Kristín Björg Jóhannesdóttir fæddist 19. desember 1928 á Hóli á Siglufirði. Hún lést á sjúkrahúsinu á Selfossi 15. júní 2023.

Foreldrar hennar voru Geirrún Ívarsdóttir og Jóhannes Þorsteinsson.

Kristín (Stína) var næstelst sex systra; Steinunn (Steina) var elst en síðan komu þær Þórunn (Tóta), Gréta, Louisa (Lúlla) og Anna. Þær eru nú látnar nema Lúlla og Anna sem búa í Þorlákshöfn.
Eiginmaður Kristínar var Aage V. Michelsen, f. 14.10. 1928, d. 7.1. 2018. Þau bjuggu ætíð í Hveragerði og urðu börnin fjögur. Þau eru: Lilja Ruth, maki Grétar Reynisson, Kári Þór, maki Elísabet Einarsdóttir, Ari Sævar, maki Ragnhildur Jakobína Jónsdóttir, Haukur Logi, maki Þorbjörg Theódórsdóttir. Afkomendur Kristínar og Aage eru nú orðnir fimmtíu og einn.

Kristín hlaut hefðbundna barnaskólafræðslu og auk þess sótti hún kvöldskóla og var einnig tvö ár í Kvennaskólanum á Hverabökkum. Mestan hluta starfsævi sinnar vann hún á símstöðinni í Hveragerði eða í tæp fimmtíu ár. Hún var stofnfélagi að bæði Leikfélagi Hveragerðis og kirkjukórnum og tók virkan þátt í starfi hvors tveggja í yfir hálfa öld.

Útför Kristínar fer fram í Hveragerðiskirkju í dag, 27. júní og hefst athöfnin kl. 13.

Það er ekki auðvelt að missa einhvern nákominn, sérstaklega ekki þegar viðkomandi hefur haft mikil áhrif á mann í gegnum lífið, eins og var með ömmu mína, en á heildina litið þá er ég einnig feginn að ljósið hennar hafi loks fengið að fjara út enda orðin södd lífdaga og mjög þreytt 94 ára gömul. Það er auk þess ekki auðvelt að hemja sig í að hafa þessa litlu grein stutta og einkennandi um ömmu, enda er saga hennar að mínu mati efni í heila bók í þremur bindum, svo merkileg þótti mér amma mín vera.
Amma hafði mikil mótandi áhrif á mig strax í æsku sem lýsti sér best í því áhugamáli sem við áttum saman og er þessi margrómaða leiklistarbaktería en amma var einnig þokkalegur teiknari eins og ég sjálfur, en það var leiklistin sem átti okkur og ekki síst ömmu sem hafði leikið á sviði frá því hún var barn, þá fyrst með ungmennafélaginu í leikritum og söng. Seinna, eða árið 1947, kom hún að stofnun leikfélagsins í Hveragerði sem stór hluti fjölskyldu minnar hefur komið að frá báðum leggjum föðurfjölskyldu minnar en langömmusystir mín Guðrún Ívarsdóttir var þar fyrsti formaður nýstofnaðs félags og Geirrún langamma mín varagjaldkeri en amma gegndi starfi aðalgjaldkera. Amma tók að sér mörg eftirminnileg hlutverk strax frá stofnun og vakti oft mikla athygli fyrir afbragðsleik og söng, en ég hef nú ekki töluna á öllum uppfærslum sem hún tók þátt í en þær ná einhverjum tugum hvort sem hún lék á sviði eða kom að á einhvern hátt, en hún tók sér þó frí á meðan hún var í barneignum frá 1952 en sneri aftur 1963 í "Systir Maríu" eftir Charlotte Hastings, en var þó alltaf með annan fótinn inni allan tímann á meðan hún kom börnum sínum á legg. Einnig hafði hún það af að draga afa heitinn með sem sviðsmann í eitthvert skiptið á þeim tíma sem farið var í leikferðir með uppsetningar um allt land en það er líklega áður en pabbi og systkini hans komu til sögunnar.

Mín fyrsta minning af ömmu á sviði er að sjálfsögðu "Dýrin í Hálsaskógi" eftir Thorbjørn Egner, í hlutverki Bangsamömmu þegar ég hef verið um 8 ára. Ég man enn hve heillaður ég var af leikritinu og töfrum leikhússins og ekki skemmdi að Bangsamamma var amma mín dásamlega. Þegar ég hugsa til þess þá slær það hlutverk meira að segja út hlutverk ömmu sem hneykslaðrar frúr sem slær með tösku sinni leikarann Eggert Þorleifsson steinkaldan í kvikmyndinni "Í takt við tímann", sem ég hlæ alltaf að þegar myndin birtist í sjónvarpi. Ári síðar sá ég hana í "Lukkuriddaranum" eftir J. M. Synge þar sem mér þótti hún fara á kostum sem tálkvendið frú Quin í bæði leik og söng og flutti einnig atriði úr því verki í spurningaþætti stýrðum af Ómari Ragnarssyni á Hótel Selfossi.

