Margrét Stefanía Pétursdóttir fæddist 1. apríl 1939 á Hofi í Vesturdal í Skagafirði. Hún lést á gjörgæsludeild sjúkrahússins á Akureyri 1. júlí 2023.
Foreldrar hennar voru Pétur Jón Stefánsson og Guðrún Jónsdóttir. Systkini hennar: Bára, 10.10. 1937, d. 13.7. 2015; Jón Sævin, f. 9.12. 1940; Gunnar Stefán, f. 6.5. 1947; Pétur Axel, f. 13.12. 1952; Svanhildur Hrönn, f. 25.10. 1955; Skarphéðinn Rúnar, f. 22.8. 1957; Hrafnhildur Sæunn, f. 1.1. 1962.
Eiginmaður Margrétar var Baldur Ingimar Sigurðsson. f. 21.2. 1932, d. 9.4. 2019. Börn þeirra: 1) Sigurður Unnar, f. 17.6. 1962. Maki Þórunn Eyjólfsdóttir. Fv. maki Sesselja Tryggvadóttir, dætur þeirra: Stefanía Inga, f. 22.5. 1988, gift Atla V. Arasyni, þau eiga þrjú börn; Hjördís Elfa, f. 18.9. 1989, maki Ingi Örn Guðmundsson, fv. maki Jónas Sigurbjörnsson, þau eiga tvo syni. Fv. maki Ásta Einarsdóttir, dætur þeirra: Herdís María, f. 25.8. 2004; Halla Margrét, f. 24.12. 2005. 2) Gunnar Margeir, f. 21.10. 1963, kvæntur Margréti Hilmarsdóttur. Synir hennar: Róbert og Jón Björgvin. Fyrri kona Gunnars er Þórunn Lindberg. Börn þeirra: Ágústa Mist, f. 5.11. 1991, maki Sigurður Karlsson, þau eiga tvö börn; Grétar Logi, f. 23.2. 1994, maki Hanna Margrét Gísladóttir; Hafþór Ingi, f. 30.5. 2000. 3) Pétur Heiðar, f. 30.11. 1965, kvæntur Höllu Björk Marteinsdóttur. Synir þeirra: Birkir Þór, f. 6.4. 1997, maki Þuríður M. Þórðardóttir, þau eiga eina dóttur; Marteinn, f. 3.6. 2005. 4) Baldur Ingi, f. 9.7. 1967, kvæntur Maríu Ósk Haraldsdóttur. Dætur þeirra: Inga María, f. 14.7. 1990, gift Heimi Hallgrímssyni, þau eiga þrjá syni; Hrafnhildur Snæbjörg, f. 2.3. 1999. 5) Sigrún Jónína, f. 6.10. 1968, gift Óla Olsen. Börn þeirra: Ragnar, f. 24.1. 1995, maki Þóra Lind Halldórsdóttir, þau eiga einn son, fv. maki Hjördís Ósk Gísladóttir, þau eiga eina dóttur; Margrét, f. 1.12. 1997, maki Kristófer Sævarsson, þau eiga eina dóttur; Baldur, f. 12.2. 2000, maki Sólveig R. Rúnarsdóttir. 6) Guðrún Björk, f. 17.3. 1972, gift Borgþóri Borgarssyni. Börn þeirra: Rósa Björk, f. 3.6. 1999; Margrét Ósk, f. 3.6. 1999, maki Ólafur J. Andrason; Símon Pétur, f. 30.3. 2001; fóstursonur er Rúnar Ingi, f. 14.10. 1982, maki Margrét E. Tómasdóttir Kroll, þau eiga þrjú börn. 7) Hilmar Addi, f. 18.7. 1973, kvæntur Aðalbjörgu Hallmundsdóttur. Synir þeirra eru Bragi Örn, f. 23.3. 1997, maki Gunnur R. Hafsteinsdóttir; Hallmundur Ingi, f. 5.5. 2004. Dætur Baldurs eru: 8) Hrafnhildur, f. 13.7. 1954, gift Sigurði Baldurssyni. 9) Ragnheiður Guðrún, f. 20.11. 1955, d. 16.9. 2017, gift Magnúsi Svavarssyni. Dóttir þeirra er Kristín Elfa, 23.4. 1976, maki Sigurpáll Aðalsteinsson, þau eiga tvö börn.
Margrét ólst upp á Hofi í Vesturdal í Skagafirði. Ung fór hún til Akureyrar og vann á sauma- og prjónastofunni Heklu og skóvinnustofunni Iðunni. Hún fór í húsmæðraskóla á Laugum í Reykjadal veturinn 1959-1960 og kenndi þar veturinn eftir. Margrét og Baldur bjuggu fyrst á Hofi en síðan í Vesturhlíð til 1987 en þá fluttu þau til Sauðárkróks. Margrét vann á prjóna- og saumastofunni Vöku og við skúringar. Hún var skólaliði í Árskóla frá 1998-2009. Hún var virk í starfi eldri borgara og sjálfboðastarfi fyrir Rauða krossinn.
Útför Margrétar fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 29. júlí 2023, klukkan 15.
