Páll Dalmar var fæddur í Reykjavík 30. júní 1952. Hann lést 4. september síðastliðinn á Sct Marie Hospice í Vejle í Danmörku.
Foreldrar Páls Dalmars voru Konráð Óskar Sævaldsson, f. 21. júní 1924, d. 5. apríl 2012, og Alice Dalmar Sævaldsson, f. 12. júlí 1919, d. 12. október 1992.
Systkini Páls eru Linda Louise Konráðsdóttir, f. 17. ágúst 1950, Konráð Stefán Konráðsson f. 19. desember 1956. Hann lést 11. janúar 2019. Konráð Stefán var kvæntur Aldísi Ágústsdóttur, f. 4. ágúst 1948, d. 5. mars 2009. Hálfsystir Páls var Anna Karólína Konráðsdóttir, f. 18. apríl 1946, d. 27. febrúar 2017. Móðir hennar var Magnea Vilborg Þórðardóttir.
Eiginkona Páls Dalmars er Alice Bjerrgård Konráðsson. Þau gengu í hjónaband 1984. Þau bjuggu í Danmörku. Þeirra sonur er Hans Christian Dalmar. Hann á tvo syni. Alice á einn son frá fyrra sambandi.
Páll á Sævar Briesemeister úr fyrra hjónabandi. Sævar á þrjú börn og eitt barnabarn. Dóttir Páls er Telma Steingrímsdóttir. Hún á þrjú börn.
Páll bjó í Reykjavík, á Seltjarnarnesi og síðan í Danmörku frá því seint á áttunda áratugnum. Hann ólst upp í Njörvasundinu og í Fellsmúlanum í Reykjavík.
Bálför Páls fer fram 16. september klukkan 11:30 að dönskum tíma, 9:30 að íslenskum tíma, í Vestre Kapel, Silkeborgvej 40 í Horsens.
Það rignir af krafti haustið 1956 í Reykjavík. Gengur á með vindhryðjum
sem lemja allt sem á vegi þeirra verður. Við erum nýflutt í húsið sem varla
er þó fullgilt hús. Kjallarinn er reyndar búsetuhæfur en hæðin að myndast
fyrir ofan og risið ekki komið á dagskrá. Ég er í stífluframkvæmdum.
Veghefillinn nýfarinn um Njörvasundið og nægt efni í vegkantinum. Móbrúnir
lækir renna eftir götunni og ég veiti þeim að lóninu sem ég er að útbúa
niðri á lóðinni. Mér gengur illa að hemja vatnið og fá það til að vera
kyrrt innan stífluveggjanna sem sífellt molna niður og vatnið flæmist um
allt.
Sæll, á ég að hjálpa þér? segir rödd sem ég heyri út undan mér. Já, það
væri gott að fá hjálp, segi ég og stari í rigninguna og sé móta fyrir
strákpeyja sem stendur úlpuklæddur og í vaðstígvélum uppi á götunni. Þá næ
ég í hjólbörurnar og skófluna, segir hann og fer en kemur að vörmu spori
akandi hjólbörum sem eru rauðar og gular á litinn og úr tré. Nú fer að
ganga betur og varnargarðarnir hækka fljótt og við hemjum vatnið og stórt
lón tekur að myndast. Þetta eru fyrstu kynni okkar Páls, æskuvinar míns,
sem bjó í Njörvasundi 40.
Þessi morgunstund í rigningunni varð upphaf að ævilangri vináttu okkar.
Þarna voru slegnir tónar sem hljómuðu alla tíð í okkar samskiptum.
Æskan, tímakennslan, barnaskólinn og gagnfræðaskólinn, þar vorum við
bekkjarbræður og samstarfsmenn jafnt í náminu sem prakkarastrikunum. Við
fengum hjálp til skiptis á heimilum okkar í dönskunni og í stærðfræðinni.
Reyndum að lauma okkur í mat þegar eitthvað gott var á borðum hjá öðrum
hvorum okkar. Við unnum saman í mörg sumur á unglingsárunum og fórum út á
lífið saman og fengum að fara í þrjúbíó á sunnudögum og stundum fimmbíó með
pabba Páls. Tókum landsprófið saman en eftir það fórum við hvor í sinn
skólann. Páll í Hamrahlíðina og ég í Kennaraskólann.
Páll og fjölskylda hans fluttu nokkru áður í Fellsmúlann og síðar á
Unnarbrautina. Dagleg samskipti okkar urðu þá ekki með sama móti og áður.
Við hittumst þó oft um helgar og hringdum stundum hvor í annan þess á
milli. Ég gat alla tíð leitað til Páls. Hann var hjálpsamur og mikill
gæðadrengur.
Árið 1976 fæddust fyrstu börnin okkar.
En ekki gengur allt eins og maður óskar helst og verkefni tilverunnar eru
mörg og af margvíslegum toga. Páll og Rie konan hans skildu að skiptum og
hún fluttist til Danmerkur og þá fór Páll líka. Hann vildi fylgja syni
sínum eftir og þá varð vík milli vina en við heimsóttum hvor annan á þessum
árum og eftir að Páll hóf samband með Alice 1980 vorum við gestir á
heimilum hvor annars í nokkur skipti. Símtölin voru mörg á þessum
Danmerkurárum Páls.
Þegar Kristín mín veiktist kom Páll frá Danmörku til að styðja mig og
kveðja hana á sjúkrahúsinu þar sem hún lá banaleguna. Síðan fór hann aftur
og lífið hélt áfram og færði gleði og sorgir eins og gengur og
gerist.
Páll og Alice áttu saman einn dreng, Hans Christian, sem í dag á tvo drengi
með sinni konu. Sævar á þrjú börn og eitt barnabarn. Páll eignaðist eftir
sextugt dóttur, Telmu, sem þá var komin á fimmtugsaldurinn. Hún á þrjú
börn. Þau náðu að kynnast nokkuð. Páll kom síðast til Íslands í janúar
2019. Stefán bróðir hans lá þá banaleguna á sjúkrahúsi. Linda systir þeirra
býr á dvalarheimilinu Fellsenda í Dalasýslu.
Við Katrín fórum til Danmerkur núna í ágúst og dvöldum þar í 10 daga. Við
heimsóttum Pál eins oft og mögulegt var. Hann raulaði lag eitt skiptið sem
við komum: Even the bad times are good, sönglaði hann og spurði mig svo:
Önsi, manstu hverjir sungu þetta? Nei, ég mundi það ekki. Tremeloes,
sagði hann og brosti út í annað. Páll var þá orðinn mjög veikur og þessi
duglegi og sterki maður varð að lokum að játa sig sigraðan. Hann lést 4.
september á fögrum síðsumardegi á Sct. Marie Hospice. Nánasta fólkið hans
var hjá honum þegar hann kvaddi.
Veistu ef þú vin átt
þann er þú vel trúir
og vilt þú af honum gott geta.
Geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft.
(Úr Hávamálum)
Eiginkonu, börnum, barnabörnum, systur og vinum Páls sendum við Katrín innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Páls Dalmars Konráðssonar, míns kæra vinar.
Pétur Önundur Andrésson.