Hrafnhildur Rós Smáradóttir Scheving fæddist í Reykjavík 19. desember 1949. Hún lést á heimili sínu í New Port Richey í Flórída 29. maí 2023.


Foreldrar hennar voru Smári Karlsson flugstjóri, f. 20. mars 1923, d. 23. janúar 2014, og Regína Benedikta Thoroddsen hjúkrunarfræðingur, f. 30. júní 1924, d. 6. desember 2000. Systkin Hrafnhildar Rósar eru Smári Magnús, f. 17. júní 1954, Marfríður Hrund, f. 7. desember 1958, og Skúli Þór, f. 30. mars 1961.

Fyrri eiginmaður Hrafnhildar Rósar var Árni Eyvindsson, f. 16. febrúar 1949, d. 8. mars 2018. Þau skildu. Sonur Hrafnhildar Rósar og Árna var 1) Eyvindur Árnason Scheving tölvunarfræðingur, f. 26. desember 1968, d. 27. apríl 2018. Eiginkona hans var Ann Burfete Scheving kennari, f. 15. september 1968. Börn þeirra eru a) Anna Charlotte, f. 5. september 2007, og b) Harrison Johann, f. 29. apríl 2011.

Seinni eiginmaður Hrafnhildar Rósar var Jóhann Gunnar Scheving viðskiptafræðingur, f. 22. maí 1950. Börn Hrafnhildar Rósar og Jóhanns eru: 2) Smári Guðmundur Scheving tölvunarfræðingur, f. 15. janúar 1974. Eiginkona hans er Alisa Robin Sibley Scheving, f. 20. júlí 1982. Börn þeirra eru a) Sophia Isabella, f. 13. júní 2007, og b) Ila Elise, f. 22. mars 2014. 3) Regína Scheving viðskiptafræðingur, f. 15. júlí 1977. Dóttir Jóhanns af fyrra sambandi er Hildur Helga Scheving, f. 20. apríl 1968.


Hrafnhildur Rós ólst upp í Kópavogi en fluttist svo í Mosfellsbæ, þar sem þau Jóhann reistu sér hús. Þau dvöldust um tíma í Tansaníu í Afríku en fluttu svo alfarin til Bandaríkjanna, þar sem þau bjuggu fyrst á Long Island, NY, og svo á Flórída, þar sem Hrafnhildur Rós starfaði á dýralæknastofu til margra ára og rak dýraathvarf.

Útför Hrafnhildar Rósar fer fram í New Port Richey, Flórída.

Hún fölnaði, bliknaði,
fagra rósin mín,
því frostið var napurt.
Hún hneigði til foldar
hin blíðu blöðin sín
við banastríð dapurt.
En guð hana í dauðanum
hneigði sér að hjarta
og himindýrð tindraði
um krónuna bjarta.
Sof, rós mín, í ró,
í djúpri ró.
(Guðmundur Guðmundsson)

Himnarnir grétu allan tímann sem systir mín, Hrafnhildur Rós, lá í djúpu dái. Nú þegar ég rita þessi orð hefur loks stytt upp - í bili - og hún er dáin. Það sem hélt aftur af henni að fara, voru ef til vill bara tárin okkar. Og þegar hún kvaddi, þá stöðvaðist tíminn - alveg eins og þegar mamma dó.

Hún var skírð Hrafnhildur, í höfuðið á systur mömmu sem var henni svo kær, og Rós, sem þá var nánast óþekkt, en varð það nafn sem hún var oftast kölluð. Þegar ég virði fyrir mér nafnið hennar, rennur það upp fyrir mér hversu fallegt það er og hversu kært það er mér.

