Sigurlaug fæddist í Hvammi í Vatnsdal 31. maí 1932. Hún lést á Landspítalanum 6. maí 2023.
Foreldrar hennar voru Theodóra Hallgrímsdóttir, f. 9. nóvember 1895, d. 13. maí 1992, og Steingrímur Ingvarsson, f. 28. júní 1897, d. 9. október 1947.
Systkini Sigurlaugar voru Ingvar Andrés, f. 1922, d. 2009, kvæntur Ingibjörgu Bjarnadóttur, Hallgrímur Heiðar, f. 1924, d. 2000 og Þorleifur Reynir, f. 1925, d. 1989, kvæntur Salóme Jónsdóttur.
Sigurlaug giftist Hauki F. Pálssyni, f. 1931, d. 2011, mjólkurfræðingi frá Sauðárkróki, þann 1. ágúst 1958. Börn þeirra eru: 1) Steingrímur, f. 1959, maki Maggý Dögg Emilsdóttir, f. 1959. Börn þeirra eru: a) Júlíanna Lára, f. 1983, sambýlismaður er Helgi Þór Harðarson, börn þeirra eru Hekla Dýrleif og Þórhalla Guðrún en fyrir á Helgi Þór Hreggvið Dýra. b) Haukur Heiðar, f. 1989, sambýlismaður hans er Jón Baldur Bogason. 2) Sigrún, f. 1961, maki Sigbjörn Ármann, f. 1960. Börn þeirra eru: a) Helga Þóra Ármann, f. 1987, sambýlismaður hennar er Hilmar Örn Óskarsson, barn þeirra Myrra Björt. b) Magnús Valdimar Ármann, f. 1992. c) Heiða Valdís Ármann, f. 1995, sambýlismaður hennar er Jón Þór Sigurðsson, barn þeirra er Ezra Muggur. 3) Theodóra, f. 1970, maki Sigurður Sævar Gunnarsson, f. 1973. Börn þeirra eru: a) Davíð Haukur, f. 1996. b) Pétur Gunnar, f. 1999. c) Matthías Jakob, f. 2004. d) Karen Ósk, f. 2010.
Sigurlaug ólst upp í Hvammi í Vatnsdal. Hún gekk í Kvennaskólann á Blönduósi veturinn 1950-1951. Sigurlaug og Haukur bjuggu lengst af á Sauðárkróki. Auk almennra húsmóðurstarfa starfaði Sigurlaug við saumaskap og fiskvinnslu. Eftir að starfsævinni lauk fluttust þau hjónin að Nónhæð í Garðabæ.
Sigurlaug tengdamóðir mín fæddist í Hvammi í Vatnsdal og hafði alla tíð mikla tengingu við Vatnsdalinn og Húnavatnssýsluna. Hún ólst upp á gestrisnu og mannmörgu heimili sem örugglega hefur mótað þá glaðværð og félagslyndi sem einkenndi hana. Sigurlaugu leið alltaf vel í sumarbústaðnum Hjallafossi í Vatnsdal. Þar á ég sem tengdasonur margar minningar að bera grjót og troða niður trjám, enda kappsmál að líta vel út í augum Sigurlaugar og Hauks. Við fjölskyldan fórum síðar oft með Sigurlaugu þangað, enda þar alltaf nóg að basla og búa til ævintýri. Börnin okkar Theodóru eiga margar skemmtilegar og góðar minningar af því að vera með ömmu sinni í bústaðnum. Að laga til blómabeð, slá gras með sláttuorfi, höggva niður tré með exi, bera grjót og búa til bál. Allir fengu svo sveitabollur og heitar kleinur með kúmeni að launum.
Við fjölskyldan höfum átt lengi heima í Danmörku, Noregi og Bandaríkjunum. Það var alltaf gott að koma heim til Íslands í fríum og vera hjá Sigurlaugu á Nónhæð í Garðabæ. Þar bjuggum við líka lengi á meðan við leituðum að nýjum stað. Alltaf var Sigurlaug stoð og stytta þegar á þurfti að halda.
Ömmubörnin eiga margar góðar minningar af ömmu sinni. Davíð, elsti sonurinn, bjó um tíma einn með henni á Nónhæð og minnist þess vel að vera að útskýra myndina Hringadróttinssögu fyrir henni þegar hún var bæði að prjóna og horfa á sjónvarpið á sama tíma. Pétur, miðstrákurinn okkar, var mjög náinn ömmu sinn og hjálpaði henni oft við ýmislegt og öfugt. Ömmu hans leist ekkert á það þegar hann klifraði upp svalirnar á Nónhæð, enda svalirnar háar. Það var aðeins of mikið fyrir ömmuhjartað. Sigurlaug var af þeirri kynslóð þar sem mikilvægt var að allir skyldu klára af diskunum sínum. Davíð man eftir því sem lítill polli að kenna Pétri það trikk að dreifa öllum matnum vel um diskinn svo lítið færi fyrir honum ef fiskur var í matinn. Yngsti strákurinn, Matthías, man eftir því hve hlýtt það var að stinga höndunum undir arma ömmu sinnar til að hlýja sér eftir að hafa spilað fótbolta í frosti og kulda. Karen litla fékk eitt sinn pest í Sjálandsskóla, en hún var svo heppin að amma hennar var í sundi þar líka á sama tíma. Hún kom stelpunni til hjálpar og fóru þær heim á Nónhæð. Karen man eftir því að vera að dansa á rúmi ömmu sinnar þegar amma hennar kom að henni og spurði hvaða dans þetta væri og brosti svo að danstöktum ömmustelpunnar. Þá fékk Karen oft varaliti og farða lánað hjá ömmu sinni. Amma fyrirgaf alltaf ef satt og rétt var sagt frá að lokum.
Sigurlaug hafði gaman af því að ferðast og kom hún og heimsótti okkur erlendis. Henni þótti vænt um landið sitt, þekkti það og sögur þess vel.
Sigurlaug var nýjungagjörn og ráðagóð. Þegar henni tæplega níræðri var bent á að best væri að sjá ákveðinn lopapeysufrágang á Youtube og Facebook, þá fékk hún sér spjaldtölvu og lærði einfaldlega á þetta allt samt. Á sama tíma keypti hún sér sjálfskiptan bíl og lærði að keyra slíkan bíl. Hún útskýrði fyrir mér hvað virkaði þannig: „Siggi, það er bara best að þrýsta vinstri löppinni fast í hornið svo hún fari ekki óvart á bremsuna.“ Síðan keyrði hún eins og herforingi. Þegar sjónin fór að dala þá fékk hún okkur með sér til að fá stærra og skýrara sjónvarp, enda lausnamiðuð og myndvirk.
Við kveðjum nú elsku Sigurlaugu full þakklætis fyrir alla hennar gæsku og velvild sem hún sýndi okkur. Minning hennar mun lifa áfram í hjörtum okkar.
Sigurður Sævar Gunnarsson og fjölskylda.