Ásdís Sigurðardóttir fæddist í Stykkishólmi 22. febrúar 1941. Hún lést í Kópavogi 20. maí 2023.

Ásdís ólst upp í Hrísdal í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi. Hún var dóttir hjónanna Margrétar Oddnýjar Hjörleifsdóttur, f. 1899, d. 1985, og Sigurðar Kristjánssonar, f. 1888 d. 1969.

Ásdís var yngst ellefu barna þeirra Margrétar og Sigurðar er fæddust á árabilinu 1919 til 1941. Systkini hennar voru í aldursröð: Hjörleifur, Kristján Erlendur, Sigfús, Kristjana Elísabet, Áslaug, Valdimar, Elín Guðrún, Olga, Magdalena Margrét og Anna. Þau eru nú öll látin en Elín, „Ella ljósa“ í Stykkishólmi, lést ellefu dögum á eftir Ásdísi eða 31. maí sl. Frá þessum stóra systkinahópi stafar mikill fjöldi afkomenda; Hrísdalsættin. Afkomendurnir eru skv. Íslendingabók 351.

Ásdís hlaut barnaskólamenntun á Snæfellsnesi og var í hússtjórnarnámi í Kvennaskólanum á Blönduósi 1959-1960. Skólasysturnar frá Blönduósi héldu alltaf góðu sambandi og hittust reglulega. Hún stundaði enskunám í London 1961-1962 og frönskunám í París 1964-1965 jafnframt því að vinna fyrir íslensku sendiherrahjónin þar. Í upphafi starfsferils síns var hún ritari í móttöku læknastofa í Domus Medica. Bróðurpart starfsævinnar vann hún í gestamóttökum betri hótela í Reykjavík, lengst af á Hótel Holti og Hótel Sögu. Skattlausa árið svokallaða 1987 rak hún hótel í Reykjavík ásamt vinkonum sínum. Síðustu starfsárin vann hún í móttöku stjórnar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún var virk í bæjarmálum á Seltjarnarnesi og var m.a. varamaður í bæjarstjórn. Þá var hún virk í starfi Félags Fóstbræðrakvenna og sat þrisvar í stjórn félagsins. Einnig naut hún sín í lionsklúbbnum Engey í Reykjavík. Ásdís og Sigmundur héldu heimili í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Síðustu ár bjó Ásdís í Boðaþingi í Kópavogi.

Ásdís giftist 24. febrúar 1968 Sigmundi Sigurgeirssyni húsasmíðameistara, f. 9. janúar 1926, d. 15. janúar 2008. Hann var sonur Margrétar Sigmundsdóttur og Sigurgeirs Albertssonar trésmiðs í Reykjavík. Börn Ásdísar og Sigmundar eru: 1) Sigurgeir Ómar, f. 1967, kvæntur Ingunni Mai Friðleifsdóttur. Sonur þeirra er Sigmundur Árni, f. 1997, og unnusta hans Elva Rún Evertsdóttir. 2) Margrét, f. 1971, gift Bjarna Ólafi Ólafssyni. Börn þeirra eru Ásdís Inga, f. 2005, og Ólafur, f. 2008.

Útför Ásdísar fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 13. júní 2023, klukkan 13.00.