Hún var níu ára þegar ég fæddist og hún hljóp alltaf alla leiðina heim úr skólanum, svo mikið hlakkaði hún til að taka mig í fangið, sagði hún mér. Fyrst passaði hún mig, svo passaði ég fyrir hana og svo urðum við óaðskiljanlegar vinkonur. Okkur þótti svo undurvænt um hvor aðra. Við vorum eins og tvíburar í útliti er við vorum ungar, svo líkar vorum við þótt níu ár skildu okkur að. Hún ljóshærð en ég dökkhærð. Í fyrsta sinn sem maðurinn minn sá hana, koma gangandi á móti honum, pírði hann augun og hugsaði með sér - hvað er Mara nú búin að gera við hárið á sér? Og við vorum svo nánar að hamingja annarrar var hamingja hinnar og óhamingja annarrar var óhamingja hinnar. Hún var elst af okkur systkinunum, sem öll elskuðum hana svo heitt. Þessi fjörkálfur!

Hún bjó á Skarphéðinsgötunni í Reykjavík fyrstu árin en ólst svo upp í Kópavogi, þegar hann var rétt að byggjast, umvafin ást foreldra, systkina, vina - og dýra. Hún var svo elsk að dýrum að annað eins hef ég aldrei vitað. Ekki er til mynd af henni lítilli öðruvísi en með dýr í fanginu! Á æskuheimili okkar voru í gegnum tíðina allar mögulegar tegundir af dýrum; fuglar, fiskar, skjaldbökur, hamstrar, naggrísir, kanínur, kettir, hundar, hestur og meira að segja api! Rós stóð fyrir þessu öllu. Ein fyrsta minning mín er þegar ég var með henni að skoða fugla og hamstra, sem hún og vinir hennar voru að stússa með, við glymjandi Bítlalagið Love me do.

Hún var svoddan æringi. Mig skortir hugmyndaflug til að lýsa henni.
Allt í kringum hana gerðust ævintýrin. Uppátækin byrjuðu snemma. Hún var fimm ára þegar hún fiskaði nýfæddan bróður okkar upp úr barnavagni, til að sýna hann fólki. Á svipuðum aldri fór hún með jafnaldra sínum í langa fjöruferð og voru allir farnir að leita þeirra, lögreglan líka! Svolítið eldri, stóðu hún og vinkona hennar fyrir jarðarför rottu, sem þær höfðu fundið og búið haganlega um í skálm af náttbuxunum hans pabba! Hún var 9-10 ára þegar hún strauk af sveitabæ, á Vestfjörðum, sem henni leiddist á. Endaði það með því að pabbi sótti hana frá Reykjavík, á Catalínu-flugbátnum! Og eitt sinn hringdu hún og bekkjarsystir hennar skólabjöllu, í barnaskólanum, þannig að allir krakkarnir fóru of snemma út í frímínútur. Hún minnti mig á Önnu í Grænuhlíð, uppáhaldssögupersónuna mína - alveg jafn lifandi, uppátektarsöm og skemmtileg!

Hún var hörkudugleg til vinnu og byrjaði 12 ára gömul að vinna í fiski. Öll möguleg störf vann hún sem unglingur, m.a. sem starfsstúlka á Vífilsstöðum, Álafossi og Hressingarskálanum, en síðar lærði hún tannsmíði sem hún vann við um nokkurn tíma. Hún var gríðarlega flink í höndunum og kom það sér vel í starfinu.

Ung að árum giftist hún Árna Eyvindssyni, og eignuðust þau soninn Eyvind, sem var guðsblessunin hennar, og okkar allra, en hann varð bráðkvaddur aðeins 49 ára gamall og öllum harmdauði.

Seinni eiginmaður hennar var Jóhann Scheving, viðskiptafræðingur. Þau reistu sér hús í Mosfellsbæ og eignuðust börnin Smára og Regínu. Undir niðri blundaði ævintýraþráin í þeim og fór fjölskyldan til tveggja ára dvalar í Tansaníu í Afríku en þar starfaði Jóhann við þróunarhjálp á vegum Danida. Það var lífstíðarævintýri og heimsótti ég fjölskylduna einu sinni, alla þessa löngu leið.

