Elín Björg Benjamínsdóttir fæddist 20. ágúst 1925 á Grund í Skötufirði. Hún lést 1. apríl sl. á Hrafnistu, Nesvöllum í Reykjanesbæ.
Foreldrar hennar voru Benjamín Helgason, f. 8. júlí 1899, d. 25. sept. 1969 og Guðrún Guðmundsdóttir, f. 17. sept. 1890, d .3. maí 1976.
Elín átti einn hálfbróður, Gunnar Guðröðsson, f. 17. apríl 1920, d. 1. ágúst 2013.
Hún giftist 12. febrúar 1949 Guðmundi Jóni Dan Marsellíussyni, f. 26. okt. 1927, d. 22.2. 1994, dætur þeirra eru: 1) Sigríður Bernharðs, f. 22. des. 1948, maður hennar Bergur Jónsson, f. 16 júní 1945, börn þeirra eru: a) Sveinbjörg, f. 14. des. 1970, hennar börn Bergur Tareq og Hendrikka, b) Guðmundur, f. 7. júlí 1973, kona hans Paula Maguire-Bergsson, þeirra börn Daníel og Freyja, c) Bragi, f. 28. júlí 1978, maður hans Hafsteinn Einarsson. 2) Salóme Kristín, f. 11. nóv. 1959, maður hennar Gissur Þór Grétarsson, f. 24. sept. 1956, börn þeirra eru: a) Elín Björg, f. 11. júlí 1983, maður hennar Róbert Pálsson, þeirra börn Salóme Kristín, Thelma Sif og Dóróthea Sjöfn, b) Veigar Þór, f. 12. jan. 1986, c) Albert, f. 12. jan. 1986, kona hans Ásdís Geirsdóttir, þeirra börn Dísella og Símon Geir, fyrir átti Ásdís Kristínu Dalrós, d) Rúnar, f. 23. nóv. 1986, sonur hans Gabríel Gauti.

Útförin fór fram 12. apríl 2023.

Elsku amma okkar er dáin og söknuðurinn er mikill. Það er erfitt að geta ekki lengur hringt og spjallað um hvað hún hafi verið að horfa á í sjónvarpinu, hvaða sögu hún var að hlusta á í spilaranum og hvernig dagurinn hafi verið. Núna keyrir maður ekki lengur suður eftir í heimsókn til ömmu.

Amma á Ísó, eins og við kölluðum hana alltaf, var mjög ræðin og hafði gaman af því að tala við fólk og hikaði aldrei, ef hún hitti einhvern sem hún þekkti ekki, að spyrja hvaðan viðkomandi væri. Hvort hann eða hún væri kannski að vestan?

Amma hefði orðið 98 ára gömul í ágúst og upplifði því tímana tvenna á langri ævi. Hún fæddist í torfbæ á Grund í Skötufirði. Þegar hún var þriggja ára flutti hún með foreldrum sínum í Skálavíkurbúð í Ögurnesi, þar sem hún ólst upp til 16 ára aldurs, þegar þau fluttu til Ísafjarðar árið 1941.

Í Ögurnesi var mikil sjósókn á þessum tíma og amma minntist þess þegar hún sat og horfði á þegar karlarnir voru að beita, eiga við lóðin og stokka upp. Á meðan voru mamma hennar og aðrar konur í þorpinu að þvo þvottinn í volgu þvottalauginni sem var þarna á svæðinu. Þar áttu þær sinn steininn hver sem þær þvoðu á.

Í minningu hennar voru æskuárin yndislegir tímar, en eflaust hefur oft verið erfitt hjá þeim, þó amma hafi ekki talað um það eða valið að muna eftir því. Amma bókstaflega gekk í skólann í Ögri, því til þess að sækja skóla þurftu börnin í Ögurnesi að ganga rúmlega fjóra kílómetra fram og til baka, á hverjum degi. Ömmu gekk vel að læra og talaði um að hún hefði viljað geta lært meira.

Ömmu var margt til lista lagt og allt sem hún gerði, gerði hún vel. Hún var mikil handavinnukona og lærði fatasaum. Mamma minnist þess með hlýhug að fyrir hver einustu jól, fékk hún nýjan jólakjól, og einnig nýjan jóla-náttkjól. Amma föndraði einnig mikið í seinni tíð, t.d. með perlur á bandi og bjó m.a. til jólaskraut og gaf okkur.

Eitt af því sem amma saknaði mikið frá Ögurnesinu þegar hún flutti til Ísafjarðar var að sjá ekki sólsetrið. Hún upplifði sig svolítið aðþrengda á Ísafirði, ólíkt því sem hún var vön úr Ögurnesinu. Hún fór í vist hjá fjölskyldu í Hafnarstræti 1 og reyndist sú fjölskylda henni afar vel. Um tvítugt fór hún til Reykjavíkur og bjó hjá frænku sinni í eitt ár, þar sem hún lærði fatasaum hjá klæðskera í Reykjavík. Þegar hún flutti aftur vestur tók hún að sér fatasaum fyrir fólk.

