Kristín Elísabet Hólm fæddist á Eskifirði 16. júní 1940. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 1. ágúst 2023.
Kristín var dóttir hjónanna Einars Baldvins Hólm, vélstjóra frá Seyðisfirði, f. 8. febrúar 1908, d. 6. apríl 1970, og Kristínar Undínu Símonardóttur húsmóður frá Eskifirði, f. 20. febrúar 1910, d. 13. janúar 1960. Kristín var áttunda í hópi níu systkina, en þau voru: Jónas Hólm, f. 12.12. 1930, d. 21.7. 1991. Lára Hólm, f. 1.2. 1932, d. 23.4. 1978. Geir Hólm, f. 9.1. 1933, búsettur á Reyðarfirði. Reynir Hólm, f. 7.5. 1934, d. 4.7. 1999. Bára Hólm, f. 13.6. 1935, d. 16.11. 2005. Hörður Hólm, f. 21.1. 1936, d. 1.8. 1937. Már Hólm, f. 11.8. 1938, búsettur í Garði Suðurnesjabæ, og Bryndís Hólm, f. 30.1. 1943, d. 9.2. 2008.
Kristín bjó sín æskuár í foreldrahúsum á Eskifirði. Flutti á Akranes árið 1958 þar sem hún starfaði á skrifstofu sýslumanns um nokkurt skeið, eða þar til hún hóf búskap í Hafnarfirði með eiginmanni sínum, Jóhannesi Harrý Einarssyni, sem hún giftist á Eskifirði 26. ágúst 1961. Kristín og Jóhannes Harrý bjuggu fyrstu ár síns búskapar í Hafnarfirði, eða til ársins 1972. Kristín starfaði fyrstu árin í Hafnarfirði á skrifstofu Kaupfélagsins, en lengst af vann hún á sýslumannsskrifstofu Gullbringu- og Kjósarsýslu í Hafnarfirði. Á hjúskaparárum sínum í Hafnarfirði eignuðust Kristín og Harrý þrjú börn. 1) Erling Jóhannesson, f. 1963. Eiginkona Erlings er Sigríður Heimisdóttir, f. 1963, eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn. a) Birna, f. 1989, maki hennar er Gunnar Már Þorleifsson, f. 1989, og þeirra börn eru; Harpa Sigríður, f. 2015, og Bergsteinn, f. 2020. b) Kristinn, f. 1994, unnusta hans er Arndís Rán Snæþórsdóttir, f. 2001. Yngstur er c) Jóhannes, f. 2002. 2) Davíð Jóhannesson, f. 1970. Eiginkona Davíðs er Halldóra Hafliðadóttir, f. 1976, dóttir þeirra er Hjördís Lilja Davíðsdóttir, f. 8.11. 2013, og dætur Halldóru af fyrra hjónabandi eru Hrafnhildur Brynja Einarsdóttir, f. 1994, og Ásdís Birta Einarsdóttir, f. 1998. 3) Kristín Jóhannesdóttir, f. 1970, hún á einn son, Daníel Tjörva Hannesson, f. 2000, faðir hans er Hannes Eðvaldsson, f. 1968, Unnusti Kristínar er Þorsteinn Ingi Steinþórsson, f. 1968.
Kristín og Harrý fluttu í Garðahrepp árið 1972 og skömmu síðar hóf Kristín störf sem ritari við Hofsstaðaskóla, því starfi sinnti hún til starfsloka árið 2007. Kristín sinnti ýmsum félagsmálum um dagana, starfaði með Skátafélaginu Vífli í Garðabæ og var mikilvirk í samfrímúrarareglunni um árabil.
Útför Kristínar verður gerð frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 18. ágúst 2023, kl. 13.
Það eru liðin 40 ár síðan ég kynntist Kristínu Hólm, tengdamóður minni. Ég hitti hana í Hörgslundi á heimili fjölskyldunnar í Garðabæ, haustið 1983. Við þessu fyrstu kynni vildi hún sýna mér hvernig ætti að heilsa með handabandi, eitthvað fannst henni handaband mitt mega vera ákveðnara. Þetta var Kristín, hún var opin og kallaði hlutina sínum réttum nöfnum. Hún var beinskeytt og hreinskilin svo jafnvel mátti misskilja hvað hún meinti, sérstaklega við fyrstu kynni þar sem ég var mjög ung að árum og hafði ekki vanist því að talað væri svona opinskátt. En við nánari kynni fann ég fljótt að undir yfirborðinu bjó stórt hjarta og opinn faðmur, öllum sem á þurftu að halda.
Ég hélt í höndina á Kristínu þegar hún var öll og rifjaði upp hvað hún
hefði verið mér mikil stoð og stytta og hversu mikils virði hennar
handleiðsla hefði verið mér frá þessu fyrsta handabandi í Hörgslundinum
fyrir 40 árum.
