Björn Sigurbjörnsson fæddist 18. nóvember 1931 í Reykjavík. Hann lést á Droplaugarstöðum 26. maí 2023.
Björn var sonur hjónanna Unnar Haraldsdóttur húsfreyju, f. 29.10. 1904, d. 14.7. 1991, og Sigurbjörns Þorkelssonar, kaupmanns í Vísi og forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkur, f. 25.8. 1885, d. 4.10. 1981. Systkin Björns voru: Kristín, f. 1909, d. 1997; Sólveig, f. 1911, d. 2005; Þorkell, f. 2012, d. 2006; Birna, f. 1913, d. 1998; Hanna, f. 1915, d. 2007; Hjalti, f. 2016, d. 2006; og Helga, f. 2017, d. 2009, en þau voru börn Sigurbjörns og Gróu Bjarnadóttur sem lést 1918.
Börn Unnar og Sigurbjörns voru: Friðrik, f. 1923, d. 1986; Ástríður, f. 1925, d. 1935; Áslaug, f. 1930, d. 2001; og Björn.
Árið 1952 kvæntist Björn Helgu Ingibjörgu Pálsdóttur, f. 1930, d. 2004. Dóttir þeirra er Unnur Steina læknir, f. 1959, gift Kristni Hauki Skarphéðinssyni dýravistfræðingi, f. 1956, og eiga þau tvö börn; Björn saxófónleikara, f. 1994; unnusta hans er Georgiana Tudorica ferðaráðgjafi, og Kristínu Helgu þroskaþjálfa, f. 1995.
Árið 2005 kvæntist Björn eftirlifandi eiginkonu sinni, Önnu Pálsdóttur lífeindafræðingi, f. 1947. Dætur hennar eru Ólöf Bolladóttir sérkennari, gift Guðmundi Pálssyni tannlækni, Ingibjörg Hanna Pétursdóttir textílhönnuður, gift Bas Mijnen stærðfræðingi, og Hrafnhildur Pétursdóttir sálfræðingur, gift Thijs Jacobs tónlistarmanni. Afkomendur Önnu eru 15 talsins.
Björn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1951 og búfræðiprófi frá Hvanneyri 1952. Sama ár hóf hann nám við Manitoba-háskóla í Kanada og lauk þaðan BSA- og síðar MS-prófi 1957 í frumuerfðafræði, jarðrækt og búvísindum. Þá nam Björn erfðafræði og jurtakynbætur við Cornell-háskóla og lauk doktorsprófi þaðan 1960 um rannsóknir á íslenska melgresinu. Björn flutti til Íslands 1960 og starfaði sem sérfræðingur í jurtakynbótum við búnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands til 1963. Þá var honum boðin staða í Vínarborg hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA) sem sérfræðingur í notkun geisla til að framkalla stökkbreytingar til jurtakynbóta. Björn var deildarstjóri og síðar aðstoðarforstjóri í sameiginlegri rannsóknarstofnun Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í Róm og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) í Vínarborg. Árið 1974 var Björn ráðinn forstjóri Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og starfaði þar til 1983 er hann varð forstjóri sameiginlegrar deildar FAO/IAEA. Björn var ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu 1995-2000. Hann tók þátt í vísinda- og stjórnunarstarfi í þágu „Grænu byltingarinnar“. Þessar rannsóknir voru hluti af verkefni sem hjálpaði fátækustu þjóðum heims að verða sjálfbjarga með matvælaframleiðslu og nefndist „Fæðum hungraðan heim“. Eitt stærsta verkefnið sneri að jurtakynbótum á hrísgrjónum og tókst að skeyta A-vítamíni í hrísgrjón og draga úr tíðni blindu hjá börnum. Björn var heiðursprófessor við kínversku og rúmensku landbúnaðarakademíurnar. Björn hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 1986 fyrir vísindastörf á alþjóðavettvangi.
Björn verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, 7. júní 2023, klukkan 13.
Með Birni Sigurbjörnssyni er fallinn mesti heimsmaður landbúnaðarvísinda á síðari helmingi liðinnar aldar hér á landi. Hann var einnig einhver farsælasti stjórnandi í landbúnaði á Íslandi og einnig erlendis. Hér ætla ég ekki að rekja hinn glæsta starfsferil Björns, heldur örfá ógleymanleg minningabrot tengd samvinnu við hann. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að starfa stutta stundu undir hans stjórn hjá RALA meðan hann var þar forstjóri.
Glæsimennska Björns var einstök og frá honum geislaði heimssýn hans á möguleika, hlutverk og getu landbúnaðarins til lausnar fjölþættum vandamálum í síbreytilegum og viðsjárverðum heimi. Hann trúði á og vissi að þar hafði íslenskur landbúnaður líka sitt hlutverk og það væri okkar starf að gera það að veruleika.
