Anna Höskuldsdóttir fæddist á Hesjuvöllum 8. mars 1947. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 23. apríl 2023.

Foreldrar hennar voru Höskuldur Jóhannesson, f. 6.4. 1903, d. 23.3. 1982 og Rósa Vilhjálmsdóttir, f. 1.4. 1910, d. 14.3. 2008. Systkini Önnu eru Sigríður, f. 10.1. 1936 og Bergur, f. 7.1. 1949.

Fyrri eiginmaður Önnu var Kolbeinn Hjálmarsson, þau slitu samvistum. Þau eignuðust tvo syni, þeir eru: 1) Ármann Hinrik, kvæntur Helenu Isaksen. Þau eiga tvö börn, Nínu Kristínu og Þóri Inga. 2) Björgvin, kvæntur Önnu Maríu Hjálmarsdóttur. Björgvin á tvö börn af fyrra hjónabandi með Önnu Klöru Hilmarsdóttur, Andra Frey og Karen Huld.

Seinni eiginmaður Önnu er Gylfi Snorrason, f. 9.2. 1943. Þau giftust 1.12. 1990.

Gylfi á af fyrra hjónabandi þrjú börn, þau eru: 1) Dagný, gift Þorsteini Þorsteinssyni. Þau eiga þrjú börn, Tómas Snæ, Evu Sólrúnu og Stefán Snorra.  2) Snorri, kvæntur Rögnu Árnýju Lárusdóttur. Þau eiga tvö börn, Hörð Atom og Sunnevu Lukku. 3) Sigrún, gift Alex Jónssyni. Þau eiga þrjú börn, Henrik Nóa, Ara Akil og Unu Guðnýju Sami.


Anna ólst upp á Hesjuvöllum til ársins 1961 en flutti þá til Akureyrar.
Á starfsævi sinni vann Anna víða, þ. á m. á saumastofunni Heklu, Húsgagnaversluninni Eini, Teríunni, á leikskólanum Flúðum og síðustu árin í Lundarskóla. Önnu var margt til lista lagt en fjölskyldan og blómin, utandyra og innan, voru hennar líf og yndi. Hún hafði mikla unun af blómarækt.

Útförin fer fram í dag, 15. maí 2023, frá Akureyrarkirkju klukkan 13.

