Ólafur Grétar Laufdal Jónsson veitingamaður fæddist í Vestmannaeyjum 10. ágúst 1944. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 24. júní 2023.
Foreldrar Ólafs voru Jón Kristinn Tómas Ólafsson frá Leirum undir Eyjafjöllum, verkamaður, sjómaður og síðar verslunarmaður í Reykjavík, f. 14. ágúst 1910, d. 25. júlí 2003, og Guðlaug Ragnheiður Guðbrandsdóttir frá Stardal í Kjós, húsfreyja, f. 18. mars 1921, d. 27. febrúar 1966.
Ólafur kvæntist Kristínu Ketilsdóttur 25. nóvember 1971. Börn þeirra eru Arnar Laufdal Ólafsson, f. 1969, eiginkona Bryndís Ólafsdóttir, f. 1971, og börn þeirra eru Ólafur Arnar, f. 1996, Davíð, f. 1999, og Birkir, f. 2008. Ragnheiður Katla Laufdal Ólafsdóttir, f. 1970, og börn hennar eru Ketill Árni, f. 1996, Tómas Kristinn, f. 1998, og Hinrik Ari, f. 2001. Jón Kristinn Laufdal Ólafsson, f. 1972, eiginkona Nanna Ósk Jónsdóttir, f. 1974, og börn þeirra eru Ólafur Friðrik, f. 1997, og María Kristín, f. 2007. Önnur börn Ólafs eru Jón Hermann Laufdal Ólafsson, f. 1963, Steinunn Laufdal Ólafsdóttir, f. 1965, eiginmaður Jeannot Tsirenge, f. 1968, og börn þeirra eru Thelma Tara, f. 1997, og Aron Andri, f. 2001. Berglind Ólafsdóttir, f. 1968, eiginmaður Svavar Egilsson, f. 1949, og börn þeirra eru Helga Dís, f. 1993, Sigurbjörg, f. 1996, og Jóhann Egill 2001.
Systkini Ólafs eru Sirrý Laufdal Jónsdóttir, f. 1940, Trausti Laufdal Jónsson, f. 1947, Hafdís Laufdal Jónsdóttir, f. 1949, Erling Laufdal Jónsson, f. 1954, Stefán Laufdal Gíslason, f. 1964.
Ólafur lauk námi í Hótel- og veitingaskólanum í framreiðslu 1963, og byrjaði að vinna á Hótel Sögu og síðar á farþegaskipinu Gullfossi sem barþjónn. Ólafur vann í Glaumbæ þar til staðurinn brann árið 1971 og síðar var hann meðeigandi veitingastaðarins Óðals. Árið 1978 keypti Ólafur veitingastaðinn Sesar og breytti nafni staðarins í Hollywood. Ólafur byggði Broadway í Mjódd. Síðar byggði hann Hótel Ísland í Ármúla 9, sem hann reisti á miðjum 9. áratugnum. Um skeið var Ólafur ásamt eiginkonu sinni með Hollywood, Broadway, Hótel Ísland og Hótel Borg í rekstri og Hótel Borg rak hann í 13 ár. Reykjavíkurborg keypti Broadway í Mjódd af Ólafi upp úr 1990 en hann rak Hótel Ísland í Ármúla til aldamóta.
Um það leyti fluttu Ólafur og Kristín eiginkona hans í Grímsnes. Þar byggðu þau Hótel Grímsborgir sem er með gistingu fyrir 240 manns í 16 húsum og veitingahús.
Útför Ólafs fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 30. júní 2023, kl. 15.
Vinur okkar, Ólafur Grétar Laufdal Jónsson, er fallinn frá.
Óli var góður drengur og mikill vinur vina sinna, bæði kurteis og frekar
hlédrægur, vildi aldrei trufla neinn persónulega. Hann var mannvinur sem
mátti ekkert aumt sjá.
Óli var mikill og drífandi fagmaður í rekstri og þjónustu og umgekkst
fjölda fólks. Hann naut þess að klæðast vel og fara á flotta veitingastaði
og hótel til að sjá og upplifa það sem vel var gert og koma með nýjar
hugmyndir, reynslu og þekkingu heim í rekstur hans og Kristínar
Ketilsdóttur, Stínu, sem var hans stoð og stytta í svo fjölmörgu, svo sem
að gera veitinga- og gistirými bæði glæsileg og hlýleg. Þau mátu hvort
annað mikils og voru góð saman.
