Kristján Helgason fæddist á Akureyri 15.9 1934. Hann lést 16.6 2023 á Jaðri í Ólafsvík.

Foreldrar hans voru hjónin Helgi Thorberg Kristjánsson vélstjóri, f. 1904 í Ólafsvík, d. 1976, og Petrína Kristín Jónsdóttir, f. 1909 á Búðum, d. 2002. Systkini Kristjáns voru: Kristín f. 1931, d. 2022, gift Reinhard Sigurðssyni, látinn, Jón, f. 1932, d. 2019, kvæntur Aðalheiði M. Guðmundsdóttur, látin, og Jóhannes, f. 1936, d. 2020, kvæntur Fríðu Sigurveigu Traustadóttur.

Kristján kvæntist 28.9 1958 Björgu Láru Jónsdóttur, f. 13.3. 1935, d. 29.4. 2021. Foreldrar hennar voru hjónin Ingveldur Lárensína Guðný Helgadóttir, f. 1894 í Ólafsvík, d. 1958 og Jón Thorberg Jóhannesson, f. 1885 á Ytrafelli í Dalasýslu, d. 1936.

Systkini Bjargar Láru voru Helga Rósa Ingvarsdóttir, f. 1915, d. 1996, Jóhannes, f. 1918, d. 1936 og Hallveig Kristólína, ljósmóðir f. 1921, d. 1977.

Afkomendur Kristjáns og Bjargar Láru eru: 1) Helgi f. 1958, kvæntur Oddnýju Björgu Halldórsdóttur, f. 1956, dóttir þeirra er Helga Björg f. 2000. Fyrir átti Oddný Björg, Birgittu f. 1979, eiginmaður hennar er Högni B. Jónsson, synir þeirra eru Jón Oddur, Baldvin Þór og Vilberg Kári. 2) Jóhannes f. 1959, börn hans eru a) Andri f. 1983, móðir hans er Sigríður Helgadóttir, b) Olga Kristín f. 1983, móðir hennar er Lilja Héðinsdóttir, unnusti Olgu er Símon Símonarson, börn Olgu eru Aþena Lilja og Baltasar Sölvi, c) Marteinn f. 1996, móðir hans er Ruth Snædahl Gylfadóttir, fv. eiginkona. 3) Lára f. 1961, gift Þorsteini Ólafs f. 1957, börn þeirra a) Þór Steinar f. 1985, b) Björg Magnea f. 1988, sambýlismaður Liam Mcilhatton, c) Kristján Már f. 1993, unnusta Ástrós Óskarsdóttir. Fyrir átti Þorsteinn dótturina Elínu Birgittu f. 1980, d. 1996. 4) Olga f. 1963 gift Torfa Sigurðssyni f. 1963, dætur þeirra eru a) Hugrún f. 1983, eiginmaður er Guðmundur Róbert Guðmundsson, dóttir þeirra er Ronja Bríet, b) Tinna f. 1988, eiginmaður er Sveinn Ingi Ragnarsson, synir þeirra eru Torfi Snær, Hrannar Ingi, Bergur Breki og Kristján Kári, c) Telma Aníka f. 1989, sambýlismaður Sindri Snær Harðarson, d) Sandra Ýr f. 1999, unnusti Sindri Frostason, dætur þeirra eru Viktoría Rós og Gabríela Nótt.

Kristján fæddist á Akureyri og flutti ungur til Siglufjarðar. Hann fór í Stýrimannaskólann og lauk þaðan prófi sem stýrimaður. Kristján stundaði sjómennsku í 30 ár og var síðan hafnarvörður Ólafsvík.

Kristján var mikill stuðningsmaður Víkings Ó. og sótti leiki liðsins víða um land.

Kristján var einn af stofnendum Leikfélags Ólafsvíkur. Einnig stofnfélagi í Skógræktarfélagi Ólafsvíkur, Golfklúbbnum Jökli og Lionsklúbbi Ólafsvíkur. Auk þess starfaði hann í ýmsum nefndum í bæjarfélaginu eins og sjómannadagsráði, í Verkalýðsfélaginu Jökli, byggingarnefnd Félagsheimilisins á Klifi, hafnarnefnd, Pakkhúsnefnd ásamt byggingarnefnd Mettubúðar.

Útför Kristjáns verður gerð í dag, 30 júní 2023, frá Ólafsvíkurkirkju kl. 13.

Pabbi fæddist á Gránufélagsgötu 41 á Akureyri og bjó þar fyrstu ár ævi sinnar. Ungur flutti pabbi ásamt fjölskyldu sinni frá Akureyri til Siglufjarðar. Pabbi mundi eftir því er þau sigldu með danska skipinu Queen Alexandríu til Siglufjarðar þar sem Guðmundur föðurbróðir hans tók á móti þeim á bryggjunni.

Pabbi átti tvo bræður, Jón og Jóhannes og eina systur, Kristínu sem var elst þeirra systkina. Þeir bræður voru jafnan kenndir við Bakka þar sem fjölskyldan bjó lengst af. Margar sögur voru sagðar af uppátækjum þeirra bræðra enda voru þeir allir bæði frásagnarglaðir og hláturmildir með eindæmum.

