Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, fæddist á Siglufirði 7. júlí 1932. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík 27. apríl 2023.

Foreldrar Ólafs voru þau Ólöf Ísaksdóttir húsmóðir, f. 21.9. 1900, d. 1.5. 1987, og Einar Kristjánsson forstjóri, f. 21.7. 1898, d. 27.10. 1960. Systkin: Dóróthea Júlía Einarsdóttir Eyland, f. 28.7. 1929, maki Gísli Jón Juul Eyland, f. 21.12. 1926, d. 8.7. 2018, og Kristján Bogi, f. 1.8. 1943, d. 24.1. 1996, maki Sólveig Haraldsdóttir, f. 26.3. 1944.

Ólafur kvæntist á aðfangadag 1955 Rögnu Bjarnadóttur, f. 21.11. 1931, d. 20.1. 2015. Foreldrar hennar voru Guðfinna Guðnadóttir húsmóðir, f. 1.11. 1888, d. 13.4. 1973, og Bjarni Bjarnason söðlasmiður, f. 23.8. 1874, d. 26.3. 1958. Ragna og Ólafur eignuðust eina dóttur, Ástu Ragnhildi, f. 17.1. 1968, d. 15.1. 2021. Maki Þröstur Sigurðsson, f. 7.3. 1966. Synir þeirra eru Ólafur Þór, f. 1989, Fannar Steinn, f. 1996, og Viktor Ingi, f. 2000. Dóttir Ólafs er María, f. 26.8. 1974. Maki Jon Anning, f. 29.5. 1972. Synir Maríu eru Tómas Ari, f. 2005, Davíð Hrafn, f. 2007, og Stefán Haukur, f. 2009. Þau eru búsett í Svíþjóð.

Ólafur varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1953. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1960 og var að því loknu ráðinn sveitarstjóri í Garðahreppi, sem hann gegndi til ársins 1972. Hann var oddviti hreppsnefndar 1972-1975 og forseti bæjarstjórnar 1976, þegar Garðabær fékk kaupstaðarréttindi, til loka kjörtímabils 1978. Ólafur var kosinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1971 og sat á Alþingi til 1999. Hann var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins 1979-1991, menntamálaráðherra 1991-1995 og forseti Alþingis 1995-1999, er hann lét af þingstörfum. Ólafur sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1969-1971 og 1980-1991 og í framkvæmdastjórn flokksins 1981-1991. Hann var formaður Þingvallanefndar 1988-1991, varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs 1983-1986 og formaður 1986-1991. Hann sat í bankaráði Seðlabanka Íslands 1998-2007 og var formaður þess 2001-2006. Ólafur var formaður Hjálparstarfs kirkjunnar 1998-2000 og formaður orðunefndar 2003-2010. Hann var útnefndur heiðursborgari Garðabæjar árið 2010.

Útför Ólafs fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 22. maí 2023, klukkan 13.

Sómamaður er kvaddur í dag. Í betri kantinum án nokkurs vafa. Ólafur G. Einarsson var fæddur á Siglufirði 7. júlí 1932, sama ár og Siglufjarðarkirkja var vígð, eins og hann var gjarn á að segja. Enda var honum ævinlega hlýtt til heimahaganna, þar sem hann sleit barnsskónum. Hann hleypti þó ungur heimdraganum, fór til náms við Menntaskólann á Akureyri, flutti að því búnu til Reykjavíkur og lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands.

Að námi loknu árið 1960 lá leiðin í Garðahrepp, þar sem Ólafur tók að sér starf sveitarstjóra. Hann gekk þá iðulega undir nafninu Óli sveitó og gekkst hann stoltur við því. Þar reisti hann sér og sínum myndarlegt heimili við Stekkjarflöt, þar sem fjölskyldan bjó meginhluta ævinnar. Flatir voru á þeim tíma að byggjast upp sem nýtt byggðahverfi í hreppnum og má segja, að þar hafi verið brotið blað í byggðasögu á Íslandi hvað skipulag og frágang gatna og opinna svæða varðar. Af hálfu bæjaryfirvalda var lögð sérstök áhersla á fullnaðarfrágang hverfisins samhliða uppbyggingu íbúðarhúsa, og hefur æ síðan verið leitast við að fylgja þeirri stefnu. Í tíð Ólafs sem sveitarstjóri og oddviti Garðahrepps og síðar Garðabæjar, sem öðlaðist kaupstaðarréttindi árið 1976, má segja að grunnur hafi verið lagður að þeirri samfélagsgerð, sem einkennt hefur Garðabæ og skapað samfélaginu sérstöðu. Á engan er hallað þótt sagt sé, að með dirfsku, áræði og smekkvísi hafi Ólafur verið í forystu fyrir þeirri uppbyggingu sem bæjarfélagið hefur síðan búið að. Fyrir það á hann sérstakar þakkir skildar.

