Kristján Þorvaldsson fæddist á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 4. maí 1962. Hann lést 6. ágúst 2023.

Foreldrar hans voru þau Þorvaldur Jónsson, lengst af umboðsmaður Eimskipa og Ríkisskipa, f. á Tanga á Fáskrúðsfirði 18. ágúst 1908, d. 1995, og Oddný Aðalbjörg Jónsdóttir frá Þorvaldsstöðum í Breiðdal, f. 18. mars 1923, d. 12. ágúst 2005. Fjölskyldan var kennd við húsið Sunnuhvol á Fáskrúðsfirði og Kristján var yngstur sinna systkina. Eldri eru systurnar Jóhanna Ásdís, f. 1944, Guðný Björg, f. 1945, og Jóna Kristín, f. 1959. Foreldrar Kristjáns fluttu til Reykjavíkur 1981.

Kristján ólst upp fyrir austan, gekk vel í skóla, lék á hljómborð í hljómsveitum og þótti efnilegur í knattspyrnu. Hann fór ungur suður í framhaldsskóla og útskrifaðist stúdent frá Menntaskólanum við Sund vorið 1982. Eftir stúdentspróf nam hann lögfræði við HÍ en hvarf frá því námi og sneri sér að blaðamennskunni, sem varð hans aðalstarf. Kristján kom víða við í blaða- og fréttamennsku. Í fyrstu við útgáfu Stúdentablaðsins og Kvikmyndablaðsins, skrifaði bókagagnrýni í Helgarpóstinn, og blaðið Gamli bærinn, sem kom út 1984, var tilraun hans og Einars Guðjónssonar til að gefa út hverfisblað um lífið í 101. Eiginlegan blaðamannsfer­il­ hóf hann á Alþýðublaðinu og starfaði þar í nokk­ur ár. Hann var síðan um tíma á Morg­un­blaðinu og rit­stjóri Press­unn­ar um hríð, sem og seinna Mann­lífs og Vikunnar. Hann var einn af stofnendum tímaritsins Séð og heyrt 1996 og ritstjóri þess við annan mann um tíu ára skeið. Einnig hélt hann um tíma utan um ársrit Slysavarnafélags Íslands. Kristján var jafnframt í nokk­ur ár út­varps­maður í dægurmálaútvarpi Rásar 2 og hafði meðal annars um­sjón með morg­un- og síðdeg­isút­varpi, Þjóðarsál­inni og hélt úti þættinum Sunnudagskaffi um nokkurra ára skeið. Kristján skrifaði ævisögu stjórnmálamannsins Guðmundar Árna Stefánssonar: Hreinar línur, sem kom út árið 1994. Síðustu árin sinnti Kristján ýms­um til­fallandi störf­um.


Sonur Kristjáns með Helgu Jónu Óðinsdóttur er Þorvaldur Davíð leikari, f. 27. september 1983. Eiginkona hans er Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir, f. 9. nóvember 1988. Þau eiga þrjú börn: Helgu Viktoríu, tíu ára, Emilíu Sól, sex ára, og Kristján Karl, eins árs. Dóttir Kristjáns og Árdísar Sigurðardóttur er Anna Sigríður, f. 20. nóvember 2006. Hún stundar nám við Kvennaskólann í Reykjavík. Sambýliskona Kristjáns síðustu níu árin er Oddný Vestmann Guðmundsdóttir, f. 8. mars 1955. Í desember 2018 fluttu þau til Söllested á Lálandi, Danmörku. Börn Oddnýjar eru: Ríkey Kristjánsdóttir, gift Reyni Skúlasyni, og Guðmundur Vestmann, í sambúð með Úlfhildi Gunnarsdóttur. Barnabörn Oddnýjar eru: Rökkvi, Sindri, Álfur og Kría.

Útför Kristjáns fer fram frá Langholtskirkju í dag, 18. ágúst 2023, klukkan 11.

Góður vinur er fallinn frá. Leiðir okkar Kristjáns lágu saman í MS, Menntaskólanum við Sund, en þar hófum við bæði nám árið 1978 og áttum það sameiginlegt að vera unglingar austan af landi, hann frá Fáskrúðsfirði og ég frá Egilsstöðum. Við vorum öll fjögur árin í sama bekk og í sama vinahópi. Sá vinahópur samanstóð að hluta af nokkrum strákavinum og síðan mér og seinna leigði þessi hópur íbúð í Þingholtunum um tíma. Það er skemmst frá því að segja að það var mikið skrafað og skeggrætt. Umræðurnar gátu stundum orðið heimspekilegar og eins og gengur með ungt fólk þá vorum við að reyna að leysa öll helstu vandamál lífsins. En þá kom Kristján gjarnan sterkur inn með húmor að leiðarljósi og smellnar athugasemdir og urðu þá til margar hugmyndir sem sumar voru framkvæmdar en flestar ekki.

