Reynir Karlsson fæddist 30. júlí 1947. Hann lést á hjúkrunarheimili í Skjervøy í Noregi 27. apríl 2023 eftir langvinn veikindi.
Reynir var sonur Karls B. Árnasonar, f. 1923, og Margrétar Eide Eyjólfsdóttur, f. 1922. Þau eignuðust fimm börn, fjóra syni og eina dóttur. Þau eru í aldursröð: Eyjólfur, f. 1943, d. 2023, Brynjólfur, f. 1946, Reynir, f. 1947, d. 2023, Haraldur, f. 1950, og Stella, f. 1955.
Fjölskyldan bjó meðal annars á Skólavörðustíg í Reykjavík.  Reynir gekk í Austurbæjarskóla og fór þaðan í Réttarholtsskóla. Eftir námsárin í Réttó fór hann að vinna sem messagutti á Gullfossi, sem þá var skemmtiferðaskip, og síðar sem ungþjónn á Hótel Borg. Þar fór hann á samning og lærði að verða þjónn. Hann vann á Hótel Borg sem fulllærður þjónn í nokkur ár, síðan í Glaumbæ og á Hótel Holti.
Á þessum tíma stofnaði hann heimili með þáverandi eiginkonu sinni, Margréti Elimarsdóttur. Þau eignuðust tvo syni, Halla, f. 1968, og Heiðar, f. 1969.
Fjölskyldan flutti til Malmö í Svíþjóð í byrjun áttunda áratugarins þar sem mikil atvinna var í boði hjá skipasmíðastöðinni Kockums. En Reynir vann ekki lengi þar, hann var jú þjónn að mennt svo hann fór að vinna sem slíkur hjá mörgum veitingastöðum í Malmö.

Seinna eignuðust þau Elimar Tómas, f. 1977 í Malmö.
Nokkrum árum seinna flutti fjölskyldan heim til Íslands. Leiðir þeirra hjóna skildi svo fljótlega eftir heimkomu, tveimur til þremur árum eða svo.
Reynir fór á sjó þá sem kokkur á togara. Hann var lengst af kokkur á togaranum Gunnjóni GK 506.
Þar lenti hann í hræðilegum bruna sem átti sér stað 1983 þegar togarinn var að veiðum. Í þessum bruna fórust þrir ungir hásetar. Sjálfur var hann hætt kominn, þar sem á síðustu stundu var hægt að bjarga honum út um kýraugað á togaranum.
Þetta slys setti stór ör í sál og hjarta Reynis.

Hann verður jarðsunginn í Staffanstorp í Svíþjóð í dag, 8. júní 2023, klukkan 12 á íslenskum tíma. Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Mér er bæði ljúft og skylt að minnast fyrrverandi eiginmanns og föður barnanna okkar.