Er þau komu heim aftur hóf Jóhann störf hjá Álafossi en Rós hóf nám í öldungadeildinni í Hamrahlíð. Fljótlega fluttist þó fjölskyldan alfarin til Bandaríkjanna, þar sem Jóhann starfaði áfram um tíma á vegum Álafoss í New York. Þau bjuggu fyrst á Long Island, þar sem Rós tók meirapróf og hóf að keyra skólabíl. Alls konar uppákomur gerðust auðvitað þar líka, eins og alltaf í kringum hana. Hún týndist í stórborg með rútu fulla af unglingum sem sungu - búúú á Ísland - og beruðu rassana í afturglugganum. - Þetta var svakalegt, sagði Rós mér síðar.

Er þau bjuggu á Long Island fór fjölskyldan mikið á sjóinn á vélbát sem þau áttu. Voru það alveg yndislegar stundir fyrir fjölskylduna. Síðar eignuðust þau skútu, er þau fluttust til Flórída, en Jóhann var leikinn siglingamaður.

Á þessum árum var Rós ekki farin að starfa við dýralækningar en var þó eitt sinn viðstödd keisaraskurð, sem gerður var á tíkinni hennar. Þar fékk hún að aðstoða við aðgerðina og kom það sér vel að hún hafði áður aðstoðað við aðgerðir á tannlæknastofu. Dýralæknirinn, sem enginn veit hvar hún fann, var afar sérstakur! Hann var sérlega ódýr, enda notaði hann ekki hefðbundin lyf, heldur eingöngu grasalyf. Hvolparnir fóru seint og illa að anda eftir aðgerðina og lýsti systir mín yfir áhyggjum af mögulegum heilaskaða. Sagði dýralæknirinn þá hátíðlega, að það væri allt í lagi, eini munurinn yrði bara sá að þeir myndu ekki skilja nafnið sitt. Þegar hvolparnir og mamman urðu svo öll veik eftir aðgerðina, setti dýralæknirinn þau á seyði, sem hann bruggaði sjálfur. Í laumi gaf Rós þeim sýklalyf, svo öllum fór að batna, en dýri var hæstánægður með árangur grasalyfjanna sinna!

Endalausar gamansögur fylgdu henni og þegar hún var í essinu sínu að segja frá, hló fólk sig máttlaust. Hún hafði óviðjafnanlega kímnigáfu og henni lá íslenskan einkar vel á tungu og svo skreytti hún frásagnir sínar listilega með málsháttum og orðatiltækjum, sem hún oftar en ekki lagaði svolítið til, eins og - að naga sig í handarkrikana, eða - að auga væri veifað. Heyrðist aldrei enskuhreimur á framburði hennar, þótt hún hefði búið yfir 40 ár í Bandaríkjunum.

Ein sagan sem hún sagði, sem mér er minnisstæð, er um það þegar hún var nýbyrjuð að vinna á tannlæknastofu, en hún var þá í námi í tannsmíði. Þetta var á öðrum degi í vinnunni og átti hún að fylla á risastóra skúffu, sem opnaðist þannig að hún hallaðist á ská út. Í þessari skúffu var gifsduft og var nú farið að vanta gifs í hana. Rós tók ekkert eftir stórri handskóflu sem var í gifsinu í skúffunni en dó ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn og dröslaði gifstunnu einni mikilli að skúffunni. Með ofurmannlegum krafti tókst henni svo að lyfta gifstunnunni upp á skúffubrúnina, til að sturta úr henni ofan í skúffuna og fylla hana þannig af gifsi. Það sem gerðist hins vegar var að skúffan brotnaði úr, undan gríðarlegum þunga gifstunnunnar, og valt tunnan út á gólfið í þokkabót. Upp gaus þykkur mökkur af drifhvítu efni - gifsi - sem klæddi stofuna undir eins í hvítt ský. Tannlæknirinn, sem var við störf í næsta herbergi, sá bara hvítan strók koma æðandi í gegnum dyrnar en svo umvafðist bæði hann og sjúklingurinn hans, sem var í stólnum, hvítu dufti frá toppi til táar. Áfram lagðist hvíta duftið yfir allt í þessari stofu og þeirri næstu, sem var biðstofan, en þar sátu þrír kúnnar og biðu þolinmóðir eftir að verða kallaðir í stólinn. Urðu þeir einnig drifhvítir á svipstundu frá hvirfli til ilja, en þessi sem sat gegnt dyrunum sýnu verstur. Tannlæknirinn, sá sem átti stofuna, nálgaðist nú dyrnar varlega og leit inn í herbergið þar sem Rós stóð, sem bergnumin, úti á miðju gólfi, alveg eins og snjókarl. Það má kallast kraftaverk að hann skuli ekki hafa rekið hana! Tannlæknastofan hans var lokuð í þrjá daga á meðan hreingerning fór fram.