Þó að stjórnunarstörf tækju stærstan hluta starfsævi hans þá hófst ferill hans með glæsilegu starfi hans sem landbúnaðarvísindamaður á heimsvísu. Fagsvið hans var það sem ég vil nefna hagnýta landbúnaðarerfðafræði. Hans sérsvið voru plöntur en mitt búfé en hinn sameiginlegi faggrunnur sem hann kunni vel fannst mér ætíð auðvelda öll samskipti og viðræður við hann. Hann var ætíð fljótur að greina hin faglegu vandamál sem við vorum að glíma við hjá búfé og tilbúinn að aðstoða við lausn þeirra.
Stjórnunarhæfileikar hans voru líka einstakir og því eðlilegt að eftir þeim væri sóst. Þar má fyrst nefna hinn trausta faglega grunn sem hann hafði sem leiddi til að lausna var leitað á málefnalegan hátt. Þekkingin réð ávallt för. Honum var einnig mikið mál að niðurstöðurnar kæmust sem fyrst og best til skila til þeirra sem þyrftu og ættu að nýta þær, bændanna. Viðhorf hans voru mótuð af því að vandamálin væru til að leysa þau. Lausnin átti að mótast af jákvæðni og bjartsýni. Fyrst og síðast var Björn ákaflega þægilegur í öllum samskiptum, hjálpsamur og vingjarnlegur. Hann umgekkst alla með virðingu og leit á þá sem jafningja sína.
Á þeim árum sem ég starfaði undir hans stjórn tel ég að hæst beri stóra landnýtingarverkefnið sem hleypt var af stokkunum í framhaldi þjóðargjafar Alþingis 1974. Þetta er tvímælalaust umfangsmesta og kröftugasta verkefni sem íslensk landbúnaðarvísindi hafa tekist á við. Þó að margir hefðu óskað að sjá enn meira af þeim miklu upplýsingum og þekkingu sem þar var aflað miðlað betur til bænda og þjóðfélagsins þá varð afrakstur þess ómetanlegur. Á dreifingu þeirrar þekkingar reyndi fyrst og fremst eftir að Björn var kominn til nýrra stjórnunarstarfa erlendis. Verkefnið naut áreiðanlega mikils af frábærri yfirstjórn Björns sem hann vann í samvinnu við sinn gamla húsbónda Halldór Pálsson og vin þeirra Bandaríkjamanninn Bement. Þetta verkefni mun lengi standa sem minnisvarði um frábært samstarf þeirra félaga Björns og Halldórs sem gat skilað miklu þegar best tókst til. Jafn gerólíkir menn gátu saman unnið afrek vegna þess trausts og vináttu sem ávallt virtist ríkja þeirra á milli.
Bjartsýnin og jákvæðnin og trú á landbúnaðinn réðu ávallt för í stjórnunarstörfum Björns. Stundum réð bjartsýnin um of þegar eftir á er horft til þróunar mála.
Greinilegt var að Ísland og heimaslóðir toguðu ávallt í Björn, þær skyldu njóta hluta af starfskröftum hans þó að gyllandi tilboð biðu ávallt erlendis. Ræturnar til Kiðafells, þar sem mér fannst ætíð að þær næðu dýpst, voru sterkar. Síðustu árin fann ég þetta best í umræðum við hann um glæstan búskap frænda hans Sigurbjarnar Hjaltasonar á Kiðafelli. Þar naut hann þess að horfa á blómstra hjá honum alla bestu þætti góðra íslenskra bænda; ást til jarðarinnar, þekkingarnýtingu og glæsilegan búskap borinn uppi af mikilli hagsýni. Þetta fann ég að gladdi hann mikið.
Síðasta skipti þegar fundum okkar bar saman var samkoma þar sem margir landbúnaðarmenn komu saman og hann sýndi mér þá virðingu að fá að keyra hann nokkra leið að heimili hans að samkomu lokinni. Á heimleiðinni var tímanum ekki eytt í innihaldslaust blaður heldur talaði hann um þá hugmynd sína að við nokkrir, komnir til eldri ára en mögulega byggjum að nokkurri reynslu um íslenskan landbúnað, tækjum höndum saman með umræðuhóp um framtíð íslensks landbúnaðar og létum þannig frá okkur heyra. Hann taldi alla umræðu þar um einkennast um of af þekkingarskorti og neikvæðni. Tækjum við þannig höndum saman gætum við vonandi fært eitthvað til betri vegar. Því miður varð þetta aldrei annað en hugmynd Björns. Mögulega var hún samt fyllilega tímabær.
Með þessum fátæklegu orðum vil ég þakka Birni ómetanlega leiðsögn en fyrst og fremst ógleymanlega viðkynningu við stórkostlegan einstakling. Hann skilur eftir sig óbrotgjarnan, glæsilegan feril sem einstakur landbúnaðarvísindamaður og stjórnandi í málefnum landbúnaðarins á Íslandi en líka á erlendri grund sem allir sem hann þekktu munu geyma og njóta um ókomin ár. Öllum hans nánustu sendi ég samúðarkveðjur en minningarnar um ógleymanlegan framfaramann munu verða sorginni yfirsterkari.
Jón Viðar Jónmundsson.