Þegar ég horfi til baka þá eru ekki til slæmar minningar um ömmu Möggu,
engar. Hún vildi allt fyrir mig gera. Þegar ég var yngri þá fórum við
fjölskyldan að versla inn í Skagfirðingabúð og hún oft með og þegar ég bað
foreldra mína um eitthvert dót eða nammi eða eitthvað þess háttar voru
svörin oftast nei (sem ég skil vel í dag) en fyrir einhverja slysni rötuðu
oft hlutirnir sem mig langaði í, í körfuna hjá ömmu Möggu, því hún vildi
ekki hafa neinn ósáttan, sem lýsir hennar góðmennsku svo vel. Öll
ullarsokkarpörin, vettlingarnir og ullarpeysurnar sem hún prjónaði á mig
svo mér yrði ekki kalt í göngum komu sér vel og ég var svo þakklátur
fyrir.
Veturinn 2023 vann ég á Sauðárkróki og keyrði heim á kvöldin og kom fyrir
að ég þurfti að grípa hana með á Tunguhálsi sem er svo sem ekki í frásögur
færandi nema hvað að hún passaði sig alltaf að vera komin út á mitt hlað á
móti bílnum svo ég þyrfti ekki að bíða eftir henni, en mér fannst þetta svo
sjálfsagt mál en hún var bara ekki þannig. Það mátti ekki bíða eftir
henni.
Ein skemmtilegasta minning sem ég á um ömmu var þegar hún bjó á Króknum
og ég var að vinna í jólafríi. Þá var hún enn þá að keyra en sjónin léleg í myrkri. Hún þurfti að fara með ruslið og dólaði í Flokku en mætti lögreglunni og var eitthvað örlítið inni á vitlausum vegarhelmingi og var stöðvuð. Þegar lögreglumaðurinn spurði hana af hverju hún hefði verið á vitlausum vegarhelmingi, sagði hún: ja, það er vegna þess að ég sé ekki neitt í myrkri.
En hún lofaði að keyra ekki aftur í þegar dimmt væri orðið og þar með
var það mál úr sögunni nema hvað að hún bað mig svo sama dag að keyra
bílinn sinn fram í sveit eftir vinnu hjá mér og ég hélt það nú, ekki
vandamálið. Við dóluðum fram eftir í kolniðamyrkri, og mættum svo löggunni.
Þá sagði ég við hana: Jæja amma, nú hljóta þeir að blóta þér, þú ert
nýbúin að lofa þeim að keyra ekki í myrkri og svo mætum við þeim alveg í
niðamyrkri. Við hlógum lengi að þessu og er ég þakklátur fyrir þessa stund
okkar.
Kvöldmatartímarnir í vetur voru mjög hefðbundnir, maturinn klár, hringt
niður eftir til ömmu og horft svo á hana með lífið í lúkunum þegar hún kom
hlaupandi í fljúgandi hálku og í flatbotna stigvélum með vasaljós í
hendinni en alltaf komst hún slysalaust. Þá var hægt að tala um daginn og
veginn og skemmtilegast þótti mér að fíflast í henni með pabba og þá sagði
hún alltaf: ja hvert á barninu að bregða, nema beint í ættina.
Var hún að meina að ég hefði erft ágætlega stríðnina frá pabba. Og
stundum hló hún svo hátt og innilega að fíflaganginum í okkur að tárin
runnu úr augunum á henni. Það situr mér ofarlega í huga þessa dagana hversu
glöð hún var alltaf.
Það eru setningar eins og ég nefni hér fyrir ofan sem hún sagði oft og
alltaf þegar maður leit í heimsókn þá tók hún á móti manni með faðmlagi og
kallaði þegar hún labbaði að manni Nei, bíddu nú við svo hissa og svo
glöð að sjá mann, jafnvel þó hún hefði hitt mann deginum áður.
Amma mætti alltaf á tónleika hjá karlakórnum Heimi til að fylgjast með mér
og ég veit að hún var mjög stolt af mér. Það gleður mig mjög mikið að fá
tækifæri til að syngja í útförinni hennar.
Elsku amma, ég veit þú værir ánægð með það.
Íslenska konan
Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.
Hún heitast þig elskaði' og fyrirgaf þér.
Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Hún er íslenska konan, sem ól þig og þér helgaði sitt líf.
Með landnemum sigldi'hún um svarrandi haf.
Hún sefaði harma. Hún vakti'er hún svaf.
Hún þerraði tárin. Hún þerraði blóð.
Hún var íslenska konan, sem allt á að þakka vor þjóð.
Ó! Hún var ambáttin hljóð.
Hún var ástkonan rjóð.
Hún var amma, svo fróð.
Ó! Athvarf umrenningsins,
inntak hjálpræðisins,
líkn frá kyni til kyns.
Hún þraukaði hallæri, hungur og fár.
Hún hjúkraði'og stritaði gleðisnauð ár.
Hún enn í dag fórna sér endalaust má.
Hún er íslenska konan, sem gefur þér allt sem hún á.
Ó, hún er brúður sem skín!
Hún er barnsmóðir þín
eins og björt sólarsýn!
Ó! Hún er ást, hrein og tær!
Hún er alvaldi kær
eins og Guðsmóðir skær!
Og loks þegar móðirin lögð er í mold
þá lýtur þú höfði og tár falla'á fold.
Þú veist, hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.
En sólin, hún sígur, og sólin, hún rís,
og sjá: Þér við hlið er þín hamingjudís,
sem ávallt er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf:
Það er íslenska konan, tákn trúar og vonar,
sem ann þér og þér helgar sitt líf.
(Ómar Ragnarsson).
Takk fyrir að vera svona góð.
Þinn ömmustrákur
Símon Pétur.