Minningar um mömmu eru tengdar sveit, blómum, bílferðum og handavinnu.
Mamma ólst upp á Hesjuvöllum til ársins 1961 þegar afi og amma hættu búskap og fluttu í bæinn, Akureyri, og Sigga móðursystir okkar tók við búinu. Þegar við vorum að alast upp var farið reglulega upp á Hesjuvelli, hvort sem það var í heimsókn, heyskap, veislur eða jólaboð. Spilað var og skemmt sér við svo margt. Svo þegar við vorum farnir að nálgast bílprófsaldurinn þá fengum við að keyra til skiptis frá Liljulundi og upp í Hesjuvelli, það þótti okkur gaman og gerði það að verkum að við þurftum fáa ökutíma.
Mamma átti mikið af blómum, fyrst voru það inniblóm því engan garðinn átti hún. Við bræður reyndum margoft að telja þau en gáfumst alltaf upp. Í þá daga þegar filmuvélar voru og mamma vildi eiga myndir af blómstrandi blómi þá var okkur bræðrum oft stillt upp við hlið eða næstum aftan við blómið svona til að nýta filmuna. Í seinni tíð þegar digital-vélar komu var nú aftur á móti tekið nóg af blómamyndum og svo sér af fjölskyldunni.
Árið 1987 fluttu hún og Gylfi í Espilund 1. Hófst þá blómarækt úti þar sem hún gróðursetti blóm og Gylfi byggði utan um þau og lagði stíga sem endaði í því að ekkert gras er í garðinum. Fyrir þennan fallega garð hlutu þau viðurkenningu 2012 frá Akureyrarbæ.
Hún vildi ekki hafa hátt um verk sín en garðurinn var hennar yndi. Því mátti helst ekki heimsækja þau fyrr en eftir fjögur á daginn þar sem hún var farin út um klukkan sjö til að vinna í garðinum. Þetta er svona mini-lystigarður. Blómaáhuganum fylgdi að hún var í samskiptum við erlenda blómaklúbba. Skipti á fræjum, sendi út fræ og pantaði fræ að utan. Svo einhvers staðar í Skotlandi vaxa íslenskar levisíur og í garðinum hennar vaxa sömu blóm af skoskum ættum. Einnig prýðir mikið af blómum frá henni Lystigarðinn á Akureyri og er þar einnig að finna mikið af levisíum. Primulur og levisíur voru hennar uppáhaldsblóm.
Hún byrjaði í janúar/febrúar að sá fræjum, koma til blómum fyrir sumarið. Allir gluggar og borð voru full af blómum sem þurfti að koma til og það tók nú sinn tíma að vökva og hugsa um þau.
Hún var líka ótrúlega lunkin við að koma blómum til og var í allskonar tilraunastarfsemi og gekk það oftast mjög vel hjá henni.
Hún var líka að flytja blómin til í garðinum ef hún sá að tiltekinn staður fór ekki rétt með blómin.
Má það einnig segja um okkur afkomendur og fylgifiska að hún vissi ávallt hvað væri best fyrir okkur, og lá ekki á sínum skoðunum hvorki við okkur né aðra. En sanngjörn var hún og hinn mesti Eyfirðingur, héðan var allt best.
Ekki fór hún mikið frá garðinum á sumrin en í þau örfáu skipti þá var fjölskyldan sett í vinnu við að vökva.
Fram að fermingu bæði klippti hún okkur bræður og saumaði á okkur föt. Við munum þegar við fórum að kaupa okkur fyrstu buxur, þá pössuðu þær bara alls ekki jafnvel og þegar mamma saumaði á okkur, það fannst okkur frekar skrítið. En mamma var búin að læra hvað við vildum og hvað hentaði okkur en ekki fataframleiðendur sem gera buxur í þúsundatali sem eiga að passa á sem flesta.
Ennþá er til saumavélin þó svo núna í seinni tíð væri hún bara notuð við smáverk eins og að stytta buxur og gera við saumsprettur. Mamma málaði á keramik, bæði jóla- og páskaskraut og erum við svo heppin að eiga hvert okkar slatta eftir hana.
Oft var á sumrin skroppið í dagsferðir til að skoða náttúruna eða til að hafa ofan af fyrir okkur, þá var smurt nesti og stoppað úti í náttúrunni. Hún var sniðug, því passað var upp á að við værum sáttir við nestið og man ég sérstaklega eftir pylsum í brauði sem var búið að hita og sett í álpappír til að halda heitu. Þær voru nú ýmsar ferðirnar farnar á Colt og fengum við svo afnot af honum þegar við fengum bílpróf.
Svo þegar við stofnuðum fjölskyldur og komum með barnabörn þá voru þau Gylfi alltaf til í að sinna þeim, passa og skutla og sjá til þess að þau væru ekki svöng.
Það var alltaf gott að leita til hennar eftir ráðum eða athygli þó svo að blómin, barnabörnin og Gylfi væru hennar mesta yndi, bara spurning í hvaða röð.
Hefðir höfðum við, má þar nefna laufabrauðið og útskurðinn á því. Fundin helgi þar sem flestir kæmu og deginum eytt saman. Mamma vildi ekki kaupa tilbúið laufabrauð svo það var alltaf gert frá grunni og var hún farin að kenna barnabörnum kúnstina.
Þorláksmessa, þá var skata í hádeginu, mismörg af okkur vildu fara en þau sem vildu voru hjartanlega velkomin. Um kvöldið komum við bræður með okkar fjölskyldum og var þar hlaðborð af allskonar kræsingum, skipst á pökkum og extra gott knús í lokin um gleðileg jól.
Áramótakvöld eftir miðnætti vöktu þau mamma og Gylfi eftir okkur og mættum við misseint. Það var orðinn partur af tilverunni að mæta til að óska þeim gleðilegs nýárs.
Þar sem við vorum misupptekin milli jóla og nýárs var mamma með jólaboð á nýársdag og passað að allir fengju eitthvað að borða við sitt hæfi og var því margréttað.
Núna verður ekki látið vita hvernig færðin er á heiðum landsins því alltaf þegar maður fór á milli landshluta þá varð að láta vita, hvort sem það var að hringja eða senda skilaboð þegar komið var á áfangastað, alveg sama hvenær það var á sólarhringnum.
Nú er hún komin í sumarlandið þar sem snjóar ekki á heiðum en nóg er af blómum hvort sem það eru primulur eða levisíur.
Hvíl í friði, elsku mamma.



Ármann, Björgvin og fjölskyldur.