Reynir var sonur Karls B. Árnasonar, f. 1923, og Margrétar Eide Eyjólfsdóttur, f. 1922. Þau eignuðust fimm börn, fjóra syni og eina dóttur. Þau eru eftir aldursröð: Eyjólfur, f. 1943, d. 2023, Brynjólfur, f. 1946, Reynir, f. 1947, d. 2023, Haraldur, f. 1950, og Stella, f. 1955.
Fjölskyldan bjó meðal annars á Skólavörðustíg í Reykjavík. Reynir gekk í Austurbæjarskóla og fór þaðan í Réttarholtsskóla. Eftir námsárin í Réttó fór hann að vinna sem messagutti á Gullfossi sem þá var skemmtiferðaskip og síðar sem ungþjónn á Hótel Borg. Þar fór hann á samning og lærði að verða þjónn. Hann vann á Hótel Borg sem fulllærður þjónn í nokkur ár, síðan í Glaumbæ og á Hótel Holti sem þá var einn flottasti veitingastaður í Reykjavík.
Á þessum tíma stofnaði hann heimili með þáverandi eiginkonu sinni, Margréti Elimarsdóttur. Þau eignuðust tvo syni, Halla, f. 1968, og Heiðar, f. 1969.
Fjölskyldan fluttist til Malmö í Svíþjóð í byrjun árs 1970 þar sem mikil atvinna var í boði hjá skipasmíðastöðinni Kockums. En Reynir vann ekki lengi þar, hann var jú þjónn að mennt, svo hann fór að vinna sem slíkur hjá mörgum flottum veitingastöðum í Malmö.
Ekki er mér alveg kunnugt um árin þeirra þar og þá.
Seinna eignuðust þau Elimar Tómas, f. 1977 í Malmö.
Nokkrum árum seinna flutti fjölskyldan heim til Íslands. Leiðir þeirra hjóna skildi fljótlega eftir heimkomu, tveimur til þremur árum síðar eða svo.
Reynir fór þá á sjó þá sem kokkur á togara. Hann var lengst af kokkur á togaranum Gunnjóni GK 506.
Þar lenti hann í hræðilegum bruna sem varð árið 1983 þegar togarinn var að veiðum. Í þessum bruna fórust þrír ungir hásetar. Sjálfur var hann hætt kominn, þar sem á síðustu stundu var hægt að bjarga honum út um kýrauga á togaranum.
Þetta slys setti stór ör í sál og hjarta Reynis.
Við kynntumst á árshátíð hjá starfsfólki togarans. Hún var haldin á Broadway haustið 1986. Það fór vel á með okkur það kvöld, þótt ekkert stæði til frekari kynna. Daginn eftir hringdi ég til hans að þakka fyrir mig, því ég hafði ekkert borgað úr mínum vasa á árshátíðinni.
Tveim dögum seinna stóð hann í dyragættinni heima hjá mér með rauðar rósir og súkkulaði handa mér og góðgæti alls konar fyrir börnin mín.
Ég átti þessum gæðum ekki að venjast, man samt hvað ég hugsaði einmitt þá: mikið er þetta góður maður.
Heimsóknirnar urðu fleiri hjá mér og dætrum mínum, sem voru aðeins þriggja, fjögurra og sjö ára þá. Við áttum svo margt sameiginlegt, ég þrjú börn, hann þrjú börn, bæði miðjubörn úr systkinahópnum og áttum sama afmælisdag. Við færðum hvort annað til skýjanna bókstaflega. Það tók ekki langan tíma fyrir okkur bæði að skilja að við yrðum hamingjusama parið. Meira að segja spurðu börnin hann hvort þær mættu kalla hann pabba.
Við giftum okkur á afmælisdaginn okkar, 30. júlí 1987, en þá varð Reynir fertugur. Reynir ákvað að taka hlé á sjómennskunni og koma í land.
Við unnum saman i veitingabransanum þar sem hann var þjónn að mennt. Þar má nefna Þórscafé, Kaffi Hressó (gamla Hressingarskálann) en þar kenndi hann mér undirstöðuatriðin í starfi sem servitrice og barþjónn. Þetta var svo sannarlega nýr heimur fyrir mig.
Við unnum þarna saman, ásamt mörgu öðru góðu fólki. Þetta var mjög skemmtilegur og eftirminnilegur tími fyrir okkur.
Við keyptum okkur vinalegt hús i Garðabænum, i sömu götu og ég og dæturnar bjuggu. Árið 1989 eignuðumst við Aldisi Báru okkar. Við svifum um a hamingjuskýi.
Á þessu tímabili skall á heimskrísa i bankakerfinu, samfara miklu atvinnuleysi. Reynir hafði mikla reynslu og góða þekkingu á því að flytjast búferlum út fyrir landsteinana. Það varð til þess að við seldum húsið okkar og fluttum til Svíþjóðar i nóvember 1989.
