Þuríður G. Ingimundardóttir fæddist á Naustabrekku á Rauðasandi 29. september 1940. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi 20. júlí 2023.
Foreldrar hennar voru Ingimundur B. Halldórsson, f. 16.11. 1910, og Jóhanna Breiðfjörð Þórarinsdóttir, f. 25.9. 1915. Systkini Þuríðar eru Hreinn, f. 1.9. 1943, d. 23.10. 1943, Sigþrúður, f. 29.9. 1946, Hallfríður, f. 28.7. 1951, og Björg Ragnheiður, f. 29.4. 1957.
Þuríður giftist Þorsteini Guðbergssyni, f. 22.9. 1938, d. 4.10. 2018, og eignuðust þau einn son, Brynjar Þór, lektor við Háskólann á Bifröst, f. 20.5. 1970, maki Guðríður Leifsdóttir, birtingafulltrúi hjá RÚV, f. 9.7. 1975. Börn þeirra eru Patrekur Bergmann, flugþjónn hjá Play, f. 18.5. 1999, og Filippía, f. 30.6. 2010.
Þuríður eyddi fyrstu fjórum árum ævi sinnar á Rauðasandi en flutti síðar ásamt foreldrum sínum til Patreksfjarðar þar sem hún ólst upp. Þuríður kynntist Þorsteini á Bifröst þar sem hún starfaði við Hótel Bifröst. Þau hófu búskap sinn á Patreksfirði en fluttu fljótlega til Reykjavíkur þar sem Þuríður starfaði fyrst við almenn afgreiðslustörf í versluninni Gimli. Þaðan lá leið þeirra til Hafnarfjarðar og Þuríður hóf störf sem gangastúlka við hjúkrunarstörf á hjartadeild Landspítalans. Þuríður brautskráðist árið 1980 frá Hjúkrunarskóla Íslands sem hjúkrunarfræðingur og árið 1986 lauk hún námi í hjúkrunarstjórnun frá sama skóla. Þuríður sérhæfði sig í öldrunarhjúkrun og tók hún við sem hjúkrunarforstjóri á Sólvangi í Hafnarfirði fljótlega eftir brautskráningu sem hjúkrunarfræðingur. Þuríður flutti aftur til Patreksfjarðar 1992 þar sem hún starfaði sem forstöðukona Heilsugæslunnar á Patreksfirði ásamt því að starfa í afleysingum sem forstöðukona á Sjúkrahúsi Patreksfjarðar. Þuríður hafði mikinn áhuga á stjórnmálum og tók virkan þátt í stofnun Kvennalistans og var í framboði fyrir flokkinn í bæjarstjórnarkosningum í Hafnarfirði 1986. Á árunum 1998 til 2010 sat hún í bæjarstjórn Vesturbyggðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar sem hún lagði áherslu á að bæta aðstöðu aldraðra. Þuríður fluttist til Hafnarfjarðar árið 2018 og eyddi síðustu æviárum sínum á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi.
Útförin fer fram í Hafnarfjarðarkirkju í dag, 14. ágúst 2023, kl. 13.
Það er með mikilli virðingu og djúpu þakklæti sem ég kveð kæra frænku og
mikla vinkonu.
Hún Þurý frænka var fjölmörgum kostum gædd: frumkvöðull og trú sínum
uppruna en umfram allt var hún jákvæð, glaðlynd, góð og réttsýn.
Hún var sannur höfðingi heim að sækja og nutu margir gestrisni hennar. Það
var svo gaman að koma vestur enda móttökurnar alltaf konunglegar.
Kaffiilmurinn yndislegur, útsýnið óviðjafnanlegt með fuglalífið, fjöruna og
fjöllin. Hvort sem setið var í eldhúsinu eða mávastellið lagt á borð í
stofunni.
Hún var svo góð við mig og mér þótti svo vænt um hana. Þegar ég var ung
ólétt að Bryndísi, þá verslaði Þurý með mér ungbarnafötin og bleyjurnar og
saumaði rúmfötin. Þegar von var á Brynjari og Ásdísi var hún á
hliðarlínunni og verslaði heilmikið og hjálpaði til við undirbúning fyrir
börnin mín.
