Garðar Emanúel Cortes fæddist í Reykjavík 24. september 1940. Foreldrar hans voru Kristjana Svanberg Jónsdóttir Cortes, f. 1920, d. 2010, og Axel Cortes, innrömmunarmeistari og húsgagnasmiður, f. 1914, d. 1969. Bróðir hans er Jón Kristinn Cortez, f. 1947.

Garðar lætur eftir sig fjögur börn, þau eru: 1) Sigrún Björk grunnskólakennari, f. 1963, móðir hennar var Rafnhildur Björk Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 1943, d. 2023. Börn Sigrúnar eru Ísafold Björgvinsdóttir, f. 1991, og Kolbjörn Björgvinsson, f. 1994. Garðar var kvæntur Krystynu Mariu Blasiak Cortes píanóleikara, f. 1948, börn þeirra eru: 2) Nanna Maria óperusöngkona, f. 1971. Dóttir Nönnu er Krystyna Maria Gunnarsdóttir Cortes, f. 1996. Sambýlismaður Nönnu er Svein Erik Sagbråten, f. 1961, óperusöngvari. 3) Garðar Thór f. 1974, óperusöngvari og aðstoðarskólastjóri. Sonur Garðars Thórs er Kormákur, f. 2010. Garðar Thór er kvæntur Elvu Dögg Melsteð skipulagsstjóra, f. 1979. Börn hennar eru Matthildur María Magnúsdóttir, f. 2002, Gylfi Þór Melsteð, f. 2004, og Egill Tómas Magnússon, f. 2009. 4) Aron Axel óperusöngvari, f. 1985. Kona hans er Justine Andrea Unkel listfræðingur, f. 1991. Börn þeirra eru Ylfa Rut, f. 2019, og Adam Flóki, f. 2021.

Garðar ólst upp í Reykjavík. Í æsku stundaði hann nám í píanóleik en grunnurinn að ævistarfi hans var lagður í Laugarnesskóla og á Hlíðardalsskóla þar sem tónlist var gert hátt undir höfði. Hann lauk námi sem söngkennari og einsöngvari og hljómsveitarstjóri frá Konunglegu tónlistarháskólunum í London árið 1969. Sneri hann þá aftur til Íslands og vann alla sína ævi við tónlist, mestmegnis á Íslandi. Hann söng fjölmörg af stærstu tenórhlutverkum óperunnar og var þekktur fyrir næmi sitt í túlkun í ljóðasöng.

Árið 1973 stofnaði Garðar Söngskólann í Reykjavík og var skólastjóri til ársins 2022. Stofnaði Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur árið 1975 sem óperuhljómsveit, og var hún fyrirrennari Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna. Kór Söngskólans í Reykjavík myndaði Kór Íslensku óperunnar fyrstu 20 árin en varð eftir það þekktur sem Óperukórinn í Reykjavík. Í 20 ár stjórnaði hann flutningi Sálumessu Mozarts á dánardægri hans og heiðraði minningu þeirra íslensku tónlistarmanna er höfðu fallið frá á því ári.

Árið 1979 stofnaði Garðar Íslensku óperuna og gaf þar með íslenskum söngvurum langþráðan vettvang til að stunda list sína og þjóðinni allri greiðari aðgang að óperulistforminu. Á þeim 20 árum sem Garðar stýrði óperunni voru sviðsettar í Gamla bíói fjölmargar perlur óperubókmenntanna.

Garðar hlaut margar viðurkenningar. Í tvígang var honum boðið að stjórna kórum sem komu víða að úr heiminum til að halda tónleika í Carnegie Hall. Hann hlaut Bjartsýnisverðlaun Bröstes 1982 og heiðursverðlaun Grímunnar 2017. Árið 1990 var Garðar sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.

Starfsferill Garðars var bæði fjölbreyttur og glæstur og hafði hann ómæld áhrif á tónlistarlíf á Íslandi með óbilandi ástríðu sinni, listfengi og frumkvöðulsstarfi.

Útförin fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 23. maí 2023, klukkan 15.

Það er 4. desember 1981. Ég er stödd á heimili foreldra minna. Síminn hringir og er til mín. Erindið var að Garðar Cortes vildi gjarnan tala við mig. Ég vissi auðvitað hver hann var en þekkti manninn ekkert. Ég játti erindinu en áttaði mig ekki á því að það væri núna! Strax! Ég var varla búin að leggja á þegar flautað var fyrir utan. Garðar Cortes mættur! Nú var brunað, eða öllu heldur flogið, upp í Gamla bíó og fyrr en varði, og eiginlega áður en ég áttaði mig, var ég komin með hálfkaraða sýningu á Sígaunabaróninum í fangið. Fyrstu frumsýningu Íslensku óperunnar í Gamla bíói og stefnt á nýársdag. Það varð að vísu að fresta vegna þess að ljósabúnaðurinn kom ekki til landsins fyrr en á Þorláksmessu. Nú hófust æfingar sem stóðu allan daginn og öll kvöld. En jafnframt var verið að smíða, mála, leggja rafmagn og allt annað sem til þurfti til að koma húsinu í viðunandi lag. Við æfðum því umkringd iðnaðarmönnum, loftið fullt af sagi og ryki og hamarshöggin buldu en með samstilltu átaki allra, frá kjallara og upp á efri hæðir, tókst að frumsýna 9. janúar. Þetta var upphafið að ævintýri sem lauk ekki fyrr en einum og hálfum áratug og tæplega tuttugu óperusýningum síðar.

