Steinunn Hákonardóttir fæddist 26. júní 1961 í Keflavík. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Landspítalanum við Hringbraut 27. maí 2023.
Foreldrar Steinunnar voru Hákon Kristinsson, f. 7. ágúst 1922, d. 19. maí 2012, og María Þorsteinsdóttir, f. 3. júlí 1924, d. 5. júlí 1988.
Steinunn var yngsta barn þeirra hjóna. Systkini hennar eru Þorsteinn, f. 29. mars 1947, Stefanía, f. 21. mars 1950, og Bryndís, f. 18. febrúar 1955.
Steinunn var gift Elvari Ágústssyni, f. 18. febrúar 1960, og eiga þau tvö börn.
Foreldrar Elvars voru Ágúst Á. Jóhannsson, f. 17. mars 1926, d. 17. maí 2020, og Guðrún K. Jóhannsdóttir, f. 5. mars 1921, d. 25. janúar 1996.
Börn Steinunnar og Elvars eru: 1) Elva Björk, f. 13. október 1983. Eiginmaður hennar er Elvar Örn Brynjólfsson, f. 6. apríl 1983. Börn þeirra eru Rúnar Óli, f. 9. febrúar 2008, og Sara Steinunn, f. 13. september 2011. 2) Ágúst Rúnar, f. 13. júní 1986. Eiginkona hans er Guðrún Pétursdóttir, f. 5. júlí 1981. Börn þeirra eru Arnór Sölvi, f. 13. apríl 2019, og Óliver Stormur, f. 19. febrúar 2021. Fyrir á Guðrún tvö börn: Unnar Snæ, f. 11. apríl 1999, og Birgittu Sól, f. 8. febrúar 2005.
Steinunn ólst upp í Innri-Njarðvík. Sem barn var hún hvers manns hugljúfi.
Steinunn gekk í Njarðvíkurskóla og eftir grunnskólagöngu fór hún í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þegar hún var komin á fullorðinsaldur settist hún aftur á skólabekk og lauk námi sem viðurkenndur bókari frá Háskólanum í Reykjavík með stakri prýði.
Hún vann við fiskvinnslu á yngri árum og síðar vann hún í leikskóla og við gangavörslu í Njarðvíkurskóla. Faðir hennar rak fyrirtækið Plastgerð Suðurnesja þar sem hún vann. Um aldamótin fór hún að vinna hjá Keflavíkurverktökum, síðar Flugmálastjórn, og síðustu starfsárin hjá Isavia sem bókari.
Steinunn og Elvar komu sér upp fallegu fjölskylduheimili í Háseylu í Innri-Njarðvík þar sem þau ólu upp börnin sín, Elvu og Gústa. Í sumarfríum fjölskyldunnar var ferðaðist vítt og breitt um landið þegar krakkarnir voru yngri. Henni þótti mjög gaman að ferðast til útlanda, þá sérstaklega að fara til sólarlanda með fjölskyldunni. En best þótti Steinunni þó að vera í sumarbústað fjölskyldunnar í Grímsnesi.
Útför Steinunnar fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 7. júní 2023, klukkan 14.
Það var í júní 1961 að yngsta systir mín fæddist. Hún var tekin með keisaraskurði. Við aðgerðina urðu einhver mistök og mamma varð óskaplega veik, var óttast um líf hennar. Þá daga kom fyrsta alvöru högg lífsins á mig nýfermdan. En mamma náði sér og allt lagaðist.
Steinunn systir mín var lík mér að öllu leyti, nema hún var stelpa. Þar kom til öðruvísi skynjun og skilningur. Við skynjuðum aðgreinda persónuleika, sem sérstaka, bæði fólk og dýr. Hún kom beint fram við hvern einstakan á þeirra forsendum. Þetta einkenndi litlu systur mína. Laus við meinfýsni. En við urðum ekki mikið samtíða fyrr en á fullorðinsaldri.
17 ára fór ég til sjós og svo í skóla innanlands og utan. Samskipti voru því stopul í tíu ár. Í þá daga var hringt heim á jólum frá útlöndum. Á tíu árum voru ungir krakkar, sem voru þegar ég fór, orðin fullorðin, þegar ég snéri aftur til Njarðvíkur. Þegar maður er alltaf á ferðinni, þá stendur tíminn kyrr. Ég kom aftur inn í heim í Njarðvík, sem var allur annar en þegar ég fór. Það var þá, sem ég fór að kynnast hversu lík við værum, ég og litla systir mín.