Amma kynntist afa, Guðmundi Marsellíussyni, þegar hún flutti til Ísafjarðar. Þau giftu sig þann 12. febrúar árið 1949 og mamma kom til þeirra sjö mánaða í júlí sama ár og varð kjördóttir þeirra. Mamma hefur alltaf sagt að hún hefði ekki getað verið heppnari og sé afskaplega þakklát fyrir að hafa fengið að alast upp hjá þeim. Mamma hélt líka ávallt góðu sambandi við líffræðilega móður sína, m.a. fyrir tilstuðlan ömmu á Ísó. Eins og oft er með kjörbörn þá voru mamma og afi skyld, þau voru þremenningar og átti mamma því stóran hóp af frænkum og frændum á Ísafirði, auk þess að eiga þrjá afa og tvær ömmur. Mamma hefur oft sagt okkur hve henni þótti gott að alast upp á Ísafirði og að það hafi verið mikil forréttindi fyrir hana að eiga ömmu og afa á Ísó, sem foreldra.

Amma var heimavinnandi þegar mamma var að alast upp. Síðar fór hún að vinna hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga og vann þar, þar til þau fluttu suður í Sandgerði árið 1989 á Vallargötu 37. Þar fór amma að vinna hjá Nesfiski í Garði, þar til hún fór á eftirlaun um sjötugt. Árið 1998 flutti hún í íbúð fyrir aldraða á Suðurgötu 17, fjórum árum eftir að afi dó árið 1994. Þar var hún mjög ánægð og henni leið vel. Síðustu árin bjó hún svo á hjúkrunarheimilinu Nesvöllum í Keflavík þar sem hún fékk mjög góða umönnun.

Þegar við systkinin vorum að alast upp vorum við því það heppin að eiga þrjár ömmur. Án þess að gera upp á milli þeirra, þá var amma á Ísó í mjög miklu uppáhaldi. Skiptir þar miklu hversu auðvelt hún átti með að nálgast börn og umgangast þau. Hún kom fram við þau sem jafningja og því hændust börn að henni. Hún sýndi manni alltaf mikinn áhuga, spurði hvað manni fannst um hitt og þetta og hún átti einnig auðvelt með að svara öllum mögulegum og ómögulegum spurningum sem maður kunni að hafa. Maður var alltaf velkominn í hennar faðm. Ekki spillti heldur fyrir að amma átti alltaf til nammi, kex, kleinur og kruðerí, sem var alltaf dregið fram við gestakomur og þegar maður bað um. Hún var hlý og skilningsrík móðir og góð amma.

Við systkinin eigum margar góðar minningar um að hafa verið á Ísafirði hjá afa og ömmu. Stundum vorum við þar saman, en einnig oft hvert í sínu lagi. Stundum yfir páskana, en líka í nokkrar vikur yfir sumarið. Jafnvel allt sumarið, eins og Gummi, sem vann með ömmu í Íshúsfélagi Ísfirðinga í tvö sumur árin 1987 og 1988. Amma og Gummi höfðu bæði gaman af því að vinna saman og ræddu oft um þann tíma þegar þau hittust.

Við eigum öll ljúfar minningar um að hafa verið á Pólgötunni og að leika með gamla dótið sem mamma og Salla áttu og var uppi í risi, t.d. eins og búðardótið sem var mjög fallegt og vandað, hestahlaupabrautin og Mastermind-spilið. Einnig munum við eftir að hafa verið í kjallaranum að horfa á ömmu og mömmu hreinsa berin sem höfðu verið tínd fyrr um daginn og sulta þau. Þar var líka verkstæðið hans afa og þar fékk maður spýtu sem var búið að saga í bátsform, svo var stýrishúsið sett ofan á og naglar negldir allan hringinn og snærisspotti, sem maður fékk frá ömmu, strengdur á milli naglanna. Í kjallaranum geymdi afi líka kafarabúningana sína, hjálmana og allt sem þeim fylgdi. Þar var líka gufubaðið hans afa, sem hann fór í til að hita sig upp eftir að hafa verið að kafa. Þetta gufubað var sérstakt, því það var í raun bara kassi sem sest var inn í og lokað, þannig að bara hausinn stóð upp úr. Frá Pólgötunni fluttu þau svo niður í Neðsta, í gömlu skipasmíðastöðina. Þar útbjó afi íbúð á efri hæðinni og var með stórt trésmíðaverkstæði á neðri hæðinni. Þar átti afi bát sem við fengum að fara á og sigla um á Pollinum.

