Kristján fæddist á Efri Þverá í vestur Húnavatnssýslu 19 apríl 1949. Hann lést á dvalaheimilinu á Hvammstanga 18 júlí 2023.

Foreldrar hans voru Hólmfríður Halldóra Magnúsdóttir, húsfreyja/bóndi, f. 23. nóv. 1915 í Húnavatnssýslu, d. 24. mars 1995, og Sigurður Halldórsson bóndi á Efri-Þverá, f. 12. sept. 1915 á Neðri-Þverá í V-Húnavatnssýslu, d. 21. júlí 1980. Kristján bjó með foreldrum sínum að Efri-Þverá í Vesturhópi. Þar ólst hann upp ásamt systkinum sínum. Systkini hans eru Ingibjörg, f. 1939, d. 2008, Guðrún, f. 1941, d. 2016,  Guðlaug Pálína, f. 1947, Maggý Stella, f. 1951, Halldór Pétur, f. 1954, Jónína, f. 1956, og Sverrir, f. 1960.

Kristján kvæntist Jósefínu Þorbjörnsdóttir (Stellu) 1972, þau skildu 1982. Börn Kristjáns og Stellu eru: 1) Jón Hannes Kristjánsson, f. 1970. Eiginkona hans er Sigrún Gísladóttir, f. 1973. Barn Jóns; Arnheiður, f. 1989. Sambýlismaður Stefán Þórisson, f. 1987. Börn Jóns og Sigrúnar eru; Jósef Christian, f. 2000, og Dagur Þór, f. 2004. 2) Sigurður Hólmar Kristjánsson, f. 1972. Eiginkona hans er Anna Hulda Hjaltadóttir, f. 1971. Börn þeirra eru; Kristján Hjalti, f. 1995, unnusta Kristjáns er Álfheiður Kristín Harðardóttir. Hallur Aron, f. 1998, og Jónas Pálmar, f. 2003. 3) Jóhannes Ægir Kristjánsson, f. 1976. Eiginkona hans er Helga Bryndís Kristjánsdóttir, f. 1986. Börn Jóhannesar eru Jóhannes Örn, f. 2003, og Aron Leó, f. 2006. Barn Helgu Bryndísar er Andrea Líf, f. 2005. Barn Jóhannesar og Helgu Bryndísar er Stella Dís, f. 2014.

Kristján kvæntist Jónínu Ingólfsdóttur 1990, þau skildu 1991. Sambýliskona Kristjáns var Ólöf Guðbrandsdóttir, f. 1959. Börn Ólafar eru: 1) Sigríður Margrét Jónsdóttir, f. 1980. Eiginmaður Sigríðar Margrétar er Elvar Gunnarsson. Börn þeirra eru; Benedikt Efraím, f. 1999, sambýliskona hans er Iazmina Ana Maria. Ingibergur Alex, f. 2002. 2) Ingimar Sveinn Jónsson, f. 1984. Börn Ingimars eru; Emilía Mist, f. 2013, og Tindur, f. 2016.

Barnabörn Kristjáns eru 14 talsins og barnabarnabörnin eru fimm.

Útför Kristjáns fer fram frá Breiðabólsstaðarkirkju í dag, 28. júlí 2023, kl. 13.

Pabbi fæddist á Efri-Þverá 1949 og bjó þar til ársins 1971 þegar hann flutti með mömmu á Brautarland í Víðidal þar sem þau bjuggu til ársins 1974 með kindur, kýr og hesta. Þá fluttu þau að Síðu í Vesturhópi og voru þar fram að fardögum árið 1976 með sínar kindur og hesta. Þaðan lá leið þeirra að Breiðabólstað þar sem pabbi bjó fram að andlátinu. Á meðan á búskap mömmu og pabba stóð voru hjá þeim stelpur og strákar sem hjálpuðu til við búskapinn yfir sumartímann. Eru þar efst í minningunni þær Ingunn og Alla. Alla var að ég held þrjú eða fjögur sumur hjá okkur. Pabbi og mamma skildu svo árið 1982 og urðum við Siggi eftir hjá pabba en Jói flutti suður með mömmu. Ég man að það þótti ekki gáfulegt að pabbi skyldi taka að sér að ala okkur strákana upp einn síns liðs og á sumrin bættist Jói líka í hópinn. Iðulega kom vinnumaðurinn okkar, hann Björgvin Haraldsson, með Jóa á sumrin svo það var um nóg um að hugsa hjá pabba. Björgvin er nú eiginlega eins og bróðir okkar. Ég man samt aldrei eftir því að pabbi kvartaði yfir því að hann réði ekki við uppeldið á okkur. Þvert á móti þá finnst mér uppeldið hans pabba hafa gengið mjög vel þó honum hljóti að hafa fundist það erfitt á stundum. Fríða amma var líka dugleg að vera hjá okkur á þessum tíma. Gefa okkur að borða og allt hitt sem er of langt að telja upp. Alveg dásamleg kona sem ég á margar góðar minningar um.