Hún lenti illa í tískufyrirbrigði úr ævintýrahöll menntamálaráðuneytisins og látin læra mengjafræði í stað venjulegra reikniaðferða. Þetta ævintýri var þannig að frændi minn einn missti föður sinn og var þess vegna sendur í skóla í Skagafirði. Hann einn var látinn hafa mengjapróf og það hafði ekki verið kennt þar, vegna þess að hann var úr Njarðvíkum suður. Sko, tölfræði ráðuneytisins varð að vera rétt og börn eru bara númer. Hann og kennarinn reyndu að leysa prófið í eina sex tíma en féllu saman á því. Þetta var sett inn í námsskrá án samhengis við reikniaðferðir daglegs lífs eins og áður var. Þetta lokaði á skólagöngu margra á þessum tíma. Ég komst í þetta og fór í Ríkisútgáfu námsbóka og bað um lestrarbók yfir stærðfræðiform. Og enginn vissi hvað ég var að tala um. En það er ekki hægt að læra stærðfræði ef ekki eru nöfn og skýrar merkingar á tungumáli, sem fólk hugsar á. Stærðfræðiform, sem hægt er að lesa upphátt og segja fram, þá sérstaklega fyrir orðblint fólk eins og ég og systir mín vorum. Steinunn systir mín fór snemma að vinna og kynntist Elvari Ágústssyni, sem varð eiginmaður hennar. Ætli það hafi ekki verið svipað og þegar ég sagði konu minni tveim tímum eftir að við kynntumst að hún yrði konan mín og hafði hún þá aldrei hitt annað eins fífl. Elvar var ungur afskaplega verklaginn eins og hann átti ætt og uppeldi til. Síðar einfaldaði hann fyrir mig varmaendurvinnsluskiptakerfi sem verkfræðiteikning ætlaði tólf fermetra, niður í þrjá fermetra og tig-sauð kerfið upp sjálfur, svo dæmi sé nefnt. Elvar var sonur Ágústs Jóhannssonar, fiskmatsmanns og verkstjóra. Hann var harður vinstri maður og óvæginn í pólitískum deilum, en eftir að Elvar og Steinunn eignuðust börn, þá hvarf sá harði maður og Gústi varð fullur lífsgleði og reyndist Steinunni mikið vel. Var móðir Elvars engu síðri. Þau Steinunn keyptu íbúð í Keflavik, hús í Innri-Njarðvík og síðar annað hús í Innri-Njarðvík. Þar voru börnin alin upp. Móðir okkar lést úr krabbameini 1988, þá nýorðin 64 ára og Steinunn ekki nema 27 ára. En Steinunn var að verða 62 ára þegar hún lést. Faðir okkar hafi fengið heilablóðfall áður og jafnaði sig að mestu eftir það, en ekki alveg og sóttist um smíðar á vélum, en hann með bilaða dómgreind. Elvar og Steinunn leyfðu honum að smíða í bílskúrnum og kann ég þeim miklar þakkir að sinna honum, ég sjálfur í ferðalögum og viðskiptum innanlands og utan. Það hefur oft verið erfitt fyrir þau. Elvar missti móður sína 1996 og Ágúst faðir hans átti annað heimili hjá Steinunni og Elvari. Börn þeirra Elvars og Steinunnar umgengust því afa og ömmu og stórfölskyldur reglulega eins og áður var. Í dag er lífið í stuttum tímaeiningum, í síma, neti, skutlað og sótt á staðinn, farið í sjoppuna; allt í samveru í smá skömmtum, Hæ og bæ líf. Börn Steinunnar og Elvars og þeirra börn halda uppteknum hætti. Hvernig sem á því stendur, þá var Innri-Njarðvík hálfgerð sveit og fólkið eins og fólk á bæjum, en hús hétu nöfnum. Það hefur einkennt fráflutta að leita aftur í Innri-Njarðvík, það sem vill oft vera fjölskyldufólk, stórrar fjölskyldu. Þetta var svolítið eins og á Grænlandi, húsin snúa þannig að sést til barna alls staðar og allir fylgjast með. Skipulagshönnuðir mættu nú aðeins nota lífsfélagslega reglustiku í byggð lifandi sambýlis. Þessu er ekki viðhaldið í nýrri hverfum. Elvar er starfsamur og smiður bæði á tré og járn. Þau gerðu fleira en að byggja sér hús og bílskúr, þau byggðu sér á mörgum árum mjög fallegan og vandaðan sumarbústað í Grímsnesi. Þau unnu hin síðari ár í kringum ferðamennsku í flugstöðinni og komust vel af, allt var til hamingju stofnað og framtíðin var björt. En hendi var veifað og Steinunn greindist með krabbamein 2020. Steinunn fékk miklar meðferðir og það sló á í rúm tvö ár. En svo skyndilega fór allt af stað aftur. Hún lést eftir skamma en tvísýna meðferð. Ég og kona mín vottum samúð og höfum mikið misst þar sem systir mín, Steinunn Hákonardóttir, var.
Þorsteinn Hákonarson.