Þá fórum við einnig á skíði upp á Seljalandsdal. Amma smurði nesti og gerði heitt kakói í brúsa og afi keyrði okkur upp eftir á gamla Bronkóinum og sótti okkur svo um kvöldið. Einnig var keyrt í Skrúð, Holtsfjöru og á Flateyri og Suðureyri. Einnig er okkur minnisstætt að hafa keyrt allt Djúpið og gist í Kaldalóni. Á leiðinni sagði amma okkur sögur úr Djúpinu, hvar mamma hefði verið í sveit á Kleifum í Skötufirði og hvar afi hafði verið í skóla á Reykjanesi. En sérstaklega var gaman og minnisstætt að stoppa í Ögurnesinu og sjá hvar amma ólst upp. Hún sýndi okkur klettana sem hún klifraði í, laupinn hans krumma og sérstæðu steinana í fjörunni sem hún hoppaði á milli.

Þá var alltaf gaman að fara inn í Skóg og tína fullt af berjum og borða nesti í góða veðrinu. Skonsutertur og klattar með rækjusalati er eitthvað sem maður tengir við ömmu á Ísó. Einnig kenndi hún manni að gera sandkökur og marmarakökur, að skipta deiginu í tvennt og setja kakó út í annan hlutann. Svo steikti hún líka fullt af kleinum sem voru alltaf til í frystinum.

Við munum öll eftir frelsinu og áhyggjuleysinu sem fylgdi því að vera á Ísafirði hjá ömmu og afa. Það var ekki síst ömmu að þakka að maður naut þess að vera hjá þeim. Frelsi til að ganga um bæinn, leika sér í fjörunni tímunum saman eða horfa á Tomma og Jenna á spólu. Alltaf var passað upp á að maður fengi nóg að borða, s.s. smurt brauð með malakoff og CocoPuffs, sem var bara til hjá ömmu. Svo fékk maður jafnvel að fara út í Hamraborg og kaupa kókosbollur og Lindubuff til að gæða sér á. Amma var alltaf til í spila við okkur og fóru ófáar kvöldstundir í að spila Olsen-olsen og Kleppara.

Allar afmælis- og jólagjafir voru vandaðar og góðar og maður man sérstaklega eftir að fá alltaf Nóa-konfektkassa með í jólapakkanum. Konfektkassa sem maður tók með sér upp í rúm og las nýjustu bókina sem maður hafði fengið í jólagjöf.

Ömmu fannst gaman að vera á ferðinni og fara í hálfgerðar óvissuferðir. Stoppa bílinn á ólíklegustu stöðum og fara út og skoða. Stundum jafnvel að klöngrast á einhverja staði, sem kannski var ekkert svo sniðugt að reyna að komast á. Hún var óhrædd við allt, aldrei hrædd um að lenda í einhverju. Kannski voru það áhrif frá uppvaxtarárunum í Ögurnesinu sem drógu hana áfram í að hreyfa sig og upplifa hluti í náttúrunni í kringum sig. Hún var alltaf áhugasöm, ákveðin og lét ekkert stoppa sig, hvorki veðrið né mótbárur manna. Stundum urðu heimsóknirnar til hennar, sem áttu að vera stuttur kaffisopi með Berg Tareq, að bíltúr og fjöruferð í marga klukkutíma. Þetta voru skemmtilegar ferðir sem henni þótti gaman að fara í. Sérstaklega að fara með Berg niður í fjöru, þar sem hún þekkti alla fuglana, maríuerlurnar, kríuna og ýmislegt annað sem hún sagði okkur frá. Þar bjuggum við til falleg listaverk úr steinum, stráum og öðru sem við fundum í fjörunni. Amma elskaði að sitja í sandinum og leika sér með okkur. Þetta voru dýrmætar stundir fyrir okkur. Það var mikið líf í henni og hún vildi líka njóta, þannig að eftir þessar ferðir var ekkert verið að fara heim og fá sér brauðsneið með osti. Hún vildi fara og fá sér pítsu eða hamborgara á veitingastað, áður en hún færi heim.

Amma ferðaðist líka erlendis til okkar m.a. til Brussel þar sem Sveina bjó um tíma og til Dublin í giftingu Gumma og Paulu. Það voru stórkostlegar ferðir sem hún talaði oft um og fannst alltaf gaman að skoða myndirnar frá þessum ferðalögum sem mamma setti í bækur fyrir hana.

Elsku amma, þú varst glæsileg kona og við þökkum þér fyrir allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman og fyrir að vera mamma mömmu og amma okkar.

Sveina, Gummi og Bragi.

Bragi Bergsson, Guðmundur Bergsson og Sveinbjörg Bergsdóttir.