærleikurinn og tengslin sem bundu okkur saman frá leikskólaaldri. Við höfum verið samferða í gegnum allskonar tímabil í lífinu og get ég með sanni sagt að hún var mér einstaklega góð á allan hátt, eins og hin besta systir sem studdi mig í einu og öllu og þekkti alla mína kosti og galla. Alltaf fékk ég skilyrðislausa vináttu og ást frá þér, sama hversu langt leið á milli hittinga og sama hvað gekk á í lífinu. Sönn vinátta þar sem engar kröfur voru gerðar og við vissum báðar að við áttum hvor aðra að alltaf!

Þú manst þarna á sjötta árinu okkar, þegar ég datt á hausinn á blessaðan ofninn, þá var nú gott að eiga eina röska, lífsglaða, söng- og tónelskandi vinkonu sem leiddi mig hálfvankaða með sér í gegnum öll heimsins bestu ævintýri sem við elskuðum. Ímyndunaraflið okkar var alveg einstakt og leikirnir óteljandi. Þegar við ákváðum að hittast, eftir gott símtal í skífusímanum, þá hentumst við hvor á móti annarri gamla veginn og þegar við sáum hvor aðra þá hlupum við hvor til annarrar eins og í dramatískri senu í Önnu í Grænuhlíð. Ég held að það sé ekki hægt að eiga jafn yndislega æsku eins og með þér, elsku hjartans vinkona mín. Drullumallið og sóleyjarkökubaksturinn í gamla Búinu, Sheenu-leikurinn í köðlunum í hlöðunni, Dirty Dancing-áhorf óteljandi sinnum, dans og söngur og hlutverkaleikir í stofunum í Hlíð og á Hlíðarveginum, ævintýrin á gamla veginum, reiðtúrarnir á gömlu tunnunum sem pabbi þinn setti svo snilldarlega upp fyrir okkur, söngur og raddir með mömmu þinni, glassúrgerð á Hlíðarveginum, núggatísinn borðaður í bílförmum, heyannir í Hlíð, rákum rollurnar, hræðslan við kollótta hrútinn, hræðslan við hanann og gleðin við dans og söng með Cool and the gang, Jackson Five, Wham, Shaken Stevens, Smokey, Dr. Hook, Dirty Dancing, Kötlu Margréti, Commitments o.fl.

Auðvitað enduðum við í hljómsveit saman og sungum eins og okkur einum var lagið. Við höfum reyndar aldrei hætt að syngja og mun ég alltaf geyma allt það besta sem þú gafst af þér í hjarta mínu. Sögurnar urðu bara betri, þroskaðri og skemmtilegri með árunum, en mögulega líka mjög óþroskaðar þegar enginn heyrði til okkar. Það sem ég elskaði að geta látið eins og fífl með þér, við vorum svo dásamlega skemmtilegar í fíflaganginum og vitleysunni.

Eins og svo oft hjá mjög metnaðarfullum konum voru annirnar stundum fyrir því að við hittumst, en þá tókstu upp á því snilldardæmi að við myndum borða saman í kringum afmælin okkar. Það væri besta afmælisgjöfin hvorrar til annarrar. Við vorum nefnilega báðar þannig að allt í einu fengum við mikinn aðskilnaðarkvíða eftir of langa fjarveru eins og týndir tvíburar. Alltaf var eins og ég hefði hitt þig í gær þegar við komum saman, algjörlega sérstök tenging sem við áttum og skilningur fyrir þörfum hvorrar annarrar.

Hjarta mitt er í molum að þurfa að kveðja þig, elsku hjartans vinkona mín og systir, en eins og við sögðum fyrir löngu þá munum við skála saman í góðu yfirlæti með George Michael á fóninum, með flottu systraeyrnalokkana og systrahringinn sem ég gaf þér. York-hattarnir væru líka frábærir í partíið okkar. Og JÁ ég vil vera veislustjórinn þinn því þú ert svo sannarlega minn.

Elsku vinur minn Bjarni, börnin ykkar öll og stórfjölskyldan úr Hlíð, mínar dýpstu og hlýjustu samúðarkveðjur til ykkar allra með von um að guð og góðir vættir styrki ykkur í þessum mikla missi. Jóhanna María var einstök perla sem mun ávallt skína í hjörtum okkar.


Fullkomin vinkonustund

Við gamla veginn þær gengu,
hönd í hönd þær héldu.
Við pissusteininn þær migu
og við ástarsteininn þær dreymdu.
Þær sungu, dönsuðu og léku.

Í stofunni dönsuðu í pilsunum,
sungu með rjómaþeyturum.
Shaken Stevens hljómar í mögnurum.
Hversu skemmtileg minning hjá vinkonum.

Sólardagur ljósukollanna í Hlíð

Við Búið þær drullumölluðu,
sóleyjarkökur þær bökuðu.
Hanann þær gerðu skelkaðan,
á hlaðinu hlupu hann ringlaðan.

Mörg ævintýri fundu í hlöðunni,
Sheena þar sveiflaðist í köðlunum.
Glóstelpurnar umvafðar böggunum,
þessi mikli kærleikur hjá stöllunum.

Útreiðartúrar hjá stelpunum
urðu að fallegum samverum.
Þar ævintýraheim þær hljóta,
því gæða ímyndunarafls þær njóta.

Í hljómsveit þær sungu af einlægni,
með röddinni sameinuðust systurnar.
Glöddust í huga og hjartanu
Ólafsfjarðar björtustu vinkonur.

Vinkona mín fallega og sterka,
hugrakka Jóan mín merka.
Mín allra bestasta besta.
það er engin eins huguð og hún.

Hún berst við fjandans frumur,

ötul mun henda þeim burtu.
Ég stolt og þakklát henni er,
því enginn nær Jóu minni frá mér.

Ávallt elskuð og alltaf í mínu hjarta.

Þín systir,

Jóna Ellen.

Jóna Ellen Valdimarsdóttir