Friðborg Gísladóttir, Bíbí, fæddist  19. janúar 1949. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 13. september 2023.

Foreldrar hennar voru Valborg Ólafsdóttir, f. 9. janúar 1920, d. 29. júní 2005, og Gísli Jónsson, f. 7. febrúar 1917, d. 20. maí 2001. Systur Friðborgar voru Svava Björg, Hrafnhildur Jóna og Anna Bjarndís. Eftirlifandi systir er Elínborg, f. 15. febrúar 1947.

Eftirlifandi eiginmaður er Birgir Sævar Kristjánsson, f. 24. júlí 1942. Börn þeirra eru: 1) Dagbjört, f. 2. október 1966, gift Ásmundi Kr. Símonarsyni, f. 19. september 1964. Dóttir þeirra Rebekka, f. 1989, börn hennar Aðalheiður Borg og Theodór Ás, f. 2017. 2) Sólrún, f. 4. júní 1968. Börn hennar Birgitta Sól, f. 1998, Arnar Steinn, f. 2002, og Sævar Steinn, f. 2006. 3) Kristján, f. 2. maí 1971, dóttir hans Sunna Kristín, f. 2001, gift Antoni Daða, f. 2000.

Útför Friðborgar fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 21. september 2023, klukkan 13.

Streymt er frá útför: https://www.mbl.is/go/qcvz6

Mamma er magnað orð! Mamma er fyrsta orð sem flestir segja á sinni ævi. Orðið er þrungið tilfinningum, trausti og hugmyndum um að sama hvað á bjáti muni mamma koma til bjargar. En það er ekki lengur svo því nú hefur elsku mamma kvatt okkur í hinsta sinn eftir erfið veikindi til margra ára sem hún bar svo vel og hetjulega að við verðum vör við að fólk á bágt með að trúa því að hún sé farin.



Hún mamma okkar, hún Bíbí eins og hún var alltaf kölluð, var einmitt sú mamma sem hér að ofan er lýst, einstök kona, kjarnakona sem fór að búa mjög ung og tók ábyrgð sem fylgir stóru búi og fórst það mjög vel úr hendi. Hún var elskuð og dáð af börnum sínum, barnabörnum, tveimur litlum langömmubörnum og eiginmanni sem enn þann dag í dag semur til hennar ástarljóð.



Mamma hleypti heimdraganum ung að árum þegar hún skellti sér í húsmæðraskóla vestur í Dali. Húsmæðraskóli þessi, sem nánar tiltekið var staðsettur á Staðarfelli í Dalasýslu, varð seinna meðferðarstöð rekin af samtökum sem kalla sig SÁÁ, samtökum sem flestir Íslendingar þekkja og einmitt það hefur oft valdið misskilningi og kindarlegum svipbrigðum hjá fólki þegar við systkinin segjum frá því að mamma okkar hafi verið á Staðarfelli. Það var einmitt á Staðarfelli sem trommarinn og bóndasonurinn hann pabbi okkar náði sér í þessa ungu Reykjavíkurmær, þessa góðu konu.



Hún mamma tileinkaði sér allt það besta sem hún lærði á Staðarfelli því betri bakara, kokk og já, bara húsmóður yfir höfuð, er ekki hægt að hugsa sér og því höfum við notið góðs af, öll fjölskyldan ásamt ótalmörgum vinum, því mamma var vinmörg og vinsæl, alltaf glöð og kát og hélt uppi stemmingunni hvar sem hún kom og til hennar þótti öllum gott að koma.



Mömmu okkar var margt til lista lagt, lítið en skemmtilegt atriði var að hún kunni að blístra eins og karlmaður. Þessa takta pikkaði ég upp eftir henni, þá ung að árum. Einn góðan og sólríkan dag í sveitinni þegar komið var að mjaltatíma stóð hún mamma þarna ákveðin á hlaðinu, líkt og góðri bóndakonu sæmir, blístraði hátt og hvellt svo undir tók í fjöllunum á sínar kýr sem voru á beit fyrir neðan veg og þær, hlýðnar, þekktu sína húsmóður, lölluðu sér í rólegheitunum sem gjarnan einkennir kýr heim í fjós. Þetta er eitt af mörgu sem ég er afar þakklát móður minni fyrir að hafa kennt mér því þessi lærdómur hefur skapað mér aðdáun víða, jafnt á meðal karla og kvenna. Nú og svo kemur þetta sér alveg einstaklega vel þegar við hjónakornin erum stödd í mannfjölda hvort heldur er á þjóðhátíðardaginn 17. júní í miðbæ Reykjavíkur eða í verslunarmiðstöð við Spánarstrendur og missum sjónar hvort á öðru, þá þarf ég ekki annað en að gera eins og mamma með kýrnar sínar forðum daga, blístra hátt og hvellt og hann Ási minn kemur hlaupandi, þekkir sína enda enginn sem kann að blístra svona nema ég og hún mamma mín.



