Helgi Már Reynisson fæddist í Vestmannaeyjum 26. febrúar 1961. Hann lést á bráðadeild Borgarspítalans 17. júlí 2023.

Foreldrar hans eru Helga Tómasdóttir, f. 6. júlí 1936, og Reynir Frímann Másson, f. 29. janúar 1933, d. 19. júní 1979. Systkini Helga Más eru Dagný, f. 11. maí 1957, gift Jóni Inga, f. 1954, Fríður, f. 8. júlí 1966, gift Björgvini, f. 1967, og Geir, f. 24. febrúar 1969, giftur Sigþóru, f. 1974.

Eiginkona Helga Más er Inga Líndal Finnbogadóttir, f. 7. desember 1963. Börn þeirra eru: 1) Kristrún Lind, f. 27. janúar 1984, gift Carsten Langvad. Börn þeirra eru Freyja Sóley, f. 2012, og Saga Dís, f. 2017. 2) Frímann Már, f. 31. maí 1994, unnusta hans er Telma Viðarsdóttir, f. 1998.

Helgi Már lauk stúdentsprófi 1982, þaðan lá leið hans í útgerðartækni þar sem hann útskrifaðist 1983, því næst hélt hann til Tromsö í sjávarútvegsfræði og lauk prófi 1990. Að námi loknu flutti fjölskyldan heim til Íslands. Helgi Már starfaði alla tíð við eigin rekstur, tengt sjávarútvegi og inn- og útflutningi á salti.

Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Elsku Helgi Már. Ég vil með nokkrum orðum heiðra minningu þína þótt ég viti að þú hafir aldrei verið mikið fyrir að bera tilfinningar þínar á torg eða opinbera þig á almannafæri enda varstu mjög feiminn og lítið fyrir að trana þér fram. Það voru aðrir í fjölskyldunni sem tóku það hlutverk að sér og fannst þér það gott. Þegar ég sest niður og rifja upp allt sem við höfum upplifað saman í gegn um tíðina á þeim 42 ár sem við höfum verið saman, þá kemur upp í hugann ljóð eftir V. Briem:

Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Þegar ég leiði hugann að þér sem persónu kemur fyrst upp í hugann vel gefinn og klár, hugmyndaríkur, alvörugefinn og ábyrgðarfullur. Ein stærsta lukka í lífi mínu var þegar ég féll fyrir blaktöffaranum frá Vestmannaeyjum. Þú hafðir áform um að fara í Stýrimannaskólann en þar sem hann byrjaði ekki strax ákvaðst þú að sækja um í Fjölbraut á Akranesi og ljúka stúdentsprófi. Ætlaðir í raun bara að sjá til hvernig þér líkaði á Skaganum og gætir þá alltaf farið í Stýrimannaskólann þar sem þú varst með inngöngu. Svona eru örlögin ótrúleg.

Þú sást alltaf eiginleika mína og hafðir alltaf trú á að ég gæti ýmsa hluti sem ég vissi ekki af. Þú varst alltaf hvetjandi og ýttir mér áfram, þótt það væri oft óþægilegt þá endaði það alltaf með að sjálfsmynd mín og sjálfstraust jókst. Það er þér að þakka að ég sótti um leikskólastjórastöðu á sínum tíma og að ég settist aftur á skólabekk og kláraði meistaranám. Þú varst sá sem laðaðir fram hæfileika í allri fjölskyldunni enda varst þú alltaf óhræddur við að gera eitthvað nýtt og endalaust að ögra sjálfum þér. Þú sást ekki hlutina sem vandamál heldur sem verkefni sem spennandi væri að takast á við og leysa. Þú gast ekki hugsað þér að gera sömu hlutina aftur og aftur og varst mikill vinnuþjarkur og aldrei sérhlífinn.

Fjölskyldan var mjög heppin að þú þurftir að ferðast mikið varðandi vinnuna og vildir gjarnan hafa okkur með enda mikill fjölskyldufaðir. Ég er heppin að hafa ferðast til fjölda landa; frá Kína til Úganda og allt þar á milli. Porto var þó okkar aðalsumardvalarstaður en þangað ferðuðumst við nánast árlega og jafnvel oft á ári þar sem þú varst að vinna inn á milli og við Frímann Már nutum góðs af. Það má heldur ekki gleyma ævintýraþrá þinni. Karabíska hafið, og skútusiglingar voru nokkrar og voru börnin okkar heppin að fá bæði að upplifa slíkar ógleymanlegar ferðir. Við vorum dugleg að fara í veiðiferðir innanlands og nutum þess að sjá hvort annað draga fisk að landi. Við vorum bæði með lúmskt keppnisskap. Ég sá alltaf þegar þú kímdir, þá vissi ég að þú værir í eins manns hljóði kominn í keppni. Þá efldist ég öll og það var ekki sjaldan sem við kepptum um hver hefði tínt flesta ánamaðka áður en haldið var í veiði. En allt var þetta í gleði og glensi. Frasinn þinn asnalegt spil er alltaf notaður þegar einhver í fjölskyldunni tapar og höldum við þannig minningu þinni á lofti.

Þú varst yndislegur pabbi og afi og gafst þig allan í það þegar þú hafðir tíma og getu og sást ekki sólina fyrir dótturdætrunum.

Það urðu mikil kaflaskil í lífi okkar beggja 2016 þegar við veiktumst bæði lífshættulega og því miður náðir þú þér aldrei almennilega á strik eftir það. Þú áttir mjög erfitt með að horfast í augu við veikindin og gerðir lítið úr veikindum þínum þótt þau ágerðust með hverju árinu og fleiri sjúkdómar létu á sér kræla.

Ég á eftir að sakna alls sem við áformuðum að gera í ellinni. Í staðinn mun ég ylja mér við minningar um góða tíma. Takk fyrir allt og allt og mun ég ávallt geyma minninguna um þig í hjarta mínu

Þín

Inga Líndal.