Önnur góð saga, sem ég man eftir, segir frá frekar sérstöku sambandi hennar við hreinsiefnið klór. Fannst henni nefnilega hún aldrei geta notað nóg af klór þegar hún tók sig til og vildi virkilega þrífa og hvítta þvottinn. Eitt sinn setti hún nærfötin af elsku eiginmanninum sínum í rækilega gott klórbað. Hafði hún lútinn vel sterkan, til þess að hann virkaði almennilega, en gleymdi honum svo með nærfötunum í, í einhverja daga. Það kom nú ekki að sök og skolaði hún bara vel úr þessu og skellti upp í hillu. Grunlaus klæddi svo Jóhann sig í þessi mjallhvítu, hreinu nærföt og flýtti sér á mjög mikilvægan fund. Þar átti hann að halda framsöguerindi og var farinn að tala af hita um málefni fundarins og farinn að ganga um gólf, þegar hann fór að finna undarlega tilkenningu fara um sig - á hinu viðkvæmasta svæði - einhvers konar samblandi af ertingu og bruna - og fann hann fyrir ósjálfráðum hreyfingum og kippum í húðinni, og kláða og sviða sem var ekki þessa heims! Reyndi hann að vinda sig allan til og frá, um leið og hann gekk um, í þeim tilgangi að fá einhverskonar létti, en tók þá sér til skelfingar eftir því að hvítt duft sáldraðist niður buxnaskálmarnar á honum og skildi eftir sig hvíta slóð á gólfinu. Voru þar komnar leifarnar af uppleystum nærbuxum Jóhanns, sem segja má að hann hafi farið úr á mjög óvenjulegan og eftirminnilegan hátt! Það fóru engar sögur af því hvernig húðin á Jóhanni var útleikin eftir þennan hildarleik, né heldur hversu langan tíma það tók fyrir hann að jafna sig!

Krafti Rósar og dugnaði verður ekki lýst. Hún réðst á hlutina, sama hvert verkefnið var, af ótrúlegum hug. Hún tók fullan þátt í byggingu hússins þeirra hér heima og meðal annars tók hún ein á móti flutningabíl, sem kom með hellur, þegar hún var langt gengin með yngsta barnið. Hún bar nokkur hundruð kíló á þann hátt að hún setti annan endann á hellunni upp á bumbuna og hélt um hinn. Aumingja flutningamanninum var vorkunn, þegar hann reyndi að stoppa hana af. Það var ekki hægt. Hún hlustaði ekki á neinar úrtölur, frekar en fyrri daginn.

Eitt sinn, þegar Jóhann var fjarri, braut hún upp baðgólfið með sleggju, steypti og flísalagði það. Í ferlinu fór hún margar ferðir í Home Depot, (eins konar Byko), til að fá upplýsingar og að lokum kom afgreiðslumaðurinn heim til að kíkja á verkið!

