Jóna Þórunn Jónasdóttir fæddist á Hellissandi 20. febrúar 1937. Hún lést á Droplaugarstöðum 22. ágúst 2023.

Foreldrar hennar voru Þórunn Ásbjörnsdóttir, f. 15. mars 1898, d. 2 nóvember 1993 og Jónas Magnússon, f. 20. september 1898, d. 29. júní 1937.

Jóna var yngsta barn þeirra hjóna. Systkini hennar voru Magnús Þórir, f. 19. júlí 1926, d. 1 janúar 1996, Hrefna, f. 3. ágúst 1927, d. 7. ágúst 2008 og Hólmfríður Ása, f. 13. apríl 1929, d. 16. júlí 2022.

Jóna Þórunn giftist Kristni Á. Jónssyni 1957. Kristinn fæddist 2.4. 1936 og lést 28.1. 1977. Foreldrar hans voru Guðlaug Friðjónsdóttir, f. 7. júní 1912, d. 13. maí 1965 og Jón Jóhannesson, f. 22. nóvember 1905, d. 2. apríl 2002.

Börn Jónu og Kristins: 1. Guðlaug Kristinsdóttir, f. 25.8. 1957. Börn Guðlaugar eru Kristinn, f. 12.7. 1984, maki Erla Sonja Guðmundsdóttir, börn Sigurður Muggi, Bryndís Ósk og Þorbjörn Áki, Ingvar, f. 21.7. 1986, Ómar Bragi, f. 12.7. 1992.

2. Jónas Þór Kristinsson, maki Sigrún Ragna Skúladóttir, f. 4.9. 1965, d. 10.8. 2020. Börn Jónasar og Sigrúnar eru: Birna Dís, f. 21.11. 1986, maki Andri Janusson, börn Alexander Jan og Brynjar Daði, Kristinn Viktor, f. 12.3. 1991, maki Fanney Rós Magnúsdóttir, börn Erla Dís og Elísabet Rós, Heiðar Snær, f. 2.7. 1993.

3. Helga María Kristinsdóttir, f. 1.5. 1965, maki Guðbrandur Garðars, f. 18.8. 1962, d. 17.1. 2017. Börn Helgu og Guðbrands: María Elín, f. 14.1. 1986, maki Árni Húnfjörð Brynjarsson, börn Aron Húnfjörð og Heiðdís Erla, Birkir Freyr, f. 20.7. 1990, maki Oddný Ingólfsdóttir, Kristín Jóna, f. 6.4. 1993, maki Kristófer Leó Inguson.

Jóna var rétt nokkurra mánaða gömul þegar faðir hennar lést og var hún skírð við kistu föður síns. Þetta voru krefjandi tímar fyrir fjölskylduna og úr varð að þau fluttu til Reykjavíkur. Jóna ólst upp í miðbæ Reykjavíkur og gekk þar í Miðbæjarskólann. Að loknu skyldunámi vann hún við verslunarstörf ýmiss konar, lengst af sem verslunarstjóri hjá Steinari Waage.

Jóna og Kristinn hófu búskap á Laugateignum og fluttu 1965 í Hjallabrekku í Kópavogi þar sem þau hjónin byggðu sér fallegt heimili. Þar bjó Jóna eða allt þar til börnin fluttu að heiman árið 1986. Hún keypti sér íbúð á Flyðrugranda. Jóna bjó þar alla tíð á meðan heilsan leyfði en síðustu þrjú ár hefur hún búið á Dropalaugarstöðum.

Útför Jónu fór fram í kyrrþey frá Fossvogskapellu 7. september 2023.

Elsku amma mín.

Erfitt er að hugsa sér að þú sért ekki lengur hér og betri konu er varla hægt að finna. Þú varst hinn mesti karakter sem gott var að tala við og hlæja með. Þú tókst þig aldrei alvarlega og kenndir manni að allt væri hægt að taka sér fyrir hendur í lífinu með húmorinn að vopni. Nærvera þín var sú besta sem hægt var að finna, alltaf var gott að koma til þín og leitaði ég oft til þín. Þú sýndir mér og þeim sem ég elska stuðning á erfiðustu tímum, settir sjálfa þig í annað sætið og elskaðir fólkið þitt meira en sjálfa þig. Þú varst baráttukona og tókst lífinu opnum örmum sama hvað bjátaði á, þú varst sterk, falleg og ein af þeim allra hjartahreinustu. Það var einfaldleikinn í þér sem heillaði mig, bara það að sitja í kaffi hjá þér er enn í dag ein af mínum fallegustu minningum, samveran skipti þig máli. Ég á glás af minningum með þér en það sem einkennir þær allar er samveran, hláturinn og róin sem ávallt fylgdi þér. Fyrir þessa ungu stelpu varstu falleg og góð fyrirmynd og verð ég ávallt þakklát fyrir allt, takk fyrir ástina, takk fyrir samveruna og takk fyrir að vera yndislega þú. Þú átt stað í mínu hjarta að eilífu og lifi ég við þau forréttindi að geta sagst hafa átt bestu ömmu sem til hefur verið. Hvíldu í friði, elsku amma mín, og ég bið að heilsa hinum. Ég mun ávallt elska þig.

Þín

Kristín Jóna.

Það er dýrmætt að fá inn í líf sitt manneskju sem skilur eftir jafnmikið öryggi, góðvild, gleði og hamingju og þú gerðir, elsku amma mín.

Þegar ég lít til baka á ég heilan hafsjó af fallegum minningum sem snúa allar að því hve góð og fórnfús manneskja þú varst. Það sem ég man mest eftir er allur tíminn sem þú lagðir í samband okkar, varst alltaf til staðar og kenndir mér svo margt. Það var alltaf gaman að hitta þig og eyða löngum tímum í spjall.

Vil þakka þér fyrir hve vel þú tókst á móti manninum mínum fyrir 20 árum og sýndir honum ömmukærleik eins og hann væri þitt eigið barnabarn. Einnig þann tíma sem börnin mín fengu með þér og allt handverkið.

Elsku amma, ég mun alltaf taka með mér gildin sem ég lærði af þér um góðvild, fjölskyldubönd og hjálpsemi, takk fyrir samfylgdina í gegnum árin.

Hvíldu í friði, amma mín, þú varst best.

María (Maja), Árni og börn.