Hún var fagurkeri og hafði gaman af fallegum hlutum og bar mikla virðingu
fyrir handverki. Búrið var búsældarlegt með fulla stampa af hveiti, sykri
og suðusúkkulaði. Hillurnar svignuðu undan kræsingum, sultum og saft.
Frystirinn fullur af lasagna, hveitikökum og brúntertum.
Steikt lúða í matinn, harðfiskur og reyktur rauðmagi frá Tálknafirði fyrir
Guðna að maula á. Það var alltaf gott að koma vestur. Mikil samvera og
skemmtun og keyrt um fallegu vestfirsku sveitirnar. Þá var Þurý í essinu
sínu og sýndi okkur sína uppáhaldsstaði.
Við fórum oft inn á fallega Rauðasand og drukkum kaffi. Skoðuðum
bæjarstæðið í Gröf, fórum á byggðasafnið á Hnjóti og gaumgæfðum m.a.
krullujárn formóður okkar.
Hjá Þurý og Steina, manninum hennar, var ætíð gestkvæmt og ég átti ófá
símtöl við frænku mína þar sem hún var að skipuleggja móttökur fyrir
ættingja og vini. Allir velkomnir og ekkert til sparað til að mótökurnar
væru sem mestar og bestar. Hún var svo mikill höfðingi heim að sækja.
Margs er að minnast og af mörgu er að taka. Sjómannadagurinn fyrir vestan
var engu líkur, berjatúrarnir þegar Steini fór og sótti berin upp í hlíð og
Þurý fór heim og saftaði og sultaði.
Þurý hafði einstakt lag á að halda góða veislu og eru þær margar
ógleymanlegar. Dásamlegt brúðkaup Brynjars og Gurrýjar fyrir vestan er mér
ofarlega í huga. Mikill undirbúningur og skipulag þar sem von var á mörgum
gestum. Þurý búin að elda í frystinn fyrir fram og svo komu réttirnir á
færibandi.
Og þegar ég útskrifaðist úr hjúkrun hélt Þurý auðvitað veisluna. Hún var
gjafmild með eindæmum og gjafirnar svo úthugsaðar.
Þegar ég hugsa til Þurýjar verður mér ósjálfrátt hugsað til elsku Steina,
sem var trúlega með betri eiginmönnum sem sögur fara af. Hann var Þurý
mikill stuðningur þegar heilsan gaf sig. Fyrst kom brjóstakrabbinn og svo
parkinson sem reyndist henni erfiðari. Í gegnum veikindin sýndi frænka
mikinn styrk og æðruleysi.
Þegar Þurý og Steini komu í bæinn til okkar að vestan sátum við oft við
eldhúsborðið og spjölluðum um heima og geima og sögðum sögur. Bíllinn kom í
bæinn drekkhlaðinn af alls konar heimagerðu góðgæti.
Heimsóknir Þurýjar og Steina til okkar voru alltaf yndislegar og
ánægjulegar. Einlægur áhugi á málefnum líðandi stundar og viðfangsefnum
okkar fjölskyldu. Skipst var á skoðunum og stundum þrasað um pólitík, enda
margar hliðar á hverju máli. Þá kom berlega í ljós tær hugi og skýr hugsun
frænku. Við vorum þó alltaf jafn undrandi á hvert hún setti atkvæði sitt i
kosningum nema þegar hún kaus Kvennalistann.
Þurý og Steini voru fastagestir í okkar veislum. Þegar við Guðni giftum
okkur og í skírnum og fermingum barnanna okkar. Þau elskuðu að gleðjast með
öðrum.
Því var það okkur sönn ánægja og mikil gleði að Þurý var viðstödd
útskriftartónleika Ásdísar í vor og skírn Sæunnar Láru í vetur.
Stórbrotin stórkostleg kona er horfin á braut. Kona sem ekki kvartaði og
var æðrulaus allt fram i andlátið.
Elsku yndislega Þurý mín. Þú ert svo mikið elskuð, hvíldu í friði. Minning
þín lifir.
Þín frænka,
Arna Sigríður Brynjólfsdóttir.