Sesselja Jóna Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík, 11. mars 1930. Hún lést á Mörk, hjúkrunarheimili 30. júní 2023.
Foreldrar hennar voru Jóna Sigríður Jóhannsdóttir, fædd á Flateyri 6.7. 1899, d. 28.2. 1935, og Guðmundur Ísleifsson frá Varmahlíð í Eyjafjallahreppi, f. 18.9. 1896, d. 11.1. 1962. Systkini Sesselju voru Elín, f. 1923, d. 2010, Guðmundur Óskar, f. 1927, d. 2004, Magnúsína, f. 1929, d. 2021, Ármann, f. 1931, d. 2007, Jóna Sigríður, f. 1935, d. 1978. Samfeðra er Sigurður Óskar, f. 1943.
Sesselja giftist 10. apríl 1954 Bjarna J. Einarssyni vélvirkja, f. 2.3. 1932, d. 14.12. 2016. Foreldrar hans voru Einar Bjarnason frá Minnibæ í Grímsnesi, f. 9.12. 1895, d. 7.4. 1937, og María Gísladóttir frá Árbæ í Ölfusi, f. 8.5. 1898, d. 15.1. 1993.
Börn Sesselju og Bjarna eru: 1) Jóna Sigríður, 22.4. 1951, maki Jón Ingi Ólafsson, f. 15.4. 1954. Börn þeirra eru: a. Hrafnhildur Sesselja Mooney, f. 8.10. 1971, hún er jafnframt uppeldisdóttir Sísíar og Bjarna, sonur hennar og Magnúsar Salberg Óskarssonar, f. 1972, er Dagur Mooney, f. 2.10. 1999. Þau eru fráskilin. Sambýlismaður Hrafnhildar er Ástráður Þorgils Sigurðsson, f. 1973. Börn hans eru Alexander Leó, 6.1. 2000, Alva Elina, f. 22.3. 2003, og Ísabella Marín, f. 16.6.2012. b. Lára Þyri Eggertsdóttir, f. 21.3. 1975, börn hennar og Bjarna Más Bjarnasonar, f. 1974, eru Sara Hlín, f. 27.9. 1999, Arnar Orri, f. 2.8. 2003. Dóttir Bjarna Más er Viktoría Karen, f. 28.1. 1997. Þau eru fráskilin. Sambýlismaður Láru er Kristján Þórir Hauksson, f. 1972. Börn hans eru Kristófer Kort og Benjamín Ómar, f. 1.10. 2002. c. Bjarni Þór Jónsson, f. 20.10. 1982, sambýliskona Sigrún Fanný Jónsdóttir, f. 1985. Börn þeirra eru Róbert Ingi, f. 15.2. 2005, og Ómar Darri, f. 27.3. 2012. 2) María, f. 24.2. 1958, maki Hjörtur Gíslason, f. 29.4. 1958. Börn þeirra eru: a. Gísli Jón, f. 22.1. 1984, sambýliskona Sigrún Eva Sigurjónsdóttir, f. 1988. Börn þeirra eru Eva María, f. 31.1. 2015, og Svana Ösp, f. 28.4. 2016. b. Snædís, f. 19.4. 1987, sambýlismaður Georg Halldórsson, f. 1986. Börn þeirra eru Elma, f. 14.4. 2015, og Hjörtur, f. 16.5. 2020. c. Einar, f. 16.8. 1992. 3) Einar, f. 3.11. 1964, maki Helga Eiríksdóttir, f. 18.8. 1966. Börn þeirra eru: a. Mjöll, f. 28.1. 1990, barn hennar og Katrínar Bjarneyjar Hauksdóttur, Lena Mjöll, f. 31.8. 1991. Sambýliskona Mjallar er Emma Ljósbrá Friðriksdóttir, f. 1998. b. Jónbjarni, f. 20.8. 1992, sambýliskona Bríet Magnúsdóttir, f. 1992. c. Jökull Eyjólfur, f. 11.11. 2000
Útför Sesselju fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 11. júlí 2023, klukkan 15.