Pabbi var mikill hestamaður alla sína tíð. Honum fannst ekkert skemmtilegra en fara á útreiðar. Hann átti fullt af verðlaunapeningum eftir keppni hjá hestamannafélaginu Þyti. Flest af þeim verðlaunum vann hann á hestunum Skugga og Öðlingi. Þetta voru kraftmiklir gæðingar sem pabbi hélt mikið upp á. Lengi vel var okkur strákunum bannað að ríða þessum hestum þar sem þeir voru svo viljugir að við hefðum örugglega ekki ráðið við þá þegar þeir voru upp á sitt besta. Öðlingur var sýnu erfiðari og ég man bara eftir örfáum reiðtúrum sem ég fór á honum. Það má eiginlega segja að pabbi hafi verið sá eini sem réð almennilega við hann. Skugga fékk ég aftur á móti að nota þegar hann var komin á efri ár og það var mjög auðvelt að elska þann hest þar sem kostir hans sem gæðings voru svo margir. Ég held að ég hafi verið orðinn 13 eða 14 ára þegar ég fékk fyrst að fara á bak honum. Annan hest verð ég að minnast á sem hét Ægir. Bleikálóttur hestur sem ég held að hafi komið frá Jóa á Ægisíðu. Pabbi byrjaði að temja Ægi á Síðu og ég man eftir því að fyrstu árin var Ægir nokkuð baldinn og það þurfti oft að passa sig á honum. Pabbi var búinn að vara okkur strákana við því að vera að þvælast í hesthúsinu þar sem Ægir og fleiri folar væru varasamir. Mér varð það samt á að hlýða pabba ekki alveg nógu vel sem varð til þess að Ægir, þá bara fjögurra vetra, náði að krafsa í mig en fyrir einhverja heppni þá komst ég undir stallinn hjá folanum svo hann náði ekki að slasa mig. Pabbi náði svo strax að koma og forða mér frá hestinum. Ægir varð svo síðar meir síðasti keppnishesturinn hans pabba að mig minnir. Eftir það fékk ég hann til að keppa á honum og vann til margra verðlauna hjá hestamannafélaginu Þyti.

Pabbi hafði líka mikla unun af fjárrækt. Það var strax árið 1977 sem hafist var handa á Breiðabólstað að byggja almennilegt fjárhús til að geta fjölgað fénu. Ég má til með að segja eina sögu úr fjárhúsunum á Breiðabólstað. Það var þannig að hrútarnir voru að sjálfsögðu hafðir í sér hrútastíu. Í þá daga var ekki um að ræða sjálfvirka vatnsbrynningu heldur þurfti maður að fara ofan í hrútastíuna til að skrúfa frá vatnskrananum eða láta sig hafa það að klifra utan á stíuna og eiga þá á hættu að detta ofan í súrheysgryfjuna ef maður missti takið til að skrúfa frá vatninu. Okkur strákunum þótti gaman að stríða hrútunum og voru nokkrir þeirra orðnir svo mannýgir að við vorum löngu hættir að þora ofan í stíuna til þeirra til opna fyrir vatnið. Pabbi var þó búinn að skamma okkur alloft og hóta að henda okkur út úr fjárhúsunum ef við hættum þessu ekki. Sú varð svo raunin þegar einn hrúturinn óð aftan í fæturna á pabba þegar hann teygði sig yfir grindverkið til að opna fyrir kranann. Hrúturinn fékk vissulega aðeins að kenna á því en svo henti pabbi okkur pjökkunum út úr fjárhúsunum og ég man hvað mér fannst það mikil refsing að fá ekki að fara með honum í fjárhúsin í heila viku. Ekki minnist ég þess að hafa strítt hrútunum eftir þessa lexíu.