Mamma var alla sína tíð mikill dugnaðarforkur og gekk óhikað í öll störf í sveitinni með honum pabba. Eins og þeir vita sem til þekkja eru þau ófá. Það þurfti t.d. að mjólka kýrnar á hverjum morgni, gefa kindunum á veturna, taka á móti lömbum á vorin, heyja á sumrin og smala á haustin og auk þess vann hún í sláturhúsinu í Saurbænum. Þetta og meira til gerði hún með bros á vör á milli þess sem hún tók á móti ættingjum að sunnan í mat og gistingu, tók slátur á haustin, bakaði hnallþórur í bunkum, já og hvorki meira né minna en 13 sortir af smákökum fyrir hver jól, var með frændsystkini okkar í sveit, verandi litlu eldri sjálf en þau, já og heilu flokkana af rafveitustrákum í mat yfir sumartímann.



Ellefu árum, þremur börnum og giftingu síðar ákváðu mamma og pabbi að kveðja sveitalífið að Efri-Múla, Saurbæ í Dalasýslu, og flytjast á mölina. Okkur er minnisstætt eitt atvik sem varð þegar við fjölskyldan vorum sest inn í bíl og að aka yfir hlaðið í síðasta sinn á leið okkar í höfuðstaðinn. Mamma biður pabba að stoppa bílinn, stekkur út, hleypur inn í fjós, kemur til baka eftir dágóðan tíma, snarast inn, lokar hurðinni og segir við okkur, sem sátum þarna öll með spurnarsvip, ég var að kyssa kýrnar bless.



Fyrstu mánuðina eftir að suður kom bjuggum við í Hafnarfirði, lífið var skrítið fyrir sveitafólkið og allir að gera sitt besta til að aðlagast. Það átti aldrei fyrir okkur að liggja að gerast Gaflarar því eftir fjóra mánuði í Hafnarfirði færðum við okkur yfir lækinn og settumst að í Kópavogi. Mamma hóf þá störf á Kópavogshæli, þessum fallega stað við voginn. Við þennan sama vog miklu síðar átti hún eftir að eiga, í friðsæld, sína síðustu daga í þessu lífi. Þetta ár sem mamma vann á Kópavogshæli var alvanalegt að vistmenn kíktu í heimsókn til okkar enda löðuðust þeir að mömmu líkt og flestir aðrir sem henni kynntust. Svona eftir á að hyggja varð þetta satt að segja svolítið eins og í sveitinni því eftir að mamma hætti störfum á Kópavogshæli hóf hún störf sem dagmóðir. Það hentaði vel þessari miklu mömmu sem hún var, heimilið fylltist af börnum og auðvitað foreldrum þeirra inni á milli, auk þess var stöðugur gestagangur enda mamma og pabbi vinmörg, bæði afar félagslynd og mamma hrókur alls fagnaðar.



Þegar mamma sagði brandara lifnuðu þeir allir við í frásögn hennar, svo skemmtilega sagði hún frá þegar sá gállinn var á henni. Þegar lagið Here she comes walking down the street hljómar sjáum við mömmu alltaf fyrir okkur á góðri stundu syngjandi og dansandi á Borgarholtsbrautinni. Eitt fallegt sumarkvöld í þá daga er þau pabbi komu heim eftir að hafa verið að skemmta sér með Karlakór Reykjavíkur fannst henni algjörlega nauðsynlegt að skjótast, á pinnahælunum, út á snúrur sem staðsettar voru í bakgarðinum til að taka inn þvottinn, enda ekki hægt að láta hann hanga úti alla nóttina að hennar sögn. Hún kom inn eftir dágóða stund í hláturskasti því ekki vildi betur til en svo að pinnahælarnir sukku í grassvörðinn í hverju skrefi svo hún átti fullt í fangi með að komast með þvottinn í hús aftur.



Þegar við sátum og vorum að bauka við að setja þessi orð sómasamlega á blað hlustuðum við á Cillu Black syngja til að fá innblástur en hún var í uppáhaldi hjá mömmu, hún hlustaði mikið á hana syngja hérna í denn og söng hástöfum með í bílnum ef þau lög hljómuðu á öldum ljósvakans. Mamma taldi það t.d. aldrei eftir sér að skutla okkur systkinunum út og suður og nutu vinir okkar góðs af.