Ég gekk loks sjálfur í leikfélagið á aðalfundi veturinn 1994 þá 13 ára án vitneskju foreldra minna en þar var amma ein af þeim sem tóku mér fagnandi, örlítið hissa en mjög ánægð með drenginn. Það var ekki aftur snúið eftir þá inngöngu en á næsta ári á ég 30 ára leikafmæli en er ekki einu sinni hálfdrættingur á við ömmu sem sjálf átti 75 ára leikafmæli í ár með leikfélaginu, þó svo hún hafi ekki stigið á svið frá því upp úr aldamótum en sé tíminn með ungmennafélaginu tekinn inn í líka er líklegra að þetta séu um 80 ár síðan hún hóf að leika á sviði. Það breytti litlu þó leiklistin hefði farið á hilluna eftir aldamót því hún var viðriðin félagið á einn eða annan hátt fram til níræðs og ánafnaði félaginu t.d. safn sitt af leikskrám o.fl. Þar er til að mynda fyrsta leikskráin frá 1947 fyrir "Karlinn í kassanum" sem var gamanverk í 3 þáttum og þykir mikill fjársjóður. Amma sagði mér frá leikhúsgagnrýni um það verk, sem ég fann á netinu fyrir nokkrum árum en hún hló mikið yfir orðalagi rýnanda sem sagðist hafa skemmt sér konunglega á leiksýningu viðvaninga í Hveragerði sem þótti mikið hrós og má finna nokkrar álitsgreinar í viðbót með svipuðu sniði.
Mér hlotnaðist þó ekki sá heiður að standa á sviði með ömmu sem okkur þótti báðum miður en unnum þó saman að einhverjum uppfærslum og ef ég man rétt var uppsetningin á Sölku Völku eftir sögu Halldórs Laxnes frá 1997 sú síðasta sem við bæði vorum með puttana í, hún á sviði og ég á ljósum en þar kom ég inn eftir að sýningar hófust og var vippað á ljósaborðið þegar ég kom sem áhorfandi og hafði aldrei séð stykkið þegar ljósamaður forfallaðist. Amma sagði að diskóljósin á þeirri sýningu hefðu sómað sér vel á hljómsveitarballi sem var örugglega engin lygi, enda vissi ég ekkert hvað ég var að gera 17 ára unglingurinn og hafði aðeins staðið gegnt ljósamanni árin á undan. Leikfélagið var henni alltaf mjög ofarlega í huga sem sýndi sig vel í safninu hennar á öllum leikskrám frá árdögum félagsins, öllum ljósmyndunum sem samviskusamlega var raðað í möppu, svo ég tali nú ekki um möppuna sem hún bar ávallt með sér síðustu árin og við flettum alltaf í gegnum og spjölluðum um verkin og leikarana, sem margir léku með henni í áratugi en síðustu árin var ég alltaf að sjá þá möppu í fyrsta skiptið þó ég hafi grun um að hún hafi vel verið meðvituð um að hana hefði ég oft séð en fínt að hafa afsökun til að fletta í gegnum hana. Hún var þó alltaf stálminnug og fór með texta og ljóð sem jafnvel systur hennar höfðu átt í einhverri uppfærslunni eða skemmtunum. Amma var til að mynda útnefnd heiðursfélagi Leikfélagsins í tilefni 40 ára afmælis leikfélagsins 1987 sem ég er endalaust montinn af og fékk hún að gjöf forláta skúlptúr úr viðarrót frá leikfélaginu sem henni þótti ákaflega vænt um.
Síðasti fundur okkar ömmu var rúmri viku fyrir andlátið 15. júní síðastliðinn, ég fann hve þreytt hún var orðin en samt svo ánægð að sjá mig og gátum við spjallað um hvað væri á döfinni hjá leikfélaginu á næstunni. Við flettum ekki í gegnum myndaalbúmið í þessari síðustu samveru okkar sem var tilbreyting en í staðinn gátum við notið þess að tala um það sem var okkur svo kært. Þegar ég kvaddi hana í þetta hinsta sinn tel ég að hún hafi vitað að það yrði í síðasta sinnið sem við myndum sjást í lifanda lífi. Mín síðustu orð til hennar voru að segja henni að ég elskaði hana sem hún svaraði með sömuleiðis, Davíð minn, ég er svo ánægð að sjá að þú sért í leikfélaginu okkar; orð sem ég mun halda vel að mér.
Amma átti fáa sína líka og markaði djúp spor í allt sitt fólk sem og þá sem til hennar þekktu sem voru ófáir einstaklingar, enda vel þekkt á svæðinu út frá leiklistinni, kórstarfinu, smitandi hlátrinum, glettnislega brosinu og öllum árunum sem hún vann á símstöðinni í Hveragerði og talaði þar líklega við hvern bæjarbúa í hverri viku.
Í lokin vil ég láta með fylgja stutta vísu sem amma fór oft með fyrir mig eftir Jóhannes úr Kötlum sem hún hafði alltaf gaman af og þekkti vel og fjallar um Jóhannes Þorsteinsson, föður hennar, í Ásum eftir að hann var settur oddviti í Hveragerði til að halda rólegum hægri- og vinstrimönnum þegar hvor flokkur fyrir sig náði tveimur mönnum inn í nýstofnað sveitarfélagið Hveragerði. Vísan þótti henni alltaf skemmtileg þó stutt væri og hló alltaf upphátt í lokin eftir að hafa flutt hana af innlifun með sterkri leikhúsrödd sinni, en hún er aðeins ein af mörgum sem ég fékk að heyra í gegnum tíðina sem oftast komu úr smiðju Jóhannesar úr Kötlum og sr. Helga Sveinssonar prests.

Við volum yfir veðrinu

og vesælir í kaun vér blásum,

en Guð hann stjórnar gerðinu

í gegnum Jóhannes í Ásum.

(Jóhannes úr Kötlum)

Lítill drengur lófa strýkur
létt um vota móðurkinn,
- augun spyrja eins og myrkvuð
ótta og grun í fyrsta sinn:
Hvar er amma, hvar er amma,
hún sem gaf mér brosið sitt
yndislega og alltaf skildi
ófullkomna hjalið mitt?

(Jóhannes úr Kötlum)

Ég elska þig amma mín.
Þinn sonar sonur,



Davíð.