Óli Karló Olsen fæddist í Einarshöfn á Eyrarbakka 28. apríl 1935. Hann lést á Landakotsspítala sunnudaginn 30. júlí 2023.

Foreldrar hans voru Peder Ragnvald Olsen Vidnes, f. 21. apríl 1901 í Vanylven Noregi, d. 26. febrúar 1977, og Ingibjörg Gunnarsdóttir, f. 22. mars 1894 í Gunnarshúsi á Eyrarbakka, d. 25. júní 1957. Óli Karló átti tvo bræður, Trygve Ragnar Endal, f. 28. desember 1926, d. 9. september 1999, Noregi, og Gunnar Inga Olsen, f. 4. nóvember 1930, d. 23. september 2016 á Eyrarbakka.

Óli Karló giftist hinn 4. maí 1958 Halldóru Valgerði Steinsdóttur, f. 6. mars 1939, á Eyrarbakka. Foreldrar hennar voru hjónin Steinn Einarsson, f. 1914, d. 1986, og Gróa J. Jakobsdóttir, f. 1913, d. 2000. Börn Óla Karló og Halldóru eru 1) Steinn Jakob, f. 1. mars 1958, maki Lilja Jakobsdóttir, f. 20. nóvember 1958. Börn þeirra eru Jóhanna Kristín, f. 1978, Halldóra Valgerður, f. 1979, Sólrún Ásta, f. 1980, Tinna Rós, f. 1986, og Óli Karló, f. 1991. 2) Ingibjörg Ragna, f. 29. maí 1960, maki Friðrik Hansen Guðmundsson, f. 4. desember 1958. Börn þeirra eru Sigrún Björk, f. 1981, Óli Jóhann, f. 1985, og Guðmundur Halldór, f. 1988. 3) Ágústa Þorleif, f. 24. júlí 1961, maki Bjarni Jón Jónsson, f. 1. desember 1959. Börn þeirra eru María Rún, f. 1981, Finnbogi Karl, f. 1988, og Rögnvaldur Pétur, f. 1996. 4) Magnús, f. 5. október 1964, maki Kolbrún Káradóttir, f. 30. október 1967. Börn þeirra eru Laufey Ósk, f. 1988, Viktor Elís, f. 1994, og Halldóra Íris, f. 1996. Áður átti Magnús Guðrúnu Björk, f. 1986, móðir hennar er Dóra Kristín Hjálmarsdóttir, f. 28. nóvember 1967. 5) Kristín, f. 19. nóvember 1970. Börn hennar eru Óli Daníel, f. 1991, Kristján Ari, f. 1994, og Sólveig Ása, f. 2000, faðir þeirra er Brynjar Valdimarsson. 6) Ólína, f. 8. júní 1973. Dóttir hennar er Sunniva Óladóttir Voksø, f. 2012, faðir hennar er Torstein Voksø Eek.

Óli Karló ólst upp hjá foreldrum sínum á Eyrarbakka. Hann fór ungur að vinna ýmis störf, var í vinnuflokki hjá RARIK og lærði svo bifreiðasmíði og vann við hana í sex ár eftir að þau hjónin hófu búskap í Reykjavík 1958. Óli Karló hóf störf hjá Slökkviliði Reykjavíkur 3. janúar 1964 sem brunavörður, varð aðstoðarvarðstjóri 1967 og varðstjóri 1974. Ári síðar tók hann við aðalvarðstjórastöðu sem hann sinnti til ársins 1988, þegar hann var settur verkefnastjóri varðliðs og kom þá að ráðningu og þjálfun starfsmanna liðsins. Óli Karló lét af störfum 1. apríl 2000 að loknum farsælum starfsferli. Samhliða aðalstarfi fékkst hann við fjölmörg aukastörf, byggingarvinnu, netavinnslu og við bólstrun húsgagna. Karló var mjög barngóður og mikill fjölskyldumaður. Karló og Dóra byggðu hús sitt í Hlaðbæ 7 og fluttu þar inn 1. júlí 1969, á svipuðum tíma og aðrir frumbyggjar hverfisins, og hafa búið þar síðan. Þau áttu miklu barnaláni að fagna og eiga sex börn og 19 barnabörn. Þar að auki eru langafabörnin 29 og fer fjölgandi.

Útför Óla Karló fer fram í dag, 9. ágúst 2023, kl. 13 í Fossvogskirkju.