Eftir að við fluttum suður var mikið gert af því að fara í útilegur sem okkur systkinum fannst nú ekki leiðinlegt og einatt var vinafólk mömmu og pabba, þau Dúa og Deddi og Auður og Grétar og þeirra börn, með í för. Þau voru og hafa verið í gegnum tíðina stór partur af öllu skemmtilegu sem gert var. Það var farið inn í Þjórsárdal, inn í Þórsmörk, hringferð um landið. Já, við fórum bara um landið þvert og endilangt og alltaf í tjaldi, sváfum þar saman í einni hrúgu. Við þrjú systkinin aftur í bílnum og skottið fullt af viðeigandi búnaði og auðvitað úrvals gúmmelaði úr smiðju mömmu. Þetta voru góðir dagar, sem gengu má segja í endurnýjun lífdaga þegar mamma og pabbi keyptu sér bústað, Múlalund, austur í Grímsnesi. Þar varð ljóst að bændurnir, mamma og pabbi, höfðu aðeins legið í dvala þessi ár eftir að við fluttum í höfuðstaðinn því þar vöknuðu þeir til lífsins aftur af fullum krafti. Þar var byggt og breytt, bústaðurinn stækkaður, ekki einu sinni heldur tvisvar, bakað og gróðursett. Þangað vöndum við stórfjölskyldan komu okkar á sumrin auk þess sem gestagangur vina og vandamanna var stöðugur og alltaf átti mamma hnallþórur eða tvær til taks. Um verslunarmannahelgi ár eftir ár héldum við alltaf okkar eigin litlu útifjölskylduhátíð í Múlalundi. Þar var grillað, spilað, hlegið og sungið saman við varðeld, enda mamma og pabbi söngfólk mikið og sungu til að mynda saman í Breiðfirðingakórnum, en þar voru saman komnir margir af þeirra bestu vinum, hvorki meira né minna en ellefu hjón syngjandi saman, ásamt fleirum, hluti þeirra partur af göngu- og vinahóp sem búinn er að halda saman í mörg ár. Mamma og pabbi ferðuðust einnig um allan heim með Karlakór Reykjavíkur sem pabbi gekk í eftir að við fluttum suður. En með þeim félagsskap áttu þau ófáar og eftirminnilegar stundir.



Eitt er það sem hefur skapað ómælda gleði hjá okkur fjölskyldunni og ófá hlátrasköllin í gegnum tíðina en það eru allar ambögurnar sem henni mömmu var svo gjarnt að setja út úr sér á stundum, pabbi gaf okkur þá alltaf kómískt auga og svo sprungu allir úr hlátri.

Kostulegt var þegar hún var að segja kúnna í BYKO frá gríðarlega vinsælli verkfærakistu sem hann hafði áhuga á en var uppseld, en þá fengu sko fleiri en vildu! Mamma átti farsælan starfsferil í BYKO í hinum ýmsu deildum. Vann þar í 30 ár og var þ.a.l. hafsjór af fróðleik um nánast allt sem var til sölu í BYKO. Þar eignaðist hún marga góða vini jafnt á meðal samstarfsfélaga sem kúnna.



Mamma og pabbi voru samrýmd og bara allra bestu foreldrar sem hægt er að hugsa sér, þau eru alla vega okkar uppáhaldsforeldrar líkt og við þreyttumst aldrei á að segja þeim. Við vorum auðvitað leiðrétt og okkur bent á að þau væru einu foreldrar okkar en það var sagt með bros á vör og ljóst að þeim þótti vænt um þessi orð. Þau hafa haldið vel utan um ungana sína, stóra og smáa, eru þannig foreldrar að maður nýtur þess að vera í návist þeirra. Það vita allir sem vel okkur þekkja hversu samrýmd fjölskylda við erum. Börnin elska að heimsækja ömmu BYKO og afa GOÐA eins og þau voru gjarnan kölluð á sínum gullaldarárum. Mamma hefur alltaf verið til staðar fyrir okkur öll, tekið á móti barnabörnum uppi á fæðingardeild ef því var að skipta og stutt okkur með góðum ráðum og einstakri hjálpsemi sem náði fram á hennar síðasta dag þó svo að hún væri lögst inn á líknardeild.



Elsku mamma okkar, við kveðjum þig í dag en vitum þó að þú munt lifa með okkur um ókomna tíð. Eins og þú sagðir sjálf nokkrum dögum áður en þú fórst yfir í sumarlandið: þá muntu fylgjast með okkur og dangla nett aftan á hnakkann á okkur ef við ekki verðum góð við hvert annað og þér til sóma.



Elsku mamma, þú segir þeim brandarana þína þarna í sumarlandinu færð jafnvel hana Elsu frænku með þér í lið. Þá verður nú gaman.



Þú verður ávallt í huga okkar, elsku uppáhaldsmamman okkar.

Þín börn,

Dagbjört (Dadda), Sólrún (Sóla) og Kristján.