Fjárbúskapurinn gekk vel hjá mömmu og pabba þar til áfallið dundi yfir árið 1981. Það kom upp riða og varð að lóga öllu fé um haustið eftir að hafa haldið því öllu innan girðingar allt sumarið. Þetta áfall fór ekki vel í pabba frekar en aðra fjölskyldumeðlimi. Við keyptum svo aftur fé um leið og það mátti. Pabbi fór út á Strandir til að velja sér fé. Ég man hvað pabbi ljómaði af ánægju að vera aftur búinn að fá sér kindur. Mér er líka minnisstætt að þær voru nánast allar kollóttar sem var alls ekki algengt í þá daga í okkar sveit. Pabbi var fljótur að ná upp góðum stofni og mjög góðri meðalþyngd í afurðum. En þá dundi aftur á okkur riðan. Mig minnir að það hafi verið árið 1987, um vorið í miðjum sauðburði, sem öllu fénu var fargað. Það vorið fannst mér eitthvað deyja inni í pabba við þetta áfall. Þetta var alveg gríðarlega sár tími. Pabbi gat aldrei hugsað sér að fá sér aftur kindur eftir þetta þó ég vissi að hann langaði oft til þess. Það var ekki fyrr en fyrir u.þ.b. fimm árum síðan að hann fékk sér örfáar kindur til að hugsa um eftir að hann komst á eftirlaun. Þó þær væru fáar þá minnist ég þess að hann talaði um það við mig að hann væri skíthræddur um að það kæmi riða í þær en það slapp sem betur fer. Eftir að kindunum var lógað í annað sinn ákvað pabbi að kaupa sér kýr. Hann breytti helmingnum af fjárhúsunum í fjós fyrir kýrnar. Þó að kúabúið gengi þokkalega þá fannst mér samt alltaf eins og pabbi hefði ekki eins gaman af kúnum eins og hann hafði unun af því að stússast í kindunum. Ég tek heils hugar undir þá hugsun. Kýrnar eru vissulega yfirleitt ljúfar og góðar og hlýða alveg örugglega miklu betur en kindurnar en það er bara eitthvað við kindurnar sem gladdi mig og pabba meira en kýrnar.

Allan þennan tíma þá var pabbi alltaf með töluvert af hrossum. Ég man eftir því að þegar það var fjárlaust hjá okkur þá vorum við með yfir 20 hesta á járnum frá jólum og fram á haust. Við vorum líka oft með fullt af folöldum og trippum. Pabbi elskaði að temja trippin og vorum við bræður mikið með honum í því. Það voru ófáir klukkutímarnir sem við eyddum í að járna hestana. Við strákarnir að halda löppum og pabbi járnaði. Ég held að það hafi ekki verið fyrr en síðustu 5-10 árin sem pabbi tók upp á því að járna einn. Ég man eftir því að mér fannst það alltaf pínu skrítið og jafnvel leiðinlegt að fá ekki að halda löpp á meðan pabbi járnaði. Pabbi var líka duglegur að hjálpa öðrum í sveitinni að járna hestana sína. Það fóru oft heilu dagarnir í það hjá honum en aldrei man ég eftir því að hann hafi séð eftir þeim tíma, síður en svo.

Ég man líka eftir mörgum ferðum sem pabbi fór í stóðréttir í Vatnsdalinn og Víðidalinn. Ég man hvað við strákarnir öfundum þessa kalla eins og pabba, Jóa á Ægisíðu, Sigga dódó og Jón í Bjarghúsum af því að fara þessar ferðir. Það var samt alltaf einn hlutur sem ég átti erfitt með að sætta mig við varðandi hestana. Það var áfengið sem oft var haft um hönd í þessum hestaferðum hans pabba. Það hefði pabbi betur látið kyrrt liggja.

Rétt fyrir aldamót ákvað pabbi að hætta með kýrnar en hélt áfram að vera með hrossin. Um þetta leyti fór pabbi að vinna í álverinu í Straumsvík. Hann var þar í samtals 15 ár eða til ársins 2015.

Það er ekki hægt annað en minnast á það að einni viku eftir að pabbi hætti að vinna í álverinu í Straumsvík brann gamli bærinn á Breiðabólstað til kaldra kola. Það var mikið áfall fyrir okkur öll og þá sérstaklega pabba sem missti allt sitt innbú og persónulega muni í þessum bruna. Það tókst samt með harðfylgi að byggja nýtt íbúðarhús á rúmlega einu ári. Þar bjó pabbi þar til á síðasta ári þegar sjúkdómur hans var orðinn svo erfiður að hann þurfti að leggjast inn á hjúkrunarheimilið á Hvammstanga þar sem hann lést svo af veikindum sínum þann 18. júlí síðastliðinn.

Pabbi var mjög góður afi. Honum þótti alltaf mjög gaman að hafa afastrákana hjá sér. Sem dæmi var Jósef byrjaður að fara norður með afa sínum í vaktafríum hjá Ísal þegar hann var 6 til 7 ára gamall. Vöktum lauk á miðnætti og drifu þeir sig þá alltaf beint norður í sveitina. Ég held að Jósef hafi aldrei sofnað í bílnum á leiðinni heldur hafi þeir bara verið að ræða um sveitina sína. Til viðbótar við afastrákana sína þá held ég að strákar eins og Björgvin, Valdi og Gummi Sig. líti á hann sem hálfgerðan afa sinn.

Ég minnist pabba sem harðduglegs manns sem kvartaði sjaldan eða aldrei þó lífið væri oft á tíðum erfitt. Hann var hjálpsamur og varð alltaf að hafa eitthvað að gera. Sam hvaða dagur var.

Hafðu það gott í sumarlandinu,

Nonni.

Jón Hannes.