Streymt verður frá athöfninni https://streyma.is/streymi/

Nú þegar komið er að því að kveðja í hinsta sinn þann mikla öðling sem tengdafaðir minn var, þá er margs að minnast. Ég hitti Óla Karló Olsen fyrst haustið 1978, fyrir hartnær 45 árum. Þá var hann á besta aldri, 43 ára gamall. Það var gott að taka í höndina á Karló, þétt og fast handtak fylgt eftir með vingjarnlegu augnaráði. Ég átti alla tíð mjög góð samskipti við hann og held að það hafi verið sameiginleg reynsla mín og allra þeirra sem honum kynntust. Hann var einstakur blíðlyndismaður og ég sá hann aldrei skipta skapi. Hann var alltaf rólegur og yfirvegaður, sama hvað gekk á. Alltaf skýr og þessi náttúrulega rökhugsun sem var eitt hans helsta persónueinkenni leiddi alltaf að farsælum lausnum á þeim málum sem upp komu. Það kom því ekki á óvart að Karló var valinn til æðstu trúnaðarstarfa innan Slökkviliðs Reykjavíkur, þar sem hann starfaði um árabil. Sama hvar hann hefði valið sér starfsvettvang, honum hefðu alltaf verið falin trúnaðarstörf og mannaforráð. Þessi náttúrulega greind kom sér víða vel, meðal annars var hann einstakur spilamaður og illmögulegt að vinna hann í spilum, hvort heldur það var í bridge, vist eða í öðru slíku.

Þegar við Ingibjörg settum upp hringana og trúlofuðum okkur 1. sept. 1979 þá var það ekki síst tengdaföður mínum að þakka að við gátum þann dag flutt inn í íbúð á annarri hæð á Baldursgötu 22, Rvk. Alls staðar þar sem hann gat því við komið þá var hann tilbúinn að aðstoða. Það á ekki bara við um mig, hann var hjálparhella margra enda margir sem komu við í Hlaðbæ 7 í Árbænum. Heimili þeirra hjóna, Karló og Halldóru, var vinsæll áfangastaður nágranna og vina. Þá var þar einnig stöðugur straumur fólks sem bjó fyrir austan fjall, ættingjar og vinir á ferð í bæinn, þeir litu við þegar þeir komu í bæinn eða þegar þeir voru að fara aftur austur og sumir á báðum leiðum. Alltaf var heitt á könnunni í Hlaðbænum og oftast boðið upp á heimabakaðar formkökur, hjónabandssælur og heimagert rækjusalat og ritzkex. Í öll þessi ár var það þannig að ef við litum við hjá tengdaforeldrunum mínum þá voru meiri líkur en minni að þar væri einhver í heimsókn. Einstök gestrisni þeirra hjóna var aðalsmerki þeirra og við sem nutum munum alltaf minnast þessara daga og ára þegar Hlaðbærinn ómaði af hlátri, spjalli og kaffibollaglamri.

Ferðalög, matarboð og afmæli þjóta um kollinn þegar hugsað er til baka í víðan brunn minninga um horfnar samverustundir. Að öðrum stundum ólöstuðum þá er 70 ára afmælis- og fjölskylduferð Óla Karló Olsen til föðurhúsa í Vidnes við Vanylvsfjord í Noregi ein af eftirminnilegustu minningunum. Þau hjón ásamt börnum, tengdabörnum og allflestum barnabörnunum heimsóttu ættingja hans í Noregi. Flogið var til Osló og þar tekin á leigu 16 manna rúta og þrír bílaleigubílar og haldið af stað vestur og norður. Þar sem ég var ökumaður rútunnar fékk rútan strax nafnið Olsen-Hansen-rútan. Þá var nú völlur á okkur tengdapabba. Þetta voru yndislegir dagar í Noregi og móttökur ættingjanna, sem héldu okkur stórveislu í félagsheimilinu í Sylte, ógleymanlegar.

En nú hefur tengdafaðir minn kvatt þessa jarðvist, orðinn þreyttur lífdaga, 88 ára gamall. Hann og Halldóra skilja eftir sig mikinn mannauð. Beinir afkomendur þeirra hjóna eru 54. Þeirra yngstur er barnabarn okkar hjóna, sonarsonur. Alltaf tóku þau hjón einstaklega vel á móti barnabörnunum og barnabarnabörnum. Ekki mátti á milli sjá hvort þeirra hjóna hafði meira gaman af að fá þetta ungviði í heimsókn. Tengdafaðir minn kveður því þetta jarðlíf sem ríkur maður mælt í afkomendum, ættingjum og vinum. Allt þetta fólk hefur látið sig velferð þeirra varða í þeim veikindum sem að þeim hjónum hafa sótt síðasta árið. Það ber að þakka.

Þær eru erfiðar þessar kveðjustundir þegar við kveðjum fólk sem okkur er kært, fólk sem hefur verið okkur náið stærstan hluta lífs okkar. Tengdafaðir minn var gæfumaður, bjó vel, var umvafinn stórri fjölskyldu og var við góða heilsu fram á 88. aldursárið. Það var mín gæfa að kynnast honum og eiga með honum samleið þessi 45 ár.

Friðrik Hansen Guðmundsson.