Jónas fæddist í Vogum á Húsavík 5. júní 1931. Hann lést í Hvammi, heimili aldraðra Húsavík, 6. maí 2023. Foreldrar hans voru Kristín Jónasdóttir og Sigurmundur Friðrik Halldórsson. Yngri systir Jónasar er Þóra Kristín, fædd 1933.

Jónas kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Hrönn Káradóttur, 6. desember 1960. Börn þeirra eru Sigurmundur Friðrik, Kári Páll og Þóra Kristín. Friðrik á þrjú börn, Lilju, Jónas Halldór og Aðalstein Jóhann og barnabörnin eru fjögur. Kári Páll er í sambúð með Hafdísi Gunnarsdóttur. Hann á fimm börn af fyrra hjónabandi, þau eru: Alma Hrönn, Birgitta, Hilmar Örn, Halldór og Kristín. Kári á fjögur barnabörn. Hafdís á fimm börn og þrettán barnabörn. Þóra Kristín er gift Sigurjóni Sigurbjörnssyni og þau eiga tvær dætur, Edith Ósk og Jóneyju Ósk og tvö barnabörn.

Árið 1956 fór Jónas til Reykjavíkur á fiskivinnslunámskeið. Árið 1959 var hann verkstjóri hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur þar sem hann var fram til 1963. Þá venti hann sínu kvæði í kross og hóf störf á Bifreiðaverkstæði Jóns Þorgrímssonar og lærði þar bifvélavirkjun. Jónas starfaði þar í tíu ár en fór þá aftur í Fiskiðjusamlagið þar sem hann var Baadermaður og sá um fiskvinnsluvélarnar. Hann vann þar fram til ársins 2004 þegar hann lét af störfum, þá 73 ára. Jónas var farsæll í starfi, ákaflega nákvæmur og vandvirkur.

Jónas var mikill fjölskyldumaður og var umhugað um börn og barnabörn. Hann var alltaf boðinn og búinn að aðstoða þegar fjölskyldumeðlimir voru í framkvæmdum. Hann var svokallaður þúsundþjalasmiður og lék allt í höndunum á honum hvort sem það var járn eða timbur.


Jónas verður jarðsunginn frá Húsavíkurkirkju í dag, 19. maí 2023, klukkan 14.

Afi minn.

Sumarlandið varð heldur betur ríkara þegar þú gekkst inn í það. Yndislegur maður, vinur og forréttindi að hafa átt þig sem afa. Nú getur þú farið út í Eyvík að nýju og fengið þér göngutúr, hugað að kindunum og dundað þér í bílskúrnum.

Það er svo erfitt að sitja hér vitandi að maður á ekki eftir að sjá þig aftur, fara á rúntinn, í göngutúr eða bara spjalla. Það er svo erfitt því þú varst svo góður, góður við menn og dýr og minningarnar sem koma upp í hugann eru svo hlýjar.

Göngutúrarnir í Eyvík voru eftirminnilegir þegar þú fórst yfir fuglalífið og náttúruna með manni. Ekki skemmdi að við söfnuðum okkur netakúlum sem við fórum svo með til Kára og fengum greitt fyrir að skila þeim. Það var einmitt í einni skilaferðinni þegar trillukarlar voru að koma að landi. Ég lítill polli og við þurftum að vita um aflabrögð. Við settumst auðvitað upp í bílinn, ég frammi í og keyrðum að löndunarkrananum. Alla þessa 30 metra. Á miðri leið náði lögreglan að stoppa okkur því við höfðum auðvitað ekki haft tíma til að spenna okkur, við vorum eitt spurningarmerki yfir því hvað lögreglan væri að atast í okkur þarna.

Það var alltaf gott að koma í Sólbrekkuna, þú varst alltaf klár í að dunda eitthvað. Þegar ég bjó í Kópavogi beið ég spenntur allan veturinn að fá að komast norður um páskana því þá fékk ég að vera hjá þér og ömmu í sólbrekkunni. Það voru ótal ferðirnar sem þú fórst með mann í bílskúrinn, hnakkurinn lagður á stóra spýtukubbinn og við vorum farnir í reiðtúr á vit ævintýranna.

Þegar þú hættir að vinna í frystihúsinu fórstu í fulla vinnu við að sinna okkur barnabörnunum, náðir í mann í skólann, fóðraðir okkur og skutlaðir svo aftur á æfingar. Allt í ferrósunni gömlu. Yfirleitt var á boðstólum engjaþykkni, brauð og afgangar frá kvöldinu áður. Það var einmitt í eitt skiptið sem þú barst engjaþykkni á borð sem var útrunnið fyrir nokkru. Þér leiddist að henda mat og lést þig því hafa það að borða hana, því ekki vildum við þennan útrunna mat. Þú hafðir svo á orði að engjaþykknið væri nú heldur súrt en kláraðir það samt.

Faðmurinn var alltaf opinn og ef það þurfti að aðstoða við eitthvað varst þú alltaf klár að rétta fram hjálparhönd. Þegar mig vantaði herbergi til að búa í eitt sumarið kom ekki annað til greina en að ég myndi flytja í Sólbrekkuna. Kvöldkaffið hjá ömmu var ómetanlegur tími þar sem farið var yfir heima og geima, nútímann og fortíðina. Göngutúrarnir breyttust í ferðir upp á golfvöll þar sem þú varst kaddý hjá mér en púttaðir á flötunum.

Þú hafðir mikinn áhuga á veiði og ég man eftir því hvað mér þótti gaman þegar þú komst með okkur í Reykjadalsána og hvað ég var montinn ef maður náði að setja í fisk þegar þú varst að horfa. Við tókum alltaf að lágmarki eina rjúpnaferð saman á haustin og það voru skemmtilegustu túrarnir. Það var aldrei komið að tómum kofunum hjá þér og aldrei komum við heim tómhentir. Það er svo dýrmæt síðasta rjúpnaferðin okkar þegar við fjórir ættliðir fórum rjúpnarúnt, ég, þú, pabbi og Daníel Friðrik. Það hafði ekki mikið sést af rjúpu þetta haustið en auðvitað komum við heim með sex stykki. Þú vissir alltaf hvar þær héldu sig og hvert maður ætti að fara til að fá fugla.

Þú varst alltaf svo glaður og yfirvegaður. Þú tókst alltaf öllum svo vel og maður fann það alltaf á fólki í bænum sem talaði svo fallega um þig. Þú varst gæðablóð. Það var svo gaman að brasa með þér og spjallið var svo skemmtilegt. Það er sárt að hugsa til þess núna að þessum stundum sé lokið að sinni en það máttu vita að veganestið sem þú hefur gefið mér út í lífið er ómetanlegt og eitthvað sem ég mun halda á lofti með mínum börnum um ókomna tíð.

Þó kveðjustundin sé sár núna eru minningarnar hlýjar. Við munum sjást að nýju í sumarlandinu og ég veit að þú munt taka manni þar með opnum örmum og hlýjum hug með bros á vör.



Þær brosa á borðinu mínu,

og bjóða mér góðan dag,

en sjá það á útliti sínu,

að sífellt óttast sinn hag.


Þær báru mér kærleikans kveðju,

ég kunngeri þakkir þeim

þá rósanna krónur kikna og falla,

ég kysi að halda heim.

(Áskell Egilsson)


Þinn nafni.

Jónas Halldór Friðriksson