Þórdís, okkar góða vinkona á Spáni, segir að það hafi verið svo gaman að
kynnast þeim og heyra sögur og kynnast gildum Ólafs og ekki síst að sjá
hversu mikla virðingu og hlýju þau báru gagnvart hvort öðru.
Lára og ég höfum haft þau forréttindi að hafa fengið að kynnast og vera
samvista þessari frábæru og miklu mannkostafjölskyldu, Óla, Stínu, Adda,
Jóni og Löllu. Takk fyrir það.
Minnisstæðar eru mörgu góðu utanlandsferðirnar okkar, til London, Spánar og
víðar, oft líka með Heði og Soffíu, góður og samstilltur vinahópur sem gott
var að ferðast og dvelja með.
Á veitingastöðum var nánast vonlaust fyrir mig og aðra að fá að borga
eitthvað, það var fyrirframtöpuð barátta hann sagði bara ég er með
þetta.
Þegar ég hafði unnið eitthvað fyrir hann, sem var oft og iðulega í gegnum
árin, hringdi hann iðulega og ýtti á mig að koma og fá greitt. Ef ég vildi
draga eitthvað úr sagði hann rétt skal vera rétt og krafðist þess að fá
að borga nóg og helst rúmlega það, hann vildi ekki skulda neinum
neitt.
Þegar við ræddum á sínum tíma um mögulegar fjárfestingar sagði hann: Það
er betra að eiga 10% í einhverju, en 100% í engu. Ótrúlega rétt, lýsir vel
sterkri og skýrri hugsun.
Hann gat reiknað út alls konar fjárhæðir og stærðir í huganum og minni hans
var ótrúlega gott, hann mundi alls konar lagatexta og lausavísur sem hann
hafði heyrt og lært.
Óli breytti skemmtanamenningunni á Íslandi, með nýjungum og meiri þjónustu
en áður þekktist, svo sem þegar hann opnaði Hollywood, fyrir rúmum 45 árum.
Þar var ég fastagestur, og vaktfélagar mínir í lögreglunni sögðu í gríni að
ég væri teiknaður inn á innanhússteikninguna.
Óli kunni svo sannarlega að opna nýja staði, hann bauð fjölda fólks á
opnunarkvöldin og fyllti staðina og síðan voru staðirnir vel sóttir eftir
það. Á seinni árum naut hann þess að hýsa brúðkaupsafmæli hjóna, fólks sem
kynnst hafði á stöðum hans. Oft fékk hann spurninguna Óli, þekkirðu mig
ekki?
Hann naut þess að vinna og gerði vel við gesti og starfsfólk. Almennt var
vinnuandinn góður, sem leiddi af sér létta og góða þjónustu, svo eftir var
tekið. Fyrir starfsfólkið var vinna á stöðum Ólafs mikill og góður skóli,
starfsmenn lærðu mikið og urðu vel metnir og eftirsóttir starfsmenn,
yfirmenn eða eigendur í öðrum rekstri.
Óli gat verið fastur fyrir í samningum um viðskipti, en svo stóð allt sem
samið var um og hann borgaði reikningana helst fyrir gjalddaga.
Lára og sérstaklega ég unnum í gegnum árin margs konar störf fyrir Óla vin
okkar og ég heyrði hann aldrei tala illa um nokkurn samkeppnisaðila. Það
var frekar á hinn veginn, þegar talsmenn stórra fyrirtækja komu til að
semja um stórar árshátíðir, sem áður höfðu verið haldnar annars staðar,
sagði hann iðulega: Gerðu þeir þetta ekki bara vel?
Ég og Óli kynntumst þegar ég var fenginn til að taka ljósmyndir af
viðburðum í Hollywood, til að nota í auglýsingar í Morgunblaðinu. Okkur
varð svo vel til vina í áratugi. Og ekki skemmdi að Lára hafði þekkt og
verið vinur þeirra enn fyrr. Ég vann fjölmargt fyrir fyrirtæki Óla;
dyravörslu í Broadway, rýrnunareftirlit á öllum börunum á stöðunum fjórum í
Reykjavík, móttöku gesta Hótel Íslands og vísun til sæta og ýmsa aðstoð við
kvöldverðina, ásamt Láru minni, gátu verið erfið kvöld, í stigunum háu
milli hæða, en eftirminnilegar og flottar allar stórsýningarnar. Og síðar
markaðs- og söluvinna, akstur, leiðsögn og fleira, allt fróðlegt,
lærdómsríkt og þroskandi.
