Jón Tómas Erlendsson fæddist í Reykjavík 7. desember 1952. Hann lést af slysförum 18. maí 2023.
Foreldrar Jóns voru Erlendur Guðmundsson, f. 1923, d. 2008, og Inga Hallveig Jónsdóttir, f. 1928, d. 2016. Systkini Jóns eru Gréta, f. 1951, og Guðmundur Rúnar, f. 1954.
Eiginkona Jóns er Guðrún Yrsa Sigurðardóttir, f. 1951, börn þeirra eru: 1) Sigurður, f. 1971, giftur Rebekku Gylfadóttur, f. 1970. Börn þeirra eru Kristín Dögg Eysteinsdóttir, f. 1991, gift Magnúsi Yngva Einarssyni, f. 1992, eiga þau Rebekku Sif, f. 2011, Fanndísi Mist, f. 2017, og Þorbjörgu Leu, f. 2020; Jón Tómas, f. 1996; og Diljá Rún, f. 1998. 2) Inga Dröfn, f. 1978, gift Guðna Þ. Snorrasyni, f. 1973. Börn þeirra eru Snorri Steinn og Karen Eva, f. 2011. 3) Gunnhildur, f. 1985. Dóttir hennar er Guðrún Yrsa Árnadóttir, f. 2020.
Jón starfaði lengstum sem kerfisfræðingur en ók langferðabílum á seinni árum.
Útför Jóns fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 1. júní 2023, klukkan 13.
Meira á https://www.mbl.is/andlat
Það var erfitt símtalið rétt eftir hádegi á uppstigningardag og auðheyrt á
rödd móður minnar að eitthvað alvarlegt hafði komið fyrir. Tengdafaðir
minn, Jón Tómas, hafði látist í hörmulegu slysi þá fyrr um daginn. Kynni
okkar hófust fyrir hartnær 20 árum þegar þau hjónin buðu verðandi
tengdasyni í mat á heimili sínu. Handtakið var þétt, viðmótið hlýtt, og
strax þá hófst sterk vinátta sem aldrei nokkurn tíma varpaðist skuggi á.
Jón hafði unnið smá heimavinnu, var kunnugt um að kauði hafði brennandi
áhuga á breyttum jeppum og ferðalögum tengdum þeim, væri með einn slíkan í
smíðum og spurði mikið og hafði margt þar til málanna að leggja. Hann var
virkur þátttakandi með okkur Ingu í ferðalögunum fyrstu árin, allt þar til
við félagarnir gerðum hlé á þessu sporti. Því nú tóku yfir íbúðarkaup og
stofnun fjölskyldna næstu árin hjá okkur flestum. Er minnisstæð ferð sem
hann fór með okkur Ingu í Jökulheima og þaðan í Grímsvötn, og önnur þar sem
við fórum tveir saman ásamt fleirum í Landmannalaugar, og svo fjölmörg
ferðalög sem við Inga fórum með honum og Gunnu á sumrin með tjaldvagnana.
Eru þar minnisstæðust ferðalög í Núpstaðarskóg, þar sem ég þurfti að kyngja
stoltinu og þiggja hjá honum spottann eftir að hafa rétt farið mér að voða
í heilmiklum hyl og svo ferð þar sem bílinn bilaði hjá honum og Gunnu á
Mývatni, en svo vel vildi til að við Inga vorum stödd ásamt vinafólki á
Akureyri, gátum keypt varahlutinn og brunað til þeirra og gert við bílinn.
Svo var tjaldað á Mývatni, og kvöldið varð mjög svo skemmtilegt og eins og
mig rámi eitthvað í að það hafi verið ögn lágskýjað hjá okkur tengdafeðgum
daginn eftir. Ég minnist þess líka hve vel þú og Gunna studduð við bakið á
mér og reyndust mér vel rétt eftir að við kynntumst. Þá var pabbi minn
orðinn mikið veikur og kominn á líknardeild. Mikið sem ég er þakklátur að
hafa borið gæfu til þess að hlusta og fara að ykkar ráðum. Þau áttu eftir
að koma sér vel seinna meir. Alltaf varstu boðinn og búinn að aðstoða og
skutlast, og mörg handtökin áttir þú þegar við Inga vorum að koma okkur
fyrir í Breiðholtinu og svo litlu seinna á Selfossi. Ákveðnar skoðanir
hafðir þú á hinum ýmsu málum, þrjóskur oft á tíðum, en hafðir samt þann
mikla kost að geta líka borið virðingu fyrir skoðunum annarra, enda bara
málin með að vera sammála um að vera ósammála. Það var blik í augunum á þér
í vor þegar þú sagðir mér að þú hefðir ákveðið að taka eitt sumar enn hjá
SBA. Þeir hefðu boðið þér að haga vinnunni um margt eins og hentaði þér
best. Greinilegt var að þú hlakkaðir til að fara að ferðast um landið
aftur, gefa af þér til annarra eins og þér var svo tamt og þú naust svo
vel. Ég skal vera hreinskilinn við þig með að það er erfið staðreynd að
þetta hörmulega slys hafi orðið svo nærri æskuheimili mínu, í sveitinni
minni sem er mér afar kær. Ég veit líka vel að þú hefðir aldrei viljað að
ég bæri einhvern kala til hennar. Slysin gera víst ekki boð á undan sér né
spyrja um stað og stund. Ég mun gera mér ferð þangað fljótlega, senda þér
hlýjar hugsanir og strauma og sættast við orðinn hlut. Það er sagt að
tíminn lækni öll sár. Ég er nú ekki endilega sammála því en ég held að
tíminn geri okkur kleift að halda áfram, geyma og varðveita minningarnar um
þig. Þú mátt treysta því að við fjölskyldan þín munum standa þétt saman hér
eftir sem hingað til, og aðstoða og styðja Gunnu sem best við getum. Hafðu
þakkir fyrir allt minn kæri. Blessuð sé minning þín.
Sómamann ég syrgi nú,
sífellt magnast treginn.
Af öllum mönnum þurftir þú,
þennan ganga veginn.