Nágrannarnir þekktu til dugnaðarins í henni, en stundum þótti þeim nóg komið. Þegar hún bankaði eitt sinn upp á hjá nágranna sínum, rjóð í vöngum, öll í trjágreinum, laufi og mosa og spurði hvort hún mætti fá rafmagnssögina hans lánaða, þá leist honum ekki nema miðlungi vel á, virti hana fyrir sér og svaraði stutt og laggott - nei, sendu Jóhann!

Hennar aðalævistarf, fyrir utan að ala upp börnin sín sem hún elskaði heitar en lífið sjálft, hófst svo þegar hún flutti til Flórída og hóf að vinna við bráðalækningar dýra. Þar lá köllun hennar - að bjarga dýrum. Hún tók mörg þau dýr, sem til stóð að lóga, og fór með þau heim og læknaði. Á heimilinu héldu til alls konar dýr og var eitthvað að þeim flestum. Villtur storkur, eitthvað slappur sennilega, hélt til á lóðinni hjá þeim, - ég verð að ná heim til Rósar, hefur hann hugsað þegar hann fann að hann gekk ekki heill til skógar. Eitt sinn ólu þau upp þvottabjörn, sem var algjört ævintýri, því þvottabirnir eru með fingur sem þeir nota til allra mögulegra óknytta, svo sem að toga í náttbuxnastreng hjá sofandi fólki og sleppa.

Rós kom líka eitthvað að björgun villtra dýra, af minni gerðinni. Var það oft uppspretta æsilegra uppákoma. Eitt sinn hafði t.d. otur, sem vinkona hennar var með í fóstri, komist inn um netdyr hjá nágrannanum, étið nokkrar steikur úr ísskápnum, sem hann hafði getað opnað, og svo stungið sér í sundlaugina, þar sem hann synti fram og til baka þegar nágranninn kom heim. Reyndist ekki auðvelt verk að ná otri upp úr sundlaug! Allar svona sögur urðu að dásamlegum frásögnum, þegar hún sagði frá.

Oftar en ekki lenti Jóhann í skotlínunni hjá Rós, alltaf jafn þolinmóður og rólegur. Hún hafði sérlega gaman af að stríða honum. Eitt sinn notaði hún t.d. tækifærið, þá miðaldra, og sagði við ungan þjón sem kom til að taka við pöntun hjá henni, að pabbi hennar væri væntanlegur. Jóhann, sem var eitthvað seinn fyrir, kom svo og settist græskulaus við borðið en varð þegar í stað var við undarlegt augnaráð þjónsins, sem starði á hann. Þegar þjónninn, sem var afskaplega kurteis, var búinn að stara um stund, sagði hann loks við Jóhann - þú átt yndislega dóttur, herra!

Eitt sinn hringdi Rós þó í mig, heldur stressuð. Hafði hún týnt leðurblöku, sem hún var að flytja milli staða í kassa, í bíl þeirra hjóna, en leðurblakan hafði komist upp úr kassanum og var hvergi að finna í lokuðum bílnum. Var Jóhann lagður af stað á bílnum og hafði Rós hálfgerðar áhyggjur af því að leðurblakan færi á flug, þegar verst gegndi. Gátum við ekki annað en hlegið við tilhugsunina um Jóhann við stýrið, þegar hann liti í baksýnisspegilinn og sæi leðurblöku flögra um bílinn! En hún bærði ekki á sér og fannst loks, hangandi eins og blað, milli framsætanna.

Sögur úr vinnunni gátu líka verið kostulegar. Eitt sinn kom maður inn á dýralæknastofuna með lítinn hamstur til lækninga. Hamsturinn var eitthvað veikur og gerði eigandi hans þau mistök að segja við starfsfólkið - gerið það sem þarf! Allt batteríið var þá sett á fullt, blóðprufur dregnar, hamsturinn teipaður fastur á röntgenplötu til að ná góðum myndum og ýmislegt fleira. Þegar eigandinn kom til baka beið Hammi eftir honum, fullfrískur orðinn, og 300 dollara reikningur. Einu orðin sem eigandinn kom upp var - ég keypti hann á 10 dollara! Hann er eins og hálfs árs, þeir verða tveggja....