Óli fékk fjölmarga heimsþekkta erlenda skemmtikrafta til Íslands, almennt
frábært og hlýlegt fólk í samskiptum. Innlendar stórsýningar voru líka
margar, á Broadway og Hótel Íslandi, þar sem hægt var að bera fram 1.200
rétti á undir 15 mínútum. Arnar sonur þeirra keypti síðar og tók við
rekstri Hótels Íslands og hélt vel uppi merkinu.
Þau hjónin fluttu síðar í Ásborgir, nýskipulagða byggð í kjarrinu við
Sogið. Keyptar voru lóðir og hafin bygging húsa. Kannski til að hafa
eitthvað fyrir stafni, kannski selja. Kannski til að skapa aðstöðu fyrir
eldri borgara. En, svo voru auðvitað sviptingar í fjármálalífinu, eins og
svo oft á Íslandi, og ekki kjöraðstæður til að selja nýbyggðar glæsieignir.
Þá byrjaði hann að kynna húsin til leigu, í byrjun til stéttarfélaga og
ferðamanna. Metnaður Óla og Stínu var mikill og sömuleiðis vinnusemi
þeirra. Úr varð flotta fyrirtækið, Hótel Grímsborgir, sem naut mikilla
vinsælda, bæði Íslendinga og ferðamanna og fékk toppeinkunnir. Og
uppbyggingin hélt áfram. Gistingar og veitingarekstur, tónlistarsýningar.
Nett rúta og minni bílar keyptir, til að sækja og þjóna gestum sem best. Ég
kom stöku sinnum og ók og leiðsagði gestum, allir rómuðu góða þjónustu
hótelsins. Og svo var leitað eftir mati á rekstrinum og þjónustunni og
Hótel Grímsborgir varð opinberlega fyrsta fimm stjörnu hótelið á Íslandi.
Vel gert hjá þessum góðu vinum okkar.
Vinnusemi var dyggð. Á erfiða Covid-tímanum bætti Óli á sig næturvörslunni,
ofan á alla sjö daga vinnuvikuna, svaraði síma að heiman á nóttunni, sem
allt hefur verið mikið álag. Þannig náði hann að spara rekstrinum mikið og
náði að hafa heildarafkomuna í plús á Covid-rekstrarárunum, mikið afrek.
Enda gat hann auðveldlega fengið fyrirgreiðslu til enn meiri uppbyggingar á
og eftir Covid-tímann, sem var fátítt þá.
Ég talaði iðulega við Óla á undanförnum árum um að selja reksturinn, bara á
hvaða verði sem fengist til að fá meiri tíma til að geta byrjað að njóta
lífsins enn betur, við Lára vildum auðvitað fá tækifæri til að vera meira
með honum og Stínu. En Covid-ástandið og fleira truflaði sölumöguleikana og
margt fleira.
Veikindi Óla byrjuðu um það leyti sem reksturinn var að seljast og þau
heiðurshjón farin að sjá fyrir sér fleiri lausar stundir til að njóta sín á
Íslandi og Spáni. Við áttum mörg símtöl á milli Spánar og Íslands, í þeim
kom fram bæði trú og jákvæðni hans hann var svo þakklátur fyrir allt sem
Stína og góða fólkið á sjúkrahúsunum gerði fyrir hann. Hann ætlaði sér að
ná að komast út til okkar á Spáni, í gríni mögulega með lækninn með sér, en
ferðaáætluninni var víst breytt.
Jákvæðni og sterk trú eru lýsandi fyrir Óla og Stínu ábyggilega er tekið
vel á móti Óla í landi ljóssins og sumarsins, þar sem hann hittir þá móður
sína og föður og aðra liðna ættingja og vini.
Far þú í friði með kærri þökk fyrir allt og allt góðu minningarnar lifa
með okkur sem eftir stöndum.
Lára Davíðsdóttir og Arinbjörn Sigurgeirsson, frá Bjargi