Og nú rak hver sýningin aðra. Óþarfi að telja þær allar upp en ég hlýt að staldra við Il Trovatore. Sú sýning markaði tímamót í sögu Íslensku óperunnar. Þarna var kominn saman hópur stórsöngvara sem gat valdið þessu meistaraverki með glæsibrag, þau Ólöf Kolbrún, Garðar, Kristinn Sigmundsson, Sigríður Ella Magnúsdóttir og Viðar Gunnarsson, og óperukórinn orðinn sviðsvanur og glæsilegur. Sýningin naut mikillar velgengni og var að lokum færð allri þjóðinni í fyrstu beinu útsendingu Ríkisútvarpsins af sýningu. Áhorfið var með eindæmum og sérstaklega er minnisstæð upphringing frá lögreglunni í Reykjavík sem þakkaði fyrir sig. Þar hefðu allir getað notið útsendingarinnar því götur borgarinnar hefðu verið auðar.

Garðar söng að sjálfsögðu tenórhlutverkið Manrico og það varð öllum ljóst að stórsöngvari var mættur á sviðið. Röddin fullþroska, voldug og hljómfögur og þarna nýtti Garðar þann hæfileika sem er ekki öllum gefinn að geta túlkað hetju með tilheyrandi karlmennsku og styrk en ljá karakternum jafnframt mýkt og viðkvæmni. Árangurinn var stórkostlegur enda bárust honum þá tilboð um frama í útlöndum sem hann þáði ekki. Hann vildi vera hér og sagði reyndar að það væri til nóg af tenórum í heiminum, en aðeins einn þeirra hefði áhuga á Íslensku óperunni. Og það hafði þessi söngvari svo sannarlega. Hugsjón hans var að byggja upp óperu á Íslandi sem myndi færa Íslendingum reglulegar óperusýningar og veita íslenskum söngvurum tækifæri til að dafna og þroskast. Það gekk eftir. Tugir söngvara komu við sögu í stórum og smáum hlutverkum næstu árin. Flestir höfðu fengið sína grunnmenntun í Söngskólanum í Reykjavík, en hann hafði Garðar stofnað nokkrum árum áður. Slík var framsýnin og djörfungin.

Það var engu líkt að fá að starfa við hlið Garðars og með honum. Þessi eldhugi, hugsjóna- og framkvæmdamaður kveikti eld í brjóstum flestra sem unnu með honum, utan sviðs og innan. Afburðafólk á öllum sviðum sem var tilbúið að vaða eld og brennistein með hann í fylkingarbrjósti. Slíkir menn er sjaldgæfir. Kjarkur Garðars og áræði átti sér engin takmörk og eljan ótrúleg. Vinnudagurinn var langur sextán tímar á sólarhring þegar best lét. Því auk stjórnunarstarfanna var hann oft að æfa stór hlutverk. Hann þurfti iðulega að takast á við vandamál sem virtust óleysanleg, svo sem launamál og þá varð ég oft vitni að ótrúlegum kjarki hans og sannfæringarkrafti. Aldrei lét hann deigan síga. Það var ekki fyrr búið að frumsýna óperu en hann hófst handa við að undirbúa þá næstu. Oft fannst ýmsum hann færast fullmikið í fang, fljúga of hátt. Óttuðust að hann myndi brotlenda og reyndu að draga hann niður á jörðina. En þegar Garðar hafði tekið ákvörðun haggaði honum enginn og eflaust var hann stundum ósvífinn í því að fá sínu framgengt. En þegar upp var staðið urðu yfirleitt allir til að viðurkenna að enn eitt ævintýrið hafði lukkast og fyrirgáfu.

Garðar hafði ótrúlega hæfileika til að laða til sín hæft fólk til samvinnu. Ber þá auðvitað fyrst að nefna Ólöfu Kolbrúnu sem stóð alltaf þétt við hlið hans. Þessi glæsilega söngkona var hans helsti og nánasti samstarfsmaður, bæði á sviðinu og utan þess. Það munaði verulega um hennar hlut sem var ekki lítill. En hann leitaði ekki bara fanga innanlands. Hann náði í hljómsveitarstjóra sem voru ekki af verri endanum og höfðu starfað við fræg óperuhús. Sömuleiðis æfingastjóra, sem var ef til vill enn meira áríðandi, því þeir báru með sér kunnáttu sem færði óperuna sífellt fram á við. Ég hlýt að nefna Peter Lock sem starfaði með óperunni árum saman. Kunni allar óperur utan að og miðlaði söngvurum og kór af sínum gnægtabrunni, auk þess að vera hvers manns hugljúfi. Robin Stapleton var annar hvalreki. Kom beint frá Covent Garden og starfaði bæði sem æfingastjóri og hljómsveitarstjóri. Báðir þessir menn héldu tryggð við Íslensku óperuna, þrátt fyrir að launin væru miklu lægri en þeir áttu að venjast, því Garðar var trúr því að borga erlendum mönnum ekki hærri laun en innlendum. Þar réð held ég mestu að þeir hrifust af eldmóði Garðars og vildu taka þátt í ævintýri hans. Að auki hrifust þeir af honum sem söngvara og listamanni.