Haustið 1939, eftir síldarvertíðina á Siglufirði, fór pabbi með Jóhönnu föðursystur sinni frá Siglufirði með mjólkurbátnum til Sauðárkróks með viðkomu á Hauganesi og Hofsósi. Gistu þau á Sauðárkróki og tóku rútu næsta dag til Borgarness. Þar var skipt um rútu og farið til Ólafsvíkur.

Pabba var minnistætt að farið var yfir Búðarós. Ástæða ferðarinnar var að Kristján Kristjánsson afi hans hafði ekki séð nafna sinn en pabbi var fyrsti afkomandi hans sem bar nafn hans. Kristján langafi minn hafði þá misst Önnu Elísabetu, seinni eiginkonu sína, og vildi fá nafna sinn í heimsókn. Pabbi var hjá Kristjáni afa sínum fram á næsta vor þegar Magnús föðurbróðir hans réði sig á bát sem fór á síldveiðar frá Siglufirði. Tók Magnús pabba með sér norður. Þeir biðu á Hellisandi þar til báturinn kom og sótti þá. Róið var á árabát út í bátinn. Pabbi taldi að það hafi tekið þá tvo sólarhringa að sigla til Siglufjarðar frá Hellissandi.

Pabbi var aðeins fimm ára sendur í sveit eins og oft tíðkaðist á þessum árum. Fyrsta ferðin var eftirminnileg. Hann fór með mjólkurbátnum frá Siglufirði ásamt Jóni eldri bróður sínum og komu þeir í land á Hofsósi. Þangað var Jón sóttur fljótlega eftir komuna en pabbi beið mestallan daginn eftir að vera sóttur. Þegar fólki var hætt að lítast á blikuna með litla drenginn, pabba, var hann spurður hvert för hans væri heitið og sagði hann sem satt var að hann ætti að fara að Hofi í Skagafirði. Haft var samband við Sigurlínu húsmóður á Hofi sem lét senda eftir drengnum hið snarasta, en málið var að þau áttu von á vinnumanni en ekki barnungum dreng. Á Hofi átti pabbi eftir að dvelja næstu sjö sumur hjá því góða fólki og ég gleymi ekki blikinu í augum hans þegar hann minntist þess tíma. Þar leið honum vel.

Skólaárin á Siglufirði voru stundum erfið fyrir ungan þróttmikinn drenginn sem vildi frekar leika sér úti en að vera lokaður inni á háalofti í kirkjunni við bókalestur þar sem skólakennslan fór fram. Fór það svo að lokum að pabbi var sendur vestur til frændfólksins í Ólafsvík þar sem hann lauk skyldunámi sínu ásamt því að fermast þar. Mamma og pabbi voru fermingarsystkini og var haldin sameiginleg fermingarveisla fyrir þau.

Á jóladag þegar pabbi var 14 ára fór hann með föður sínum gangandi frá Ólafsvík yfir Jökulhálsinn til Arnarstapa og þaðan alla leið að Hellissandi. Þaðan voru þeir keyrðir síðasta spölinn frá Viðvík og undir Ólafsvíkurennið. Komu þeir til baka á annan í nýári. Tilefnið var að afi vildi kynna pabba fyrir ættingjum og vinum sem bjuggu fyrir sunnan Jökul.

Pabbi fór í Stýrimannaskólann og lauk þaðan prófi sem stýrimaður. Sjórinn átti alla tíð hug hans allan, alltaf var verið að gá til veðurs og athugað hvernig sjóveður væri. Pabbi byrjaði ungur til sjós. Viku fyrir fermingu árið 1949, réðst hann á togveiðar á Atla EA og var samfleytt á sjónum til ársins 1973 en eftir það fór hann í fraktsiglingar á Hvalvíkinni. Hann réði sig á samtals 33 báta, ýmist á togveiðar, netaveiðar, síldveiðar og fraktflutninga. Á þessum tíma réðu menn sig á eina vertíð í senn. Lengst var hann stýrimaður á Sveinbirni Jakobssyni SH hjá Hauki Sigtryggssyni útgerðarmanni. Pabbi eignaðist tvo báta, Skálafellið og Ölver með vini sínum Gunnari Gunnarssyni.

Pabbi fór í millilandasiglingar á Lagarfossi, einu af skipum Eimskipafélags Íslands, og á Hvalvíkinni sigldi hann yfir miðbaug og fékk svokallaða miðbaugsskírn. Hann sigldi þá fyrir Góðrarvonarhöfða og festist í ís við Kanada, svo eitthvað sé nefnt. Pabbi átti myndir af öllum bátunum sem hann var á nema einum.