Það reyndi mikið a okkur öll, þessi stóra breyting, sem það inniber að loka einu heimili í Garðabæ og opna nýtt heimili i öðru landi, Svíþjóð.
Þar fæddist sonur okkar, Einar Bjarni, 1990 í Lundi.
Eftir að hafa verið a leigumarkaði i tvö ár keyptum við okkur nýtt og fínt raðhús 1991 i Staffanstorp. Þar fékk stóra fjölskyldan pláss, en við vorum þá sjö manna fjölskylda.
Á þessum árum vann Reynir á veitingastað sem hét Översten. Þessi flotti veitingastaður var á 26. hæð í húsi sem heitir Kronprinsen. Þar leið honum vel.
Við fjölskyldan nutum góðs af þessum frábæra stað með útsýni yfir Malmö og yfir í Kaupmannahöfn. Þar var haldin eftirminnileg fermingarveisla fyrir elstu dóttur mína, ásamt fullt af matarboðum og góðum stundum sem við vörðum þar.
Við ferðuðumst töluvert og þá með hjólhýsið okkar á vit ævintýranna.
Börnin elskuðu lífið i hjólhýsinu með okkur, þetta voru gæðatímar fyrir fjölskylduna. Svo ákváðum við að leigja stæði fyrir fína hjólhýsið okkar allt árið um kring. Við fjölskyldan áttum mjög fínar og eftirminnilegar stundir i stóra fallega hjólhýsinu okkar á Lomma Camping.
Þar var alltaf heitt á könnunni, enda bar margan gestinn þar að.
Góðar stundir sem standa upp úr í minningunni.
Svo kom ný kreppa, atvinnuleysi og háir vextir. Framtíðin var óljós því að Reynir minn missti vinnunna þegar veitingastaðurinn fór i gjaldþrot. Þetta var svakalegt reiðarslag fyrir sjö manna fjölskyldu. Það var enga vinnu að fá, nema a Íslandi í Grindavík.
Á þessum tímum hrikti í stoðum okkar fjölskyldunnar. Meira að segja Gróa á Leiti komst á kreik. Ekki bætti það ástandið hjá okkur sem áttum verulega um sárt að binda þá.
Það varð úr að við pökkuðum saman sæluárunum okkar í Svíþjóð í íslenskan gám. Þetta voru mjög erfiðir tímar fyrir alla fjölskylduna, í raun okkur öllum um megn.
Árið okkar í Grindavík var erfitt fyrir börnin og okkur Reyni. Samt var í nógu að snúast og fullt að gera hvað varðar vinnu og afkomu.
Við rákum Félagsheimilið Festi með Geira, vini Reynis. Það var skemmtilegt og gekk vel. Þar naut hann sín sem kokkur og þjónn með frábært auga fyrir fegurð og veisluhöldum.
Í Grindavík fermdust tvær af mínum dætrum þar sem sú eldri beið með sína fermingu eftir þeirri yngri. Reynir minn sá um fermingarveisluna. Það var svakalega flott veisla sem gleymist seint, enda varðveitt í minningunni þegar allt lék í lyndi.
Við reyndum að gefa dvölinni í Grindavík séns á að lagast hvað varðar aðlögun barnanna, en það gekk ekki vel, þau söknuðu Svíþjóðar og vina sinna þar. Það gerði ég líka. Við Reynir komum okkur saman um að ég færi aftur til Svíþjóðar með skólabörnin okkar og hann kæmi svo til okkar eftir að hafa gengið frá lífinu í Grindavík.
Hann hélt áfram að vinna í Grindavík og kom bara í heimsókn, en flutti aldrei til okkar. Þremur árum síðar gekk okkar hjónaband úr gildi. Þessir tímar voru okkur öllum um megn. Við fórum nú, eftir á að hyggja, öll inn í heim sorgar og ofsaþreytu.
Tíminn leið, við vorum oft í einhverju sambandi. Ég veit að hann opnaði veitingastað á Jótlandi, og eftir það flutti hann til Noregs, til Skervö, og vann á hótelinu þar, meðan heilsan leyfði.

Við spjölluðum stundum saman um lífið, tilveruna og börnin okkar. Á milli okkar var alla tíð væntumþykja og kærleikur.
Ég á honum mikið að þakka, þá sérstaklega fyrir að kynna mér frjósama fallega Skán, þar sem ég hef kosið að búa áfram og börnin líka.
Ég kveð að sinni, sátt í mínu hjarta og með þakklæti fyrir öll árin, Reynir minn.

Ásdís Svavarsdóttir.