Listamaðurinn Garðar Cortes! Rödd hans var mikil og fögur svo aðdáun vakti hjá öllum sem á hlýddu. Ég varð margsinnis vitni að því þegar erlendir tónlistarmenn komu til starfa að þeir trúðu ekki eigin eyrum þegar þeir heyrðu í Garðari og spurðu gjarnan: hvað er þessi stórkostlegi söngvari að gera hér? Svarið við þeirri spurningu er að finna hér að framan. En auk söngraddar var hann líka gæddur miklum leikhæfileikum og ekki spillti glæsileiki mannsins. Það var gjöfult og gaman að vinna með Garðari. Innihald og texti skipti hann miklu máli, enda sagði hann að ef söngvari skildi ekki hvað hann væri að segja, um hvað textinn væri, þá dygði engin rödd því innblásturinn til túlkunar sprytti úr textanum. Ógleymanleg er túlkun hans á Otello. Það var magnað að vinna það hlutverk með honum. Hann náði í örvæntingu þessa stríðshrjáða manns, sem átti eftir að leiða til geðveiki og óhæfuverks, í sín dýpstu sálarfylgsni. Því allir menn drepa yndi sitt sagði Oscar Wilde og það gerði Otello. Myrkrið í rödd Garðars og fasi þegar geðveikin var að ná yfirtökunum var með ólíkindum og þegar hann viti sínu fjær óð um sviðið stafaði heljarógn af honum. Eftir að hafa myrt Desdemonu áttaði hann sig á að öll hans geðveika öfundsýki var byggð á lygum og blekkingum. Hver sem þetta sá hlaut að fyllast meðaumkvun með þessum helsjúka manni. Stórbrotin túlkun. Einn besti Otelló heimsins sögðu ýmsir sem höfðu séð marga túlka þetta sama hlutverk.

Eftir að Garðar lét af störfum sem óperustjóri kom hann aldrei nálægt óperunni. Það var ekki að hans ósk en hann var bara aldrei kallaður til starfa. Það er bæði synd og skömm því auðvitað átti að nýta krafta hans sem hljómsveitarstjóra. Þar kunni hann vel til verka og enginn hér á landi og þó víðar væri leitað hefði gert það eins vel. Auk þess sem það hefði verið ómetanlegt fyrir unga söngvara, sem voru að glíma við erfið hlutverk, að njóta leiðsagnar hans. Kunnátta hans og reynsla hefði verið þeim drjúgt veganesti. Og ekki hefði spillt að Ólöf Kolbrún miðlaði af sinni reynslu. En nei, við Íslendingar erum ósparir að henda kunnáttu og reynslu, jafnvel okkar stærstu listamanna, og erum fátækari fyrir bragðið.

Garðar hélt þó áfram að vinna. Annað var óhugsandi. Þú stöðvar ekki náttúruöflin ekki fyrr en eldurinn er slokknaður. Hann var sístarfandi, enda undi hann ekki öðru. Hann var skólastjóri Söngskólans í Reykjavík þar til hann lét af störfum fyrir ári. Stjórnaði áfram óperukórnum, auk fleiri kóra og skipulagði og hélt ótal tónleika með einsöngvörum, kórum og hljómsveitum. Sálumessa Mozarts var árlegur viðburður þar sem söngvara og tónlistarmanna sem látist höfðu á árinu var minnst.

Það var Garðari þung raun að verða vitni að því að Gamla bíó, heimili Íslensku óperunnar, væri selt, og nú er hún á hálfgerðum vergangi eignalaus og allslaus eins og betlikerling. Vonandi rætist úr, en þess verður langt að bíða að hún eignist annan eins leiðtoga og Garðar var. Það verður að skrifa sögu þessa stórmennis og Íslensku óperunnar sem fyrst. Hvorug sagan verður sögð án hinnar og báðar merkilegar.

Sjálf á ég Garðari óendanlega mikið að þakka og fæ það reyndar aldrei fullþakkað að hafa fengið að kynnast og starfa með honum. Engan mann hef ég hitt á lífsleiðinni sem ég hef dáðst eins að og borið eins mikla virðingu fyrir og Garðari Cortes.

Ég sendi fjölskyldu hans, nánustu vinum og samstarfsmönnum innilegar samúðarkveðjur. Missir þeirra er mikil en minningin um stórbrotinn listamann og stórhuga frumkvöðul lifir. Íslenskt tónlistarlíf og reyndar þjóðin öll stendur í mikilli þakkarskuld við Garðar Cortes.


Þórhildur Þorleifsdóttir, leikstjóri.