Einhverjir muna eftir pabba af bryggjunni. Pabbi var hafnarvörður eftir að hann kom í land og starfaði við höfnina í Ólafsvík í 31 ár. Þá þurfti að hafa skipulagshæfileika og stjórna því hvar hver og einn átti að binda sinn bát. Það gat stundum gustað á milli manna enda vildi pabbi hafa hlutina á sinn hátt og geta gengið að hlutunum vísum. Það var á þeim tímum þegar mikið var um skipakomur á hafnir landsins og gera þurfti ráð fyrir að pláss væri laust fyrir skipin.

Hann kenndi ungum mönnum og stúlkum sem voru að læra undir pungaprófið svokallaða. Slysavarnamál sjómanna voru ætíð ofarlega í huga hans. Þegar Mettubúð var byggð í Ólafsvík lagði hann hönd á plóg ásamt mörgum öðrum og hélt hann skrá yfir aðkomu hvers og eins. Hann kom að rannsóknum vegna sjóslysa enda oft í beinum tengslum í gegnum talstöðina við báta í vanda og í einhverjum tilvikum var hann síðastur sem hafði haft orðaskipti við viðkomandi aðila þegar útséð var um hjálp í tíma. Þetta var þungbært og vildi hann lítið ræða þetta, enda viðkvæm mál.

Pabbi var orðheldinn maður, minnugur og var hafsjór af fróðleik, bæði um fólk og málefni. Hann þekkti mikið af fjöllum bæði frá sjó og landi. Hann var vel lesinn og fylgdist vel með fréttum. Hann hafði gaman af íslenskri þáttagerð í sjónvarpi, fótbolta- og handboltaleikjum og hasarmyndum. Hann gekk undir nafninu sjónvarpsstjórinn meðal nánustu fjölskyldumeðlima enda hafði alltaf stjórn á fjarstýringunni.

Fótboltaleikir voru vel sóttir, ekki aðeins leikir Víkings Ó. í Ólafsvík heldur einnig leikir félagsins í öðrum landshlutum á meðan heilsan leyfði. Síðustu árin horfði pabbi á leiki Víkings Ó. úr bílnum og skrifaði niður hverjir skoruðu til að geta fært fréttir eftir leik. Stjórnir Víkings Ó. eiga miklar þakkir skildar fyrir viðmót þeirra við foreldra mína og hvernig félagið heiðraði minningu þeirra beggja.

Félagsmál voru stór partur í lífi pabba. Hann var einn af stofnendum Leikfélags Ólafsvíkur og hélt hann til haga öllu því efni er snéri að félaginu, leikskrám, ljósmyndum og fleiru. Fyrir mörgum árum hafði hann farið með þau gögn suður til Reykjavíkur á safn til varðveislu en þegar hann áttaði sig á því að þetta safn yrði aldrei að neinu viti fór hann aftur suður og sótti gögnin. Þá var hann einnig stofnfélagi í Skógræktarfélagi Ólafsvíkur, Golfklúbbnum Jökli og Lionsklúbbi Ólafsvíkur. Þá starfaði hann í ýmsum nefndum í bæjarfélaginu eins og sjómannadagsráði, í Verkalýðsfélaginu Jökli, byggingarnefnd Félagsheimilisins á Klifi, hafnarnefnd, Pakkhúsnefnd ásamt byggingarnefnd Mettubúðar.

Á hans yngri árum skrifaði hann mikið af leikþáttum og öðrum gamanmálum fyrir þorrablót, árshátíðir og aðrar uppákomur í Ólafsvík. Mikið af þessu efni er til enda hélt hann öllu til haga, hvort sem það var hans eigið efni eða annarra. Miklar heimildir eru í þessu efni þótt í gamni sé skrifað þar sem fram kemur hvaða málefni voru efst á baugi í bæjarfélaginu á hverjum tíma.
Eftir að starfsævinni lauk dundaði hann sér meðal annars við að klippa út úr blöðum og límdi inn í möppur allt sem snéri að Ólafsvík og Snæfellsbæ almennt, samferðafólk hans fór í aðra möppu o.s.frv. Hann safnaði myndum af skipum og bátum landsins og hélt utan um þær, einnig af kirkjum landsins og minnismerkjum. Einhverjum kann að finnast þetta óþarfi þar sem hægt er að fletta öllu upp á netinu í dag. Málið er hins vegar að við þurfum að vita að hverju við erum að leita á netinu og margt af því sem í er möppunum er gleymt í huga okkar en rifjast upp við að sjá og lesa um atburðina á prenti. Möppurnar með úrklippunum um Snæfellsbæ eru aðgengilegar á Átthagastofunni í Ólafsvík og geta gestir og gangandi kíkt í þær. Það gladdi hann mikið að vita að skólabörn í Snæfellsbæ nota þær í samfélagsverkefnum á vegum skólans.

Nú þegar komið er að leiðarlokum vil ég þakka þér, pabbi, fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og mína fjölskyldu og fyrir allar samverustundir okkar.

Þakka þér fyrir hve góð fyrirmynd þú varst. Ég mun minnast þín með gleði og muna að hláturinn lengir lífið. Guð veri með þér elsku pabbi minn.

Takk fyrir allt,
þín dóttir

Lára.