Á löngum þingmannsferli var Ólafur ötull baráttumaður fyrir hagsmunum Reykjaneskjördæmis. Mörgum Garðbæingum er eflaust ofarlega í huga undirritun samnings milli ríkis og Garðabæjar um uppbyggingu á nýju skólahúsnæði fyrir Fjölbrautaskólann í Garðabæ, sem Þorsteinn Þorsteinsson, fyrrum skólameistari, hafði barist fyrir um árabil og Ólafur leiddi til lykta. Það var heillaskref sem festi ótvírætt í sessi stöðu fjölbrautaskóla í bænum, en ekki voru allir á því máli utan bæjar að svo skyldi verða. Skólinn hefur verðskuldað sannað gildi sitt með öflugu starfi og er nú meðal vinsælustu framhaldsskóla landsins.

Sem ráðherra menntamála 1991-1995 lét Ólafur til sín taka á fjölmörgum sviðum, enda verksvið ráðuneytisins fjölþætt. Minnisstætt er, að í upphafi starfa var honum mjög ofarlega í huga að beita sér fyrir því að ljúka framkvæmdum við Þjóðarbókhlöðuna, sem þá hafði með hléum verið í byggingu í rúman áratug. Því verkefni sigldi hann farsællega í höfn og var mannvirkið vígt og tekið í notkun 1. desember 1994. Í ráðuneytinu hóf Ólafur fljótlega að undirbúa vinnu við mótun menntastefnu í skólamálum. Í stjórnartíð sinni lagði hann fyrir Alþingi til samþykktar heildarlög allra skólastiga: leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í lögunum voru margvísleg ákvæði til mikilla umbóta, svo sem um kerfisbundið gæðamat í skólastarfi, einsetningu grunnskóla og vikulegt kennslumagn. Jafnframt vann hann að því að fylgja eftir tillögum nefndar um mótun menntastefnu, sem hann skipaði, varðandi flutning á framkvæmd og ábyrgð grunnskólahalds yfir til sveitarfélaganna. Þá stóð Ólafur fyrir því að einfalda yfirstjórn vísindamála og ennfremur að tryggja stóraukið framlag til rannsóknasjóða samhliða auknum kröfum um árangur og alþjóðlegan samanburð. Með lögum um Rannsóknasjóð Íslands frá 1994 urðu tímamót sem leiddu til mikilla framfara í grunn- og hagnýtum rannsóknum. Þá beitti Ólafur sér fyrir stofnun tveggja sjóða fyrir háskólanema, Rannsóknarnámssjóðs og Nýsköpunarsjóðs námsmanna, sem reyndust lyftistöng fyrir háskólarannsóknir er nemendur unnu í samstarfi við háskólakennara yfir sumartímann.

Þingferli sínum lauk Ólafur með því að gegna æðstu stöðu sem kosið er til á Alþingi. Í hverju kjöri naut hann vaxandi virðingar og trausts. Hafði hann sérstaklega orð á því, að líklega þætti honum vænst um það á löngum þingferli, þegar hann var endurkjörinn í embætti þingforseta tvö síðustu árin með nær öllum greiddum atkvæðum. Það segir meira um manninn en mörg orð.

Það er svo sérstakur kapítuli út af fyrir sig að fjalla um Ólaf sem samherja og vin. Þar sýndi hann alla þá eðliskosti sem bestu menn prýða. Hann var traustur samherji, orðheldinn með afbrigðum, stóð þétt við bakið á sínu fólki, lipur í samskiptum og sanngjarn í úrlausnum mála. Það er því ekki að undra að hann hafi valist til forystu á helstu viðkomustöðum um ævina. Í hópi félaga og vina var hann hrókur alls fagnaðar. Hann kunni býsn af gamansögum sem hann var óspar á að segja, bæði af samferðamönnum og ekki síður sjálfum sér. Þeim fylgdu jafnan hrífandi vísur sem hann kunni ógrynni af. Oft fylgdi hver vísan annarri og því gat iðulega reynst erfitt að slíta samverustundum fyrr en dagaði að morgni. Þessir eiginleikar nutu sín einstaklega vel í mörgum ógleymanlegum veiðiferðum. Þar fór Ólafur jafnan á flug, en veiðiáhuginn átti hug hans allan. Kærasti veiðistaður hans var Sandá í Þistilfirði, en hin síðari ár áttum við nokkrir félagar margar góðar stundir á Skuggasvæði á mótum Grímsár og Hvítár.

Ólafur kom víða við á langri ævi og varði mestum sínum tíma í annarra þágu. Framganga hans átti djúpar rætur í umhyggjusemi og trúmennsku. Hvort tveggja var óvenjuríkt í fari hans og setti sterkt svipmót á öll störf hans í þágu lands og þjóðar sem og afstöðu til manna og málefna. Við leiðarlok er Ólafur G. Einarsson kvaddur með virðingu og þökk fyrir áratuga tryggð og vináttu. Samúðarkveðjur færi ég fjölskyldu hans allri með ósk um farsæld um ókomin ár. Minning um gott og farsælt æviskeið mun lengi lifa.



Ingimundur Sigurpálsson.