Amma og afi mættu á alla foreldrafundi, skemmtanir og sáu um skíðaferðalögin, öll árin sem ég var í grunnskóla. Mér var mikið í mun að allir vissu að þau væru amma mín og afi, því mér fannst þau dáldið gömul. Það var ekki fyrr en seinna sem ég áttaði mig á að amma og afi tóku meiri þátt í félagslífi mínu og íþróttum en flestir foreldrar vina minna, þrátt fyrir að þeir væru töluvert yngri. Amma og afi eru þekkt í öllum þeim skólum og vinnustöðum sem ég hef verið á, enda hefur verið sagt við mig að fáir tali eins mikið um fólkið sitt. Ég held það hljóti að vera því ég vissi hvað ég var heppin að fá að alast upp hjá þeim. Þau hafa frá fyrstu tíð dekrað mig í drasl, ásamt því að hvetja mig til dáða í öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Hvort sem það voru skíðin, námið eða vinnan.
Menntun var þeim mikilvæg, þau lögðu áherslu á að ég stæði mig vel í skóla og færi í háskóla. Þegar ömmu fannst ég aðeins of slök eftir Verzló sendi hún mig til Frakklands í háskóla. Bókstaflega. Árin sem ég var í Frakklandi var ömmu annt um að ég fylgdist með fréttum. Reglulega fékk ég sendar úrklippur úr Morgunblaðinu með því helsta, að mati ömmu. Viðfangsefnin voru þrjú, NBA, handbolti og keppnin um ungfrú Ísland. Þetta síðastnefnda hef ég reyndar aldrei skilið, en íþróttir voru hennar helsta áhugamál fram á síðasta dag. Hún var mikil keppnismanneskja, þar voru handboltinn og skíðin efst á blaði.
Í uppvextinum spilaði amma við mig rommí á nánast hverju kvöldi þar sem tvistar voru ekki tvistar, því þá var "spilið svo fljótt að klárast". Í sameiningu reyndum við að klekkja á afa, sem svindlaði meira en eðlilegt getur talist og lét spilin hverfa í tíma og ótíma. Þau afi fóru með mig í ófá ferðalögin um landið þar sem við afi reyndum að fá ömmu til að spreða í pulsur og ís á leiðinni. En amma var hagsýn og alltaf með nesti í köflóttu nestistöskunni, sem ég vonaði stundum að myndi bara týnast. Mörgum vinkonum mínum þótti ég öfundsverð af öllu heimatilbúna góðgætinu í Hjallalandinu, eins og hjónabandssælunni, kleinunum og kæfunni, sem allir virtust elska nema ég. Ég vildi bara pulsur. Á sínum efri árum lærði amma þó að meta skyndibita, þriðjudagstilboð á Búllunni var okkar uppáhalds.
Amma var hreinskiptin og beinskeytt. Hún var ekki mikið fyrir lélegan saumaskap, illa greitt hár eða dýr, sérstaklega ekki hunda og ketti. Þegar ég sýndi henni myndir af hundum sem ég er stundum að passa sagði hún iðulega: "hræðilega er hann ljótur!" Þó amma væri beinskeytt talaði hún aldrei illa um nokkurn mann, hún þagði frekar. Ömmu var alltaf umhugað um að vera vel til fara, með varalit og krullað hár, allt fram á síðasta dag. Ekki verra ef það var smá glimmer líka. Stundum hef ég velt fyrir mér hvort hún hafi sofið með bleika varalitinn!
Elsku amma, ég hef kviðið þessum degi frá því ég man eftir mér. Ég hef svo oft hugsað til þess hvernig ég gæti mögulega lifað án ykkar afa. Þið hafið gert svo mikið fyrir mig. Ég verð ykkur ævinlega þakklát fyrir að hafa tekið mig að ykkur og verið mér sem foreldrar. Ég lofa að vera ykkur til sóma, alla daga.
Þú varst tilbúin að kveðja og fara til afa. Núna eruð þið sameinuð á ný, eflaust komin í skíðagallann og tilbúin í góðan vetur í Bláfjöllum. Sorgin er djúp og söknuðurinn sár, en ég kveð þig, elsku amma mín, sátt og með sól í hjarta, þakklát fyrir að hafa átt þig að í öll þessi ár.
Stelpan þín, alltaf.
Hrafnhildur Sesselja Mooney.