Ingileif Elísabet Finnsdóttir fæddist 24. febrúar 1929 í Skrapatungu í Vindhælishreppi Austur-Húnavatnssýslu. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi 27. júlí 2023.


Foreldrar hennar voru Finnur Guðmundsson, f. 9. mars 1891, d. 10. maí 1971, og Ingibjörg Jónsdóttir, f. 8. júlí 1889, d. 15. júlí 1970, bændur í Skrapatungu. Þau eignuðust fjögur börn og var Elísabet yngst. Systkini hennar eru Ottó, f. 1920, d. 1998, Guðný, f. 1922, og Kristín, f. 1924, d. 1987.


Hinn 2. nóvember 1952 kvæntist Elísabet Sigvalda Fanndal Torfasyni, f. 2. júlí 1922, d. 19. nóvember 1998. Foreldrar hans voru Guðrún Sigurðardóttir, f. 19. júní 1897, d. 17. febrúar 1981, og Torfi Sigurðsson, f. 7. febrúar 1896, d. 9. maí 1972, bændur í Hvítadal. Elísabet og Sigvaldi eignuðust fimm dætur. Þær eru: Erla Ingibjörg, f. 1954, maki Helgi Árnason; Guðrún Sigríður, f. 1955, maki Jón Eiríksson; Torfhildur, f. 1960, maki Þorvaldur Ólafsson; Sjöfn, f. 1966, maki Guðmundur Ludvigsson, og Svala, f. 1966. Barnabörnin eru sextán talsins og barnabarnabörn fimmtán.

Elísabet fluttist 15 ára til Blönduóss með fjölskyldu sinni í hús sem nefnt var Tunga en síðar fluttu þau á Húnabraut 36 í hús sem feðgarnir Finnur og Ottó byggðu. Elísabet og Sigvaldi hófu sinn búskap á Sæbóli á Blönduósi en fjölskyldan bjó lengst af á Árbraut, fyrst í Bjarnahúsi á Árbraut 11 en síðar byggðu þau sér hús á Árbraut 14 þar sem fjölskyldan undi sér vel. Elísabet var allt í öllu á sínu heimili. Hún var mjög virk í Kvenfélaginu Vöku og naut þess að vera þátttakandi í þeim félagsskap. Elísabet var góð vinkona og ræktaði dýrmæta vináttu sem hún hafði stofnað til bæði á Reykjaskóla (1947-1948) og Kvennaskóla Blönduóss (1949-1950) þar sem hún stundaði nám. Elísabet var vel lesin og samhliða heimilisstörfum var hún dugleg að sækja sér þekkingu og tileinka sér nýjungar.

Elísabet verður jarðsungin í Blönduóskirkju í dag, 11. ágúst 2023, kl. 13.30. Jarðarförinni verður streymt, nánari upplýsingar á vefsíðu Blönduóskirkju.

Elsku amma mín, ljóst er að stórt skarð er nú höggvið í veröld okkar allra sem elskuðum þig og dáðum. Ég minnist þín syngjandi lífsglaðri í bleikri blússu, með ljósar krullur, dökkar augabrýr, baðandi út höndum, skælbrosandi úti á tröppum. Amma ólst upp í torfbæ í Laxárdal og átti þaðan fallegar minningar en jarðlitir voru henni ekki að skapi, hún vildi hafa það blómlegt; bleikt, rautt og gult. Allt var aðeins sætara hjá ömmu, ekki síst hún sjálf. Augað vill nú sitt, sagði hún til að réttlæta skoðun sína og þegar hún horfði lengi á einhvern og var spurð á hvað hún væri að stara, svaraði hún kímin má ég ekki horfa á það sem mér þykir fallegt?. Stöðugt streymi var af fólki inn og út af heimilinu. Amma við eldavélina með blómasvuntu að steikja kleinur, þeyta rjóma; jólakaka á borðinu, mjólkin aðeins of lengi á eldhúsborðinu, smjörlíki kraumar á pönnunni, ís farinn að bráðna með niðursoðnum ávöxtum, volgt Fanta inni í þvottahúsi. Heimili ömmu og afa var ævintýralegt þar sem öllum leið vel. Alltaf fullt af fólki. Sólin brýst í gegn um blúndustórisana, skuggi af reynitré, dulúðleg birta, dvergurinn Bessi undir lerkitré (garðálfur), hlutirnir fengu sín nöfn, voru persónur, skápar og skúffur fullar af lokkandi dóti, suðandi húsflugur og ilmandi pelargóníur í gluggakistum, gult baðherbergi þar sem ekki mátti slökkva ljósið, línolíudúkur á gólfi, gömul leikföng og hljóð í saumavél. Amma, andvaka á bleikum náttkjól að fá sér kaffisopa að sumarnóttu. Allt var svo glaðlegt og ekkert hátíðlegt nema túnfífillinn sem fékk að njóta sín í garðinum. Allir hlutir brostu.