Þegar ég sest niður til að rita minningarorð um elsku mömmu mína verður mér hugsað um þau órjúfanlegu tengsl sem eru milli barns og móður.
Móðirin gengur með barn og kemur því í þennan heim Hún fæðir barnið og klæðir og gefur því umhyggju og ást. Hlýju og kærleik. Móðirin setur þarfir sínar til hliðar og barnið í forgang. Hvað sem á gengur og hversu erfitt sem það er hefur móðirin óendanlega ást á barni sínu.
Þó klippt hafi verið á naflastrenginn eru tengslin órjúfanleg milli móður og barns.
Mamma bjó fyrstu tvö æviár sín í torfbæ. Hrísdal í Miklaholtshreppi. Hún var yngst ellefu systkina. Mörg þeirra voru flutt að heiman þegar mamma fæddist. Mamma var eina barnið sem amma fæddi ekki heima í Hrísdal. Farið var ríðandi til Stykkishólms þar sem mamma fæddist 22. febrúar 1941. Ljósmóðirin Ásdís frá Miklaholti benti afa á að nú færu þau að verða í vandræðum með telpunöfn. Þá sagði afi: Engin heitir Ásdís. Þessi sjöunda verður alnafna þín.
Mamma ólst upp við ástríki, kærleik og dugnað. Hrísdalsættin er þekkt fyrir dugnað og að gefast ekki upp þó á móti blási. Þar kennir líka ákveðinnar kímnigáfu og gleði.
Frá sveitinni á Snæfellsnesinu fór mamma til London og vann þar sem au pair í eitt ár. Henni líkaði vistin vel enda bjó hún á fallegu og góðu heimili með stórum garði.
Það var henni góður skóli. Skóli lífsins.
Næsti viðkomustaður hjá heimsdömunni Ásdísi Sigurðardóttur var París. Þar var hún í eitt ár hjá Einari og Elsu og hjálpaði með börn og heimili. Þetta var skemmtilegur tími og kynntist hún mörgum góðum vinkonum þar.
Eftir heimkomu frá París bjó mamma í Reykjavík. Ekki leið á löngu þar til hún kynntist pabba. Það fylgdi alltaf sögunni að þau hefðu kynnst í partíi sem haldið var í tilefni þjóðhátíðardags Finna.
Pabbi var 15 árum eldri en mamma. Þau eignuðust sitt fyrsta heimili í Hraunbæ og bjuggu þar þegar Sigurgeir bróðir fæddist. Þegar þau fluttu á Háaleitisbrautina var mamma búin að taka tengdaföður sinn, afa Sigurgeir, inn á heimilið. Mamma fæddi og ól upp tvö lítil börn og hugsaði um aldraðan tengdaföður sinn í ellefu ár. Á sama tíma vann hún krefjandi vinnu. Það hefur ekki verið auðvelt verk. Mamma og pabbi komu sér upp fallegu og smekklegu raðhúsi á Seltjarnarnesi og bjuggu þar í hartnær tuttugu ár. Það var gott að alast upp á Seltjarnarnesinu og eignuðumst við systkini ævilanga vini þar.
Það var dýrmætt fyrir okkur þegar mamma flutti nær okkur í Boðaþingið. Ásdís Inga nafna hennar var dugleg að koma við hjá ömmu sinni að spjalla. Það var gott fyrir unglinginn að koma til ömmu sinnar að slappa af. Ólafur elskaði að stjana við ömmu sína. Kærleikurinn var svo mikill að hann vildi helst hafa ömmu Ásdísi alltaf hjá okkur.
Mamma var dugnaðarforkur, góð mamma og mikil heimsdama. Hún var mikil félagsvera og hafði lúmskan húmor.
Hún hafði þetta glit í auga sem sumir hafa og manni finnst eins og þeir sjái hvað þú ert að hugsa.
Hún gat líka hlegið þannig að allir hrifust með. Það var gaman. Hún var þeim góða eiginleika gædd að geta hlegið að sjálfri sér.
Ég bara má til með að segja eina sögu af mér unglingnum og mömmu. Þannig var að ég hef líklega verið á leið á árshátíð í Való og var með kröfur um einhverja sérstaka hárgreiðslu. Mamma sagðist nú bara geta reddað þessu. Eftir mikið tuð og leiðindi í mér, því greiðslan var ekki akkúrat það sem ég vildi. Var mamma eflaust komin með nóg og endaði með að spreyja bara fullt af hárlakki yfir. Nema hárlakkið var ekki hárlakk heldur svitasprey. Ég veit ekki hvert ég ætlaði ég var svo hneyksluð á henni mömmu minni. Þá kom þetta klassíska svar frá mömmu: Magga mín, það mun enginn taka eftir því hvort þú sért með hárlakk eða svitasprey í hárinu.
Það var líka klassískt svar þegar unglingurinn ég var eitthvað að tuða yfir hinu og þessu: Magga mín, hún Sophia Loren er með stórt nef, stórar mjaðmir og alltof stóran munn, samt er hún ein fallegasta kona í heimi.
Seinna eignaðist mamma hálfnorska tengdadóttur og hálfsænskan tengdason. Algjör brandari eins og hún myndi segja. Hún hélt áfram að ferðast í gegnum lífið þó flughræðslan hafi verið mikil. Margar ferðir voru farnar með Karlakórnum Fóstbræðrum, Lionsklúbbnum Engey, systrum sínum, vinkonum og auðvitað okkur börnunum sínum og barnabörnum.
Sumarið 2020 fórum við fjölskyldan með mömmu og hundinn okkar Snata hringinn um landið. Það var óborganleg ferð. Við brunuðum hringinn á sendibíl með mömmu frammi í hjá Bjarna, Snati geltandi ofan á tjaldinu og göngugrindinni og ég og krakkarnir í miðjunni í misgóðu skapi. Við gistum meðal annars á glæsilegu hóteli við Mývatn, í gömlum þröngum bústað (þar sem mamma svaf í neðri koju og svæfði krakkana með skemmtisögum) og yndislegu hóteli við Hengifoss. Þarna sköpuðust dýrmætar minningar fyrir okkur öll. Ekki síst fyrir barnabörnin hennar þau Ásdísi Ingu og Ólaf.
Það var mjög gaman að keyra um landið með mömmu í framsætinu. Hún fór létt með það. Sagði endalausar sögur og naut sín í botn.
Ég held að ég geti sagt að hún hafi komið ættfólki sínu á óvart þegar hún mætti vestur á Ísafjörð í jarðarför Lenu systur sinnar fyrir ári.
Mamma bætti dýrmætum kafla við í minningabókina okkar þegar hún kom með okkur til Svíþjóðar um síðustu jól. Henni fannst það bara ekkert mál. Settist bara í hjólastólinn og lét Ólaf keyra sig um flugvellina. Þá var glatt á hjalla hjá þeim. Í Svíþjóð nutum við mikillar gestrisni móðurfjölskyldu Bjarna. Við áttum fallegt aðfangadagskvöld í veislu með mat og söng sem heimsdaman hún mamma mín átti ekki til orð yfir.
Þegar horft er yfir farinn veg og árin líða kemst ég ekki hjá því að hugsa hve margt er líkt með okkur mæðgum. Unga konan ég hefði ekki viljað viðurkenna það. En miðaldra ég sé alltaf meira og meira af mömmu Ásdísi í mér. Í dag er ég stolt af þeim eiginleikum sem ég hef frá mömmu. Ég mun rækta þá og næra.
Lífið er dýrmæt gjöf sem við höfum fengið.
Elsku mamma mín, þú lifir í hjörtum okkar. Farðu vel með þig í sumarlandinu góða.
Ég hugsa vel um barnabörnin þín.
Þín dóttir,









Margrét.