Jóhann sagði mér frá því þegar starfsmenn hringdu, eitt sinn sem oftar, til Rósar frá dýraskýli einu, því fara átti að lóga heilum herskara af kettlingum. Rós brunaði strax af stað og kom til baka með bílinn drekkfullan af dýrabúrum, svo rétt grillti í hana í bílstjórasætinu. Hún kom heim úr þessari ferð með 34 kettlinga sem hún annaðist svo og kom á ný heimili - 34 lítil líf.

Seinna stofnaði Rós svo dýraathvarf og átti eftir að bjarga ótal litlum lífum í viðbót. Allt þetta göfuga starf fól í sér ótrúlega mikla vinnu sem hún innti af hendi með glöðu geði fyrir dýrin.

Það sem einkenndi hana var þrautseigja. Hún réðst alltaf á garðinn þar sem hann var hæstur og gafst aldrei upp. Það var ekki til í hennar hugsun. Þessir skapgerðareiginleikar áttu eftir að koma sér vel þegar hún, sextug að aldri, veiktist af langvinnum, alvarlegum sjúkdómum.

Þegar ég var að bugast úr harmi yfir hlutskipti hennar, þá sagði hún oft með áherslu - Mara, það þýðir ekkert að láta svona, það er ekkert að mér! - og þá gat ég ekki annað en hlegið, þetta var svo fyndið, því það var allt að henni! En andinn var óbugaður alla tíð. Ekki heyrði ég hana nokkurn tímann kvarta eða kveina. Það var alltaf þessi þrautseigja, sem hún fékk frá mömmu, og svo tvöfaldur skammtur af þrjósku pabba. Hún sagði alltaf að sér liði vel. Hún var hugrökk sem ljónynja, hún systir mín. Ég er svo stolt af henni. Mesta reiðarslagið sem hún gekk í gegnum var þegar hún missti son sinn. Það var erfiðast af öllu.

Hún hafði svo fallegt hjartalag. Gjafmildin og greiðviknin var einstök, alveg eins og hjá pabba og Eyva, syni hennar. Ég hef oft hugsað um lánsemi mína, að hafa orðið svona mikillar gæfu aðnjótandi í lífinu, að fá að elska svona dásamlegt fólk og vera elskuð af því.

Við töluðum saman daglega, löngum stundum í síma. Undir lokin töluðum við mest um æskudagana okkar yndislegu. Hún mundi svo langt aftur, þegar enginn ísskápur var og mjólkin var keypt í litlum mjólkurbrúsum. Ég mundi svo langt aftur, þegar skyrinu var pakkað inn í smjörpappír og mig dreymdi um að fá að afgreiða það.

Jóhann gerði henni kleift að vera heima, öll þessi ár, og hlúði að henni af mikilli kostgæfni. Hann stóð svo sannarlega vaktina - allt til enda.

Þegar ég hugsa þessa löngu leið til baka - hvert skref sem ég tók - þá var hún alltaf með mér. Og nú er hún farin. Það er erfitt til að hugsa, hvað lífið á jörðinni er orðið óendanlega mikið fátæklegra. Sorgin er jafnmikil og ástin var. Það er alveg rétt sem segir í vögguvísunni fallegu, að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.

Eina huggun mín er að nú sé hún frjáls aftur. Ég reyni að sjá fyrir mér þegar Eyvi beið við rúmið hennar og kallaði - mamma, komdu nú fram úr, við þurfum að drífa okkur til hinna, þau bíða! Það er dásamleg tilhugsun, sem ég vil trúa.

Ég veit ekki hvernig ég staulast af stað aftur án hennar en það verður víst engin glæsiganga.

...

Hvort er ég heldur hann, sem eftir lifir,

eða hinn, sem dó?

(Steinn Steinarr)

Marfríður Hrund Smáradóttir.