Ég umgekkst þig alla tíð og fannst svo sjálfsagt að eiga þig að. Hlýjan, gjafmildin og kímnin. Amma var hispurslaus og óhrædd við allt nema randaflugur, tók öllum jafn vel nema geitungum. Létt í lund en huldi kannski tilfinningar sínar eins og þeir eiga til sem eru klettar, það var afi sem lét tilfinningar sínar flæða. Amma tók engu of hátíðlega og gekk í öll verk. Eitt sinn þegar við frænkurnar gistum hjá henni og biðum í eftirvæntingu eftir að fá í skóinn frá jólasveininum, brá okkur í brún þegar jólaskraut úr stofunni blasti við okkur í skónum í gluggakistunni. Hún sagði oft þú mátt eiga þetta eftir minn dag. Ég minnist líka pappakassa úti í skúr sem stóð á má henda eftir minn dag. Alvarleg í bragði bað hún okkur að loka hliðinu eftir okkur í garðinum þegar sést hafði til ísbjarnar á vappi í Húnavatnssýslunni (hliðið er 50 cm á hæð). Amma var blátt áfram og fletti rithöfundum upp í símaskránni til að þakka fyrir góða bók. Hún gaf sig ósjaldan á tal við starfsfólk í búðum eða þjóna á veitingastöðum, eins um gamlan vin væri að ræða, sagði þeim allt af létta; hvert hún væri að fara, með hverjum hún væri, hvað hún væri að lesa eða hvað hún væri að horfa á í sjónvarpinu. Hrósaði klæðaburði eða öðru veraldlegu. Tók jafnvel ljósmynd af þjónustufólki og hlutum og setti í myndaalbúm. Hún var hins vegar afar hreinskilin og lét okkur vita sem næst henni stóðum ef henni líkaði ekki það sem við klæddumst. Hreinskilni hennar í seinni tíð skapaði oft spennu sem yfirleitt varð mikið hlátursefni eftir að allir voru búnir að jafna sig. Myndaalbúmin fjölguðu sér í hillunum og við þreyttumst ekki á að skoða. Inni í lifandi húsi, húsi fullu af fólki, gat maður setið og flett albúmum og týnt sér í minningum inni í miðri minningu.

Amma minntist allra dýranna sinna með svo mikilli hlýju og ljómaði öll þegar þau bárust í tal: Ó, hann Gassi minn og Bússi, og greyið hann Snapp var svolítið sérstakur, Móra mín sáluga og elsku Snúlla, hrúturinn og heimalningurinn Nixon og músin Gandhi. Það lifnaði yfir henni við að fara aftur í tímann, rifja upp fortíðina í Skrapatungu þar sem hún ólst upp. Tunguhnjúkurinn var ekki bara hnjúkur heldur lifandi vera sem stóð henni svo nærri. Heilagt fjall. Ferðir í kartöflugarðinn í Stekkjavík, réttir í Skrapatungu og fleiri skemmtibíltúrar einkenndust af svo miklum léttleika þegar amma var með í för. Í fjöruferðum, ef við hættum okkur of nálægt öldunum, stóð hún í fjarlægð og æpti hástöfum. Óp sem hún átti til að gefa frá sér t.d. ef randafluga settist á blómablússuna hennar. Ægilegt óp sem heyrðist yfir í næstu garða og fékk afa til að roðna. Allt aðeins sætara og andrúmsloftið svo tært, eins og tilsvörin hennar, tónninn í röddinni, ýmist; fyndin, galgopi og smá glettni, eilítil kaldhæðni. Bætti alltaf einhverju óvæntu við hefðbundin samtöl. Þó beinskeytt, þrjósk og stolt.

Heilsu ömmu fór hrakandi og það er átakanlegt að sjá þann sem maður elskar hverfa inn í veikindi sín. Eftir hverja heimsókn á sjúkrahúsið var þó alltaf hægt að minnast einhvers sem fékk mann til að hlæja. Hún bætti alltaf einhverju fyndnu við nístandi veruleikann. Gott var að hafa Ófeig með því amma var alltaf svolítið gefin fyrir karlpeninginn. Í minni síðustu heimsókn nokkrum dögum fyrir andlátið sagði amma mér að henni liði ekki vel, hvar, spurði ég, í andanum. Þá vissi ég hvað var í vændum og við horfðumst í augu og áttum stund sem orð ná ekki utan um. Sammæltumst um að allt yrði betra bráðum. Hún brosti.

Elsku amma, það er svo margt í fari þínu sem ég tek og mun taka mér til fyrirmyndar. Stórt skarð er nú fyllt upp í með ljúfum og broslegum minningum sem hlýja mér og þakklæti situr eftir. Ég trúi einlæglega að þú sért komin á betri stað, umkringd þínu fólki og ilmandi blómum í sólríkri sveit.

Kristín Karólína.