Það voru þjóðfélagsbreytingar í farvatninu á þessum tíma. Unga fólkið skipaði sér í tvær fylkingar, pönkið eða diskóið. Við hölluðum okkur að pönkinu og áskildum okkur hæfilegt kæruleysi en við Kristján stunduðum sveitaböll úti á landi á sumrin en fórum á Borgina á veturna. Á þessum tíma spruttu upp hljómsveitir í öðrum hverjum bílskúr og tónleikar voru haldnir á ýmsum stöðum í bænum. Kristján var músíkalskur og spilaði gjarnan á píanó eða hljómborð ef það var við höndina. Einn úr vinahópnum reddaði trommusetti þrátt fyrir að enginn kynni að tromma. Vinahópurinn gerði meira af því að ræða um tónlistarstefnur og -strauma og út úr þessum umræðum var stofnuð undirgrundarhljómsveit sem fékk nafnið De Thorvaldsen's Trio Band, í höfuðið á þeim eina sem kunni eitthvað að spila, sem var Kristján. Auk hans voru tveir vinir og síðan var ég sjálf skipuð söngkona. Slagorð bandsins var að aðalmálið væri að taka afstöðu. Þar sem við tengdumst tónleikahaldara á þessum tíma þá endaði það þannig að þetta loftband var auglýst á nokkrum tónleikum, síðast og ekki síst á þeim merku tónleikum Melarokki. Hljómsveitin var þó einfaldlega það mikið undirgrundarband að það spilaði aldrei opinberlega. Þrátt fyrir það kvisaðist út orðrómur um þessa dularfullu sveit sem kölluð var sérstæðasta hljómsveit landsins og einn ungur blaðamaður, sem í dag á langan fjölmiðlaferil að baki, tók opnuviðtal við meðlimi bandsins sem féllust á að vera ljósmyndaðir, þó með því skilyrði að vera óþekkjanlegir. Með í plottinu var vinur okkar sem vann sem ljósmyndari og uppgötvaði blaðamaðurinn ekki fyrr en eftir birtingu greinarinnar að þetta var allt uppspuni frá A til Ö. Ég fullyrði að við höfðum aldrei átt eins erfitt og í þessu viðtali að halda kúlinu og skella ekki upp úr. Kristján var ekki síst hugmyndasmiðurinn og málsvarinn í þessu merka bandi.

Eins og venja var með krakka utan af landi á þessum tíma þá sáum við um okkur sjálf, urðum að standa í fæturna og sýna ábyrgð en höfðum líka frelsi sem klárlega var notað. Þrátt fyrir allt stóðum við okkur vel og kláruðum stúdentspróf á fjórum árum með ágætis árangri.

Eftir menntaskóla fórum við hvert í sína áttina. Kristján var sá fyrsti til að taka alvöruábyrgð og eignaðist yndislegan son, Þorvald Davíð, rétt rúmlega tvítugur. Ég flutti til Bandaríkjanna í nám þar sem ég bjó í 11 ár og þegar ég kom til landsins hittist vinahópurinn gjarnan en eftir því sem árin liðu hittumst við sjaldnar. Þrátt fyrir það hélst þó vinskapurinn alltaf einlægur og traustur. Við Kristján fórum að rekast óvænt hvort á annað fyrir rúmum áratug, meðal annars í Húsdýragarðinum, eftir að hann eignaðist dóttur sína, Önnu Sigríði, og ég átti tvo stráka á svipuðu reki. Það sem einkenndi Kristján var hversu mikið hann elskaði börnin sín og talaði ávallt og innilega fallega um bæði börnin sín og barnabörnin. Þegar við hittumst var gaman að spjalla og húmorinn ekki langt undan.

Þrátt fyrir að hafa ekki hist mikið undanfarin ár, þá er það með söknuði í hjarta sem ég kveð Kristján, minn gamla skólafélaga og vin, vitandi það að við eigum ekki eftir að rekast hvort á annað í Húsdýragarðinum né annars staðar í framtíðinni. En minning um góðan dreng lifir og votta ég fjölskyldu hans allri mína dýpstu samúð.

Kristín María Ingimarsdóttir.