Kristín var fagurkeri og mikill listamaður, enda handavinnukona mikil. Hún
saumaði töskur, bútasaumsteppi, veggteppi, föt o.fl. Rúmteppið sem hún
saumaði handa okkur úr rúmfötum, gardínum, fötum og útsaumi eftir móður
mína er listilega unnið. Jóla- og afmælisgjöfum pakkaði hún inn af mikilli
alúð og úr urðu hrein listaverk. Hún hafði næmt auga fyrir fallegum hlutum
og var sérstaklega ánægð ef fjölskyldumeðlimir eignuðust eitthvað fallegt,
þar var áherslan á fegurðina frekar en á veraldlegu hlutina. Ef hún sjálf
eignaðist eða bjó til fallegan hlut þá gaf hún þá jafnóðum. Henni leið
betur með að gefa hlutina frekar en að eiga þá sjálf. Útsjónarsemi var
henni í blóð borin, ef verið var að útbúa stóra veislu þá var hægt að hlaða
upp kössum til að búa til borð og nota gamlar gardínur sem dúka. Hún sá oft
fegurðina í litlu hlutunum og allt varð að listaverki í höndunum á henni.
Hún veitti þessum litlu hlutum athygli alveg fram á síðasta dag og var
einnig heiðarleg ef henni fannst t.d. fatasamsetning ekki passa eða hafði
orð á því að betra hefði verið að pússa skóna betur.
Börnin mín hafa haft að orði að það hefði verið svo gaman að segja ömmu frá
hinu og þessu sem þau tóku sér fyrir hendur, þar sem henni fannst allt svo
merkilegt. Fyrstu blómin sem Birna, elsta barnabarnið, tíndi voru þurrkuð
og sett í ramma. Litlu hlutirnir urðu stórir og hún náði að gleðja
barnshjörtun með því að veita þeim athygli.
Hún var hjálpsöm ef eitthvað bjátaði á í fjölskyldunni og ef barnabörnin
voru veik þá var Kristín mætt með gjöf, ekki bara handa þeim sjúka heldur
líka handa öllum hinum. Oftar en ekki biðu okkar blóm í vasa á heimilinu
eftir ferðalög.
Alltaf var Kristín til staðar ef eitthvað vantaði, hún saumaði
öskudagsbúninga, föt á börnin og á mig. Enginn átti svona fjólubláa síða
kápu eða doppóttan kjól nema ég. Hún útbjó gjafir fyrir vinkonur mínar,
bakaði óumbeðin kökur fyrir veislur sem tengdust minni fjölskyldu. Kristín
var mannblendin og lét sig samferðafólk sitt varða. Börnin mín spurðu mig
oft af hverju amma talaði við svona marga á förnum vegi. Þekkir amma
alla?
Kristín var fædd og uppalin á Eskifirði og þar lágu ræturnar. Einhvern
veginn skynjaði maður hvað æskan hefur mótað hennar persónu og haft áhrif á
hennar lífshlaup, án þess að geta útskýrt það frekar. Henni varð tíðrætt um
æskuárin og lífið í litla bænum. Hún ólst upp í stórum systkinahópi í
Sjóborg við sjóinn. Það var gaman að hlusta á hana segja sögur frá þessum
tíma og eftirminnilegt þegar hún sýndi okkur æskuheimilið fyrir nokkrum
árum, þar hafði verið búið þröngt. Hún hafði sterk tengsl við æskuslóðirnar
og ef við fjölskyldan fórum í ferðalag innanlands vorum við iðulega spurð
að því hvort ferðinni væri ekki örugglega heitið til Eskifjarðar.
Fjölskyldan bjó lengst af í Hörgslundi í Garðabæ. Þar ræktaði Kristín
garðinn sinn af alúð. Hún var einnig dugleg að rækta sambandið við sína
nánustu fjölskyldu og var afar stolt af henni. Fjölskyldan og heimilið var
það sem skipti hana mestu máli. Sérstaklega var hún stolt af barnabörnunum
og litlu langömmubörnunum sínum. Hún fylgdist vel með öllum alveg fram á
síðasta dag. Hún og Harrý voru samhent hjón og áttu fallegt heimili. Það
var gaman að fylgjast með þeim hjónum leiðast í gegn um lífið en ekki fór
fram hjá neinum hvað ríkti mikil væntumþykja og virðing þeirra á
milli.
Þegar ég hef hringt í Kristínu í gegn um tíðina og Harrý svaraði þá sagði
hann iðulega, já, Kristín er hér, hún er alltaf hjá mér. Þannig er það líka
hjá okkur, hún verður alltaf hjá okkur, minningin um hana lifir.
Sigríður Heimisdóttir.